26 desember 2005

Þetta stendur allt til bóta

Þrátt fyrir flug og fleira sniðugt í jólaglöggi Stiguls var haldið snemma heim. Velkæst skatan hjá afa á Þorláksmessu náði ekki einu sinni að kreista úr mér slappleikann en vonir standa til að ég verði orðin hress á morgun. Hvað sem sleninu líður voru þetta hin ágætustu jól og vona ég að hið sama hafi gilt á bæjum lesenda. Er ekki öllum sama þótt jólabréf ársins verði áramótabréf að þessu sinni? Gleðilega hátíð!Hér er ég í góðra vina hópi á Ósi - hver og hver og veit hvar ég er?

18 desember 2005

Jibbíjei

Síðasta prófið var í meira lagi asnalegt en ekki þýðir að pirra sig lengi á því enda gaman að vera búin í prófum svona snemma. Skrapp aðeins í Vatnamælingamatarboð á föstudaginn og át á mig gat. Pabbi er að fara að skipta um starf - flyst til um deild - og kom þá í ljós nokkuð sem okkur í fjölskyldunni hefur lengi grunað: Það þarf hvorki meira né minna en þrjá menn til að taka við öllu því sem hann hefur séð um síðustu árin og áratugina! Mér finnst nokkuð gott að rífa sig svona upp eftir 35 ár í starfi.Nú á eftir flýg ég til Akureyrar. Það vildi enginn gefa mér far. Nema fólk viti ekki af samferðasíðunni áðurnefndu? Ég held hreinlega að sveinkapokinn sem færa á ættingjum og vinum fyrir norðan sé stærri en farangurinn minn, alla vega hlýtur hann að vera þyngri. Konfektgerðin tókst sérdeilis prýðilega og pabbi fékk hreindýrahakk á síðustu stundu til að útbúa árlegt paté. Gaman að gefa svona heimahrærðar gjafir. Það er ekkert víst að ég komist í netsamband norðan heiða. Óska því öllum góðs gengis í prófunum sem eftir eru og hinum gleði og gamans á þessu litla sem eftir er af aðventunni. Góðar stundir.

14 desember 2005

Væmni

Eitt af því sem ég á erfiðast með að þola er væmni. Verst hversu erfitt er að skilgreina væmni. Hver og einn er með sinn ósýnilega væmniþröskuld sem aðrir eiga erfitt með að skynja. Af fenginni reynslu held ég að minn þröskuldur sé lægri en annarra. Kann einhver skýringu á því?
Nú í kvöld var mér boðið á tónleika sem að drjúgum hluta fóru yfir hættumörk mín hvað væmni varðar - ástar(sorgar)ballöður eru hreint ekki minn tebolli! Í eymd og volæði er að mínu mati miklu betra að hlusta á þunglyndisrokk, Rachmaninov eða krútthljómsveitatónlist og enda svo á góðri útrás með einhverri gleðisveit. Eða bara fara niður í fjöru og öskra svolítið.
Ekki svo að skilja að hér á bæ sé eymd og volæði þessa stundina - öðru nær! Überwiegend mun meira um gleði og gaman og tjah: skyldi það hafa áhrif á bjarnheiðska væmnistuðulinn? Næstu dagar verða til dæmis þéttsetnir af gleðigjöfum á borð við tónleika (ekki væmna), konfektgerð, þýskupróf og ferð til Akureyrar. Skrýtið að vera ekki í dauðaprófum dag eftir dag eins og venjulega en jafnframt ágætt að taka því létt þetta misserið. Það er að segja létt hvað jólaprófin varðar - ég hafði auðvitað að venju yfrið nóg að gera en af prófunum sjö voru bara þrjú taugatrekkjandi aldrei þessu vant.

11 desember 2005

Ferðast á bylgjum og bílum

"Það er dýrt orðið... og ekki er það drottins!" sagði systir mín þegar hún heyrði auglýsingu um jólakveðjur í Ríkisútvarpinu. Mamma benti þá á að 147 kr fyrir orð sem bærust vítt og breitt væri nú ekki mikið í samanburði við frímerki, tíma og efni sem færu í jólakortaskrif. Það sem mér fannst samt skondnast var þetta með að blanda drottni í málið. Við systurnar erum nefnilega hvorki skírðar né fermdar en þessi setning hljómaði eins og mælt af vörum gamallar konu í kvenfélagi einhvers söfnuðarins. Kannski áhrif frá hinni mætu konu Unni á Stað?Mig langar til að líta í heimsókn til Akureyrar en það er orðið svo dýrt bæði að fljúga og taka rútuna. Rakst þá á þessa sniðugu samferðasíðu sem hefur þýsk Mitfahrzentrale að fyrirmynd. Nú er bara að bíða og sjá. Í augnablikinu óska mun fleiri eftir fari en bjóða far en hver veit nema það eigi eftir að breytast þegar líður á vikuna.Líney Halla fékk hvatningarverðlaun Eðlisfræðifélags Íslands á föstudaginn. Mér finnst hún vel að þeim komin og vænti þess að þetta sé bara skref á leiðinni að Nóbelnum!Á morgun er próf í inngangi að hagnýttri stærðfræði. Sjaldan hef ég haft jafnóljósa hugmynd um hverju búast megi við á prófi og samt verið frekar róleg. Búin að undirbúa mig ágætlega og með Schaum's Outline Series Mathematical Handbook of Formulas and Tables frá 1969 við höndina ættu hin allraljótustu tegur við Fourier ummyndanir og lausnir Sturm-Liouville jaðarskilyrðaverkefna ekki að vefjast of lengi fyrir mér. Vona síðan að rólegheitin haldist áfram í bland við hæfilegan taugatitring í fyrramálið...

09 desember 2005

Til gamans - AstrikB - til umhugsunaR

Nú í prófatíð mæli ég með þessu. Gúglleitarvélin "veit" því miður ekki nóg um mig til að þessi annars stórsniðuga vél geti soðið saman eitthvað skondið en hvaða niðurstaða fæst fyrir nafnið þitt? Í næstu málsgrein fer ég hugsanlega aðeins yfir strikið frá A til B svo viðkvæmir skulu bara hætta hér.Mikið er ég guðslifandifegin og þakklát fyrir að Alex benti mér á tilvist bleikrauðra smartístaflna að nafni Voltarenrapíd í háskólabíóstíma á fyrsta ári. Annars væri ég nefnilega rúmliggjandi tvo daga í mánuði, emjandi af sársauka og mundi jafnvel kasta upp. Það væru þá 24 dagar á ári. Ullabjakk. Skil ekki hvernig langamma mín hélt þetta út á sínum tíma, hvað þá formæður hennar. Þá var litið á þetta sem mánaðarlega leti. Hnussfuss!

08 desember 2005

Hitt og þetta

Uppskeru- og prófahátíð er gengin í garð. Tvennir tónleikar framundan, þrjú próf af sjö eru að baki og ég kenndi síðasta dæmatímann í "Monster", öðru nafni Stærðfræðimynstur í tölvunarfræði, í gær (þetta snýst um strjála stærðfræði þ.e. þrautalausnir og fleira skemmtilegt). Rosalega var gaman að kenna! Á næstu önn verð ég með stuðningskennslu í stórum skilaverkefnum í Tölulegri greiningu en varð að afþakka annars spennandi boð um aðstoðarkennslu í Mengjum og firðrúmum því dagskráin er orðin svo þétt fyrir vormisserið.
Inn á milli prófanna fléttast svo tónleikarnir í framhalds- og blokkflautudeild. Þeir fyrrnefndu eru á föstudaginn 9. desember í Sigurjónssafni klukkan 20 og öllum velkomið að mæta. Kvartettinn minn mun gera sitt besta til að fá smá sveiflu, glens og grín í tónleikagesti eftir hvert metnaðarfullt meistarastykkið á fætur öðru frá hinum framhaldsdeildarkrökkunum. Við erum reyndar ekki alveg sammála um hvers konar sveifla þetta sé - verkið heitir Indian Summer og voru aðallega tvær hugmyndir í gangi: indíána eða indverskt þema. Eftir lestur um tilurð verksins kom svo í ljós að líklega er um að ræða sumarstemmningu í fylkinu Indiana í Bandaríkjunum!
Annars varð ég fyrir bölvun nokkurri á vefsíðu Völlu. Gegn beiðni þar um í skoðanaglugganum mun ég því segja viðkomandi ýmislegt furðulegt samkvæmt listanum á síðunni hennar.

02 desember 2005

Skrambakornið

Auk hins venjubundna háskólaþreks, jóga og sunds hef ég stundað Stigulsbolta einu sinni í viku í vetur. Þrusugaman. Þangað til fyrir rúmum mánuði að ég missteig mig illa. Misminni mig ekki þá hef aldrei áður misstigið mig að ráði en þetta var skrambi slæmt: trosnuð liðbönd. Bólgan mun víst ekki hverfa fyrr en að hálfu ári liðnu og ef ég ætla í bandý, fót-, hand- eða körfubolta þarf ég að nota "stuðningssokk"! Einnig er útséð með fleiri sandalafjallgöngur - þær verða allar farnar á gönguskóm hér eftir.

Það er þó bót í máli að háskólaþrekið, sund, badminton, blak og fleiri uppáhaldsíþróttir eru undanskildar sokkákvæðinu. Framundan er líka mikið kyrrsetutímabil við próflestur svo ökklinn ætti að hvílast ágætlega - alla vega fram að hoppi og híi hátíðanna.

27 nóvember 2005

Gillígillígillííí

Að vísu er ég ekki mjög kitlin en einhverjum datt í hug að útbúa nýjan bloggklukkleik að nafni bloggkitlleikur og Valla kitlaði mig alla leið frá fílanna Delfí. Mér finnst gaman að telja upp svona atriði og reyna svo að berjast við fullkomnunaráráttuna í sjálfri mér (maður gleymir jú alltaf einhverju og þá er erfitt að breyta því ekki eftir á!) þannig að taddara...

Áður en ég dey ætla ég að...
  • ferðast út um allt - Ísland og heiminn
  • læra a.m.k. rússnesku, spænsku, frönsku og finnsku
  • skrifa einhvers konar bók
  • "pikka upp" allar bestu uppskriftirnar hans pabba
  • stökkva yfir sauðalegg
  • ná því að gera handahlaup
  • verða kerfisstjórafær í Unix/Linux
...eða ég mun a.m.k. gera mitt besta til að ljúka þessu af áður en kýr fellur af himnum ofan á mig.
Ég get...
  • reist horgemling
  • farið í brókina hans Skíða
  • mjólkað kú
  • vaskað saltfisk og sungið síðasta lag fyrir fréttir í leiðinni
  • skrifað með bæði vinstri og hægri hendi
  • vaðið straumhörð jökulfljót í lekum vöðlum
  • ekið slóðann inn í Fremstaver og fleiri torfærur nærri Kili
...og ýmislegt fleira skal ég ykkur segja!
Ég get ekki...
  • liðið ranglæti og ósanngirni
  • borið 100 kg mælingalóð ein
  • skipt um bjórkút á dælu
  • spilað hljómaraðirnar mínar á píanó
  • farið nákvæmlega eftir uppskriftum
  • setið fallega í sætinu mínu í skólanum
  • verið lengi kyrr eða þagað lengi í einu
...en ég stefni nú samt að því að læra bjórkútstrikkið.
Strákar heilla mig með því að...
  • sleppa sér í dansi
  • gera eitthvað klikkað, skondið og skemmtilegt
  • vera gegnheilir
  • það sé ekki pínlegt að þegja með þeim
  • nenna í göngur, ævintýri og aksjón
  • sýna ábyrgð og virðingu
  • hafa kynþokka og persónutöfra
...svona meðal annars.
Mig langar til...
  • Eistlands
  • Indlands
  • Ungverjalands
  • Austurríkis
  • Frakklands
  • Króatíu
  • Kanada
...æji og bara alltof margra landa!
Það kemur ósjaldan fyrir að ég segi...
  • Datt!
  • Hananú...
  • Ha?
  • Jibbí!
  • Heyrðu...
  • ...ekkert smá...
  • Hey, snilld!
...og þá er ég ekki að tala um þurrkað gras...
Núna sé ég...
  • orðabækur
  • gleraugu
  • veðhlaupara
  • kort af Svíþjóð
  • basískt hraun
  • kínalampa
  • blokkflautur
...og fleiri furðuhluti hér í herberginu mínu.

Haha! Búin!!! Ég ætla að kitla einhverja sjö í bókstaflegum skilningi (þeir mega alveg bloggkitla ef þeir vilja) en læt ekki uppi hverjir það eru því það á að koma á óvart

22 nóvember 2005

Svei mér þá alla mína daga...

Ég held að mér skjöplist ekki þegar ég skrifa að ég hafi aldrei á minni lífsfæddri ævi lent í jafnfáránlegum aðstæðum í kennslustund og einmitt í dag. Það má segja að ég hafi verið í prófi því fyrirlesturinn sem ég hélt á að gilda ein 50% af lokaeinkunn í námskeiði í þýsku. Fjalla átti um fyrirtæki sem við gætum hugsað okkur að starfa hjá og ég sagði frá Vatnamælingum Orkustofnunar.
Þar sem ég vissi að áheyrendur væru flestir lítt stærðfræðilega þenkjandi reyndi ég að útskýra allt mjög vel og virtust flestir bara skilja nokkuð vel - jah - nema kennarinn. Hann átti eitthvað erfitt með að einbeita sér og smátt og smátt færðist glott yfir andlitið sem endaði í hæðnislegum "heldur hún að við skiljum þetta?!"-hlátri um miðbik fyrirlestursins. Ég spurði hvort eitthvað væri óljóst en hann sagði mér bara að halda áfram, sem ég og gerði. Að fyrirlestrinum hófst greining á öllum atriðum sem betur hefðu mátt fara og fyrstu athugasemdinni beindi kennarinn út í bekk: "Já, þetta var nú svolítið fræðilegur fyrirlestur, ha? Ég meina, skildi þetta einhver?"
Það urðu allir frekar hvumsa og sögðust bara hafa skilið þetta ágætlega. Þetta voru greinilega ekki þau viðbrögð sem hann hafði búist við en einhvern veginn tókst honum að skauta fram hjá því. Að lokinni greiningunni var síðan hafist handa við að ræða næsta efni námskeiðisins - "þvermenningarleg samskipti". Í þessum umræðum komst kennarinn á mikið flug í einleik um steríótýpur af hinum ýmsu þjóðernum og skrifaði á töfluna eftirfarandi fjögur atriði sem væru mikilvægust í mannlegum samskiptum:
  1. Umburðarlyndi/fordómaleysi
  2. Sveigjanleiki
  3. Vilji til að sýna (þvermenningarlegan) skilning
  4. Virðing (m.a. hlusta á, reyna að skilja og virða skoðanir annarra)
Þetta fernt er ég alveg tilbúin að skrifa undir.

Kennarinn gaf okkur síðan það ráð að rétta aldrei löngutöng framan í lögregluþjóna í Þýskalandi, það gæti kostað okkur 2500 Evrur og allnokkur vandræði. Eftir tímann ákvað ég að gefa honum ráð um hvernig þykir viðeigandi að haga sér á Íslandi og benti honum því góðlátlega á að á Íslandi þætti það ókurteisi að hlæja hæðnislega að fyrirlesara í miðjum fyrirlestri.

Eftir smá hik svaraði hann að það þætti raunar líka ókurteist í Þýskalandi - EN - það væri þó alltaf einn sem mætti hlæja hvenær sem væri, hvort ég vissi ekki hver það væri? Ég sagðist nú ekki halda að nokkrum leyfðist það þótt mig grunaði hvert svar hans yrði: Kennarinn! Jú, kennarinn má alltaf hlæja, sagði hann. Nújæja, sagði ég. Þannig er það ekki á Íslandi. Hér er að sjálfsögðu ætlast til þess að nemendur sýni kennurum sínum virðingu en það er þá líka ætlast til þess á móti af kennurunum, að þeir sýni nemendum sínum virðingu. Klykkti síðan út með því að mér virtist sem hann hefði ekki farið allskostar eftir því.

Gleymdi víst að taka fram að kennarinn í þessu námskeiði er þýskur (þetta er ekki mynd af honum), hefur dvalið lengi í Bandaríkjunum við kennslu og er hér sem gestakennari þetta misserið. Hann hefur sagt okkur að í Þýskalandi þyki ekki annað viðeigandi en að háskólakennurar klæðist jakkafötum, drögtum eða öðrum formlegum klæðnaði og vitaskuld þérist nemendur og kennarar - allt til að sýna virðingu. Ég hef komist að því að þessi "virðing" er því miður oft fátt annað en umbúðirnar, þýskir háskólakennarar líta margir frekar stórt á sig og bak við kurteisishjalið dylst allt að því fyrirlitning á nemendum. Nú skrifaði ég margir, ekki allir, enda hef ég líka haft mjög góða þýska kennara og raunar fleiri góða en slæma ef út í það er farið. Mikið er ég samt kát og glöð að meirihluti háskólakennara hér eru ekkert að spá í formlegan klæðnað og álíta sig almennt ekki standa skör hærra en við nemendurnir!

19 nóvember 2005

Dansiðandi

Þegar ég heyri Balkan-brasstónlist eða hressileg Klezmer-lög fara fæturnir á ið og mig grípur óstjórnleg löngun til að dansa. Það eru til þjóðdansar við flest laganna og ég hef séð suma þeirra en mig langar samt ekkert að læra þá til fullnustu, finnst allt í lagi að spinna út frá sporunum en dansmynstrin sjálf einhvern veginn svo heftandi.


Rússíbanar léku oft bræðing af klassískri, grískri og jiddískri tónlist en það voru samt kvikmyndir eftir Emir Kusturica með austur-evrópskri brasstónlist Goran Bregović sem kveiktu leitarneistann í mér. Þegar farið var að leita reyndist af yfrið nógu að taka - Koçani Orchestar, Karandila Orchestra, Fanfare Ciocarlia, Boban Markovic Orkestar, Frank London Klezmer's All Stars...


Síðan þá hefur líka bæst í hóp íslenskra/hálfíslenskra sveita - Schpilkas spinnur kringum jiddísk þjóðlög og Stórsveit Nix Noltes búlgörsk þjóðlög með áhrifum frá allri súpunni - grískri, jiddískri og austur-evrópskri hefð.


Þegar þessar sveitir spila dansa ég af mér lappirnar og héldi hugsanlega áfram fram í rauðan dauðann ef ekki væru takmörk fyrir hversu lengi hljóðfæraleikararnir halda út. Mæli eindregið með þessu!

13 nóvember 2005

Þetta er augljóst!

Á morgun mun afleysingakennarinn sem ég dásamaði um daginn halda sinn síðasta fyrirlestur. Í tilefni af því eigum við að skila ellefu dæmaúrlausnum úr hans hluta af námsefninu. Mér sem fannst ég skilja allt svo vel í tímunum er nú hætt að lítast á blikuna. Hef komist að því eftir mikinn lestur og margar atlögur að dæmapúkunum að allt sem virtist svo augljóst er það alls ekki og einungis tæp fimm dæmi liggja í valnum eftir helgina.



Á íslenskan máta mun þetta þó örugglega reddast einhvern veginn kringum miðnætti annað kvöld. Vonandi. Eiginlega er ég ekkert ægilega hrædd við þetta - virtist alveg vera að komast á skrið í dag. Það er eins og með fjöllin sem virðast svo há: gangan hefst, auðvitað koma erfiðir kaflar en þá er víst bara að taka Pollýönnu og aðra ofurjákvæðni á þetta, spýta í lófana og spjalla við göngufélagana. Án þeirra kæmist maður víst ekki langt. Útsýnið á hverjum stað gerir þetta líka alveg þess virði, því megið þið trúa!

08 nóvember 2005

Buore eahket

Í kvöld lærði ég sitthvað um samíska menningu og oggupons í tungumálinu (buore eahket þýðir góða kvöldið). Það minnti mig á ævintýralegt ferðalag fjölskyldunnar um Danmörku, Svíþjóð, Finnland og Noreg árið 1991. Það var í fyrsta sinn sem við Líney Halla fórum til útlanda. Afi, amma, mamma, pabbi og við Líney lögðum heila 5500 km að baki á tveimur vikum í húsbíl bræðra hennar mömmu. Auk þess að heimsækja Línu Langsokk, Nilla litla Holgersson, elgi, broddgelti og alla sænsku búálfana kíktum við á heimaslóðir Lappa, eða Sama eins og þeir vilja láta kalla sig núna.


Óli bróðir mömmu býr í Kiruna í Lapplandi í Norður-Svíþjóð og konan hans á ættingja í Karesuando, nyrsta bæ Lapplands. Við heimsóttum þá og þeir voru með Lappatjald í garðinum hjá sér með "rúmum" úr birkihríslum með hreindýrsskinnum. Afar þægilegt ef ekki hefði verið blómsturtími myggen (moskítóflugur) - ég endaði alla vega á að sofa inni í húsbíl til að verða ekki étin lifandi. Man að við krakkarnir fórum út í frisbí og ekki sást í okkur fyrir svörtum flugnaskýjum. Við lékum okkur lengi fram eftir og ég heyrði eitthvað illa þegar mamma vildi fá okkur í háttinn. Annað eyrað mitt reyndist vera þakið storknuðu blóði eftir allar stungurnar og því ekki nema von að ég heyrði lítið!

Skrýtið að læra nú í kvöld að að Samar í Noregi hafi verið píndir til að tala norsku og "gleyma" eigin menningu allt frá lokum 19. aldar og fram undir 1970 og það sem meira er að samíska hafi ekki verið viðurkennt sem opinbert tungumál Sama í Noregi fyrr en árið 1992 og lög um kennslu samísku í grunnskólum Sama samþykkt fyrst árið 1997 - allt þetta eftir mikla baráttu! Ástandið var víst svipað í Finnlandi en aðeins skárra í Svíþjóð samkvæmt samasíðu þeirra. Jah svei mér þá...

06 nóvember 2005

Áfallahjálp

Nokkrir lesenda eru víst hrjáðir af sjúkdómnum yfirþyrmae langus bloggicus og liggja þungt haldnir eftir að hafa litið færslur hér á síðunni augum. Mér datt þá fyrst í hug að gera hreinlega stuttan útdrátt í lok langra pistla. Til að gefa forsmekk af þessu gæti skeytastíll síðustu færslu litið svona út:

Blokkflautur eru líka hljóðfæri. Samspil er skemmtilegt.

En úff! Þetta er leiðinlegt!!! Slæm hugmynd...

Næst datt mér í hug að benda á ævintýri Ásu í CERN sem skemmtilega sjokkþerapíu til að sigrast á sjúkdómnum. Raunar myndu margir lesenda þá slá tvær flugur í einu höggi því eðlifræðifóbía hreint og beint hlýtur að hverfa hverjum þeim sem les um æsispennandi kjarneðlisfræðitilraunir!

Ekki sem verst. Til öryggis býð ég þó upp á sígilda áfallahjálp: Don't panic!

02 nóvember 2005

Bassinn kominn og get ekki beðið

Eftir blástur í brotið klarinett og beyglaðan trompet með Lúðrasveit Laugarnesskóla ákvað ég að fara aftur á byrjunarreit og læra meira á blokkflautu. Mér var skjótt komið í skilning um að það héti sko að læra á blokkflautuR, í fleirtölu sumsé, enda um heila fjölskyldu að ræða. Það er mjög skondið þegar fólk spyr áhugasamt "Nú, ertu að læra á hljóðfæri?" og veit svo ekki alveg hvað segja skuli þegar ég svara að já, ég sé sko að læra á blokkflautur. "Jaaaá..." segir fólkið, svona svipað já og maður fær við það að segjast vera að læra stærðfræði í háskólanum en þó ekki eins - bak við augun sjást hugsanir fljúga: "Jiminn, greyið, hún hefur bara ekki náð þessu í forskólanum!". En seiseinei, skólaflauta er nú ekki það sama og blokkflautur, það getið þið bókað!

Tónskólinn minn (eða öllu heldur hans Sigursveins) ákvað í fyrra að gerast svo elskulegur og fjárfesta í endurreisnarblokkflautum ef við myndum sjá um pantanir sjálf og nú eftir mikla vinnu er bassinn kominn til landsins - bara eftir að fá hann út úr tollinum. Ég hlakka svooo til! Er jú búin að starfa í kvintett í fimm ár við að spila m.a. endurreisnartónlist en alltaf bara með barokkflautum. Auðvitað spilum við líka barokktónlist og nútímatónlist og hún hefur þá hljómað eins og hún á að hljóma - en núna fyrst verður hægt að leika endurreisnartónlistina með réttum hljómi. Munurinn er sá að endurreisnarflauturnar eru kónískar (keilulaga) en barokk sílíndrískar (sívalningslaga), holari og "opnari" tónn í þessum keilum. Sópran, alt og tenórar koma svo vonandi til landsins fyrir jól.

Núna er ég annars að æfa verk með gítar. Prófaði það í fyrsta skipti í fyrra og það kom svo vel út að það rataði í miðstigsprófið mitt. Hafði nú bara spilað í kvintett og svo með píanóundirleik allt fram að síðasta vetri en þá prófaði ég bæði að spila með heilli barokkhljómsveit og svo dúetta-samspil með sellói, fiðlu og áðurnefndum gítar. Fúlt að hafa ekki opnað augun fyrir svona samspili fyrr. Vonandi splæsir Tónskólinn síðan í sembal líka og þá getur sko fjörið byrjað í barokkinu!

30 október 2005

Úti í Eyjum

Ráðstefna Íslenska stærðfræðafélagsins í Vestmannaeyjum var alveg geysilega skemmtileg. Við lögðum af stað í kafaldsbyl en skipsferðin var samt sem áður þægileg og ófærðin í Eyjum truflaði okkur ekki mikið. Fyrirlestrarnir voru hver öðrum áhugaverðari, Eyjamenn höfðingjar heim að sækja - aðstaða, matur og skemmtan öll hin besta. Veðurofsann lægði meira að segja. Hvað er hægt að biðja um meira? Jú, það hefði auðvitað verið ágætt að ná að lesa meiri stærðfræði, æfa á blokkflautur og skrifa greinar í áðurnefnt Gorm-blað en ég hefði nú samt ekki viljað missa af neinu í þéttskipaðri dagskránni. Þá er bara að ná upp svefni og spýta svo í lófana í fyrramálið. Takk fyrir helgina og góða nótt!

27 október 2005

Er mig að dreyma?

Eftir að hafa fram eftir hausti fengið að kynnast því hvað einkennir kennara sem ekki vinnur vinnuna sína fáum við nú afleysingakennara í þrjár vikur sem kemst nálægt því að vera uppskriftin að hinum fullkomna kennara. Ætli við höfum ekki verið um sjö villuráfandi sauðir sem mættum ennþá í hálftilgangslausa tímana hjá fastakennaranum en núna þegar fréttist af þessum nýja fyllist kennslustofan. Enda hefur hann það fram yfir fastakennarann að mæta undirbúinn, með hlutina á hreinu og fær um að útskýra allt á minnst þrjá vegu - svo eitthvað sé nefnt. Hjá hinum var oft óljóst í lok tíma hvort það sem skrifað var á töfluna þann daginn hefði yfirhöfuð verið rétt og dæmaskil voru í vægast sagt mikilli óreiðu. Nú fáum við jafnvel skýr fyrirmæli um dæmi fyrir dæmatíma og eigum von á vikulegum skiladæmaskömmtum. Vill einhver klípa mig í höndina?

23 október 2005

Af þrídeilingu

Þetta er nú meiri brjálæðishelgin! Í þessum orðum skrifuðum er ég búin að vera vakandi síðan klukkan níu í gærmorgun og mun ekkert ná að fara að sofa fyrr en kannski um klukkan tvö í dag. Afar vel heppnaður Haustfögnuður Stiguls fékk framhald á Kofanum í dansi sem varði fram eftir morgni og nú á eftir mun ég þjónusta norræna pelapólitíkusa og krakka frá klúbbum hliðstæðum Nordklúbbnum í Þjóðmenningarhúsinu. Það tekur því hreinlega ekki að fara að sofa á milli! Aðallega þarf að ljósrita, ljósmynda og hughreysta alla með tilkynningum um að Freyja sé að redda málunum. Hún er alheimsreddari Ungdommens Nordiska Råd.

Greifinginn Nikke Nältää frá Finnlandi öðlaðist líf í gær. Hann reyndi að fiska fólk til að líta við bæði á Norrænum dögum og í Lifandi bókasafni í Smáralind. Beitan var nammi, póstkort og bæklingar og það var bara nokkuð gaman að vera Nikke þrátt fyrir það að búningurinn hafi verið ofurhlýr, verslunarmiðstöðvar séu alla jafna staðir sem ég forðast, mér þyki ljótt að dæla sælgæti í börn og mér leiðist krakkar sem eru frek og dónaleg og taka þrjár lúkur þegar þeim er boðið að velja eitt.
Ástæða gamansins var sú að það sem ég var að kynna var áhugavert og mörg barnanna líka ósköp háttvís og skemmtileg.
Lifandi bókasafn er raunar meira en áhugavert - hugmyndin finnst mér hreinasta snilld. Í stuttu máli getur fólk komið og leigt "lifandi bók", fólk sem stendur fyrir einhvern þjóðfélagshóp sem algengt er að fordómar séu fyrir, spjallað við bókina í 10-15 mínútur og þannig svalað forvitni eða komist að einhverju nýju. Á bókasafninu í gær voru blind bók, samkynhneigð bók, bók einstæðs föður, bók grænmetisætu, líkkrufningakonu, múslima, innflytjanda, Japana og prests. Fyrsta bókasafn þessarar tegundar var starfrækt á Hróarskelduhátíðinni árið 2000 en þetta er víst alveg nýtt á Íslandi.

Mér tókst ekki að deila helginni fallega í þrennt eins og ég ætlaði en það er held ég allt í lagi. Næstu helgi hyggst ég nefnilega verja á Ráðstefnu íslenska stærðfræðifélagsins í Vestmannaeyjum og þessar tvær helgar samanlagðar ætti því að fást nokkuð jöfn deiling.

19 október 2005

Skólp!

Í byrjun apríl plastaði ég kjallarann á húsinu okkar með 80 fermetrum af byggingarplasti. Von var á moldvörpum af ættkvísl pípara í heimsókn. Fyrirfram var svo sem ekki vitað hvort skepnur þessar væru sóðalegar eða ekki en við skulum segja að varúðarráðstafana minna hafi reynst vera FULL þörf. Moldvörpurnar mættu tveimur vikum eftir boðaðan komutíma, grófu sér skurð gegnum kjallarann og út í bílskýlið sem er samvaxið húsinu. Sentimetersþykkt steypuleðjulag lá á plastinu eftir þá aðgerð. Holan varð fljótt að óopinberum kamri nágranna á leið heim af djamminu og gerðist meira að segja svo fræg að fá (ljótan) veggjakrotsstimpil á húsvegginn við hlið sér. Til að gera langa sögu stutta höfum við síðan komist að því að mismunur á boðuðum komutíma moldvarpanna og rauntíma eykst með veldisvísisfalli. Það er að vísu búið að fylla í skurðinn og gera holuna úti í bílskýli örlítið snyrtilegri en næsti verkþáttur sem felur í sér nýjan skólpstokk og uppfyllingu holunnar hefur heldur betur fengið að bíða. Þessu átti að ljúka í vor en síðustu fregnir frá moldvörpunum herma að öllu verði kippt í liðinn fyrir jól. Þeir nefndu samt ekkert hvaða jól svo ég er ekkert of bjartsýn!

Það vill svo til að Gunna systir pabba á eiginmann sem er laghentur með meiru. Það er honum að þakka að við þurftum þó ekki að vera án klósetts lengur en í hálft ár. Hver veit hversu lengi moldvörpurnar hefðu látið það bíða! Sá galli er þó á gjöf Njarðar að holræsisstokkurinn er opinn undir gólfinu og lyktin því ekki beint góð... Mamma reynslubolti kenndi okkur trikk frá sumarvinnuárum hennar undir Snæfelli (þar var þá illalyktandi kamar), nefnilega að kveikja á kerti til að brenna upp gösin sem berast úr neðra. Það er því rómantísk stemmning á klósettinu í kjallaranum þessa dagana. Mikið vona ég að moldvörpurnar drullist til að ljúka verkinu fyrir þessi jól - komin með æluna upp í kok af þessari rómantík og eitt er víst - næst þegar samið verður við iðnaðarmenn hér á bæ ætla ég að koma ákvæði um dagsektir frá áætluðum verklokatíma inn í samninginn.

18 október 2005

Deutschland, Deutschland...

Í síðustu viku skilaði ég Menntamálaráðuneytinu umsókn um styrk til framhaldsnáms í Þýskalandi veturinn 2006-2007. Einhvern veginn hélt ég að það væri margfalt einfaldara umsóknarferli heldur en Bandaríkjabrjálæðið en annað kom á daginn. Auk þess að fylla út fjögur eyðublöð þarf nefnilega alveg ógrynni af aukapappírum, meðmælabréfum, prófgráðum (m.a. um alþjóðleg þýskupróf), lífshlaup og ritgerð - allt í þríriti minnst og stimplað af þýska sendiráðinu til staðfestingar um kórréttar þýðingar! Skilyrðin sem meðmælendurnir þurftu að uppfylla voru líka svo ströng að ég þurfti bæði að senda neyðarkall til prófessors sem er í leyfi í Kanada og falast eftir meðmælum frá þeim kennara sem mér hefur gengið langsamlega verst hjá. Einhvern veginn reddaðist þetta á síðustu stundu og umsókninni var skilað 6 mínútum fyrir lokun. Nú er bara að bíða og sjá hvort ég þurfi að endurtaka leikinn í vor því ef styrkurinn fæst ekki þarf að sækja beint um í hvern skóla fyrir sig.

Pabbi og mamma eru byrjuð að skoða fasteignablöðin með vaxandi ákefð og áhuga. Þau tilkynntu okkur systrunum fyrir um ári síðan að þau hygðust flytja í minna húsnæði þegar við lykjum grunnnáminu í Háskólanum. Þetta þýðir pent orðað að við eigum að flytja að heiman - er það ekki snjallt hjá þeim? Ég er alla vega mjög sátt við það og væri raunar örugglega flutt nú þegar ef hinn íslenski okur-fasteignamarkaður yxi mér ekki svo í augum.

Þótt fyrirsögnin sé þýsk hef ég mest verið að vasast í dönsku, sænsku og frönsku eftir að umsókninni var skilað. Mér þykja tungumál alveg óendanlega skemmtileg. Dönskuna hélt ég að ég kynni sæmilega en undanfarna daga hef ég komist að því að hún hefur ryðgað ótrúlega mikið! Það er því gott að starfa í Nordklúbbnum í Norræna félaginu og þurfa rifja þetta upp við greinaskriftir fyrir "Gorm!", tímarit ungmennadeilda norrænufélaganna. Um næstu helgi verður einmitt allt á fullu hjá okkur við að hjálpa til á þingi UNR (Ungdomens Nordiska Råd) sem í ár er haldið hér í Reykjavík. Samhliða verða haldnir Norrænir dagar þar sem við verðum með kynningu m.a. í Smáralind. Ég þyrfti því eiginlega að geta klónað mig til að geta verið á báðum stöðum og lesið stærðfræði á sama tíma en reyni í staðinn að skipta helginni jafnt milli allra.

Gleymdi að útskýra þetta með frönskuna. Hún kemur til af því að "skiptineminn" á Vatnamælingum í sumar var franskur og hefur undanfarin kvöld látið mig fá orð dagsins til að læra. Stundum verða orðin fleiri en eitt og ég er orðin mjög áhugasamur frönskunemandi - nokkuð sem ég hefði aldrei trúað! Var alltaf eitthvað smeyk við rómönsku málin, ætlaði að byrja á portúgölsku einhvern tíma en kom því aldrei í verk. Mig langar líka mikið til að læra spænsku og rússnesku. Á degi evrópskra tungumála 26. september héldum við í Nordklúbbnum tungumálamaraþon þar sem kennd voru níu tungumál. Ég lærði grunninn í sjö þeirra og mikið var ég þreytt eftir þann daginn! Litháíska er klárlega erfiðasta mál sem ég hef kynnst...

17 október 2005

Allt fyrir fröken Linnet

Líney Halla systir mín hélt að ég væri einhvers staðar með leyniblogg í gangi og ákvað að klukka mig með áskorun um að vísa sér á hvar það væri að finna. Hún setti þó þann varnagla að skipa mér að stofna blogg ef ekkert leyniblogg væri fyrir hendi. Ég á ekkert leyniblogg. Reyndar hefur planið lengi verið að þegar ég færi út í buskann til frekara náms (fæ aldrei nóg...) myndi ég hefja vefskrif um það sem á daga mína drifi. Nú eru hins vegar svo margir sem ég þekki þegar farnir út um hvippinn og hvappinn þannig að kannski langar þá að fá fréttir að heiman, hver veit? Ég lofa samt engu um það hvort ég verð dugleg að skrifa eður ei og aðallega er þetta fyrir litlu systur gert því ég er svo óskaplega þæg stórasystir... Vessgú Líney!

Klukklisti með skrýtnum staðreyndum um sjálfa mig:

1. Þegar ég fæddist var ég gul, með kolsvart hár, dökkdökkbrún skásett augu og með pínulítil hnoðrahár um allan líkamann - með öðrum orðum eins og grænlenskt selabarn! En ég læknaðist af gulunni, hárið lýstist og augun urðu smám saman grænbrún þannig að pabbi og mamma fóru að trúa því að þetta væri raunverulega þeirra barn eftir allt saman...

2. Tónlist og hreyfing eru mér lífsnauðsyn. Fráhvarfseinkenni vegna skorts á þessu tvennu koma fram oft á dag þegar ég fer að hoppa, skoppa og söngla eða blístra og tromma eða hvaðeina annað sem ekki er við hæfi í lestrarsölum bókasafns VR-II og verð ég þá að taka lestrarpásu, þó ekki nema væri til að skokka út í féló... Það hjálpar mikið að vera í tónskóla, fara í sund og þrek og Stigulsbolta - og það finnst ekki bara mér heldur líka þeim sem búa með mér!

3. Á fótunum mínum vaxa hár eins og á öllu öðru kvenfólki í heiminum en ég tilheyri þeim (minni?)hluta sem nennir ekki að fjarlægja þau. Sé einfaldlega enga ástæðu til þess. Af þessum sökum fæ ég iðulega undarlegt augnatillit og pískur um lesbíur frá gelgjunum í sundi. Það finnst mér fyndið.

4. Matvönd get ég seint talist en ef nammivendni er til þá er ég nammivönd. Flest nammi finnst mér vont en ég borða samt alveg sumt nammi og fjölskyldunni minni finnst ég vera nammigrís (já, þetta finnst mörgum skrýtið!).

5. Ætli ég sé ofvirk? Að minnsta kosti fúnkera ég best ef ég er að vasast í grilljón helst ólíkum og alltof mörgum hlutum. Það er alveg magnað og mér gjörsamlega óskiljanlegt hvernig mér tekst undantekningalaust að hafa allt brjálað að gera. Guði sé lof að engum datt samt í hug að setja mig á Ritalin! Það er nefnilega mjög gaman að vera ég (finnst mér) og lyf myndu held ég bara eyðileggja allt saman.

Það er mjög erfitt að halda sig við fimm atriði. Ég er jú svo skrýtin... já, og svo sérstaklega þar sem ég forðast m.a. töluna fimm ef ég mögulega get! Læt því eitt eða tvö fljóta með til viðbótar:

6. Heima hjá mér var lengi vel ekki til neitt myndbandstæki og aldrei hefur verið mikið um sjónvarpsgláp hér á bæ. Í fyrsta skipti sem ég fór í bíó (American Tale) varð að fara með mig heim í hléi því ég var svo hrædd. Ég lifi mig alltaf alveg rosalega sterkt inn í það sem ég les en þessi innlifun hreinlega margfaldaðist í bíóinu! Jafnvel þegar ég var í Unglingavinnunni og fór að sjá Basketball Diaries með Jafningjafræðslunni varð ég að fara út þegar einhver byrjaði að skjóta á alla í skólastofu (ef ég man rétt) því mér varð svo óglatt. Síðan þá hefur reyndar mikið vatn runnið til sjávar, sérstaklega vann ég mikið upp þegar ég var með Magga, og núna kemst ég gegnum rosalegustu myndir. Best þykir mér að fara á kvikmyndahátíðir því utan þeirra virðist mér því miður oftast fátt um góða drætti í kvikmyndahúsunum.

7. Ég er hvorki skírð né fermd en fór samt í Sunnudagaskólann, KFUK og messur og starfaði lengi í kirkjukór. Pældi heilmikið í trúarbrögðum heimsins og ákvað loks að fermast borgaralega (þótt það sé engin ferming og allt það...) og sé sko aldeilis ekki eftir því. Á öllu kirkjubröltinu lærði ég samt líka alveg heilmikið - ég kann t.d. bæði kaþólska og lútherska messuformið út og inn og ógrynni af sálmum og bænum. Og ekki er ég trúlaus - alveg síðan ég var á Barnaheimilinu Ósi og fór í heimsókn á Slökkvistöðina hefur efahyggjumanneskjan ég nefnilega beðið bænir á næstum hverju kvöldi! Ástæðan er sú mig dreymdi martraðir eftir að hafa séð myndband á Slökkvistöðinni um Andrés Önd sem slökkviliðsmann og samdi því langar romsur til að biðja guð um að passa alla þá sem mér þótti vænt um. Listinn var orðinn svo langur að ég sofnaði oftast áður en hann kláraðist (og hann endaði á "öllum hinum", svona til að enginn yrði útundan). Þar sem ég er frekar vanaföst tók það nokkurn tíma að skera niður listann og breyta bænunum. Í dag eru þær allt öðru vísi og guð raunar líka, en það er önnur saga...

Ég klukka þá félaga Silly the guide, Grétar síðastalagfyrirfréttirfélaga, nafna hans Amazeen, Jóa (Stiguls)útherja, Hlyn þrekstrák og Huga í Ásabyggð en þar sem þeir eru ekki með blogg eiga þeir bara að segja mér skondnar staðreyndir um sjálfa sig næst þegar ég hitti þá.