25 júlí 2008

Ísland bjargar öllu

Það var alveg yndislegt að komast heim.

Hitta fjölskyldu og vini, ferðast, slæpast og fara í gönguferðir.

Best að gera stikkorðalista yfir ferðina:
  • Laugarnesganga
  • tékkneskir vinir í heimsókn
  • fjölskyldumatarboð
  • yndislegt brúðkaup
  • vinafundir í veislu
  • dásamleg rigning og rok
  • sund
  • Heiðmerkurganga
  • ísbíltúr
  • kaffihúsferð
  • blokkflautuhittingur
  • pabbi sextugur
  • vinaganga upp að Glym í Hvalfirði
  • Stiglabjór á Austurvelli
  • útsýn yfir Reykjavík úr Þjóðminjasafninu
  • salsadanskennsla
  • sófaflakkarar og vinir úr öllum áttum á Prikinu
  • afmælishátíð á Bifröst
  • ættarmót að Laugum í Sælingsdal
  • brekkusöngur
  • selflutningur Króata
  • íslenskt landslag
  • Akureyri
  • ættarmót á Breiðumýri
  • sund að Laugum í Reykjadal
  • risagrill fyrir 240 manns
  • fót- og himnabolti
  • frost í tjaldi
  • glampandi sól og heiðskír himinn
  • vinkonusímtal
  • nammigott matarboð og trommuleikur hjá bróðurfjölskyldunni
  • kveðju skilað til tólf tóna
  • ...
Ég gæti talið upp endalaust og samt alltaf gleymt einhverju...

Myndir koma bráðlega.

10 júlí 2008

Kominn tími á fréttir

ÍK: Hvað er að frétta?

B: Allt bara svona bærilegt...

ÍF: Bærilegt?!? Sumsé ekki gott eða hvað?

B: Ha? Jújú... æji eða... hmmm... sko...

ÍK: Það var einmitt það já. Lokaverkefnisveikin?

B: Tjah, það má kannski... segja það bara já, lokaverkefnisveikin... hehe, ágætisnafn það!

ÍK = ímyndaður kunningi, B = ég, hún Bjarnheiður

Stuttu eftir að ég skrifaði síðast (það var í byrjun maí) var litríkur eftirmiðdagur (Bunter Nachmittag) á háskólalóðinni. AKAS tók að sjálfsögðu þátt með tilþrifum og þar sem þema þessa árs var Suðurhafseyja buðum við upp á ávaxtakokteila og grillaðan ananas, lærðum að skrifa nöfnin okkar með framandi letri ofl.


Smellið á myndina til að sjá fleiri myndir frá litríkum eftirmiðdegi

Svo varð ég veik daginn eftir. Bæði var ég búin að vinna svolítið yfir mig og svo skilaði vinnan litlu og gaf lítið til baka. Prófessorinn sem ég vinn lokaverkefnið hjá hefur nefnilega lítinn sem engan tíma fyrir mig og lætur doktorsnemann sinn um leiðbeiningarnar.


Farruh, Jörg og Jens yfir-grillmeistarar í Go Out kynningarpartýi fyrir nám erlendis
(smellið á myndina til að sjá fleiri myndir úr partýinu)

Í byrjun meðan ég þekkti ennþá lítið sem ekkert til fræðanna og almennt til verkefnisins gekk samvinnan ágætlega, ég vann eins og berserkur með blá augu og gleypti við hverri hugmyndinni á fætur annarri.


Myndaþrenna sem ég sendi í ljósmyndasamkeppni alþjóðanema

Hugmyndirnar fólu oftast í sér mikla forritunarvinnu og allt átti þetta að taka stuttan tíma og vera voða einfalt. Svo rakst ég á hindrun eða náði að klára eins og gengur en aldrei urðu niðurstöðurnar neitt líkar því sem vonast var eftir.


Háskólanáman Reiche Zeche - hér upp frá hef ég smá vinnupláss fyrir verkefnið mitt

Ég reyndi þá að greiða úr flækjunni sjálf og spurði spurninga þegar ég strandaði. En í stað þess að fá svar við spurningunum fékk ég hins vegar alltaf að heyra að ég hefði misskilið eitthvað. Þetta hafi nefnilega átt að vera svona og svona en ekki þannegin og hinsegin og nú skuli ég bara byrja aftur, takk fyrir.


Útsýnið frá Reiche Zeche

Þessi lykkja var svo endurtekin nógu oft til að ég varð tortryggin, fór að grípa inn í og spyrja fleiri spurninga.


Í brekkunni á leið upp að Reiche Zeche

Spurningarnar mínar ullu pirringi, stagli, endurtekningum með hærri rómi og ýmist átti ég nú að vera treg að ná ekki strax hvað hann væri að meina ("allir hinir skildu þetta strax...") eða honum (doktorsnemanum) fannst ég ósamvinnuþýð. Tjah, sem ég kannski var orðin en hvernig átti ég líka að geta treyst því sem hann sagði fyrst svörin urðu æ óígrundaðri og leiðbeiningarnar stönguðust jafnvel á við fræðin?!


Fínt lagt á borð hjá Christinu (smellið á myndina til að sjá fleiri matreiðslukeppnimyndir)

Þegar samskiptin voru farin að líkjast barnalegum sandkassaslag velti ég mikið fyrir mér að skipta um leiðbeinanda og verkefni en eftir að hafa talað við prófessorinn ákvað ég að halda áfram og reynt var að stilla til friðar með því að salta vinnu fyrstu tveggja mánaðanna og byrja á öðrum hluta verkefnisins.


Horft út um gluggann hjá Kötju og Christinu

Enn á ný hafði ég það á tilfinningunni að ekki væri allt með felldu og samskiptin við doktorsnemann bötnuðu ekki hætis hót. Ekki nóg með það heldur kom ofan á vinnuna við lokaverkefnið mikil vinna í tengslum við vinnusmiðju eða hálfgildings ráðstefnu í byrjun júní.

100 metra undir yfirborði jarðar í námunni Alte Elisabeth (gamla Elísabet)

Það var verkefni á vegum nemendafélags um stærðfræði í jarðvísindum og í upphafi vorum við fimm eða sex manns í vinnuhópi en þegar á hólminn var komið sat ég ein uppi með vinnu fyrir fimm manns. Margir hlupu undir bagga á síðustu stundu við praktíska hluti á borð við að setja upp skilrúm fyrir veggspjöld eða að sjá um að hita kaffi og kaupa hressingu fyrir gestina okkar en í minn hlut kom skriffinnska, útgáfumál, vefstjórn, þýskar reglugerðir og fleira misskemmtilegt.

Símanúmer samstillt fyrir ferðalag

Í heildina litið gekk þessi vinnusmiðja okkar alveg gríðarlega vel og gestirnir okkar voru yfirmáta ánægðir með skipulagið og dvölina. Eftir þetta lagðist ég síðan veik með víruspest í rúma viku og er ennþá að ná mér.

Fjölskylda Judytu byrgði hana upp af pólskum kökum svo nágrannarnir mættu njóta þeirra líka

Ekki svo að skilja að allt sé ómögulegt - það hafa alveg verið ljósir punktar líka (sjá t.d. myndirnar með þessari færslu). Á ráðstefnuna kom til að mynda tékkneskur stærðfræðingur sem er sérfræðingur í vægisóbreytum. Það var rosalega gott að geta talað við einhvern um verkefnið sem hefur vit á fræðunum sem það byggir á og hún staðfesti líka grun minn um að vinna fyrstu tveggja mánaðanna hafi verið gjörsamlega tilgangslaus. Doktorsneminn reyndar lætur ekki segjast en mér er nokk sama um það.


Katja með forrétt sem Viola eldaði í matreiðslukeppni stærðfræðistúlkna

Fyrir tveim vikum kom síðan í ljós að það ríkti einn allsherjarmisskilningur milli doktorsnemans og prófessorsins og því var ég þegar þá var komið sögu eiginlega búin að vinna til einskis í þrjá mánuði. Það er ekkert ofsalega gaman.

Pit kom í heimsókn með nammigóða köku!

Á móti kemur að nú er komið plan og allir klárir á hvað ég eigi að gera. Ég vona alla vega að þetta plan standist því að mig langar ekki hætis hót að vinna að því lengur en fram í nóvember. Ekki af því að verkefnið sé óspennandi heldur finnst mér svo leiðinlegt að vinna hálfgert ein út í horni og hafa engan til að tala við. Verkefnið var kynnt fyrir mér sem hluti af vinnu hóps en þegar á hólminn er komið er ég voðalega út úr og enginn þekkir neitt til vægisóbreyta nema bara svona rétt bláyfirborðsins á fræðunum.

Loftið í leikhúsinu í Freiberg

En nú er sumar gleðjist gumar og gaman er í dag því að í dag fer ég í langþráð frí heim til Íslands! Ég hlakka svo til að ég er að springa! Eiginlega átti ég að vinna í verkefninu í gær en einbeitingin var eitthvað flogin út um gluggann svo ég hóf frekar pistlaskriftir - enda orðið allt of langt síðan síðast var skrifað hér.

Namminammi jarðarber...

Eftir á að hyggja var ágætt að verða veik. Þá hafði ég alltof mikinn tíma til að hugsa, enduruppgötvaði ást mína á lestri (nánar tiltekið: lestri bóka sem ekki snúast um vægisóbreytur heldur bara eitthvað allt annað) og áttaði mig á að ég þyrfti aðeins að stokka upp í skipulaginu og læra betur að setja mörk í samskiptum við fólk. Ég átti varla mínútu eftir fyrir sjálfa mig síðustu mánuði, hvað þá fyrir þessa síðu.

Borscht - rússnesk rauðrófusúpa og sinnepsbrauð - sem ég eldaði handa nágrönnum mínum

Mér finnst ólíklegt að ég taki svona langt blogghlé aftur. Það er einfaldlega gott að skrifa svolítið á íslensku um allt það sem drífur á daga mína hér í Freiberg og ekki síðra þegar fólk skrifar í athugasemdasarpinn eða sendir mér póstkort eða tölvupóst - kærar þakkir fyrir það! Sjáumst svo vonandi sem flest á Íslandi um helgina og í næstu viku!