Eitt af því sem ég á erfiðast með að þola er væmni. Verst hversu erfitt er að skilgreina væmni. Hver og einn er með sinn ósýnilega væmniþröskuld sem aðrir eiga erfitt með að skynja. Af fenginni reynslu held ég að minn þröskuldur sé lægri en annarra. Kann einhver skýringu á því?
Nú í kvöld var mér boðið á tónleika sem að drjúgum hluta fóru yfir hættumörk mín hvað væmni varðar - ástar(sorgar)ballöður eru hreint ekki minn tebolli! Í eymd og volæði er að mínu mati miklu betra að hlusta á þunglyndisrokk, Rachmaninov eða krútthljómsveitatónlist og enda svo á góðri útrás með einhverri gleðisveit. Eða bara fara niður í fjöru og öskra svolítið.
Ekki svo að skilja að hér á bæ sé eymd og volæði þessa stundina - öðru nær! Überwiegend mun meira um gleði og gaman og tjah: skyldi það hafa áhrif á bjarnheiðska væmnistuðulinn? Næstu dagar verða til dæmis þéttsetnir af gleðigjöfum á borð við tónleika (ekki væmna), konfektgerð, þýskupróf og ferð til Akureyrar. Skrýtið að vera ekki í dauðaprófum dag eftir dag eins og venjulega en jafnframt ágætt að taka því létt þetta misserið. Það er að segja létt hvað jólaprófin varðar - ég hafði auðvitað að venju yfrið nóg að gera en af prófunum sjö voru bara þrjú taugatrekkjandi aldrei þessu vant.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli