24 febrúar 2006

Bíddu, bíddu, bíddu... ha?


You scored as Linguistics. You should be a Linguistics major!

Linguistics


100%

Art


100%

Dance


100%

Engineering


92%

Philosophy


83%

English


83%

Journalism


83%

Sociology


83%

Theater


75%

Mathematics


58%

Chemistry


58%

Anthropology


50%

Biology


50%

Psychology


33%

What is your Perfect Major? (PLEASE RATE ME!!<3)
created with QuizFarm.com

22 febrúar 2006

Fjórir - Vier - Four

Hún Alma skoraði á mig í erfiðan bloggleik. Erfitt atriði númer eitt: talan fjórir er ekki í uppáhaldi. Erfitt atriði númer tvö: að mega ekki skrifa fleiri atriði en fjögur í hvern flokk. Erfitt atriði númer þrjú: að geta ekki gefið nánari útskýringar á öllum atriðunum. En þetta tókst samt að lokum:

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina
-Stundakennari í stærðfræði við Háskóla Íslands
-Safnleiðsögumaður, saltfiskvaskari, húsfreyja og kúarektor í Árbæjarsafni
-Starf við grunnrannsóknir og mælingar hjá Vatnamælingum Orkustofnunar
-Flokkstjóri í Borgargörðum í Laugardal

Fjórar myndir sem ég get horft á aftur og aftur
-Le fabuleux destin d'Amélie Poulain
-Stella í orlofi
-Shark in the Head
-Leitin að Rauða Október

Fjórir staðir sem ég hef búið á um ævina

-Laugarneshverfi, Reykjavík
-An der Foche, Rösrath
-Callinstrasse, Hannover
-Vogahverfi, Reykjavík

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég horfi á
(þessar upplýsingar get ég ekki gefið þar sem ég horfi nánast aldrei á sjónvarp - í staðinn fáið þið lista yfir útvarpsþætti)

Fjórir útvarpsþættir sem ég hlusta á
-Spegillinn, samtengdar Rásir 1 og 2
-Víðsjá, Rás 1
-Hlaupanótan, Rás 1
-Músík að morgni dags, Rás 1

Fjórar bækur sem ég hef lesið oftar en ég get talið
-Selur kemur í heimsókn, e. Gene Deitch
-Matthildur, e. Roald Dahl
-Sitji guðs englar, Saman í hring, Sænginni yfir minni, e. Guðrúnu Helgadóttur
-Elíasarbækurnar, e. Auði Haralds

Fjórar netsíður sem ég skoða daglega

-http://mail.google.com/mail/
-https://webmail.hi.is/src/login.php
-http://bjarnheidur.blogspot.com
-http://dict.tu-chemnitz.de

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
-Ylläs, Lapplandi
-Hornstrandir, Íslandi
-Berlín, Þýskalandi
-Simi, Grikklandi

Fernt matarkyns sem ég held upp á
-Svart súkkulaði
-Þorskalýsi með sítrónubragði, hafragrautur með müsli og AB-mjólk
-Allt sem pabbi yfirkokkur og mamma bakari bralla
-Kæstur hákarl

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna

-MünchnerStr. 181, Karlsfeld (Kreis Dachau)
-Á Mývatni
-Í þjóðgörðum Nýja-Sjálands
-Á ferð um Króatíu

Fjórir bloggarar sem ég skora á að svara sömu spurningum
-Líney Halla
-CraZy BegZ
-MaddaStína
-Rakel

17 febrúar 2006

VÁ! Hláturskast, snjókast...

SaunaExpressen var æði!

Við Alma og Jónas - sem NB eru handhafar titilsins bestu ferðafélagar í heimi - lögðum upp í ferðalag með svefngalsa ókristilega snemma á miðvikudagsmorgni. Á leiðinni út á völl hlustuðum við á Útvarp Ölmu, einstaklega skemmtilega stöð sem næst bara í nánd við Nordjobb-planleggjara Íslands. Við þekktumst nú ekki beint mikið í upphafi ferðar en það átti svo sannarlega eftir að breytast.
Ég var að venju lengi að komast almennilega úr skólagírnum og varði deginum á Arlanda-flugvelli við lestur Grannfræði (geri aðrir betur) og fleiri ágætra bóka meðan Alma og Jónas tæmdu verslanir í Stokkhólmi. Um kvöldið vorum við handsömuð fyrir ætlað smygl á áfengi til Finnlands, hittum nokkra sænska ferðafélaga og enduðum á hóteli í Oulu með finnsku MTV. Fjörið hófst svo daginn eftir þegar Danir bættust í hópinn og lóðsuðu okkur um Oulu-borg. Haldið var með rútu til Rovaniemi og þá ætlaði allt um koll að keyra í mínu eyra (rímar!) þar sem skiptinemar þaðan bættu við norrænu tungumálasúpuna ensku og þýsku auk fleiri mála sem ég skil ekki. Eftir það talaði ég fimm tungumál í graut alla ferðina!
Þemað í ár var SaunaSurvival og var í því sjónarmiði skipt í sex hópa sem kepptu sín á milli í hinum ýmsu þrautum. Ekki leist okkur nú á blikuna þegar fyrsta þrautin var kunngjörð: Listsaumur! Við áttum sumsé öll að sauma nöfnin okkar út í pefletti (dúkar til að sitja á í saunu) í lit hópsins og hanna því næst hópfána. Allt er nú til vinnandi til að komast í saunu eftir langt ferðalag svo við settum tunguna út í annað munnvikið og rumpuðum listsaumnum af. Að saununni lokinni gerðum við síðan heiðarlega tilraun til að svæla alla út úr skíðahótelinu Ylläsjärven Tunturihotelli með því að kveikja upp í arninum.
Við Alma komumst snemma að því að við værum hinir fullkomnu herbergisfélagar. Ekki einasta erum við alls kostar lausar við spéhræðslu heldur kunnum við að auki listina að eyða lágmarkstíma í tiltekt.
Það kæmi mér ekki á óvart að sett hafi verið ýmis heimsmet tengd draslaraskap - sérstaklega stóðum við okkur vel í greinunum "stysti tími frá því komið er í herbergi þar til það er komið í rúst" og "mest drasl miðað við tíma sem dvalið er í herbergi". Merkilegt nokk fékk það þó aldrei stimpilinn draslaraherbergið heldur var einungis talað um bar, partý og söng - nema um það hafi ekki verið rætt í okkar návist?
Morguninn eftir hófst ævintýrið fyrir alvöru með keppni í snjógolfi, dansi og tandemskíðum. Hefur einhver prófað að leika golf í mittisdjúpum snjó með hokkíkylfu og appelsínubolta? Dansað snjódans á ísilögðu vatni og gengið á skíðum fyrir tvo? Já og þetta var bara byrjunin... þessu fylgdu ísboranir, veiðar, þoturass-ferðir og að sjálfsögðu sauna, snjóbað og sund í kaldri laug.
Hamagangurinn í snjónum jók mjög matarlyst og til þess að standast allar þær þrautir sem fyrir okkur voru lagðar var okkur séð fyrir góðum mat - aðallega voru á borðum hreindýrakjöt, títuber, hreindýrakjöt, títuber, hreindýrakjöt og títuber. Nammigott.
Um kvöldið tók við karókíkeppni. Aldrei á minni lífsfæddri ævi hef ég... nújæja einu sinni verður allt fyrst! Við hituðum upp með herbergispartýi en héldum svo þaðan klár í slaginn á karókíbarinn. Keppnistjórarnir hófu leikinn með finnskri hliðstæðu-útgáfu af hláturslagi Ómars Ragnarssonar (sumir hlæja a-ha-haha-ha...) og liðin tóku svo við hvert af öðru. Sem dæmi má nefna að Jónasar lið bað fólk vinsamlegast um að halda hattinum á hausnum og mitt lið óskaði eftir mannrigningu. Nóttinni lauk með "opnu herbergi" öðru sinni hjá okkur Ölmu. Norðurlandabúar reyndust þar öðrum þjóðum duglegri við að vaka fram á nótt við gleði og gaman, hvaða skýring skyldi vera á því?
Nýr dagur, bjartur og fagur eins og allir hinir. Veðrið var með ólíkindum - sól og tungl kölluðust á á himninum og snjókristallar sindruðu í -12°C og logni. Ferðinni var heitið lengra þennan daginn og skipt um skíðahótel. Keppnisgreinar þessa dags voru sleðagerð og -hraðferð, "hvernig grilla ég pylsuna mína?" og ganga á snjóþrúgum.
Til sleðagerðarinnar fengum við ruslapoka, límband, álpappír og snæri! Eins og þetta ágæta sleðaefni gefur til kynna komst hvert lið einungis um einn tólfta hluta af brekkunni á sleðanum og þurfti eftir það að útbúa garnaflækju með brekkurúlli. Eftir að innyflin höfðu jafnað sig á þessari hrottalegu meðferð var lagt í göngu á snjóþrúgum um skóginn. Landslagið var ævintýri líkast og brekkuveltingurinn gleymdist fljótt.
Að loknu grillnámskeiði var hægt að velja milli ýmissa snjóíþrótta. Jónas og Alma völdu snjóböð og saunu en ég hélt upp í fjall á skíði. 40 brekkur í þrusufæri, hvað er hægt að biðja um meira? Jú, það eru hreindýr! Þau mættu á svæðið milli brekknanna og kipptu sér ekkert upp við hróp og köll heldur stóðu sig prýðisvel í fyrirsætuhlutverkinu. Almennilegt.
Verst að brúðkaup var haldið á hótelinu um kvöldið svo við skíðagarpar fengum ekki að fara í saunu það kvöldið. Á lokakvöldinu var margt um dýrðir, sýnd þaulæfð látbragðsleiksatriði og allir verðlaunaðir fyrir þátttöku í keppninni. Ég tæpti á öllum eldfimum umræðuefnum við borðfélaga minn sem hugsast gátu: grænmetisáti, trúmálum, pólitík og fleiru. Vakti þetta grafalvarlega spjall, undarlegt nokk, almenna kátínu við borðið og endaði með því að stóllinn minn gaf sig í einu hláturskastinu. Borðfélaganum stökk hins vegar, eðlilega, ekki bros á vör. Það er erfitt að hafa ekki húmor fyrir sjálfum sér segi ég nú bara... Að venju lauk kvöldinu með hernámi herbergis vors, gleði og söng. Stelpurnar sem sváfu í herbergi við hliðina á okkur kváðust daginn eftir hafa verið mjög fegnar að vera ekki í herbergi við hliðina á partýinu - obbosí, smá misskilningur, trallira.
Alltbú? Nei, nei. Áður en haldið var af stað til Rovaniemi með skiptinemana gafst tækifæri til að prófa sparksleða og skoða reyksaunu. Við þríeykið ákváðum síðan að halda til Oulu og kaupa svosem eitt tonn af finnsku rúgbrauði, hitta Madridarfélaga Ölmu og berjast við kínverska matprjóna. Með þessu móti tókst okkur að eyða sem minnstum tíma á Oulu-flugvelli og mæta með svefngalsa í hundraðasta veldi í flug til Arlanda. Mátti glögglega sjá að þar voru á ferð þrír háskólanemar en engir grunnskólakrakkar *hóst*. Með hávísindalegum útreikningum mínum þá hlýtur líf okkar að hafa lengst um minnst þrjú ár, svo mikið hlógum við á þessari tæpu viku!

Arlanda-flugvöllur var enn á ný staður aðskilnaðar. Ég tók rútu til Uppsala og heimsótti Láru frænku sem er Erasmús (orð frá Elíasi) þar í risastóru býflugnabús-húsi. Alma og Jónas ákváðu hins vegar að gista í fangelsiskojum rétt við flugvöllinn eftir að hafa velt mjög fyrir sér ýmsum heimboðum. Það urðu fagnaðarfundir daginn eftir og loks lagt í lokaáfanga ferðarinnar. Á leiðinni leystum við sudokugátur af miklum móð, svona rétt til að viðhalda SaunaSurvival-keppnisandanum.

04 febrúar 2006

Týnd í skógi skiptinga

Ekki er ofsögum sagt að undirbúningur verkefnis fyrir samæfingar sé svolítil geðveiki. Það hefur hreinlega allt annað setið á hakanum: heimadæmi, lestur, skilaverkefni, hljómaraðir, ... jæja... ég undirbjó þó kennslu vikunnar enda ótækt að standa frammi fyrir bekk og hafa ekkert að segja!


Hef ástæðu til að ætla að þetta verði skemmtilegur fyrirlestur hjá okkur Gumma á þriðjudaginn. Við náum reyndar ekki að kafa djúpt í efnið á svona stuttum tíma en vonumst til að geta gefið gott yfirlit. Í síðustu viku stóðum við í skógarjaðri skiptinganna, um miðja vikuna vorum við alveg týnd í skóginum, í gær sveimuðum við yfir landsvæðinu í flugvél til að teikna kort af því helsta sem fyrir augu bar og í dag skrifum við ferðasöguna. Heilmikið ævintýri!