23 mars 2007

Myndasaga

Síðustu færslur innihéldu svo fáar myndir og nú skal reynt að bæta úr því.


Vorið kom um stund... nú skiptast á vetur og vor!


Hlið að gömlum heimakirkjugarði


Vindmylla


Orðaleikur á þýsku. Varð í öðru sæti af þremur og mótleikararnir báðir þýskir. Er það ekki bara nokkuð gott?


Morgunmatur fyrir kvefgemlinga að hætti Maríu


DDR-nammi handa vinum og vandamönnum


Bjarki ánægður með hindberjaísinn og matinn hans afa


Baldur bróðir, Matthías og Birte


Eldhúsið í rúst


Líney, Siggi og pabbi redduðu málunum


Stenslalist við Skólavörðustíginn


Leiðbeiningar handa Alþingismönnum og fleirum...


Við mamma hittum kisu í bæjarferð


Líney með spekingssvip


Siggi sker rúlluna sína


Hlynur, Kristín og Una kenndu okkur að búa til sushi og það var svo miklu einfaldara en ég hélt!


Á þessum fáu dögum tókst mér að rústa herberginu hennar Líneyjar enda engin ástæða til að eyða tíma í að hafa allt snyrtilegt þegar maður stoppar stutt á Íslandi, eða hvað?


Myndir af mótmælendum og sérsveit Kaupmannahafnar teknar út um gluggann og af götuhorni hjá Ölmu á Nørrebro.


Rólegur sunnudagsmorgunn og hverfisflóamarkaður handan við hornið.


Margir mættir að skoða


Kolólögleg spegilmynd af okkur Ölmu og Margit í listaverki Ólafs Elíassonar (ég get svo svarið að ég sá ekki fyrr en á útleiðinni að bannað væri að taka myndir!)


Snigill á hlýjum degi í Garsebach


Hið magnaða barokkverk Zwinger í Dresden


Horft til himins við innganginn


Skólabörn trilla fram hjá postulínsvegg sem sýnir fursta Dresdenborgar í réttri tímaröð


Fram þjáðir menn í þúsund löndum...


Gólf í Albrechtsburg í Meißen


Hurðir í Albrechtsburg og dómkirkjunni í Meißen


Gluggar í dómkirkjunni


Listmáluð loft í Albrechtsburg í Meißen


Veggmálverkið sýnir aumingjans apótekarastrákinn og félaga hans sem stórfurstinn lokaði inni í nokkur ár til að finna upp gull. Þeir fundu upp "hvítt gull" - evrópska postulínið - í staðinn.


Sjáið þið hvernig ß varð til? Meißen hét Meiszen uns s og z runnu saman í einn bókstaf!


Garður við dómkirkjutorgið í Meißen


Þök í Meißen


Gatan heitir frelsi. Meðal annars stendur skóli við frelsi þrjú...

17 mars 2007

Lífsskrá


Mér finnst þetta vera góð hugmynd.

16 mars 2007

Sirkúsdagar

Sirkúshljómsveitin er að æfa sig handan við götuna og ég held engri einbeitingu við próflesturinn. Af þessu tilefni ætla ég að skrifa svolítið um síðustu daga en þó verður myndunum sleppt að þessu sinni enda verður allt myndavafstur oftast nær mun tímafrekara en ætlunin var í upphafi.

Eftir tvær afslöppunarvikur á Íslandi er ég nú komin aftur til Freiberg og þarf að vera dugleg við lesturinn til að vinna upp leti síðustu daga. Tjah, kannski ætti það nú ekki með réttu að heita leti - þegar ég kom heim þá einhvern veginn datt öll framkvæmdagleði niður og mér fannst best að setjast niður með góða bók, gera konfekt eftir skyndihugdettum eða spjalla við fjölskylduna. Mér finnst líklegast að ég hafi bara þurft á svolitlu fríi að halda. Próf í stærð- og tölvunarfræði taka hreinlega mun meira á þegar læra þarf nýjan orðaforða í fléttu við fræðin sjálf.

Ekki má nú samt skilja það svo að ég hafi setið í stofunni allan tímann og lesið bækur. Því er af og frá. Fór meðal annars á flóa-, bóka- og diskamarkaði, í bíó, útskriftarteiti, köku- og matarboð, á tónleika, söfn og kóræfingu, rölti um miðbæinn og Laugardalinn, synti þessi reiðinnar ósköp og skellti mér loks á árshátíð sagnfræðinema í stað fyrirhugaðs innflutningspartýs! Sérstaklega voru síðustu dagarnir pakkaðir en er það ekki alltaf þannig?

Það var sannast sagna nokkuð áfall að koma til Íslands eftir svona langan tíma. Ég hafði búið mér til ægifagra mynd af landinu í huganum en við mér tók drulluskítug borg sveipuð svifryksskýi svo erfitt var að anda við hjólreiðarnar! Eftir rigningu og snjó með köflum varð lífið aðeins skárra og ég sá það fljótt að lítið yrði úr fyrirætlunum mínum um próflestur á landi Ísa.

Skemmtilegast var að hitta aftur fjölskylduna mína, félaga úr skólanum og vini. Ætli ég hafi ekki farið svona fimm sinnum í Sigtúnið til að mynda (hér eiga tvær merkingar við um "til að mynda"). Í söfnunum sá ég franska meistara, blaðaljósmyndir (var nú ekki alveg sammála dómurunum þar) og verk Sigurjóns Ólafssonar í augum barna. Þetta síðastnefnda var ansi athyglisvert.

Börnin fengu það verkefni að senda inn ljóð eða stuttan texta sem rökstuðning á vali sínu á einu verki sem þau vildu sjá á sýningu. Auðvitað tókst ekki að verða við öllum tillögunum en þó voru þarna margir klassíkerar og nokkur verk sem ég get mér til að sjaldan hafi verið dregin fram úr geymslunum. Mér fannst skemmtilegast að lesa um Martein sem sá fyrir sér letidýr í tréhnúti en annars vakti athygli mína hve margir textar í bæklingnum með textum barnanna. voru nógu væmnir til að ég fékk kjánahroll. Hvort segir það meira um mig, myndlistarkennarana eða börnin?

Myndirnar sem ég sá í bíó voru eins og svart og hvítt. Paris je t'aime er að mestu í lit og mér fannst eiginlega bara einn kafli kjánalegur en hinir skemmtilegir, hjartavermandi og/eða góðir. Síðan fór ég á síðstu sýningu á Foreldrum. Sú er svart-hvít og sýnir skuggahliðar rétt eins og Börn (sá hana einmitt rétt fyrir brottför í haust), gefur þeirri fyrri ekkert eftir í gæðakvikmyndagerð. En úffpúff, ekki leið mér vel eftir á.

Tónleikarnir voru í Salnum í Kópavogi. Elfa fór á kostum í fiðlukúnstum fjölbreytilegra verka. Líklega þekkti ég samt verkin ekki nógu vel því bara aukalagið gaf svona vá-hvað-þetta-er-fallegt-hroll niður bakið. Eða hvað segið þið? Þarf maður að þekkja verkin til að fá svoleiðis?

Á leið minni til Berlínar kom ég við í Kaupmannahöfn hjá henni Ölmu. Það voru dýrðardagar. Við byrjuðum að geyspa strax og við hittumst og met í fjölda lúra frá því í Helsinki var nánast slegið! Mikið var Nørrebro falleg í vorsólinni. Jafnvel þótt hún hafi nú aðeins látið á sjá í óeirðunum. Fyrsta daginn (laugardaginn) fékk ég smá skammt af þyrlu, óeirðalögreglu, mótmælatónleikum og því um líku en síðan fóru mótmælendurnir í frí fram á þriðjudag.

Einhvern veginn tókst mér að flytja poka af frosnum humri til Ölmu og var hann etinn ásamt sérlegum möndlukjúklingsrétti Ölmu í matarboði á laugardagskvöldið. Einnig var þar reynt að ala tvo Dani upp í nýstárlegri íslenskri tónlist og hákarsláti (með litlum árangri) og skrúfuð saman Ikea-hirsla án skrúfjárna með frjálsri aðferð við tóna klaufabárðanna. Partýinu lauk þegar við Alma sofnuðum nánast áður en gestirnir fóru(!)

Sunnudagurinn heilsaði með sól, fuglasöng og flóamarkaði í Ravnsborggade. Eftir vænar torgpylsur (mættu svosem kallast bjúgu svo stórar voru þær) héldum við til móts við 87 ára vinkonu okkar sem við kynntumst í Helsinki í haust. Hún leiddi okkur gegnum miðbæinn á sýningu sem Alma hafði séð auglýsta á verkum Ólafs Elíassonar og Kjarvals - mjög flott sýning það - og loks í hverfið sitt til að sjá kirkjuna sína, gamla vinnustaðinn, heimilið, safn með nútímaíkonum tsjetnesks alþýðulistamanns og bjóða í saft og rúsínumúffur. Hún vildi helst halda ferðinni áfram til Dragør og kokka nokkrar kótelettur í matinn en þá var allur vindur úr okkur Ölmu og við héldum heim á leið til að taka smá blund! Svona er það víst þegar maður sér margt nýtt á einum degi.

Á mánudag lá leið mín til Berlínar með flugfélaginu ekkert mál og er ástæða til að mæla með þeim - lágt verð og svakafín þjónusta með breskum húmor. Í Berlín var ætlunin að taka lest til Dresden en Matti var þá óvænt mættur á flugvöllinn svo ferðin til Garsebach styttist um tvo, þrjá tíma. Ekki slæmt það! Daginn eftir héldum við svo í skoðunarferð um Dresden og á tónleika með Benna Hemm Hemm.

Eiginlega hafði ég vonast til að finna einhverja Íslendinga sem væru við nám í Dresden eða nágrenni en líklega var bara enginn (fyrir utan hljómsveitarmeðlimi) íslenskur á tónleikunum. Það var samt hin besta stemmning og í lokin öskraði ég "meira, meira!" af miklu kappi og uppskar loks þrjú aukalög eftir að hafa klykkt út með "úr að ofan!". Einhvern veginn fannst mér þá upphrópun nefnilega vanta (hún var á hinum tvennum tónleikunum með BHH sem ég hef farið á, mætti segja mér að það sé einhver einkahúmor í vinum hljómsveitarinnar).

Á miðvikudaginn hélt ferðamennskan áfram með heimsókn í Albrechtsburg í Meißen. Alveg magnaður kastali það! Stundum held ég að ég ætti fremur að leggja stund á nám í hönnun, myndlist, bókmenntum og tónlist en stærðfræði. Heillaðist t.d. alveg af fjölbreytilegum hurðum og gólfflísamynstri í kastalanum og kláraði minniskortið með myndum (þær koma seinna á vefinn... tjah, nema ég gefi út myndabókina "Hurðir Albrechtskastala"). Heima á Íslandi hesthúsaði ég Tryggðapanti Auðar Jónsdóttur, Sendiherra Braga Ólafssonar og ljóðabók Ingunnar Snædal með mikilli ánægju auk tveggja þýðinga - Herra Ibrahim og blóm kóransins eftir Eric-Emmanuel Schmitt og Fimm manneskjur sem maður hittir á himnum eftir Mitch Albom. Mæli með þeim öllum. Já og svo fjárfesti ég í bunka af geisladiskum, m.a. diski með Ólöfu Arnalds sem ég hafði vonað að kæmi út síðan síðasta sumar, Ampop, Lovísudiski, Skúla Sverrissyni, Kajak með Benna og fleiri góðum.

Jammogjá en svo mundi ég eftir því hvað það fór alltaf í taugarnar á mér þegar kennararnir þröngvuðu upp á okkur sínum skoðunum á bókum sem fjallað var um í grunn- og menntaskóla, hvað ég átti oft erfitt með að tjá mig um myndlistarverk og hvernig ég fæ yfirleitt aldrei hönnunarhugmynd eftir pöntun. Stærðfræði er hreint ekki svo vitlaus, já og ég get lært allt hitt þegar diplómuprófinu lýkur!

Hljómsveitin er enn að spila. Það er því vísast sýning sirkússins Aeros frá Berlín í fullum gangi hér á túninu. En bækurnar bíða og færslan er orðin löng, hlýt að ná að lesa smá við þessa leikandi tóna...

07 mars 2007

Deutsche Version

Ich habe der deutschen Version vom Jahresbericht diesmal einen neuen Platz gefunden. Weiß nicht wie oft dort berichtet wird - vielleicht etwa dreimal im Jahr, mal schauen!

Jólabréfið - ársyfirlit 2006

Elsku vinir nær og fjær!

Með þessu áframhaldi kemur jólabréfið frá mér einhvern tíma í vor, kominn 13. janúar (og nú 7. mars þegar þetta loks er klárað!) og jólin liðin hjá svo ég get víst bara óskað ykkur gleðilegs nýs árs og þakkað fyrir það gamla! Ég hélt að það væri ekki hægt að koma fleiru fyrir en á árinu 2005 en allt virðist vera hægt og ég get alveg hafið þennan póst á sama hátt og í fyrra: Þá er enn eitt viðburðaríkt árið liðið...

Ferðaárið 2006 hófst með óvæntri heimsókn til Bretagne í Frakklandi þar sem m.a. var gægst í ævintýraskóga, til hafnarborgarinnar St. Malo og í þoku hulda fjallborgina Mt. St. Michel. Beint eftir heimkomu hófst síðasta stærðfræði- og þýskuönnin við Háskóla Íslands en ég var ekki lengi á íslenskri grund því að í febrúar lá leið mín, Ölmu og Jónasar úr Nordklúbbnum til þess hluta Lapplands sem er nyrst í Finnlandi. Það var sannkölluð vetraríþróttaparadís og reyndum við okkur í hinum ýmsu þrautum: tandem-skíðagöngu, appelsínu-snjógolfi, og sleðagerð svo eitthvað sé nefnt. Á heimleiðinni gisti ég hjá Láru Rún en hún var þá nýbakaður Erasmusnemi í Uppsölum.


Nordklúbburinn var virkur að venju - við fórum á skauta, héldum kvikmyndakvöld, kynntum Norðurlöndin á þjóðahátíð og fleira. Í háskólanum varði ég heilmiklum tíma í gerð fyrirlesturs um heiltöluskiptingar með Gumma Hreiðars en námskeið um deildajöfnur og grannfræði tóku líka á. Sífellt fækkaði til dæmis í deildajöfnukúrsinum og var svo komið einn morguninn að ég mætti ein í fyrirlestur! Með Andreas sem helsta baráttufélaga í deildajöfnum tókst þetta nú samt allt á endanum.

Í mars var blásið til blokkflautuhátíðar í Hafnarfirði með samleik, vinnusmiðjum og fyrirlestrum. Í lokin léku allir saman "Á persneskum markaði" og hef ég aldrei heyrt í fleiri blokkflautum á einum tónleikum! Annars sat blokkflautunámið kannski svolítið á hakanum þetta síðasta misseri í Tónskólanum, ég tók í það minnsta ekki þátt í mörgum samleiksverkefnum en var samt dugleg í hljómfræðinni.

Við Ómar tókum að okkur kennslu í stuðningstímum fyrir nema í tölulegri greiningu. Að þessu sinni snerist vinnan um að aðstoða við forritun í Matlab og fara yfir himinháa bunka af skilaverkefnum. Ég verð að segja að mér þykir alveg rosalega gaman að kenna og er að velta því fyrir mér að taka kennslufræði í stærðfræði þegar diplómuprófinu líkur. Gæti jafnvel kennt þýsku líka!

Rétt fyrir páska barst mér bréf þess leiðis að ég hlyti styrk til náms við tækniháskólann TUBAF í Freiberg í austurhluta Þýskalands. Því fylgdi mikil pappírsvinna að þýskum sið, leit að húsnæði og fleira þess háttar.


Um páskana flaug ég til München og gægðist m.a. upp í kirkjuturna, fór á flóamarkað við Ólympíuleikvanginn og synti í rómverskri sundhöll milli þess að lesa fyrir próf. Prófatörnin var ansiþétt og snörp en allt gekk þetta upp á endanum og ríkti mikil gleði og gaman þegar prófin voru að baki eins og nærri getur! Stuttu eftir próflok flugum við þriðja árs stærð- og eðlisfræðinemar til Barcelona og settumst þar að á stúdentagörðum. Af þeim óteljandi mörgu söfnum og merku stöðum sem heimsóttir voru ber helst að nefna sædýrasafnið, hafnarkláfinn upp á Montjuïk, dýragarðinn, vísindasafnið, Míró-safnið, hjóltúr milli helstu bygginga Gaudís, gosbrunnana í hlíðum Montjuïk, Gaudí-garðinn Park Güell og Dalí-sýningu sem staðsett var tímabundið í Barcelona. Mikið "menningarfyllerí" eins og lesa má.


Þegar heim var komið tók við vinna á Vatnamælingum við skýrslu- og líkangerð. Þetta sumarið fór ég í þrjár stuttar ferðir - eina til að fljóta niður Ölfusá í flotgalla, bjarga mér og öðrum með kastlínu; aðra til að sækja Berg úr Jökulheimum svo hann kæmist í eigið brúðkaup og þá þriðju austur á land með Agli. Þar reyndi ég m.a. að veiða Lagarfljótsorminn án árangurs en við fengum gott hitasnið í staðinn svo veiðiferðin borgaði sig vel. Um mitt sumarið var ég beðin um að hjálpa svolítið með útreikninga á vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Skömmu síðar voru svo þeir sem sáu um verkefnið farnir ýmist á ráðstefnur, í endurmenntun, frí eða leyfi hér og hvar um heiminn, skilafrestur verkefnisins nálgaðist óðfluga og ég hellti mér út í hið mesta sumarvinnubrjálæði sem um getur. Síðasta mánuðinn bjó ég nánast í vinnunni enda var ég svo uppgefin þegar búið var að skila skýrslunni að ég lagðist með flensu í bólið. Hélt þó geðheilsunni og það ekki síst fyrir tilstilli góðra vina sem drógu mig í grillveislur, gáfu mér nesti og héldu vídeó- og spilakvöld hvenær sem tækifæri gafst!

Snæbjörn og Elín Lóa héldu í ævintýraferð til Suður-Ameríku fyrripart árs og því varð blokkflautukvintettinn (eins og haustið 2005) kvartett en sameinuð hittumst við um sumarið til að heyra ferðasöguna og bera á flautur. Ég fann tónlistarskóla í Freiberg en fékk aldrei svar við umsókn um blokkflautunám - kannski sem betur fer, því það er meir en nóg annað að gera! Þó lítur út fyrir að við munum spila nokkur saman einhver samleiksverk á næstu önn, krakkar úr stærðfræðinni.

Í lok júní var haldin útskrift við Háskóla Íslands og ég skundaði í Laugardalshöllina með mömmu, íklædd upphlutnum sem hún saumaði handa okkur Líneyju Höllu skömmu áður en ég útskrifaðist frá MR. Skrítin tilfinning að svo langt væri liðið síðan Menntaskólinn var kvaddur! Líney Halla var í Potsdam við mælingar og pabbi á ráðstefnu svo að athöfninni lokinni héldum við mamma í gönguferð til afa og ömmu í Sigtúni í blíðviðrinu. Síðan mætti ég alltof snemma í partý til Billa og Hlínar og fór þaðan alltof seint (miðað við auglýstan komu og brottfarartíma) því það var svo gaman.


Þótt mikið væri að gera í vinnunni reyndi ég að hjálpa svolítið til við frístundastarf fyrir krakka frá Norðurlöndum sem koma í sumarvinnu á Íslandi gegnum Nordjobb. Fór með þeim til Hveragerðis í helgarútilegu og spreytti mig við íslenskukennslu með leik og söng. Lára Rún kom til Íslands í ágúst, svolítið ringluð í íslenskunni eftir Svíþjóðardvölina. Ég dró hana með á sænskt Nordjobb-kvöld og hún fór svo í river-rafting ferð með Nordjobbkrökkunum. Íslenskan var svo auðvitað fljót að koma aftur. Líney Halla kom loks frá Potsdam og þá fórum við með henni, Sigga, pabba, mömmu og afa og ömmu í Sigtúni inn í Borgarfjörð til að ganga inn dali og upp með ám í brakandi blíðu. Lára hélt svo norður til fundar við afa og ömmu en við Líney og Siggi suður til sumarvinnunnar.

Ágúst og september liðu ógnarhratt. Yoann kom í heimsókn og við fórum í stutta ferð vestur á Snæfellsnes og um Vesturland áður en leið mín lá til Helsinki á höfuðborgarmót Norrænu félaganna. Þar lækkuðum við Alma meðalaldurinn um ein 20 ár eða svo með setu okkar á fyrirlestrum um lýðræði á Norðurlöndum. Í frítímanum gátum við skoðað okkur um í Helsinki, skroppið með Silju Nordjobbara í dagsferð til Tallin í Eistlandi og einnig fórum við með mótsgestunum til Suomenlinna (Sveaborg), í hringferð um Helsinki og til Porvoo (Borgå) til að heilsa upp á heimaslóðir Runebergs, þjóðskálds Finna.

Ekki var dvölin á Íslandi löng eftir heimkomuna frá Helsinki því degi síðar héldum við til Oslóar í Noregi með Nordklúbburum. Þangað stefndum til móts við okkur ungliðum í norrænu samstarfi frá Danmörku, Svíðþjóð og Finnlandi með það að markmiði að stofna systurklúbb Nordklúbbsins í Noregi. Við kynntum norrænar stuttmyndir og héldum vinnusmiðjur með norrænni tónlist, dansi, matargerð, hefðum og siðum. Varð úr hin skemmtilegasta helgi og ekki síður árangursrík því okkur tókst að finna lítinn og góðan kjarna af áhugasömum Norðmönnum til að mynda grunn að Nordklúbbi.


Eftir allt þetta flakk var kominn tími til að slaka svolítið á svo ég flaug norður yfir heiðar í faðm Hlyns, Kristínar, Huga, Lóu og Unu í Ásabyggð. Haustveðrið var upp á sitt besta svo við Hlynur, Kristín og Una skruppum með Skógræktarfélaginu inn í Garðárdalsreit til að skoða haustlitina og fræðast um skóginn þar og ekki voru litirnir síðri inni í Leyningshólum þegar við afi og amma fórum þangað og litum eftir berjum. Auðvitað var líka farið í gönguferð í Kjarnaskóg og svo bættust Óli og Karin í hópinn og haldið var stórt fjölskyldumatarboð heima hjá Halli, Andreu, Fönn og Dögun á Ásveginum áður en leiðin lá aftur suður.


Fyrir sunnan tók nú við lokaundirbúningur fyrir ferðina til Þýskalands. Það er ekki svo auðvelt að halda sig við 20 kg farangur við svona flutninga! Kvöldið sem öll ljós voru slökkt í Reykjavík (góð hugmynd en mislukkaðist samt vegna lítillar þátttöku fyrirtækja) hélt ég kveðjupartý og flaug svo út til Berlínar daginn eftir. Gafst þar svolítill tími til að synda í skógarvatni, trítla um miðbæinn og heilsa upp á Monsieur Vuong með Yoanni áður en lestin fór til Freiberg.

Upp hófst nú mánuður mikils skrifræðis en þó líka fullur af nýju fólki, stöðum, siðum og venjum til að kynnast. Fjarsambandi við Yoann lauk, ég hellti mér í starf félags erlendra nema, smíðaði námsáætlun og reyndi eftir fremsta megni að skilja mállýskur kennaranna fyrstu vikurnar. Nú er það ekki lengur vandamál (skil alla vega ekki mikið minna en þýsku krakkarnir) en ég vona samt að íslenskan verði ekki þýskuskotin þrátt fyrir langdvalir að heiman!

Þessa síðustu önn sótti ég líklega aðeins of mörg námskeið, svona eftir á að hyggja. Ekki gafst því mikill tími til annars en náms og að kynnast fólkinu í Freiberg en ég komst þó með í dagsferð erlendra nema til Nürnberg á aðventunni og heimsótti Dresden tvisvar sinnum. Um jólin lá leiðin til Hauks, Angeliku, Láru og Ingu í Bielefeld. Þar komum við stelpurnar hver úr sinni áttinni - Inga frá París, Lára frá Uppsölum og ég austan frá Freiberg. Gaman að hittast aftur og allar höfðum við auðvitað frá mörgu að segja!

Þessi annáll er að venju orðinn nokkru lengri en lagt var upp með og þó finnst mér svo ósköpin öll margt vanta. Held ég slái samt botninn í bréfið hér og vonandi tekst nú að senda þetta nær áramótunum á næsta ári! Ég sendi ykkur mínar bestu óskir um gæfu og gleði á þessu nýja ári 2007.

Ykkar,
Bjarnheiður