30 október 2005

Úti í Eyjum

Ráðstefna Íslenska stærðfræðafélagsins í Vestmannaeyjum var alveg geysilega skemmtileg. Við lögðum af stað í kafaldsbyl en skipsferðin var samt sem áður þægileg og ófærðin í Eyjum truflaði okkur ekki mikið. Fyrirlestrarnir voru hver öðrum áhugaverðari, Eyjamenn höfðingjar heim að sækja - aðstaða, matur og skemmtan öll hin besta. Veðurofsann lægði meira að segja. Hvað er hægt að biðja um meira? Jú, það hefði auðvitað verið ágætt að ná að lesa meiri stærðfræði, æfa á blokkflautur og skrifa greinar í áðurnefnt Gorm-blað en ég hefði nú samt ekki viljað missa af neinu í þéttskipaðri dagskránni. Þá er bara að ná upp svefni og spýta svo í lófana í fyrramálið. Takk fyrir helgina og góða nótt!

27 október 2005

Er mig að dreyma?

Eftir að hafa fram eftir hausti fengið að kynnast því hvað einkennir kennara sem ekki vinnur vinnuna sína fáum við nú afleysingakennara í þrjár vikur sem kemst nálægt því að vera uppskriftin að hinum fullkomna kennara. Ætli við höfum ekki verið um sjö villuráfandi sauðir sem mættum ennþá í hálftilgangslausa tímana hjá fastakennaranum en núna þegar fréttist af þessum nýja fyllist kennslustofan. Enda hefur hann það fram yfir fastakennarann að mæta undirbúinn, með hlutina á hreinu og fær um að útskýra allt á minnst þrjá vegu - svo eitthvað sé nefnt. Hjá hinum var oft óljóst í lok tíma hvort það sem skrifað var á töfluna þann daginn hefði yfirhöfuð verið rétt og dæmaskil voru í vægast sagt mikilli óreiðu. Nú fáum við jafnvel skýr fyrirmæli um dæmi fyrir dæmatíma og eigum von á vikulegum skiladæmaskömmtum. Vill einhver klípa mig í höndina?

23 október 2005

Af þrídeilingu

Þetta er nú meiri brjálæðishelgin! Í þessum orðum skrifuðum er ég búin að vera vakandi síðan klukkan níu í gærmorgun og mun ekkert ná að fara að sofa fyrr en kannski um klukkan tvö í dag. Afar vel heppnaður Haustfögnuður Stiguls fékk framhald á Kofanum í dansi sem varði fram eftir morgni og nú á eftir mun ég þjónusta norræna pelapólitíkusa og krakka frá klúbbum hliðstæðum Nordklúbbnum í Þjóðmenningarhúsinu. Það tekur því hreinlega ekki að fara að sofa á milli! Aðallega þarf að ljósrita, ljósmynda og hughreysta alla með tilkynningum um að Freyja sé að redda málunum. Hún er alheimsreddari Ungdommens Nordiska Råd.

Greifinginn Nikke Nältää frá Finnlandi öðlaðist líf í gær. Hann reyndi að fiska fólk til að líta við bæði á Norrænum dögum og í Lifandi bókasafni í Smáralind. Beitan var nammi, póstkort og bæklingar og það var bara nokkuð gaman að vera Nikke þrátt fyrir það að búningurinn hafi verið ofurhlýr, verslunarmiðstöðvar séu alla jafna staðir sem ég forðast, mér þyki ljótt að dæla sælgæti í börn og mér leiðist krakkar sem eru frek og dónaleg og taka þrjár lúkur þegar þeim er boðið að velja eitt.
Ástæða gamansins var sú að það sem ég var að kynna var áhugavert og mörg barnanna líka ósköp háttvís og skemmtileg.
Lifandi bókasafn er raunar meira en áhugavert - hugmyndin finnst mér hreinasta snilld. Í stuttu máli getur fólk komið og leigt "lifandi bók", fólk sem stendur fyrir einhvern þjóðfélagshóp sem algengt er að fordómar séu fyrir, spjallað við bókina í 10-15 mínútur og þannig svalað forvitni eða komist að einhverju nýju. Á bókasafninu í gær voru blind bók, samkynhneigð bók, bók einstæðs föður, bók grænmetisætu, líkkrufningakonu, múslima, innflytjanda, Japana og prests. Fyrsta bókasafn þessarar tegundar var starfrækt á Hróarskelduhátíðinni árið 2000 en þetta er víst alveg nýtt á Íslandi.

Mér tókst ekki að deila helginni fallega í þrennt eins og ég ætlaði en það er held ég allt í lagi. Næstu helgi hyggst ég nefnilega verja á Ráðstefnu íslenska stærðfræðifélagsins í Vestmannaeyjum og þessar tvær helgar samanlagðar ætti því að fást nokkuð jöfn deiling.

19 október 2005

Skólp!

Í byrjun apríl plastaði ég kjallarann á húsinu okkar með 80 fermetrum af byggingarplasti. Von var á moldvörpum af ættkvísl pípara í heimsókn. Fyrirfram var svo sem ekki vitað hvort skepnur þessar væru sóðalegar eða ekki en við skulum segja að varúðarráðstafana minna hafi reynst vera FULL þörf. Moldvörpurnar mættu tveimur vikum eftir boðaðan komutíma, grófu sér skurð gegnum kjallarann og út í bílskýlið sem er samvaxið húsinu. Sentimetersþykkt steypuleðjulag lá á plastinu eftir þá aðgerð. Holan varð fljótt að óopinberum kamri nágranna á leið heim af djamminu og gerðist meira að segja svo fræg að fá (ljótan) veggjakrotsstimpil á húsvegginn við hlið sér. Til að gera langa sögu stutta höfum við síðan komist að því að mismunur á boðuðum komutíma moldvarpanna og rauntíma eykst með veldisvísisfalli. Það er að vísu búið að fylla í skurðinn og gera holuna úti í bílskýli örlítið snyrtilegri en næsti verkþáttur sem felur í sér nýjan skólpstokk og uppfyllingu holunnar hefur heldur betur fengið að bíða. Þessu átti að ljúka í vor en síðustu fregnir frá moldvörpunum herma að öllu verði kippt í liðinn fyrir jól. Þeir nefndu samt ekkert hvaða jól svo ég er ekkert of bjartsýn!

Það vill svo til að Gunna systir pabba á eiginmann sem er laghentur með meiru. Það er honum að þakka að við þurftum þó ekki að vera án klósetts lengur en í hálft ár. Hver veit hversu lengi moldvörpurnar hefðu látið það bíða! Sá galli er þó á gjöf Njarðar að holræsisstokkurinn er opinn undir gólfinu og lyktin því ekki beint góð... Mamma reynslubolti kenndi okkur trikk frá sumarvinnuárum hennar undir Snæfelli (þar var þá illalyktandi kamar), nefnilega að kveikja á kerti til að brenna upp gösin sem berast úr neðra. Það er því rómantísk stemmning á klósettinu í kjallaranum þessa dagana. Mikið vona ég að moldvörpurnar drullist til að ljúka verkinu fyrir þessi jól - komin með æluna upp í kok af þessari rómantík og eitt er víst - næst þegar samið verður við iðnaðarmenn hér á bæ ætla ég að koma ákvæði um dagsektir frá áætluðum verklokatíma inn í samninginn.

18 október 2005

Deutschland, Deutschland...

Í síðustu viku skilaði ég Menntamálaráðuneytinu umsókn um styrk til framhaldsnáms í Þýskalandi veturinn 2006-2007. Einhvern veginn hélt ég að það væri margfalt einfaldara umsóknarferli heldur en Bandaríkjabrjálæðið en annað kom á daginn. Auk þess að fylla út fjögur eyðublöð þarf nefnilega alveg ógrynni af aukapappírum, meðmælabréfum, prófgráðum (m.a. um alþjóðleg þýskupróf), lífshlaup og ritgerð - allt í þríriti minnst og stimplað af þýska sendiráðinu til staðfestingar um kórréttar þýðingar! Skilyrðin sem meðmælendurnir þurftu að uppfylla voru líka svo ströng að ég þurfti bæði að senda neyðarkall til prófessors sem er í leyfi í Kanada og falast eftir meðmælum frá þeim kennara sem mér hefur gengið langsamlega verst hjá. Einhvern veginn reddaðist þetta á síðustu stundu og umsókninni var skilað 6 mínútum fyrir lokun. Nú er bara að bíða og sjá hvort ég þurfi að endurtaka leikinn í vor því ef styrkurinn fæst ekki þarf að sækja beint um í hvern skóla fyrir sig.

Pabbi og mamma eru byrjuð að skoða fasteignablöðin með vaxandi ákefð og áhuga. Þau tilkynntu okkur systrunum fyrir um ári síðan að þau hygðust flytja í minna húsnæði þegar við lykjum grunnnáminu í Háskólanum. Þetta þýðir pent orðað að við eigum að flytja að heiman - er það ekki snjallt hjá þeim? Ég er alla vega mjög sátt við það og væri raunar örugglega flutt nú þegar ef hinn íslenski okur-fasteignamarkaður yxi mér ekki svo í augum.

Þótt fyrirsögnin sé þýsk hef ég mest verið að vasast í dönsku, sænsku og frönsku eftir að umsókninni var skilað. Mér þykja tungumál alveg óendanlega skemmtileg. Dönskuna hélt ég að ég kynni sæmilega en undanfarna daga hef ég komist að því að hún hefur ryðgað ótrúlega mikið! Það er því gott að starfa í Nordklúbbnum í Norræna félaginu og þurfa rifja þetta upp við greinaskriftir fyrir "Gorm!", tímarit ungmennadeilda norrænufélaganna. Um næstu helgi verður einmitt allt á fullu hjá okkur við að hjálpa til á þingi UNR (Ungdomens Nordiska Råd) sem í ár er haldið hér í Reykjavík. Samhliða verða haldnir Norrænir dagar þar sem við verðum með kynningu m.a. í Smáralind. Ég þyrfti því eiginlega að geta klónað mig til að geta verið á báðum stöðum og lesið stærðfræði á sama tíma en reyni í staðinn að skipta helginni jafnt milli allra.

Gleymdi að útskýra þetta með frönskuna. Hún kemur til af því að "skiptineminn" á Vatnamælingum í sumar var franskur og hefur undanfarin kvöld látið mig fá orð dagsins til að læra. Stundum verða orðin fleiri en eitt og ég er orðin mjög áhugasamur frönskunemandi - nokkuð sem ég hefði aldrei trúað! Var alltaf eitthvað smeyk við rómönsku málin, ætlaði að byrja á portúgölsku einhvern tíma en kom því aldrei í verk. Mig langar líka mikið til að læra spænsku og rússnesku. Á degi evrópskra tungumála 26. september héldum við í Nordklúbbnum tungumálamaraþon þar sem kennd voru níu tungumál. Ég lærði grunninn í sjö þeirra og mikið var ég þreytt eftir þann daginn! Litháíska er klárlega erfiðasta mál sem ég hef kynnst...

17 október 2005

Allt fyrir fröken Linnet

Líney Halla systir mín hélt að ég væri einhvers staðar með leyniblogg í gangi og ákvað að klukka mig með áskorun um að vísa sér á hvar það væri að finna. Hún setti þó þann varnagla að skipa mér að stofna blogg ef ekkert leyniblogg væri fyrir hendi. Ég á ekkert leyniblogg. Reyndar hefur planið lengi verið að þegar ég færi út í buskann til frekara náms (fæ aldrei nóg...) myndi ég hefja vefskrif um það sem á daga mína drifi. Nú eru hins vegar svo margir sem ég þekki þegar farnir út um hvippinn og hvappinn þannig að kannski langar þá að fá fréttir að heiman, hver veit? Ég lofa samt engu um það hvort ég verð dugleg að skrifa eður ei og aðallega er þetta fyrir litlu systur gert því ég er svo óskaplega þæg stórasystir... Vessgú Líney!

Klukklisti með skrýtnum staðreyndum um sjálfa mig:

1. Þegar ég fæddist var ég gul, með kolsvart hár, dökkdökkbrún skásett augu og með pínulítil hnoðrahár um allan líkamann - með öðrum orðum eins og grænlenskt selabarn! En ég læknaðist af gulunni, hárið lýstist og augun urðu smám saman grænbrún þannig að pabbi og mamma fóru að trúa því að þetta væri raunverulega þeirra barn eftir allt saman...

2. Tónlist og hreyfing eru mér lífsnauðsyn. Fráhvarfseinkenni vegna skorts á þessu tvennu koma fram oft á dag þegar ég fer að hoppa, skoppa og söngla eða blístra og tromma eða hvaðeina annað sem ekki er við hæfi í lestrarsölum bókasafns VR-II og verð ég þá að taka lestrarpásu, þó ekki nema væri til að skokka út í féló... Það hjálpar mikið að vera í tónskóla, fara í sund og þrek og Stigulsbolta - og það finnst ekki bara mér heldur líka þeim sem búa með mér!

3. Á fótunum mínum vaxa hár eins og á öllu öðru kvenfólki í heiminum en ég tilheyri þeim (minni?)hluta sem nennir ekki að fjarlægja þau. Sé einfaldlega enga ástæðu til þess. Af þessum sökum fæ ég iðulega undarlegt augnatillit og pískur um lesbíur frá gelgjunum í sundi. Það finnst mér fyndið.

4. Matvönd get ég seint talist en ef nammivendni er til þá er ég nammivönd. Flest nammi finnst mér vont en ég borða samt alveg sumt nammi og fjölskyldunni minni finnst ég vera nammigrís (já, þetta finnst mörgum skrýtið!).

5. Ætli ég sé ofvirk? Að minnsta kosti fúnkera ég best ef ég er að vasast í grilljón helst ólíkum og alltof mörgum hlutum. Það er alveg magnað og mér gjörsamlega óskiljanlegt hvernig mér tekst undantekningalaust að hafa allt brjálað að gera. Guði sé lof að engum datt samt í hug að setja mig á Ritalin! Það er nefnilega mjög gaman að vera ég (finnst mér) og lyf myndu held ég bara eyðileggja allt saman.

Það er mjög erfitt að halda sig við fimm atriði. Ég er jú svo skrýtin... já, og svo sérstaklega þar sem ég forðast m.a. töluna fimm ef ég mögulega get! Læt því eitt eða tvö fljóta með til viðbótar:

6. Heima hjá mér var lengi vel ekki til neitt myndbandstæki og aldrei hefur verið mikið um sjónvarpsgláp hér á bæ. Í fyrsta skipti sem ég fór í bíó (American Tale) varð að fara með mig heim í hléi því ég var svo hrædd. Ég lifi mig alltaf alveg rosalega sterkt inn í það sem ég les en þessi innlifun hreinlega margfaldaðist í bíóinu! Jafnvel þegar ég var í Unglingavinnunni og fór að sjá Basketball Diaries með Jafningjafræðslunni varð ég að fara út þegar einhver byrjaði að skjóta á alla í skólastofu (ef ég man rétt) því mér varð svo óglatt. Síðan þá hefur reyndar mikið vatn runnið til sjávar, sérstaklega vann ég mikið upp þegar ég var með Magga, og núna kemst ég gegnum rosalegustu myndir. Best þykir mér að fara á kvikmyndahátíðir því utan þeirra virðist mér því miður oftast fátt um góða drætti í kvikmyndahúsunum.

7. Ég er hvorki skírð né fermd en fór samt í Sunnudagaskólann, KFUK og messur og starfaði lengi í kirkjukór. Pældi heilmikið í trúarbrögðum heimsins og ákvað loks að fermast borgaralega (þótt það sé engin ferming og allt það...) og sé sko aldeilis ekki eftir því. Á öllu kirkjubröltinu lærði ég samt líka alveg heilmikið - ég kann t.d. bæði kaþólska og lútherska messuformið út og inn og ógrynni af sálmum og bænum. Og ekki er ég trúlaus - alveg síðan ég var á Barnaheimilinu Ósi og fór í heimsókn á Slökkvistöðina hefur efahyggjumanneskjan ég nefnilega beðið bænir á næstum hverju kvöldi! Ástæðan er sú mig dreymdi martraðir eftir að hafa séð myndband á Slökkvistöðinni um Andrés Önd sem slökkviliðsmann og samdi því langar romsur til að biðja guð um að passa alla þá sem mér þótti vænt um. Listinn var orðinn svo langur að ég sofnaði oftast áður en hann kláraðist (og hann endaði á "öllum hinum", svona til að enginn yrði útundan). Þar sem ég er frekar vanaföst tók það nokkurn tíma að skera niður listann og breyta bænunum. Í dag eru þær allt öðru vísi og guð raunar líka, en það er önnur saga...

Ég klukka þá félaga Silly the guide, Grétar síðastalagfyrirfréttirfélaga, nafna hans Amazeen, Jóa (Stiguls)útherja, Hlyn þrekstrák og Huga í Ásabyggð en þar sem þeir eru ekki með blogg eiga þeir bara að segja mér skondnar staðreyndir um sjálfa sig næst þegar ég hitti þá.