27 nóvember 2005

Gillígillígillííí

Að vísu er ég ekki mjög kitlin en einhverjum datt í hug að útbúa nýjan bloggklukkleik að nafni bloggkitlleikur og Valla kitlaði mig alla leið frá fílanna Delfí. Mér finnst gaman að telja upp svona atriði og reyna svo að berjast við fullkomnunaráráttuna í sjálfri mér (maður gleymir jú alltaf einhverju og þá er erfitt að breyta því ekki eftir á!) þannig að taddara...

Áður en ég dey ætla ég að...
  • ferðast út um allt - Ísland og heiminn
  • læra a.m.k. rússnesku, spænsku, frönsku og finnsku
  • skrifa einhvers konar bók
  • "pikka upp" allar bestu uppskriftirnar hans pabba
  • stökkva yfir sauðalegg
  • ná því að gera handahlaup
  • verða kerfisstjórafær í Unix/Linux
...eða ég mun a.m.k. gera mitt besta til að ljúka þessu af áður en kýr fellur af himnum ofan á mig.
Ég get...
  • reist horgemling
  • farið í brókina hans Skíða
  • mjólkað kú
  • vaskað saltfisk og sungið síðasta lag fyrir fréttir í leiðinni
  • skrifað með bæði vinstri og hægri hendi
  • vaðið straumhörð jökulfljót í lekum vöðlum
  • ekið slóðann inn í Fremstaver og fleiri torfærur nærri Kili
...og ýmislegt fleira skal ég ykkur segja!
Ég get ekki...
  • liðið ranglæti og ósanngirni
  • borið 100 kg mælingalóð ein
  • skipt um bjórkút á dælu
  • spilað hljómaraðirnar mínar á píanó
  • farið nákvæmlega eftir uppskriftum
  • setið fallega í sætinu mínu í skólanum
  • verið lengi kyrr eða þagað lengi í einu
...en ég stefni nú samt að því að læra bjórkútstrikkið.
Strákar heilla mig með því að...
  • sleppa sér í dansi
  • gera eitthvað klikkað, skondið og skemmtilegt
  • vera gegnheilir
  • það sé ekki pínlegt að þegja með þeim
  • nenna í göngur, ævintýri og aksjón
  • sýna ábyrgð og virðingu
  • hafa kynþokka og persónutöfra
...svona meðal annars.
Mig langar til...
  • Eistlands
  • Indlands
  • Ungverjalands
  • Austurríkis
  • Frakklands
  • Króatíu
  • Kanada
...æji og bara alltof margra landa!
Það kemur ósjaldan fyrir að ég segi...
  • Datt!
  • Hananú...
  • Ha?
  • Jibbí!
  • Heyrðu...
  • ...ekkert smá...
  • Hey, snilld!
...og þá er ég ekki að tala um þurrkað gras...
Núna sé ég...
  • orðabækur
  • gleraugu
  • veðhlaupara
  • kort af Svíþjóð
  • basískt hraun
  • kínalampa
  • blokkflautur
...og fleiri furðuhluti hér í herberginu mínu.

Haha! Búin!!! Ég ætla að kitla einhverja sjö í bókstaflegum skilningi (þeir mega alveg bloggkitla ef þeir vilja) en læt ekki uppi hverjir það eru því það á að koma á óvart

22 nóvember 2005

Svei mér þá alla mína daga...

Ég held að mér skjöplist ekki þegar ég skrifa að ég hafi aldrei á minni lífsfæddri ævi lent í jafnfáránlegum aðstæðum í kennslustund og einmitt í dag. Það má segja að ég hafi verið í prófi því fyrirlesturinn sem ég hélt á að gilda ein 50% af lokaeinkunn í námskeiði í þýsku. Fjalla átti um fyrirtæki sem við gætum hugsað okkur að starfa hjá og ég sagði frá Vatnamælingum Orkustofnunar.
Þar sem ég vissi að áheyrendur væru flestir lítt stærðfræðilega þenkjandi reyndi ég að útskýra allt mjög vel og virtust flestir bara skilja nokkuð vel - jah - nema kennarinn. Hann átti eitthvað erfitt með að einbeita sér og smátt og smátt færðist glott yfir andlitið sem endaði í hæðnislegum "heldur hún að við skiljum þetta?!"-hlátri um miðbik fyrirlestursins. Ég spurði hvort eitthvað væri óljóst en hann sagði mér bara að halda áfram, sem ég og gerði. Að fyrirlestrinum hófst greining á öllum atriðum sem betur hefðu mátt fara og fyrstu athugasemdinni beindi kennarinn út í bekk: "Já, þetta var nú svolítið fræðilegur fyrirlestur, ha? Ég meina, skildi þetta einhver?"
Það urðu allir frekar hvumsa og sögðust bara hafa skilið þetta ágætlega. Þetta voru greinilega ekki þau viðbrögð sem hann hafði búist við en einhvern veginn tókst honum að skauta fram hjá því. Að lokinni greiningunni var síðan hafist handa við að ræða næsta efni námskeiðisins - "þvermenningarleg samskipti". Í þessum umræðum komst kennarinn á mikið flug í einleik um steríótýpur af hinum ýmsu þjóðernum og skrifaði á töfluna eftirfarandi fjögur atriði sem væru mikilvægust í mannlegum samskiptum:
  1. Umburðarlyndi/fordómaleysi
  2. Sveigjanleiki
  3. Vilji til að sýna (þvermenningarlegan) skilning
  4. Virðing (m.a. hlusta á, reyna að skilja og virða skoðanir annarra)
Þetta fernt er ég alveg tilbúin að skrifa undir.

Kennarinn gaf okkur síðan það ráð að rétta aldrei löngutöng framan í lögregluþjóna í Þýskalandi, það gæti kostað okkur 2500 Evrur og allnokkur vandræði. Eftir tímann ákvað ég að gefa honum ráð um hvernig þykir viðeigandi að haga sér á Íslandi og benti honum því góðlátlega á að á Íslandi þætti það ókurteisi að hlæja hæðnislega að fyrirlesara í miðjum fyrirlestri.

Eftir smá hik svaraði hann að það þætti raunar líka ókurteist í Þýskalandi - EN - það væri þó alltaf einn sem mætti hlæja hvenær sem væri, hvort ég vissi ekki hver það væri? Ég sagðist nú ekki halda að nokkrum leyfðist það þótt mig grunaði hvert svar hans yrði: Kennarinn! Jú, kennarinn má alltaf hlæja, sagði hann. Nújæja, sagði ég. Þannig er það ekki á Íslandi. Hér er að sjálfsögðu ætlast til þess að nemendur sýni kennurum sínum virðingu en það er þá líka ætlast til þess á móti af kennurunum, að þeir sýni nemendum sínum virðingu. Klykkti síðan út með því að mér virtist sem hann hefði ekki farið allskostar eftir því.

Gleymdi víst að taka fram að kennarinn í þessu námskeiði er þýskur (þetta er ekki mynd af honum), hefur dvalið lengi í Bandaríkjunum við kennslu og er hér sem gestakennari þetta misserið. Hann hefur sagt okkur að í Þýskalandi þyki ekki annað viðeigandi en að háskólakennurar klæðist jakkafötum, drögtum eða öðrum formlegum klæðnaði og vitaskuld þérist nemendur og kennarar - allt til að sýna virðingu. Ég hef komist að því að þessi "virðing" er því miður oft fátt annað en umbúðirnar, þýskir háskólakennarar líta margir frekar stórt á sig og bak við kurteisishjalið dylst allt að því fyrirlitning á nemendum. Nú skrifaði ég margir, ekki allir, enda hef ég líka haft mjög góða þýska kennara og raunar fleiri góða en slæma ef út í það er farið. Mikið er ég samt kát og glöð að meirihluti háskólakennara hér eru ekkert að spá í formlegan klæðnað og álíta sig almennt ekki standa skör hærra en við nemendurnir!

19 nóvember 2005

Dansiðandi

Þegar ég heyri Balkan-brasstónlist eða hressileg Klezmer-lög fara fæturnir á ið og mig grípur óstjórnleg löngun til að dansa. Það eru til þjóðdansar við flest laganna og ég hef séð suma þeirra en mig langar samt ekkert að læra þá til fullnustu, finnst allt í lagi að spinna út frá sporunum en dansmynstrin sjálf einhvern veginn svo heftandi.


Rússíbanar léku oft bræðing af klassískri, grískri og jiddískri tónlist en það voru samt kvikmyndir eftir Emir Kusturica með austur-evrópskri brasstónlist Goran Bregović sem kveiktu leitarneistann í mér. Þegar farið var að leita reyndist af yfrið nógu að taka - Koçani Orchestar, Karandila Orchestra, Fanfare Ciocarlia, Boban Markovic Orkestar, Frank London Klezmer's All Stars...


Síðan þá hefur líka bæst í hóp íslenskra/hálfíslenskra sveita - Schpilkas spinnur kringum jiddísk þjóðlög og Stórsveit Nix Noltes búlgörsk þjóðlög með áhrifum frá allri súpunni - grískri, jiddískri og austur-evrópskri hefð.


Þegar þessar sveitir spila dansa ég af mér lappirnar og héldi hugsanlega áfram fram í rauðan dauðann ef ekki væru takmörk fyrir hversu lengi hljóðfæraleikararnir halda út. Mæli eindregið með þessu!

13 nóvember 2005

Þetta er augljóst!

Á morgun mun afleysingakennarinn sem ég dásamaði um daginn halda sinn síðasta fyrirlestur. Í tilefni af því eigum við að skila ellefu dæmaúrlausnum úr hans hluta af námsefninu. Mér sem fannst ég skilja allt svo vel í tímunum er nú hætt að lítast á blikuna. Hef komist að því eftir mikinn lestur og margar atlögur að dæmapúkunum að allt sem virtist svo augljóst er það alls ekki og einungis tæp fimm dæmi liggja í valnum eftir helgina.



Á íslenskan máta mun þetta þó örugglega reddast einhvern veginn kringum miðnætti annað kvöld. Vonandi. Eiginlega er ég ekkert ægilega hrædd við þetta - virtist alveg vera að komast á skrið í dag. Það er eins og með fjöllin sem virðast svo há: gangan hefst, auðvitað koma erfiðir kaflar en þá er víst bara að taka Pollýönnu og aðra ofurjákvæðni á þetta, spýta í lófana og spjalla við göngufélagana. Án þeirra kæmist maður víst ekki langt. Útsýnið á hverjum stað gerir þetta líka alveg þess virði, því megið þið trúa!

08 nóvember 2005

Buore eahket

Í kvöld lærði ég sitthvað um samíska menningu og oggupons í tungumálinu (buore eahket þýðir góða kvöldið). Það minnti mig á ævintýralegt ferðalag fjölskyldunnar um Danmörku, Svíþjóð, Finnland og Noreg árið 1991. Það var í fyrsta sinn sem við Líney Halla fórum til útlanda. Afi, amma, mamma, pabbi og við Líney lögðum heila 5500 km að baki á tveimur vikum í húsbíl bræðra hennar mömmu. Auk þess að heimsækja Línu Langsokk, Nilla litla Holgersson, elgi, broddgelti og alla sænsku búálfana kíktum við á heimaslóðir Lappa, eða Sama eins og þeir vilja láta kalla sig núna.


Óli bróðir mömmu býr í Kiruna í Lapplandi í Norður-Svíþjóð og konan hans á ættingja í Karesuando, nyrsta bæ Lapplands. Við heimsóttum þá og þeir voru með Lappatjald í garðinum hjá sér með "rúmum" úr birkihríslum með hreindýrsskinnum. Afar þægilegt ef ekki hefði verið blómsturtími myggen (moskítóflugur) - ég endaði alla vega á að sofa inni í húsbíl til að verða ekki étin lifandi. Man að við krakkarnir fórum út í frisbí og ekki sást í okkur fyrir svörtum flugnaskýjum. Við lékum okkur lengi fram eftir og ég heyrði eitthvað illa þegar mamma vildi fá okkur í háttinn. Annað eyrað mitt reyndist vera þakið storknuðu blóði eftir allar stungurnar og því ekki nema von að ég heyrði lítið!

Skrýtið að læra nú í kvöld að að Samar í Noregi hafi verið píndir til að tala norsku og "gleyma" eigin menningu allt frá lokum 19. aldar og fram undir 1970 og það sem meira er að samíska hafi ekki verið viðurkennt sem opinbert tungumál Sama í Noregi fyrr en árið 1992 og lög um kennslu samísku í grunnskólum Sama samþykkt fyrst árið 1997 - allt þetta eftir mikla baráttu! Ástandið var víst svipað í Finnlandi en aðeins skárra í Svíþjóð samkvæmt samasíðu þeirra. Jah svei mér þá...

06 nóvember 2005

Áfallahjálp

Nokkrir lesenda eru víst hrjáðir af sjúkdómnum yfirþyrmae langus bloggicus og liggja þungt haldnir eftir að hafa litið færslur hér á síðunni augum. Mér datt þá fyrst í hug að gera hreinlega stuttan útdrátt í lok langra pistla. Til að gefa forsmekk af þessu gæti skeytastíll síðustu færslu litið svona út:

Blokkflautur eru líka hljóðfæri. Samspil er skemmtilegt.

En úff! Þetta er leiðinlegt!!! Slæm hugmynd...

Næst datt mér í hug að benda á ævintýri Ásu í CERN sem skemmtilega sjokkþerapíu til að sigrast á sjúkdómnum. Raunar myndu margir lesenda þá slá tvær flugur í einu höggi því eðlifræðifóbía hreint og beint hlýtur að hverfa hverjum þeim sem les um æsispennandi kjarneðlisfræðitilraunir!

Ekki sem verst. Til öryggis býð ég þó upp á sígilda áfallahjálp: Don't panic!

02 nóvember 2005

Bassinn kominn og get ekki beðið

Eftir blástur í brotið klarinett og beyglaðan trompet með Lúðrasveit Laugarnesskóla ákvað ég að fara aftur á byrjunarreit og læra meira á blokkflautu. Mér var skjótt komið í skilning um að það héti sko að læra á blokkflautuR, í fleirtölu sumsé, enda um heila fjölskyldu að ræða. Það er mjög skondið þegar fólk spyr áhugasamt "Nú, ertu að læra á hljóðfæri?" og veit svo ekki alveg hvað segja skuli þegar ég svara að já, ég sé sko að læra á blokkflautur. "Jaaaá..." segir fólkið, svona svipað já og maður fær við það að segjast vera að læra stærðfræði í háskólanum en þó ekki eins - bak við augun sjást hugsanir fljúga: "Jiminn, greyið, hún hefur bara ekki náð þessu í forskólanum!". En seiseinei, skólaflauta er nú ekki það sama og blokkflautur, það getið þið bókað!

Tónskólinn minn (eða öllu heldur hans Sigursveins) ákvað í fyrra að gerast svo elskulegur og fjárfesta í endurreisnarblokkflautum ef við myndum sjá um pantanir sjálf og nú eftir mikla vinnu er bassinn kominn til landsins - bara eftir að fá hann út úr tollinum. Ég hlakka svooo til! Er jú búin að starfa í kvintett í fimm ár við að spila m.a. endurreisnartónlist en alltaf bara með barokkflautum. Auðvitað spilum við líka barokktónlist og nútímatónlist og hún hefur þá hljómað eins og hún á að hljóma - en núna fyrst verður hægt að leika endurreisnartónlistina með réttum hljómi. Munurinn er sá að endurreisnarflauturnar eru kónískar (keilulaga) en barokk sílíndrískar (sívalningslaga), holari og "opnari" tónn í þessum keilum. Sópran, alt og tenórar koma svo vonandi til landsins fyrir jól.

Núna er ég annars að æfa verk með gítar. Prófaði það í fyrsta skipti í fyrra og það kom svo vel út að það rataði í miðstigsprófið mitt. Hafði nú bara spilað í kvintett og svo með píanóundirleik allt fram að síðasta vetri en þá prófaði ég bæði að spila með heilli barokkhljómsveit og svo dúetta-samspil með sellói, fiðlu og áðurnefndum gítar. Fúlt að hafa ekki opnað augun fyrir svona samspili fyrr. Vonandi splæsir Tónskólinn síðan í sembal líka og þá getur sko fjörið byrjað í barokkinu!