27 janúar 2008

Fiskiveisla

Á bóndadaginn var mér boðið í fiskiveislu. Jens kokkaði dýrindiskvöldverð og hafði okkur Anne og Grit sem hjálparkokka. Það er skammarlegt er frá því að segja (sérstaklega þar sem þau voru ófá kódakmómentin þetta kvöldið) að myndavélin gleymdist heima...

Krumpukálið "Wirsing"

Í forrétt var þorskur sem Jens veiddi sjálfur í Eystrasalti með fenniku og dill-dijonsinneps-sósu. Aðalrétturinn var síðan skarkoli með hvítlaukssteiktu krumpukáli (hef ekki hugmynd um hvað það heitir á íslensku), blaðlauksrjómasósu og kryddjurta-kartöflustöppu. Er hægt að hafa það betra?

Norskar lefsur

Anne fór til Noregs til að heimsækja vinkonu sína í Þrándheimi í haust og hafði tekið með sér geitaost og Vestlands-lefsur. Lefsunum gæddum við okkur á í eftirrétt með kanilsykursmjöri, hindberjasultu og rjóma. Hátíðarmáltíðin endaði síðan á grófan hátt með kæstum hákarli, brennivíni og sögum af matarsiðum Íslendinga á Þorra. Stelpunum fannst sagan af bændum sem hlypu kringum hús sín á nærbrókum einum fata á bóndadaginn ákaflega sniðug en Jens fékkst samt ómögulega til að reyna þann sið - hann sagðist ekki vera neinn íslenskur bóndi og við gátum ekki annað en samþykkt það.

Þessa dagana er annars heldur lítið að frétta. Próflestur hafinn og alls konar reddingar vegna vinnusmiðju sem við erum að skipuleggja fyrir sumarið. Segi betur frá því seinna.

Að lokum er hérna leikur sem Valla endurvakti fyrir jólin:

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og…
1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig
4. Ég segi þér eitthvað sem meikar bara sens fyrir mig og þig
5. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér
6. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á
7. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef lengi velt fyrir mér um þig
8. Ef þú lest þetta þá verðuru að setja þetta á bloggið þitt…

En ég tek það fram að ég er ósammála atriði 8, finnst það ætti að vera valfrjálst, auk þess sem ekki eru nú allir með blogg...

06 janúar 2008

Ársyfirlit fyrir vini og ættingja

Elsku vinir!

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt gamalt og gott! Ég vona að þið hafið náð að hvíla ykkur svolítið yfir hátíðarnar, borðað góðan mat og haft það gott með góðu fólki.

Eins og um önnur áramót hingað til lít ég til baka og hugsa með sjálfri mér að þetta geti nú varla verið satt - enn á ný hafi árið þar á undan verið toppað í viðburðaríkuleika. Þetta árið bætti ég Tékklandi í safn landa sem ég hef heimsótt - Prag, París, Leipzig og Dessau í hóp borga og hinum ýmsu bæjum og merkum stöðum í Þýskalandi voru sömuleiðis gerð góð skil. Hvernig ég finn tíma fyrir flakkið og í raun allt það sem ég tek mér fyrir hendur er mér hulin ráðgáta og stundum verður það satt best að segja aðeins of mikið... en hefjum nú stiklið yfir steinana:

Lára á jólunum 2006 í Bielefeld

Í byrjun ársins 2007 rúllaði ég með lestum austur til Freiberg eftir hátíðarnar en þeim varði ég í Bielefeld í góðu yfirlæti hjá Hauki, Angeliku, Láru og Ingu. Það var mjög skemmtilegt að hitta þær frænkur mínar og skiptast á sögum frá París, Uppsölum og Freiberg. Heima á stúdentagörðunum tók við mikil lærdómstörn fyrir prófin í febrúar og í öllum þeim hamagangi fór svolítil heimþrá að kræla á sér. Endaði með því að ég fékk flensu í miðjum prófum í febrúar og flaug heim á Laugalækinn til að safna kröftum fyrir þau próf sem eftir voru.

Sushigerð með Hlyni, Kristínu og Unu í Reykjavík í febrúar

Eftir góða dvöl á Fróni heilsaði ég upp á hana Ölmu í Kóngsins Kaupinhafn. Þar voru mótmæli við úngdómshúsið í fullum gangi með þyrlum og óeirðalögreglu en við tókum lífinu að vanda með ró og lögðum okkur reglulega, börðum saman húsgögn með Oliver, Skipper og Lárusi, skoðuðum flóamarkað, spásseruðum með Margit vinkonu okkar um listsýningarsali og milli trjáa og lögðum okkur svo bara meira, orðnar þreyttar löngu á undan henni Margit - enda er hún heldri dama en við Alma enn soddan unglömb.

Við Margit og Alma á sýningu á verkum Ólafs Elíassonar og Kjarvals

Smátt og smátt gekk betur að taka munnleg próf í stærðfræði á þýsku, sumt gekk meira að segja glimrandi vel og til að halda upp á próflokin fór ég með Matta í páskareisu til Prag í Tékklandi. Við gengum þar af okkur lappirnar við að njóta lysti-, almennings- og dýragarða, byggingarlistar og menningar við bakka Moldár. Það var hress og kát Bjarnheiður sem hóf sumarönn í Freiberg með nýjar hugmyndir til að hrinda í framkvæmd. Mér hafði nefnilega sitthvað leiðst aukafagið mitt og í raun misskilningur sem olli því að ég valdi það - hélt í einfeldni minni að samskiptatækni hefði eitthvað með mannleg samskipti að gera en það reyndist snúast um samskipti tölva einvörðungu!

Páskar í Prag

Ekki dugir að sitja aðgerðarlaus ef manni líkar ekki námsfagið svo ég ræddi við prófessora, grúskaði, fékk ráð, settist niður við púsl á kúrsum og smíðaði mér aukafag að nafni landupplýsinga- og fjarkönnunarfræði (tengist m.a. landfræði, tölvunarfræði, jarðvísindum og gervihnattamyndum). Skilst mér að enginn hafi haft þetta sem aukafag með hagnýtri stærðfræði í Freiberg áður. Þetta reyndist svona líka skemmtilegt og þrátt fyrir geysimarga kúrsa sem jafnvel stönguðust hver á annan þveran í stundaskránni hef ég sjaldan upplifað jafnskemmtilega námsönn.

Gömlu námubyggingarnar yfir Reiche Zeche reyndust hýsa fjarkönnunarfræði og fleira

Meðfram námsönnum æfði ég badminton og sund, tók að mér sænskukennslu fyrir nokkra skólafélaga mína og gekk til liðs við verkefni að nafni ISIS sem snýst um að alþjóðanemar mæti og kynni landið sitt í leik-, grunn- og framhaldsskólum og fyrir eldri borgara í nágrenni Freiberg. Hefur margt þýðverskt barnið verið hrellt með víkinga- og jólasveinasögum af mínum völdum og borinn í það harðfiskur og fleiri ágætisafurðir íslenskar. Ekki dugir samt að mala bara um landið sitt - ég reyndi líka að vera duglegri við að ferðast um nágrenni Freiberg; fór með nokkrum nemum í landupplýsingafræði í gönguferð um Saxelfursandsteinsfjallgarðinn, villtist á kajaksiglingu um skurðina í Spreewald með félagi alþjóðanema og skoðaði líka veiðikastala, sumarhöll og fleiri fyrrum íverustaði furstans af Saxlandi hér og hvar um sveitir og bæi í fylgd Matta.

Grunnskólabörn læra að reisa horgemling
(reyndar hafa þau flest ranga handstöðu á þessari mynd...)

Gönguferð á sólardegi með ótrúlegu útsýni

Á kajak í Spreewald með Vaso frá Grikklandi

Moritzburg, veiðihöll furstans af Saxlandi

Líney Halla flaug til sumarvinnu í Potsdam eins og sumarið þar á undan og auðvitað dugði ekki annað en að heimsækja afmælisgjöfina hana systur mína. Hún hafði meira að segja flutt með sér hákarl, brennivín, harðfisk og lakkrís og pantað sérdeilis prýðilegt veður með smá þrumuveðri inn á milli langra sólarkafla. Við héldum í menningarreisu um Potsdam með alþjóðanemum sem komu með rútu frá Freiberg einn dagpart og rifjuðum upp takta frá sumrinu 2001 við að tala þýsku hvor við aðra en að sjálfsögðu töluðum við íslensku þess utan (þ.e.a.s ég talaði og Líney komst stundum að) og skelltum okkur að lokum til Berlínar í grillpartý sendiherrans á þjóðhátíðardaginn með Hlyni, Kristínu, Huga, Lóu og Unu.

Bestasta og sterkasta systir í heimi!!!

Meðal æðimargra stórra skólaverkefna á sumarönn var að halda samæfingafyrirlestra í þremur greinum - strjálli stærðfræði, tölulegri greiningu og jarðvöktun. Það gekk bara bærilega og kannski var einmitt ágæt æfing fólgin í því að halda alla Íslands-fyrirlestrana fyrir grunnskólabörnin inn á milli. Mitt í suðupotti fyrirlestra bjó ég til smá rúm fyrir helgarferð til Parísar og fékk þar heldur betur góðar móttökur hjá Ingu. Við skiljum held ég hvorug hvernig við fórum að því að komast yfir allt sem við sáum þennan stutta tíma, sérstaklega af því að við röltum bara í rólegheitunum án þess að hafa fyrir fram mótað plan! Yoann kom með lest frá Lille til að túristast svolítið með okkur einn daginn og þar sem þetta var síðasta helgin hennar Ingu í París kom svo Haukur frændi akandi frá Bielefeld til að sækja hana, bjóða okkur frænkunum út að borða ekta franskan sveitamat, kíkja í Pompidou og fleira.

Með Ingu í París

Helgina eftir þessa heimsborgarreisu hittust DAAD námsstyrkþegar hvaðanæva að úr heiminum í Magdeburg til að spjalla saman, hlýða á fyrirlestra og skoða sig um. Það er alveg einstök tilfinning að vera ein af tæplega sjöhundruð manns frá 95 löndum (hreinlega ekki hægt að lýsa því) og alltaf kemst ég betur og betur að því hvað við erum heppin að fæðast á Íslandi, vera frjáls að því að ferðast milli landa og fleira sem of langt væri að telja upp.

Hundertwasserhaus í Magdeburg

Skólaárið í Þýskalandi er ekki skipulagt með tilliti til sumarvinnu. Það eru fyrirlestrar, próf, upplestur, próf, fyrirlestrar, próf, upplestur, próf, fyrirlestrar... í stöðugri endurtekningarlykkju en mér tókst nú samt einhvern veginn að púsla saman heilum mánuði til að heimsækja Ísland í lok sumars. Hann var þjóðnýttur í að hitta vini og ættingja og ferðast svolítið. Á leiðinni heim kom ég líka við einn eftirmiðdag í Kaupmannahöfn, hitti Jónas Indlandsfara og Ölmu og stútaði með þeim gómsætum japönskum ormum.

Laugarnes í júlí 2007

Íslandsdvölin byrjaði með leikjum og endurfundapartýi í tilefni af 5 ára stúdentsafmæli frá MR. Helgina þar á eftir var eftirminnilegt brúðkaup Heiðdísar og Ella sem hófst á hláturskasti og endaði á dansi fram á rauða nótt. Ásdís stóð fyrir hinni stórgóðu verslunarmannahelgarhátíð "Húsafell 2007". Hátíðin var með alþjóðlegu sniði (Þjóðverjar, Ítali og Frakki litu í heimsókn), heitapottshræringum og draugaþema.

Brúðhjónin hamingjusömu - Heiðdís og Elli


Við Hraunfossa með Ásdísi, Rástu, Völlu og Freyju

Fyrir og eftir verslunarmannahelgina komst allt í einu skriður á sölu Laugalækjar 3 (húsið var sett á söluskrá á vordögum) og pabbi og mamma fóru ekki langt yfir skammt heldur fundu sér ný húsakynni í rúmlega 100 metra fjarlægð á Laugarnesvegi 87. Það voru því haldin ófá matarboðin um sumarið til að nýta plássið og kveðja húsið, auk þess sem restinni af mánuðinum var að miklu leyti varið uppi á háalofti og ofan í pappakössum. Þó gafst tækifæri til að fljúga til Akureyrar og heilsa upp á afa og ömmu, Hlyn og fjölskyldu og kveðja Hall, Andreu, Fönn og Dögun sem voru á leið til Kanada. Hallur Heiðar dreif okkur afa og ömmu í ferðalag um Húsavík, Tjörnes, Ásbyrgi, Ástjörn, Ærlæk og Goðafoss. Sérstaklega var gaman að heyra sögurnar hjá afa hans Sigga á Ærlæk. Við amma skutumst líka í Vaglaskóg og Bárðardal meðan á Akureyrardvölinni stóð og auðvitað synti ég heilmikið í sundlauginni góðu og tók þátt í sundleikfiminni hennar ömmu stöku sinnum.


Birte, Matthías, Bjarki og Baldur við flutninga milli Laugalækjar og Laugarnesvegar

Afi og Hallur Heiðar við Goðafoss í ágúst

Heima í Reykjavík biðu ekki einungis pappakassar heldur þurfti ég að vinna skólaverkefni að auki en þó var stöku sinnum tekið frí frá lærdómi - til dæmis dag einn í góðu veðri þegar lagt var upp í göngu yfir Fimmvörðuháls með Vöku og Sveinborgu. Á menningarnæturdaginn var líka ástæða til að líta upp úr bókunum þegar Pit og Canne frá Þýskalandi og Jano og Milka frá Slóvakíu komu í heimsókn. Þá var Laugalækurinn þegar kominn í óreiðu flutninga, Milka fann gamla rússneska barnabók í einni hrúgunni og las upphátt fyrir hin (heimsmenningin kom til okkar frekar en við til hennar að þessu sinni) uns þau héldu í bæinn til að spila og syngja af fingrum fram en við dekkuðum borð fyrir Jens og Anders frá Danmörku sem komu í kvöldmat. Náði samt að sjá flugeldasýninguna og hella mér í mannhafið í bænum með Dönunum eftir matinn.

Á Fimmvörðuhálsi í sumar

Vikuna fram að brottför kláraði ég skilaverkefni, pakkaði herberginu mínu gula og græna niður í kassa og fór sem stormsveipur um háaloftið í minningaþeytivindu allt aftur til áranna á Barnaheimilisinu Ósi. Úti í Berlín beið mín síðan sambandsuppgjör, hið þriðja frá fæðingu. Mikið óskaplega geta þessi strákamál verið flókin... nema ég sé bara svona flókin?

Úr herberginu mínu á Laugalæk 3 áður en allt fór ofan í kassa

Þegar leið á sumarið hóf ég smátt og smátt leit að viðfangsefni fyrir lokaverkefni. Byrjaði á að spyrjast fyrir hjá stærðfræðiprófessorum í Freiberg en kannaði líka hugsanlegt samstarf við HÍ og Vatnamælingar. Leitin endaði í Freiberg hjá prófessornum í fjarkönnunarfræði sem fékk doktorsnemann sinn til að koma með tillögur að verkefnum. Ekki einasta voru verkefnatillögurnar margar og spennandi heldur fann ég þarna mjög skapandi og áhugasaman hóp af nemum sem vinnur stærðfræðitengd verkefni í fjarkönnun og jarðvísindum. Vinnan við verkefnið mitt hefst líklegast í mars á þessu ári og ætti að ljúka í ágúst eða í síðasta lagi í október. Það snýst um vægisóbreytur (moment invariants) og beitingu þeirra í hlutbundinni greiningu gervihnattamynda.

Hluti af lokaverkefnahópnum: Clemens, Christian, Prashanth, ég og Irmie

Hér að ofan minntist ég á vinnu. Ég hóf nefnilega starf hjá IUZ, alþjóðaskrifstofu háskólans míns í Freiberg, strax eftir að prófunum lauk og vann þar út desembermánuð. Það hefur verið mjög líflegt og skemmtilegt en kannski stundum aðeins of mikið álag meðfram náminu. Einnig tók ég að mér setu í nefnd um hagsmuni alþjóðanema við háskólann og kynntist þar prófessor sem unnið hafði einhvern tíma fyrir DAAD, þýsku alþjóðanámsskiptastofnunina sem veitti mér styrk í fyrra. Þessi ágæti prófessor uppgötvaði að ég ætti rétt á að sækja um framhaldsstyrk hjá DAAD fyrir 10 mánuði til viðbótar en fyrir mistök hafði mér ekki verið greint frá því í haust eftir að styrktímanum lauk. Ein helgi var því undirlögð í skýrsluskrif og eyðublaðaútfyllingar fyrir umsóknina og skilaði hún sér í tilkynningu um styrkveitingu þann 19. desember - mætti með sanni kalla það jólagjöf ársins.

Meðal hundruða DAAD styrkþega í Magdeburg í júlí

Áður en vetrarönnin byrjaði í október fór ég til Leipzig ein míns liðs og síðar með hópi af alþjóðanemum til að skoða borgina og kíkja á söfn og tónleika. Í fyrri ferðinni fékk ég leiðsögn um borð í gamalli rútu og nýtti þann fróðleik svo við að lóðsa hina um í seinni ferðinni. Ekki sá ég þó eingöngu um leiðsögn í Leipzig heldur ákvað ég, þar sem ég var komin með reynslu af þýsku skrifræði og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í Freiberg, að gerast mentor, þ.e. taka að mér nýkominn erlendan nema og hjálpa honum að fóta sig fyrstu dagana. Þeim nema sem mér var úthlutað, Błażej frá Póllandi, fylgdu svo vinir og kunningjar og þeir eru orðnir ansimargir sem ég hef hjálpað þessa önnina - hef held ég bara ekki tölu á þeim lengur - enda þakklátt og skemmtilegt starf við að bjarga málunum.

Leipzig í lok september

Í byrjun annarinnar fór Drífa til Berlínar og tók með sér kassa frá Líneyju Höllu, fullan af íslensku góðgæti fyrir Íslandskynningu sem haldin var fyrir fullu húsi. Þangað kom Pit meira að segja hjólandi frá Dresden og daginn eftir kom Bene í heimsókn en hann hafði ég ekki séð síðan í Reykjavík í ársbyrjun 2004 þegar hann mætti á þýskt Stammtisch í Alþjóðahúsinu og sagði mér frá litlum bæ í Þýskalandi að nafni Freiberg...

Íslandskvöld

Obermarkt í Freiberg

Ótalmargt fleira gerðist fyrstu skólavikurnar. Bæjarstýra Freiberg leyfði okkur alþjóðanemum að gægjast niður í gömlu dýflissurnar undir ráðhúsinu og fara á bak ljónunum við ráðhússgosbrunninn, stúdentaráð bauð upp á svaðilför í IKEA, starfið með félagi alþjóðanema (AKAS) komst á skrið eftir að hafa legið í dvala í prófatímanum, ég fékk nýja og betri þjálfara bæði í sundi og badminton, sænskukennslan lagði smátt og smátt upp laupana vegna óstundvísi nemenda en þess í stað hóf ég að bjóða upp á íslenskutíma einu sinni í viku og svo varð herbergið mitt á stúdentagörðunum á einhvern óskiljanlegan hátt að miðstöð sálfræðiþjónustu fyrir vini og kunningja sem þurftu að létta á hjarta sínu. Meðferðin þar snýst aðallega um að hita te, hlusta og þegja yfir því sem sagt er. Skilst mér á mömmu að pabbi hafi einmitt gegnt svipuðu hlutverki á sínum tíma þegar hann var við nám í Kaupmannahöfn! Sjaldan fellur eplið... Einnig voru nýir og góðir nágrannar mínir mjög oft veikir og þá sá ég um heimahjúkrun og aðföng fyrir lasarusana tvo.

Í kjallara ráðhússins í Freiberg


Bernardo, Martyna, Judyta, Veronika, Mauricio og Viktioria í Erfurt

Það er gott að eiga nágranna. Á sumarönn var gangurinn á stúdentagörðunum "dauður" en frá byrjun vetrarannar leið varla sá dagur að við Judyta og Viktoria hittumst ekki, kæmum hver annarri í gott/betra skap og þegar enginn tími er til matargerðar hitum við súpu eða te fyrir hverja aðra - heldur betur notalegt. Vinnan mín hjá alþjóðaskrifstofunni var alltaf mjög óútreiknanleg og til að hvíla mig á skóla og vinnu var ég dugleg að taka þátt í hvers konar ferðum og atburðum með alþjóðanemum á frídögum - fór í dagsferð til Erfurt á siðaskiptadaginn og skoðunarferð til Berlínar á "tilbeiðsludaginn", söng íslensk þjóðlög fyrir gesti á menningarhátíð í Freiberg, fór í skautaferð til Chemnitz, vettvangsferð með umhverfis- og byggingarlistarþema til Dessau og aðventuferð til Festung Königstein í Saxelfursandsteinsfjallgarðinum.

Með Błażej og Martynu við Brandenborgarhliðið í Berlín

Skautasvellið í Chemnitz ljósum skreytt í desember

Í desember gekk ég til liðs við alþjóðlegt félag um stærðfræði tengda jarðvísindum og tók strax sæti í stjórn nemendafélgsins sem er á þeirra snærum í Freiberg. Þar bíður sú áskorun okkar að skipuleggja vinnusmiðju sem fara á fram í næstkomandi júnímánuði. Starfið í þessu félagi tengist lokaverkefninu mínu og gegnum það er mögulegt að komast á spennandi ráðstefnur og vinnusmiðjur víðs vegar um heiminn. Síðustu vikurnar fyrir jól voru líka haldin litlu-jól af hinum ýmsu tilefnum með söng og sprelli fyrir jólasveina, heimsóknum á jólamarkaði, harmonikkuballi og ævintýrum á borð við að missa af síðustu lest frá Dresden til Freiberg!

Miðaldastemmning á aðventunni í Königstein-virkinu

Rétt fyrir jólin flaug ég svo heim með haglél og snjó í farteskinu frá Berlín, rétt nógu tímanlega til að komast í jólaveisluna hjá Árna og Auði, Þorláksmessuskötu hjá afa og ömmu í Sigtúni og jólasveinaleiðangur með pabba á aðfangadag. Það er alveg með ólíkindum hversu vel pabbi og mamma eru búin að koma sér fyrir hérna á Laugarnesveginum - mætti hreinlega halda að við hefðum búið hérna alla tíð. Þegar ég fór út í haust var íbúðin tóm en núna er bara eftir að hengja upp nokkrar myndir og ganga frá litlu gestahorni. Hér liðu hátíðarnar í rólegheitum við lestur, svefn, veislumat, salsadans, gönguferðir og sund.

Á Þorláksmessu


Snjóstormur í Laugarnesfjöru


Snjóengill

Obbosí, nú er þetta orðið helst til langur pistill og rétt að fara að slá endapunktinn! Ég sendi ykkur þakkir fyrir liðið ár og mínar bestu óskir um gleði, gæfu og góðar stundir á nýju ári 2008.

Ykkar,
Bjarnheiður