30 apríl 2006

20 apríl 2006

Sumarkoma

Gleðilegt sumar!
~~~*~~~

Páskunum varði ég að þessu sinni í München. Þar sem ég tók með mér rok og rigningu að heiman varði ég drjúgum hluta "frísins" í grannfræðilestur. Það var svo sem fyrir fram planað en samt er aldrei hægt að vita fyrir fram hversu vel páskafríið nýtist fyrir prófin. Þetta var auðvitað ekki eintóm inniseta allan tímann - sund, hjóltúrar, flóamarkaður, klifur upp í kirkjuturn og fleira braut upp lesturinn.

Á sunnudaginn urðu tré og runnar skyndilega græn, vorið var komið til München. Ég held að það sé frekar seint enda veturinn búinn að vera harður og Isar, áin sem rennur gegnum borgina, var ekki tær eins og venjulega heldur gruggug af leir og gróðri sem barst með snjóbráðinni.

Á heimleiðinni var flugið frá München til Kaupmannahafnar illilega yfirbókað. Við vorum 5-6 í vandræðum. Í stað þess að sitja í makindum á Kaupmannarhafnarflugvelli með grannfræðina allan daginn þvældist ég því milli afgreiðsluborða, flugvéla, flugvalla og farangursþjónustufyrirtækja frá hádegi fram að miðnætti. Færibönd eru algjör snilld. Fæturnir mínir hefðu dottið af ef þeirra hefði ekki notið við á hlaupunum. Þeir náðu ekki einu sinni að hvílast í flugsetunum og þó var ég send frá München til Bremen og þaðan til Kaupmannahafnar.

Ég hef aldrei áður flogið í jafnlítilli flugvél milli landa eins og milli Bremen og Kaupmannahafnar. Hún var á stærð við Dornier (rörið) með 19 sætum, eitt og eitt hvoru megin við ganginn. Við vorum fjögur í vélinni auk tveggja flugmanna. Bissnissmaður, búttuð amma og sportkona voru hinir farþegarnir. Ömmunni leist ekki alveg á þessa flugvél. Ég rétti henni poka með hressingu á leiðinni því hún lagði ekki í að standa upp. Bissnissmaðurinn var hins vegar greinilega sjóaður í ferðum með þessu flugfélagi og teygði sig eftir nestinu um leið og hann var sestur inn í vél.

Farangurinn minn ákvað að fara í ferðalag. Hann fór til Frankfurt. Mér finnst að taskan hefði alveg mátt fara í heimsreisu og senda mér polaroid-myndir af sér víða um heiminn eins og garðdvergurinn hans pabba hennar Amélie gerði, jah fyrst hún var að þessu á annað borð... Ég spilaði því á skólaflautur í Tónskólanum og taskan kom svo seint í gærkvöldi, heil á húfi. Þar urðu fagnaðarfundir og eftir allt saman ágætt að hún fór ekki í heimsreisu.

08 apríl 2006

Hvar er Freiberg?
















Freiberg er um 48 þúsund manna háskólabær í Bundeslandinu Sachsen í fyrrum Austur-Þýskalandi.

Markgreifinn Otto von Meißen fór að gefa landsvæðinu Freiberger Mulde gaum árið 1156. Þar fannst mikil silfuræð árið 1168 og myndaðist bær kringum bækistöðvar námaverkamannanna.


Fljótlega festist nafnið Freiberg við bæinn, virki var byggt allt um kring og mikil uppbygging hófst. Reist voru m.a. sjúkrahús, kirkjur og klaustur og blómstraði bæði handverk og verslun. Bæjarmyndin hefur varðveist nokkuð vel en helstu byggingarstílar eru síðgotík, endurreisn og barokk.


Það sem helst er að sjá í Freiberg eru námurnar, miðbærinn og kirkjurnar en einnig er alveg bráðnauðsynlegt að heyra í 45-radda orgeli dómkirkjunnar í Freiberg sem þykir eitt hið hljómfegursta í heimi, smíðað af Gottfried Silbermann í upphafi 18. aldar.


Áður var talað um silfurbæinn Freiberg en nú á háskólabær betur við. Háskólinn heitir Technische Universität Bergakademie Freiberg og er þar höfuðáhersla á raun- og tæknigreinar, verk- og viðskiptafræði. Allt er það á einhvern hátt tengt jarðvísindum, efnafræði og auðlindum í takt við sögu bæjarins. Nú eru reyndar námurnar aðallega heimsóttar af nemum í vettvangsferðum og helsti atvinnuvegurinn ekki lengur námagröftur heldur þróun hálfleiðara og ljósspennurafhlaða.


Ég fer til Freiberg til að nema "Angewandte Mathematik" sem er hagnýtt stærðfræði. Helstu áherslugreinarnar eru tölvunarfræði, stærðfræðileg líkön og bestunarfræði en ég á eftir að ákveða mig hvaða línu ég vel.

Helstu kostir Freiberg svona fyrir utan námið eru að mínu mati náttúran allt um kring, lítill bæjarkjarni (stutt í allt), sundlaugar, góð aðstaða til íþróttaiðkunar við háskólann, Austur-Evrópa ekki langt undan og Dresden í seilingarfjarlægð með mikið tónlistar- og menningarlíf.

Bald Freibergerin

Þá er það komið á hreint! Fékk ansihreint velkt og slitið umslag frá DAAD í dag fullt af eyðublöðum og upplýsingabæklingum. Næsta vetri mun ég sumsé verja í þýskum háskólasmábæ að nafni Freiberg rétt við tékknesku landamærin. Það er alveg lengst út í rassgati! Mal schauen...

03 apríl 2006

Tilboð á bilum!

Það tók mig laaangan tíma að kveikja á perunni. Þetta var bílaauglýsing en ekki tilboð á bilum á borð við I = [a;b].

Prófin eru annars farin að nálgast uggvænlega hratt. Tími mikillar togstreitu fer í hönd.

Helst eiga dagarnir

  • að þjóta hjá svo sumarið komi með sitt dirrindí, áhyggjuleysi og skólafrí
  • að dragnast áfram til að tóm gefist til próflesturs, prófblásturs og meiri próflesturs

Krónískt vandamál: Of fáar stundir í sólarhringnum!

Langar annars að deila með ykkur mánaðargamalli uppgötvun sem reyndist vera sniðug. Gefur ýmsar ágætar hugmyndir um forvitnilega tónlist.


Afmælispakkinn minn frá því ég var 2 ára er fluttur upp á bókasafn VR-II. Hún dvelur þar meir en heima hjá sér og um daginn heyrði ég taut um að ferðir fram og til baka tækju of langan tíma - eins gott væri að banka upp á hjá einhverjum garðálfanna á Eggertsgötunni, hertaka eldhúsið þeirra og kokka þar eitthvað sér og álfunum til tímasparnaðar, ánægju og yndisauka. Næst ákveður hún örugglega að sofa bara frekar þarna vesturfrá en hér á Laugalæknum...


Raunar er alveg rétt að ferðir með strætó gleypa tíma. Tólfan er hætt að ganga rétt. Bílstjórarnir segja það fræðilega ómögulegt að fylgja nýjustu áætlunarbreytingunni. Farþegarnir eru fúlir og pirraðir, bílstjórarnir þungbúnir og stressaðir og hverjum gagnast það? Hann Þórhallur hjá Strætó bs. segir að þessu verði kippt í liðinn en svo gerist ekkert. Hvað ætli þurfi marga pósta til breytinga? Ég giska á grilljón því það er jú örugglega dýrt að prenta stöðugt ný og ný áætlanaplaköt og fleira kynningarefni.


Eins gott að ég get nú hjólað á ný. Hjólið mitt er alltaf á áætlun. Þarf bara örsjaldan að pumpa í dekk, kippa keðjunni aftur á sinn stað eða slá á ískur með smurningu. Við eignuðumst meira að segja barselónska hjólatösku í síðustu viku. Hún er í prufuhjólun sem stendur.