23 október 2005

Af þrídeilingu

Þetta er nú meiri brjálæðishelgin! Í þessum orðum skrifuðum er ég búin að vera vakandi síðan klukkan níu í gærmorgun og mun ekkert ná að fara að sofa fyrr en kannski um klukkan tvö í dag. Afar vel heppnaður Haustfögnuður Stiguls fékk framhald á Kofanum í dansi sem varði fram eftir morgni og nú á eftir mun ég þjónusta norræna pelapólitíkusa og krakka frá klúbbum hliðstæðum Nordklúbbnum í Þjóðmenningarhúsinu. Það tekur því hreinlega ekki að fara að sofa á milli! Aðallega þarf að ljósrita, ljósmynda og hughreysta alla með tilkynningum um að Freyja sé að redda málunum. Hún er alheimsreddari Ungdommens Nordiska Råd.

Greifinginn Nikke Nältää frá Finnlandi öðlaðist líf í gær. Hann reyndi að fiska fólk til að líta við bæði á Norrænum dögum og í Lifandi bókasafni í Smáralind. Beitan var nammi, póstkort og bæklingar og það var bara nokkuð gaman að vera Nikke þrátt fyrir það að búningurinn hafi verið ofurhlýr, verslunarmiðstöðvar séu alla jafna staðir sem ég forðast, mér þyki ljótt að dæla sælgæti í börn og mér leiðist krakkar sem eru frek og dónaleg og taka þrjár lúkur þegar þeim er boðið að velja eitt.
Ástæða gamansins var sú að það sem ég var að kynna var áhugavert og mörg barnanna líka ósköp háttvís og skemmtileg.
Lifandi bókasafn er raunar meira en áhugavert - hugmyndin finnst mér hreinasta snilld. Í stuttu máli getur fólk komið og leigt "lifandi bók", fólk sem stendur fyrir einhvern þjóðfélagshóp sem algengt er að fordómar séu fyrir, spjallað við bókina í 10-15 mínútur og þannig svalað forvitni eða komist að einhverju nýju. Á bókasafninu í gær voru blind bók, samkynhneigð bók, bók einstæðs föður, bók grænmetisætu, líkkrufningakonu, múslima, innflytjanda, Japana og prests. Fyrsta bókasafn þessarar tegundar var starfrækt á Hróarskelduhátíðinni árið 2000 en þetta er víst alveg nýtt á Íslandi.

Mér tókst ekki að deila helginni fallega í þrennt eins og ég ætlaði en það er held ég allt í lagi. Næstu helgi hyggst ég nefnilega verja á Ráðstefnu íslenska stærðfræðifélagsins í Vestmannaeyjum og þessar tvær helgar samanlagðar ætti því að fást nokkuð jöfn deiling.

Engin ummæli: