04 desember 2008

Frau Dipl.-Math. Kristinsdottir

Jibbíjeij! Varnarfyrirlestri lokið, húrra! Það gekk auðvitað ekki alveg áfallalaust fyrir sig. Stuttu eftir skil skýrslunnar í þrívíðum jarðlíkönum datt ég nefnilega í kvefpest og lá í bólinu alla helgina. Fyrirlesturinn var því skrifaður í huganum í hitamóki og svo LaTeX-aður fram á síðustu mínútu.

Margir vina minna mættu til að hlýða á herlegheitin og þótti mér geysivænt um það. Fyrst fékk ég hálftíma til að halda fyrirlesturinn og svo tóku við spurningar leiðbeinenda. Þær tóku meira en klukkutíma (!), ég varðist eins og ljón og að þeim loknum var ekki bara ég uppgefin heldur flestir sem sátu úti í sal líka. Þetta endaði svo allt saman gríðarvel og núna má ég víst kalla mig Diplom Mathematiker þótt enn sé minnst ein vika af skriffinnsku eftir í að ég fái staðfestingarskírteinið um það.

Gaman, gaman, gaman!

24 nóvember 2008

22 nóvember 2008

Hvítt

Það er allt hvítt. Hvítt, hvítt, hvítt. Á leiðinni heim af alþjóðahátíð Freibergbæjar nú fyrr í kvöld varð ég samferða tveim rússneskum vinum mínum, þeim Sergej og Kötku. Við fórum í snjóstríð og hoppskoppuðum af gleði yfir snjónum. Svo fór gamanið aðeins að kárna undir lokin þegar snjóstormurinn var orðinn svo svakalegur að það var erfitt að anda, við sáum ekki handa okkar skil og öll ummerki um göngustíginn sem liggur að stúdentagörðunum voru horfin! Heim komumst við þó eftir smá sikksakk. Núna er vindinn aðeins að lægja.

Eldhúsborðið heima hjá Deliu

Hátíðin var litrík og skemmtileg. Dans, söngur, hljóðfæraleikur og góður matur frá öllum heimshornum. Vísur Vatnsenda-Rósu voru mitt framlag. Kannski hefði Þorraþrællinn passað betur? Nema það er auðvitað ekki nærri kominn Þorri.

Antje hnoðar deig og segir frá úrvinnslu jarðskjálftamæligagna

Þessa viku hef ég náð upp svefni og legið svolítið í leti. Eða svona. Eins langt og það nær. Hef alla vega verið rólegri en venjulega. Á sunnudaginn fyrir viku hitti ég jarðfræðistelpurnar Deliu, Anne, Jule og Antje til að baka jólasmákökur. Mestmegnið af þeim sendum við svo til Colorado til Daniels vinar míns og kærasta Deliu. Hann verður úti um jólin svo við vonum að tollurinn hleypi heimabökuðum smákökum í gegn. Létum þær í danskt sprautukökubox og límdum fyrir alveg eins og þetta væru verksmiðjuframleiddar kökur.

Þegar hér var komið sögu voru kanilstjörnur búnar að leggja undir sig ganginn

Eftir baksturinn hjólaði ég svo með Mariu heim til Davids. Hann á heima uppi á einni hæðinni og er með arin inni hjá sér. Algjör snilld! Við bökuðum hvítmygluost og notuðum brauð til að veiða upp bráðinn ostinn. Síðan fylltum við epli af kanil, sykri, rúsínum og möndlum og bökuðum þau á arninum. Ég næstum sofnaði framan við arininn - ekkert smá notalegt liggja á gólfinu framan við snarkandi eld.

Delia hnoðar deig í skákborðskökur

Á mánudaginn skrapp ég svo til Dresden til að hitta Guðnýju. Hún var að klára diplómu í eðlisfræði við Humboldt háskólann í Berlín og var með álíka ónýta leiðbeinendur og ég. Sama hver ástæðan fyrir því er nú... Við töluðum samfleytt í fjóra tíma! Ótrúlega gott að spjalla á íslensku um verkefnin okkar og hvað nú tekur við. Svo heimsótti ég Pit í lokin. Fer aftur til Dresden á morgun og þá ætlum við Pit að fá okkur ís í snjónum og æfa meiri íslensku. Annars er Yoann á leið til Íslands á mánudaginn og ætlar að taka fyrir mig nokkrar bækur heim svo það er meginástæðan fyrir Dresdenförinni. Við ætlum að borða saman hádegismat og vega og meta hvort hann eigi frekar að taka með sér línuskauta eða venjulega skauta til Reykjavíkur.

Við Jule í herbergi Deliu

Kannski var bara ágætt að ég gleymdi að afpanta BahnCard25 lestarkortið fyrir þetta ár. Það framlengist alltaf af sjálfu sér og ég sem hélt að ég þyrfti það ekkert fyrir þetta ár er nú með svo margar Dresdenferðir planaðar að það gæti alveg borgað sig. Svona þegar ferðin til Berlínar til að ná fluginu heim bætist við. Í næstu viku er DAAD styrkþegarfundur í Dresden og skyldumæting þangað. Svo ætlum við Florian - strákurinn sem fór yfir ritgerðina mína þegar leiðbeinendurnir brugðust - að skella okkur á fílharmóníutónleika í Semperóperunni á sunnudaginn eftir viku og fara í framhaldinu á sýningu í Deutsches Hygiene Museum sem hefur hamingjuna að umfjöllunarefni. Það verður spennandi að sjá! Ég hef aldrei farið á fílharmóníutónleika. Skömm frá því að segja eftir að hafa búið hér svona langan tíma!

Anne heldur betur húsmóðurleg við að mauka epli í pott

Þarf líka að gera skurk í því að skoða öll fínu söfnin í Dresden. Þar eru alveg ótrúlegustu gersemar geymdar. Flestir ítölsku meistaranna komu til að mynda til Dresdenborgar til að nema eða starfa við listaakademíuna þar og því er ófá frægra verka þar að sjá. Jammogjá. En fyrst er jú að undirbúa og halda fyrirlestur um diplómuverkefnið mitt. Loks búið að finna tíma sem hentar öllum þann 3. desember og það er því ekkert svo langt þangað til - jibbíjeij!

Kalle og Harriet úr Hellsongs í Bärenzwinger

Maria kláraði síðasta stóra diplómuprófið sitt núna á þriðjudaginn. Við fórum með David, Karsten og fleirum á tónleika með sænsku sveitinni hellsongs til að fagna þessum áfanga. Látið ekki nafnið hrella ykkur heldur prófið að hlusta. Mæli með þeim - þau hafa mjög mikla útgeislun á sviði, fá salinn til að vinna með sér og skapa virkilega góða stemmningu. Ég hef líka aldrei tekið almennilega eftir því hve textar sveita á borð við Iron Maiden eru góðir. Ekki fyrr en ég fór að hlusta á hellsongs. Magnað.

16 nóvember 2008

Stiklur

Þessi helgi er sú fyrsta án nokkurs háskólatengds síðan í júlí þegar ég fór heim til Íslands. Eiginlega renna dagarnir og mánuðirnir - sérstaklega september og október - bara saman í eina samtóna runu í huganum. Runu fulla af vísindagreinum, stöðugri baráttu og á stundum örvæntingu. Mér er sagt að það sé bara ekkert svo óalgengt að leiðbeinendur meistara- eða diplómuverkefnis bregðist jafngjörsamlega og í mínu verkefni. Það þykir mér alveg ömurlegt. Ímyndið ykkur bara hvað það gætu orðið til mörg góð verkefni ef leiðsögnin væri góð!


Í stuttu máli þá hef ég hitt prófessorinn minn þrisvar sinnum þessa átta mánuði til þess að ræða um verkefnið. Oftast hafði hún eiginlega engan tíma, aldrei var hún búin að kynna sér fræðin sem að baki liggja að neinu ráði og alltaf var hún samt með fullt af hugmyndum sem ég gæti útfært í verkefninu. Þegar ég svo lagðist yfir hugmyndirnar kom oftast í ljós að þær voru mjög óraunhæfar - til að mynda var ein hugmyndin þannig að þrír stórir hópar vísindamanna í Ástralíu, Rússlandi og Bandaríkjunum hafa glímt við sama verkefni í sjö ár án þess að fá almennilega niðurstöðu. Svo átti ég bara að galdra þetta fram í sex mánaða diplómuverkefni? Góðan daginn!


Hinn prófessorinn hitti ég aldrei vegna verkefnisins. Hann var nánast aldrei viðlátinn og þegar við hittumst var það oftast vegna ráðstefnunnar um stærðfræði í jarðvísindum sem haldin var í sumar og ég átti stóran þátt í að skipuleggja. Um doktorsnemann hef ég áður skrifað hér. Hann hefur ekki hundsvit á fræðunum að baki verkefninu en þykist samt vita allt og tókst að sannfæra mig um að svo væri í það langan tíma að ég lenti í mikilli tímaþröng í lokin við að leiðrétta alla vitleysuna og fara inn á aðrar brautir en hann leiddi mig.


Síðustu vikurnar voru algjört helvíti - afsakið orðbragðið. Ég svaf varla meir en 4-5 tíma á nóttu og það var þá hálfgert mók þar sem ekkert komst annað að en verkefnið. Svo vann ég frá sjö til miðnættis uppi í Steigerhaus við námuna Reiche Zeche eða hér heima allt eftir því hvort ég þurfti að nota greiningarforritin sem bara eru í boði í Steigerhaus eður ei. Hvorki hugur né líkami heldur svoleiðis maraþon út en Líney Halla og fleiri sáu um að koma mér á lappir aftur þegar ég lá bara og grét og gat ekki meir. Nágranni minn gaf mér líka teblöndu sem hjálpaði við að sofa 6-7 tíma á nóttu síðustu vikuna fyrir skil.


Ég er alveg óendanlega þakklát öllum þeim sem sendu mér kveðju eða póstkort eða hugsuðu til mín meðan á þessu stóð. Það er alveg ómetanlegt. Auðvitað var líka ekki alveg allt ómögulegt allan tímann. Haustið var fallegt í Freiberg, vinir mínir litu alltaf öðru hvoru við og tvisvar fór ég á tónleika - Borko og Seabear í Dresden og Emilíönu Torrini í Hamborg. Í byrjun var erfitt að hætta öllu félagastússi og svara ekki öllum tölvupóstum um hæl eins og ég er vön en það venst allt. Núna get ég líka hellt mér út í það að nýju, það virkar svona eins og gulrót (hvatning).


Strákur sem er að læra með mér landupplýsingafræði og Líney Halla hjálpuðu mér mikið með því að lesa yfir uppköst að ritgerðinni því að ekki bar neitt á slíku frá leiðbeinendunum sama hvað ég sendi þeim. Rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið fékk ég loksins sendar leiðréttingar frá prófessornum og ritgerðin þurfti að fara í prentun daginn eftir. Það var því löng nótt og ég setti síðasta punktinn klukkan 11 daginn eftir. Fjölritunarstofan lokar klukkan 12 á mánudögum svo ég rétt náði að borða eitthvað til að geta staðið í lappirnar og mætt þangað fyrir lokun.


Ég var svo þreytt og utan við mig að það er ekki annað hægt en hlæja að því. Fór til að mynda í bolinn ranghverfan með miðann fram, gekk á hurðir og hjólaði næstum því á tré. Svo svaf ég í 13 tíma. Þurfti að vakna snemma á þriðjudaginn því að þann dag og miðvikudag var loksins komið að því að klára námskeið í þrívíðum jarðlíkönum sem ég tók í fyrravetur. Alltaf átti að koma gestafyrirlesari frá Frakklandi til að binda endahnút á kúrsinn en hann forfallaðist í febrúar, apríl, júlí og september og kom loks í þessari viku. Nú þarf ég bara að klára skýrslu um gerð viðbóta og betrumbóta fyrir gOcad og halda fyrirlestur um efni ritgerðarinnar minnar og þá fæ ég loksins síðasta plaggið sem þarf til að klára diplómunámið.


Pollýannan ég reyndi að hugsa um að ég hefði það í raun ekki svo slæmt. Svona miðað við allt og allt. Núna er samt þungu fargi af mér létt og þreytan hellist yfir. Ég hlakka mikið til að koma heim til Íslands. Hef bara fylgst með hruni spilaborgarinnar úr fjarlægð og rætt málin við félaga mína hér - sem er reyndar ágætt, þá hefur maður aðra sýn á hlutina. Kannski verða það einmitt íslenskir námsmenn erlendis eða almennt Íslendingar sem eru eða verið hafa erlendis sem koma til með að hjálpa hvað mest við enduruppreist landsins? Þannig var það í það minnsta í sjálfstæðisbaráttunni og mér virðist spillingin vera það mikil (allir flæktir í netin) að verulega sé þörf á fólki sem sér málin í víðara samhengi og er ekki tengt neinum beint persónulega.

08 nóvember 2008

Allt að koma...

Jæja! Nú held ég hreinlega að það sem stendur hér til hliðar á síðunni sé að verða að veruleika. Alla vega þarf eitthvað mikið að vera að ritgerðinni minni til að leiðbeinendurnir stoppi mig af við að fara með hana í prentun núna á mánudaginn. Auðvitað er eitthvað snurfus eftir og ég þarf að undirbúa öll forrit á þar til gerðan gagnadisk og svoleiðis en það er allt létt verk og löðurmannlegt í samanburði við grettistak síðustu vikna! Bráðum get ég svo farið að birta hér pistla reglulega á ný - ég giska á eftir viku eða svo.

08 október 2008

Neðanjarðar




Frétti á mánudaginn að ég hefði tveimur vikum styttri frest til að skila lokaverkefninu en mér hafði skilist í haust. Ég þarf því að taka verulega á því og hverfa undir yfirborð jarðar með skrifunum. Ætti síðan að komast aftur upp á yfirborðið aftur í lok nóvember eða svo!

06 október 2008

Engra aðgerða þörf?

Jah, svo segir forsætisráðherra vor! Hvenær endar þessi skrípaleikur eiginlega? Baggalútur hefur þó tekið málin í sínar hendur:

05 október 2008

Svefn

30 september 2008

Til að opna augun

Sjá meira um þetta hér

25 september 2008

Haustsúpa

Fyrir tveim vikum kom haustið. Það gefur tilefni til að sjóða haustsúpu.

Haustmyndir í súpu

Haustkraftsúpa Bjarnheiðar - fyrir tvo (eða kannski þrjá matgranna... tekur mig a.m.k. þrjá daga að klára hana!)

Hráefni:

Ólívuolía
Laukur
Kúmen
Cayenne-pipar
Blandað grænt krydd (t.d. oregano, basilika, ...)
Svartur pipar
Gulrót
Sellerírót
Blaðlaukur
Steinselja
Rapunzel-Grænmetissoðduft
1,5 til 2 lítrar af sjóðandi vatni úr hraðsuðukatli
Bygggrjón

Aðferð:
Saxa lauk og hita í olíu í súpupotti við vægan hita meðan maður hitar vatnið í katlinum og hreinsar og saxar gulrót, sellerírót og blaðlauk. Kúmeni, cayenne-pipar, svörtum pipar og grænu kryddi slett í pottinn og saxaða grænmetinu bara sisvona jafnóðum og það safnast upp á brettinu. Svo er vatninu hellt yfir herlegheitin ásamt slatta af grænmetisdufti (ein matskeið per 0,5 lítra stendur á krúsinni svo það fara svona þrjár-fjórar slíkar í pottinn). Loks er steinseljan söxuð og bætt út í ásamt skvettu af bygggrjónum og allt látið sjóða svolitla stund.

Annars rakst ég á ansimerkilega rannsókn sem Halldóra fyrrum kórfélagi minn gerði fyrir meistaraprófsritgerð í lýðheilsufræðum og fjallar um tengsl menntunar og krabbameina. Það má lesa innganginn hér.

13 september 2008

Hreint og beint

Í byrjun júní fékk vinkona mín svefnpokann minn lánaðan til að fara í helgarútilegu. Júní var ákaflega annasamur hjá mér og eftir mikla vinnutörn lagðist ég í bólið með flensu svo ég var ekkert að reka á eftir svefnpokanum. Í byrjun ágúst var ég síðan á göngu um Saxelfursandsteinsfjallgarðana Tékklandsmegin þegar gall í Friðþjófi farsíma.

H: Hæ Bea, hvað segir þú gott?

B: Nei sæl og blessuð, bara allt fínt! En þú? Langt síðan ég hef heyrt í þér!

H: Já bara mjög fínt líka. Ég var að klára prófin.

B: Nú, til hamingju með það!

H: Takk! Heyrðu ég var að spá hérna með svefnpokann þinn...

B: ...já?

H: Ég er ennþá með hann.

B: Einmitt.

H: Hérna, ertu heima núna?

B: Nei, veistu ég er barasta stödd í Tékklandi. Við erum í dagsgönguferð hérna nokkur í hóp.

H: Jaaaá.

B: Þú getur kannski bara komið við á morgun?

H: Tjah. Ég nefnilega fer til Ítalíu í kvöld í sumarfrí.

B: Nú, vá en fínt!

H: Já.

B: En heyrðu...

H: Já?

B: Þarftu ekki á svefnpokanum að halda á Ítalíu?

H: Jah... já, jú, þú segir nokkuð!

B: Viltu ekki bara taka hann með og skila honum seinna?

H: Já, ok. Þarft þú ekkert á honum að halda?

B: Nei, blessuð vertu. Ég er bara að skrifa ritgerð þessa dagana. Ekkert annað á dagskrá hjá mér næstu mánuði.

H: Það væri náttúrulega frábært! Takk kærlega!

B: Ekkert mál! Hafðu það bara gott í fríinu!

H: Þakka þér fyrir! Góða skemmtun á gönguferðinni! Og gangi þér vel að skrifa! Við sjáumst þá í haust!

B: Já, gerum það. Blessbless.

H: Bless.

Eitthvað segir mér að ef ég væri strákur þá hefði ég sagt henni að skilja svefnpokann bara eftir hjá nágrannanum. Alla vega hefði enginn strákanna sem var með á göngunni fattað að hún var í raun að hringja til að athuga hvort það væri í lagi að taka svefnpokann með til Ítalíu. Þeir bara göptu og spurðu af hverju hún hefði þá ekki sagt það í byrjun.

Ég fékk svo svefnpokann í gær.

En þetta er svona eins og með "Heyrðu, það þarf að fara út með ruslið" sem þýðir skv. orðabókinni "Kona - mannamál, Mannamál - kona" að daman vilji að herrann fari út með ruslið. Af hverju segir hún þá ekki bara "Geturðu farið út með ruslið?"?! Æji ég veit það ekki. Ég finn alla vega að það virkar miklu betur að segja hlutina hreint út. Svo er það kannski bara kúnstin að vita hvenær það er við hæfi og hvenær ekki? Sumt fólk er svo viðkvæmt... að ekki sé minnst á mun á menningarheimum og hefðum landa. Gaman að þessu.

06 september 2008

Alveg róleg!

Stórritgerðarskrif eru ekki alveg mínar ær og kýr - eða tebolli eins og Englendingar segja. Af hverju ætli þeir tali annars um tebolla meðan við tölum um búpeninginn? Höfðu þeir ekkert betra að gera en þamba te? Kannski er þetta komið frá aðlinum. Jæja en þetta var smá útúrdúr. Ég er sumsé alveg að verða geðveik við skriftir lokaritgerðarinnar. Mikið skil ég vel að pabbi hafi bara sleppt þessu og farið að vinna eftir B.Sc. próf. Mamma lauk doktorsritgerð og Líney Halla á örugglega eftir að gera það líka en það þyrfti þá að vera eitthvert allt annað fag en stærðfræði ef ég ætti að skrifa slíka fræðasmíð.

Nú í vikunni var ég búin að setja mér það markmið að klára fyrsta uppkast að kaflanum um vægisóbreytufræðin fyrir föstudaginn. Svo sat ég bara og fann hvernig áhyggjuhrukkurnar dýpkuðu á enninu og komst ekki spönn frá rassi. Las bloggsíður og fréttasíður af meiri elju en nokkru sinni. Þangað til ég rakst á predikanir með minningarorðum um Sigurbjörn Einarsson biskup. Hann var mikill merkismaður. Ræðurnar fjölluðu m.a. um að taka bæri fyrir hvern dag í einu, ekki láta áhyggjur lama sig heldur vinna jafnt og þétt og gera sitt besta. Þetta var ágætishugvekja og ég komst aðeins á skrið.

Á þriðjudagskvöldið ætluðum við Maria að elda saman graskerssúpu. Það dróst svo fram á miðvikudagskvöld og David bættist í kokkahópinn. Ég hafði ekki séð David í lengri tíma og þegar talið barst að diplómuskrifunum sagði ég eitthvað á þá leið að ég þyrfti að hætta að hafa áhyggjur og hella mér í vinnu. Hann glotti út í annað og sagði að það væri nú nákvæmlega það sama og ég hefði sagt fyrr í sumar! Svona er nú fljótt að fyrnast yfir lífsspekina í höfðinu á manni.

Þetta varð annars hið ágætasta kvöld. Það hófst á því að Maria hellti yfir okkur svolítilli súpu (bruninn er alveg að hverfa, þökk sé aloe vera og undrasmyrslinu að norðan) en þó var svo mikið eftir í pottinum þegar við þrjú vorum orðin södd að við kölluðum Florian til liðs við okkur undir lokin. Við ræddum alla heima og geima og drukkum te í lítravís. Mestur hluti þess var svart te en í lokin var skipt yfir í engifer/sítrónute. Eitthvað er ég nú lítill koffíngrís því eftir þetta sofnaði ég ekki fyrr en klukkan að verða sex morguninn eftir! Fimmtudagurinn varð því heldur ólánlegur og ég hugsa að ég klári bara kaflann í dag - náði ekki að klára í gærkvöldi.

Nú er ég samt heldur rólegri yfir þessu öllu en áður. Búin að útbúa grænan bakgrunn á fartölvuskjáinn með skærgrænum stöfum sem segja mér vinalega á ensku að vera róleg - don't panic! Svona eins og í ferðahandbók puttalingsins um alheiminn. Ég má samt ekki verða of róleg því skiladagur nálgast óðum og mig langar ekki hætis hót að framlengja hann enda búin að vinna að þessu verkefni í meira en hálft ár án mikils stuðnings (það kom í ljós að hér hefur fólk upp til hópa ekkert vit á verkefninu mínu - leiðbeinendur mínir jafnvel síst af öllum) og komin í þann gírinn að bara rumpa þessu af sama hver einkunnin verður (sem þó vissulega er frekar leiðinlegt og letjandi).

Fari svo að ég bloggi ekki oft núna á lokasprettinum þá skelli ég hérna inn grófri áætlun:

September:
Fara yfir IDL kóðana mína og ljúka tilraunum, safna saman gömlum sem nýjum niðurstöðum og túlka þær.

Október:
Klára forritunarstarfið og ljúka skrifum undir lok mánaðarins.

Nóvember:
Fá uppkast leiðrétt og skila því svo endanlega í prentun fyrir 13. nóvember, fara að því loknu til Noregs til að heimsækja Christinu í Þrándheimi og Vöku í Harstad.

Desember:
Halda fyrirlestur og verja ritgerðina með kjafti og klóm. Berjast við allra handa nauðsynlega pappíra, halda kveðjuteiti, mála, þrífa og skila herberginu mínu hér á stúdentagörðunum. Koma svo heim rétt fyrir jólin og slappa af í faðmi fjölskyldunnar.

Plönin fyrir nýja árið eru síðan eitthvað á þá leið að ferðast um og heimsækja vini beggja vegna Atlantsála fram á vor en ráðast því næst í sumarvinnu, leit að íverustað og sækja um nám í kennsluréttindum. Mig langar nefnilega að verða framhaldsskólakennari. Jammogjá þannig var nú það. Svo er bara að leggjast á árar til að ljúka ritgerðar... *hóst* já, ritgerðinni heil á geði!

Inn og út um gluggann...

Eitt er það sem mér virðist vanta gjörsamlega í þýska þjóðarsál og það er "þetta reddast"-hugsunarhátturinn. Það er aldrei bara byrjað á verki sviphendingu eftir að hugmynd fæðist heldur þarf að rökræða fyrst, finna og krifja til mergjar öll möguleg vandamál (og ómöguleg) sem upp gætu komið. Að þessu loknu eru allir orðnir verulega svartsýnir á að hægt sé að hrinda hugmyndinni í framkvæmd yfir höfuð.

Í byrjun apríl...

Þó er eitt jákvætt sem fylgir þessu og það er að komist framkvæmdin gegn um svartsýnismúrana þá er hún vel skipulögð. Eða svo taldi ég a.m.k. lengi vel. Nú hef ég hins vegar haft fyrir augum og eyrum mikla framkvæmd hérna í götunni minni síðan í byrjun apríl og ég hef sjaldan séð jafnfurðulegt skipulag. Þetta verður þó að taka með þeim fyrirvara að ég hef ekki hundsvit á gatnaframkvæmdum.

...var önnur hliðin tekin fyrir

Byrjað var á að fræsa upp helming götunnar langsum. Svo var grafið, skipt um einhver rör og brotnir upp sprotar út frá götunni til að komast að aðlögnum að húsinu. Gott og blessað. En þetta átti eftir að endurtaka sig. Næst var fyllt upp og hinn helmingurinn fræstur burt. Grafið meira og sprotarnir sem höfðu verið fylltir upp opnaðir á ný til að komast að einhverjum öðrum aðlögnum sem setið höfðu þægar og góðar við hlið hinna aðlagnanna allan tímann. Nú var fyllt upp að nýju en þá er ekki öll sagan sögð.

Um miðjan júní var ráðist til atlögu við aðlögn undir glugganum mínum

Nei, því síðan var öll gatan grafin upp aftur, sprotarnir sömuleiðis, þriðja lögnin tekin fyrir og fyllt upp í allt saman. Síðan var hafist handa við að grafa enn á ný, nú nokkru grynnra en áður og mér sýnist sem þeir séu að undirbúa endanlegan frágang núna með jarðvegsneti, malaríburði og steypustútum til að komast að lögnunum síðar meir.

Þessi aðlögn hefur í allt verið grafin upp og fyllt þrisvar sinnum

Nú spyr sú sem ekki veit: hefði ekki verið einfaldara að grafa allt upp og hafa það opið meðan rörin voru tekin fyrir hvert á fætur öðru? Tjalda jafnvel yfir herlegheitin á meðan? Ég er búin að vakna við högghamra, skrölt í beltagröfum og ræsingu rafstöðva hvern einasta morgun nema sunnudagsmorgna síðan í byrjun apríl. Þessu á síðan ekki að linna fyrr en í lok október samkvæmt tilkynningunni sem hangið hefur upp á vegg síðan um miðjan apríl.

Svona leit gatan út í lok júní...

Gatan er eins og ég ímynda mér að þær hafi verið á miðöldum í bæjum sem ekki höfðu efni á að leggja steina í götuna - eitt drullusvað - og stundum ekki hægt að komast upp að húsunum nema um krókaleiðir gegnum runna eða út frá kjallaranum. Á tímabili þurftum við að ganga alla götuna á enda og svo aftur til baka til að komast á bókasafnið sem er í beinni loftlínu út frá húsinu. Það var nefnilega bara byggð ein brú yfir skurðina og hún er við hliðina á stað þar sem vel er hægt að ganga yfir án brúar.

...og ástandið breyttist ekki mikið fram í ágúst

Drullan berst svo inn um glugga jafnt sem dyr og eins og það sé ekki nóg þá hefur líka tíðum gerst að eitt eftirtaldra detti út part úr degi og allt upp í yfir heila helgi: rafmagn, kalt vatn, heitt vatn, vatn yfirhöfuð, tenging við umheiminn.

Eitthvað grunar mig að á Íslandi væri fólk ekki alveg sátt við svona vinnubrögð!

Ekkert vatn í byrjun september

En nú í gær heyrði ég skýringu á þessu. Nokkrir partýdrengjanna hér á neðstu hæðinni stóðu saman í hnapp við að skeggræða daginn og veginn. Talið barst að framkvæmdum: Í Þýskalandi fengi einn maður starfið, ynni það afar óskilvirkt og fengi laun á við tuttugu Pólverja í Póllandi. Í Póllandi fengju tuttugu menn starfið, ynnu það sæmilega skilvirklega og fengju allir samanlagt laun á við einn Þjóðverja í Þýskalandi. Svo fór ég inn og las það í speglinum að hið sama gilti um bakaralærlinga og iðnaðarmenn yfir höfuð. Þar höfum við það.

24 ágúst 2008

Hjálparsveit fræbergskra jarðfræðinema og fleira frá síðustu helgi

Judyta kvaddi...

...og skildi eftir sig pólskt grænmeti úr garði foreldra sinna í kílóavís!

Hjálparsveit fræbergskra jarðfræðinema brá skjótt við og mætti einum þrisvar sinnum til að hjálpa til við að hesthúsa grænmetinu!


Við heimsóttum bestu ísbúð Dresdenborgar (að Pits sögn)...

...eins og öll börn bæjarins og foreldrar þeirra.

Hver var gráðugastur?

Í garðinum hans Pit var fínasta aðstaða fyrir kvöldmat

Anne í sumarskapi

Florian leit til himins...

...þar sem skýin svifu hjá.

Við yfirgáfum leikvöllinn...

...þó enn með leikaraskap...

...til að fara á tónleika...

...með Ólafi Arnalds...

...og Sigur Rós.

Óþarfi að hafa fleiri orð um það: pakkað hús, frábærir tónleikar.