27 apríl 2007

Vrrrúmmm...

Hjálpi mér hvað tíminn líður hratt! Aprílmánuður hefur sannarlega flogið hjá. Að venju er frá mörgu að segja en ég skal samt reyna að stilla mig...

Ruslageymsla og blómstrandi tré

Að íslenskum sið byrja ég á veðrinu. Það er alveg ótrúlegt! Fyrirbrigðið "Aprilwetter" sem öllu jöfnu táknar veðrabrigði mikil með slyddu, rigningu, vindi og stöku góðum degi hefur öðlast nýja merkingu og ég er að kafna úr hita. Þetta vor er eins og besta sumar á Íslandi og síðustu 30 daga (skv. skráningu afa vinar míns) hefur ekki fallið dropi úr lofti!

Blómin í nærmynd

Mig langar í sundlaug! Einhver benti mér á að flytja einfaldlega ofan í háskólanámuna "Reiche Zeche" yfir sumarmánuðina, þar væru 10°C árið um kring. Þá yrði ég sannkölluð moldvarpa... og svei mér ef atferli mitt undanfarna viku hefur ekki bent í átt að moldvörpulifnaði. Á mjög erfitt með að dragnast á lappir á morgnana (vandamál sem hingað til hefur verið óþekkt á þessum bæ) og skríð aftur undir sæng hvenær sem tækifæri gefst.

Þessi broddgöltur kom seint um kvöld (þess vegna er glampinn svona í augunum) til að smjatta á grillmatarleifum við blokkina mína

Er þetta partur af því að verða kvart-hundrað ára? Nei, líklega bara eftirköst eftir atgang síðustu viku. Þá afrekaði ég nefnilega að fara í munnlegt próf í miðri skólaviku og þeytast milli manna til að skipta um aukafag. Prófið reyndi mikið á. Ástæðan var misskilningur. Úff. Prófessorinn er hinn vænsti maður alla jafna en sérhæfir sig í algebrulegri rökfræði og í prófinu kom varla upp úr honum einföld setning.

Gæsir við Moritzburg

Ég sumsé skildi ekki spurningarnar og þurfti ítrekað að biðja hann um að útskýra betur hvað ætlast væri til af mér. Að prófinu loknu spurði hann hvort þýskan hefði eitthvað verið að vefjast fyrir mér og þegar ég reyndi að útskýra að tungumálið per sig væri ekki vandamál (enda skildi ég öll orðin þannig séð) heldur frekar hvernig orðunum var raðað saman í setningar. Það skildi hann sem svo að ég hefði lært allt efnið utan að og bara viljað fá beinar spurningar á borð við "skilgreindu dulmálslykil" eða eitthvað álíka.

Matti í skóginum við Moritzburg

Hvernig honum tókst að setja beina tengingu frá illskiljanlegri setningamyndun yfir í utanbókarlærdóm get ég með engu móti skilið!!! Jú vissulega lærði ég heilmikið af nýjum orðum og orðasamböndum utan að fyrir prófið en ég lærði líka efnið og skildi það bara nokkuð vel þótt ég segi sjálf frá. Oh, ég var sumsé mjög pirruð yfir þessum málalokum.

Skuggar af okkur Matta og mömmu hans

Daginn eftir var síðan mikill gleðidagur. Eftir hlaup milli bygginga fann ég nefnilega ábyrgðarmanninn fyrir námsleið að nafni landupplýsingakerfi (Geoinformatik) og reyndist sá vera jarðfræðingur sem hefur áhuga á stærðfræði. Tilfinningunni er best lýst með því að þetta var eins og að koma heim! Þeim lesendum til upplýsingar sem ekki þekkja foreldra mína þá var þetta svona blanda af mömmu, pabba og öllum vinnufélögum þeirra (allt fólk á sviði hinna ýmsu náttúruvísinda og þó mest tengt jarðvísindum).


Tekatlar í postulínsverksmiðjunni í Meißen (opið hús tvisvar á ári)

Hann leit yfir áætlunina sem ég hafði gert fyrir aukagrein og samþykkti hana samstundis. Ekkert vesen, punktur basta. Þannig að núna er ég á fullu í kúrsum á borð við landupplýsingakerfi, fjarkönnunarbúnað og "jarðvöktun" (Geomonitoring) meðfram stærðfræðinni. Allt annað líf! Því þótt kúrsarnir í tölvunarfræði hafi hljómað vel á pappír þá var raunin oftast allt önnur.

Blómavasi með birkigreinum í postulínsverksmiðjunni

Í þessari viku hélt ég upp á afmælið mitt með því að halda fyrirlestra um Ísland fyrir litla grunnskólakrakka. Það var alveg svakalega skemmtilegt! Yngstu krílin voru dauðhrædd við tröll og eldgos undir hafsbotni og eldri hópurinn söng fyrir mig afmælissönginn á ensku og gapti þegar ég sagði 40. kafla Egils sögu Skalla-Grímssonar í stuttu máli en þar segir m.a. frá því þegar Egill þá sjö vetra gamall drap tíu eða ellefu vetra andstæðing sinn í knattleik því hann var svo tapsár.

Viola og Steffen í Mensunni

Kennararnir spurðu eftir á hvort ekki væri nú einhver boðskapur með þessu öllu saman (40. kafli Eglu) og urðu hálfhvumsa þegar ég sagðist ekki vita til þess. Krakkarnir voru alveg frábærir og vissu heilmargt. Ég hafði ákveðið að spyrja alltaf hvort þau þekktu eldfjöll, jökla og þess háttar og fá þá einhvern úr hópnum til að útskýra fyrir hinum. Bjóst svo sem ekki við miklu en þau komu sannarlega á óvart og einn guttinn gat meira að segja útskýrt nákvæmlega hvernig norðurljós virka!

Katja, Matti og fánum skreytta gulrótarkakan

Það sem eftir var dagsins deildi ég út gulrótarköku (komst í bakarofn um helgina) með fánum héðan og þaðan úr heiminum og fór í badminton um kvöldið. Fékk heilmargar kveðjur frá vinum og vandamönnum (sjáið til dæmis hér) - kærar þakkir öll sömul!

15 apríl 2007

Páskareisan til Prag


Við héldum af stað frá Freiberg á fimmtudagseftirmiðdegi. Skírdagur er ekki frídagur hér en við vorum ekki í neinum tímum eftir hádegi þennan daginn og því ekki þörf á að skrópa til að ná lestinni til Dresden og þaðan Evrópulestinni til Prag.

Prag með trjám í blóma

Lestarteinarnir liðast meðfram Saxelfi gegnum Erzgebirge í "saxnesku Sviss" og því var margt að skoða út um gluggann á leiðinni. Veðrið var líka frábært alla ferðina. Oftast skýjað, stundum sól og alltaf vindur til að kæla sig.

Mikið um að vera í borginni þessa páskahelgi

Íslenski passinn minn vakti mikla lukku hjá landamæravörðunum sem skönnuðu hann í bak og fyrir og Matti benti mér á að fjallarefurinn minn sem geymdi föt, tannbursta og því um líkt væri minni enn nestispokinn - það var mér líkt! Þó til afsökunar að þarna var nesti fyrir tvo maga og Mattamagi stærri en minn.

Sporvagn

Eftir rúmlega hálftímaferð með sporvagni og strætó fundum við stúdentagarðana uppi á hárri hæð með risastórum kumbaldablokkum og enn stærri íþróttaleikvöngum í Sovétstíl (allt risastórt, steinsteypt, grátt og farið að láta á sjá). Við tóku tungumálaörðugleikar og miklar stimpla-aðgerðir uns við fengum lykil að herberginu okkar. Það reyndist vera niðurgrafið ofan í kjallara undir tröppunum sem lágu inn í blokk 2.

Svolítið samklippt mynd - við bjuggum bak við neðsta hlutann á grenitrénu

Rimlar fyrir gluggum, illa farin húsgögn, gulnuð og götótt sængurföt - ég bjóst svo sem ekki við neinu betra en myglaðir veggir voru kannski einum of mikið af hinu góða. Eftir tvær nætur gátum við skipt um herbergi yfir á fimmtu hæð í blokk 3. Það var alveg fimmfalt betra - meira að segja klósettpappír við salernisaðstöðuna frammi á ganginum og sturtuherbergið ekki hálfkarað steypuvinnusvæði eins og í blokk 2.

Einhver á móti stærðfræði... og kann ekki ensku

Myglan var það eina sem hægt var að kvarta yfir í ferðinni. Allt hitt var alveg sérdeilis prýðilegt! Þarna uppi á hæðinni úði og grúði af stúdentum og allt var einhvern veginn svo öruggt - meira að segja ganga gegnum almenningsgarð upp strjált upplýsta hæðina seint á kvöldin var eitthvað til að hlakka til. Við einfaldlega tókum þann pólinn í hæðina að vera sem minnst í herberginu.

Horft niður brekkuna á leið upp að stúdentagörðunum

Hvað var svo brallað? Jú aðallega stunduðum við túristasvig. Það er ansisniðug íþrótt sem felst í því að forðast túrista upp að markinu þrír túristar á ferkílómetra eða þar um bil. Með þessu móti má nefnilega sjá alla helstu merkisstaði og miklu meira til án þess að líða eins og kind á leið í fjárrétt að hausti.

Kastalinn að kvöldi til

Einhvern tíma skaust upp í kollinn minn að eiginlega hefðum við þurft að hafa reiðhjól því fæturnir voru alveg búnir á því á kvöldin en á móti kom að þá steinrotuðumst við af þreytu og pældum ekkert í því hvort herbergið væri myglað eður ei. Spanað var um Prag þvera og endilanga og megináherslan á að skoða byggingar, garða og mann- og dýralíf.

Við urðum að skilja skammbyssurnar okkar eftir þarna...

Horft niður í dal í átt að hæðinni þar sem við bjuggum

Í bænum grautast margir stílar saman á skemmtilegan hátt - kúbismi, júgendstíll, barrokk, endurreisn, rómantík, rókókó, klassík, gotík og fleira og fleira sem ég hreinlega kann ekki allt að nefna! Hér og hvar var svo að finna litla friðsæla garða með tjörnum, fasönum, páfuglum og blómstrandi ávaxta- og magnolíutrjám. Einnig var gaman að spássera meðfram Moldá og skoða brýrnar.

Skil ekki að ég hafi ekki labbað oftar á staura og svoleiðis við að góna á allar byggingarnar!

Geómetrískur garður við Moldá

Fallegt og friðsælt í hálfföldum görðum

Ofan af hæðinni þar sem við bjuggum mátti svo sjá hvernig borgin teygir sig út um allt og kassablokkirnar í útjöðrunum. Við hliðina á fótboltaleikvöngunum gríðarstóru voru byggingar sem hefðu sómt sér mætavel sem geimstöðvar í stjörnustríðsmynd og á einum leikvelli í risastórum almenningsgarði fundum við líka leikvöll með geimflaugaleiktækjum.

"Geimstöðin" á hæðinni

Matti við geimskipið

Leikvöllurinn sá arna varð á vegi okkar daginn sem við heimsóttum dýragarðinn. Hann reyndist nokkuð langt í burtu en allt sem við sáu á leiðinni (að ekki sé minnst á í garðinum sjálfum) bætti margfalt upp þreytta fætur. Við fundum til að mynda hverfi fullt af sendiherrabústöðum þar sem við lékum okkur að því að reyna að þekkja fánana úr fjarlægð, tré sem hægt var að ganga í gegnum, litríka hjólaskauta undir bekk (þeir pössuðu svakafínt en ég kunni ekki við að taka þá ef eigandinn kæmi seinna...), hestabúgarð og sumarhöll.

Vísukorn á vegg.Skiljið þið tékknesku?

Gámarnir gefa lífinu lit

Hjólaskautarnir undir bekknum

Dýragarðurinn var eins og þeir gerast bestir með góðu plássi fyrir dýrin og öll skilti á tékknesku, ensku og þýsku. Reyndar misstum við af öllum dagskrárliðum en tókst að fara inn í flest húsin áður en þau lokuðu og skoða öll útidýrin eftir að lokaði. Kerfið er sumsé þannig að maður getur verið inni í garðinum fram á kvöld þótt hætt sé að hleypa inn nýjum gestum og mörg dýrin farin inn í hús eða á tún utan við garðinn til að hvíla sig.

Það var afar skondið að sjá gíraffa, antilópur og sebrahesta úti á túni að hvíla sig við bóndabæ handan dýragarðsveggjanna

Fleiri myndir úr fallegum görðum

Alla morgna komum við við hjá Portúgölum sem reka matvörubúð fyrir stúdentana og keyptum brauð, jógúrt, saft, vatn og fleira en aldrei fór verðið yfir um 300 krónur íslenskar (þarf þó vart að taka fram að verðið var mun hærra á öllu slíku niðri í bænum). Auðvitað fórum við heldur ekki heim án þess að smakka nammigott tékkneskt gúllas, kartöflubollur (Klöße) og kryddpylsu á notalegri krá. Pabbi og mamma buðu okkur líka út að borða í afmælisgjöf á frönskum stað í Dansandi húsinu sem var mikil upplifun.


Stúdentarnir léku fótbolta daginn út og inn og mót alþjóðanema var haldið þessa helgi. Hægra megin sést lágreist hús þar sem Portúgalirnir ráku lítinn bar og matvörubúð með internetsíma.


Dansandi húsið þeirra Vlado Milunić og Frank O. Gehry

Hjá Portúgölunum var líka hægt að fá að hringja og þannig mælti ég mér mót við ræðismanninn í Prag, Þóri Gunnarsson. Hann var höfðingi heim að sækja og eftir kosningu til Alþingis og umræður um heima og geima var okkur boðið upp á íslenska fiskisúpu á veitingastaðnum Reykjavík. Nammigott!

Við Þórir á veitingastaðnum Reykjavík

Í Austur-Evrópu er löng hefð fyrir að skreyta egg á páskahátíðinni. Ef ég man rétt þá eignuðumst við Líney einmitt bók um eggjaskreytilist þeirra þegar við fórum á lokamarkað Ríkisútgáfu Námsbóka í Þjóðskjalasafnshúsinu í denn (þar fékk ég líka fyrstu blokkflautuna mína, hárauða plastflautu!).

Skrautleg egg

Honum þóttu blómin miklu meira spennandi en eggin

Skrautleg egg voru til sölu um allan bæ og einn daginn rákumst við inn á páskahandverkssýningu þar sem tékkneskir afar og ömmur með barnabörnin sín voru í miklum meirihluta gesta. Krakkarnir fengu nefnilega að spreyta sig hjá eldra handverksfólkinu sem sagði krílunum til við að flétta tágar, skera út fugla og skreyta egg listilega.

Vaxið er hitað í bognu skeiðinni og svo málað á eggin eða þeim dýft fyrst í vax og svo skrapað mynstur í himnuna með hníf

Meira man ég nú ekki í bili. Á heimleiðinni voru allar lestir þéttsetnar og gott að hafa pantað sæti fyrirfram og núna er liðin enn ein skólavikan. Ég hélt minn fyrsta stærðfræðifyrirlestur í vikunni og von er á fleirum þegar líður á þetta misseri. Síðasta prófið er svo í næstu viku og í þarnæstu viku ætla ég að heimsækja börn í grunnskóla hér í bæ og segja þeim frá Íslandi. Nóg að gera eins og venjulega og ekki spillir veðrið fyrir - eins og um hásumar á Íslandi og hægt að vera úti á hlýrabol á kvöldin!

03 apríl 2007

Gleðifréttir og vorverkin

Jibbí! Elsku besta systir mín ætlar að koma til Potsdam í sumar og vinna þar fyrir ÍSOR eins og í fyrra. Þetta er kjörið tækifæri til að hittast og bralla eitthvað skemmtilegt í Berlín, Potsdam og þar um kring og ekki spillir fyrir að þema ársins í Potsdam er VATN.


Þeir sem þekkja okkur systurnar vita að þetta er mikið gleðiefni því að við vitum fátt betra en að prófa kanó, kajak eða hvers konar bát, svamla í sundlaug eða stöðuvatni og í rauninni á (nánast) allan hátt leggja höfuð okkar í bleyti. Verði sumarið jafnheitt og í fyrra þá verður vatnið klárlega númer eitt, svo sest líklega ísát, berjatínsla og ferskir ávextir í annað sætið og vindur/loftkæling í það þriðja!

Tveir páskahéranna á göngu um óreiðuna á skrifborðinu mínu

Síðustu ár hef ég fengið ýmis góð ráð um flutninga á nýja staði. Þeirra á meðal er að taka með sér eitthvað sem gefur tilfinninguna "heima" og að fjárfesta sem fyrst í pottaplöntu og kertaljósum. Hefur þetta allt reynst mjög vel. Plönturnar sem ég keypti hér í Freiberg voru í frekar litlum pottum og liðu greinilega svolítið fyrir það. Því ákvað ég núna þegar vorið bankar á dyrnar að það væri orðið tímabært að umpotta. Það þýddi leiðangur í byggingavöruverslun til að finna potta, undirskálar, mold og vikur. Eftir þennan leiðangur verð ég að segja að verðlag á blómapottum heima er alveg rooosalegt miðað við hér. Kannski stafar það af þyngd pottanna og líkum á broti við flutninga?

Kátar plöntur (vona ég) og moldugt baðherbergi

Nú er gisting um páskana komin á hreint. Fer einfaldlega af stúdentagörðunum í Freiberg inn á stúdentagarðana í Prag. Hluti þeirra er nefnilega nýttur sem eins konar farfuglaheimili frá apríl og fram í september. Einnig er nánast öruggt að ég nái að kjósa til Alþingis hjá herra Þóri Gunnarssyni ræðismanni Íslendinga í Prag um páskana. Heldur betur almennilegt.

02 apríl 2007

Aprílbyrjun

Ekki tókst að gabba mig 1. apríl þótt gerð hafi verið tilraun til. Fékk mér nefnilega döner í kvöldmatinn og einhverjum ruglukollum/snillingum hafði dottið í hug að bjóða upp á nýjungina döner með lamadýrskjöti á sérstöku tilboði!


Annars var ég viðþolslaus vegna sólbrunninna kinna í gær. Passa mig alltaf voðavel á sumrin og þegar ég fer í frí til útlanda að bera á mig sólvörn en núna er ég auðvitað ekki í neinu fríi og hreinlega steingleymdi að sólin gæti verið svona sterk. Úti er brakandi blíða svo ég mæli ekki með göngutúr í hádegissól fyrir fólk sem er hvítara en lak... jah nema það sé með sólvörn að sjálfsögðu.


Í dag hefst ný önn hér í Freiberg. Stundaskráin mín er ennþá að púslast saman því að bæði rekast námskeið á hvert annað og svo er ég að velta því fyrir mér að skipta um aukafag. Mundi þá hætta við samskiptatækni og taka landupplýsingakerfi og fjarkönnunarbúnað í staðinn. Ástæðan er sú að samskiptatæknin er nánast hrein tölvunarfræði og af henni er yfrið nóg innan skyldurammans (fullmikið eiginlega finnst mér) en í þessu nýja aukafagi er útlit fyrir eitthvað sem mér líst svolítið vel á: jarð- og landfræði blandaða stærð- og tölvunarfræði.


Um páskana er háskólinn svo rausnarlegur að gefa okkur tvo frídaga; föstudaginn langa og annan í páskum. Af þessu tilefni ætla ég að skjótast til Prag í fjóra daga og verð þar með ráð frá Tékklandsförum í hópi vina og fjölskyldu í farteskinu. Held það verði ágætt svona eftir prófastressið. Raunar er prófunum ekki alveg lokið. Síðasta munnlega prófið átti að vera nýliðinn föstudag en þegar ég mætti snemma um morguninn reyndist prófessorinn vera veikur og því var öllu frestað um óákveðinn tíma.


Hér er mikið skreytt fyrir páskana, jafnt úti sem inni. Tré og runnar farin að blómstra og egg hafa verið hengd á nánast annan hvern runna í görðum við heimahús. Ég fékk nokkra héra að gjöf og dreifði þeim um herbergið mitt. Tek kannski mynd af þeim seinna og bæti hér við. Reyndi líka að blása úr eggjum - þrjú krömdust en eitt tókst! Annað hvort er ég orðin of mikil brussa fyrir svona eggjaföndur eða eggjaskurnin hér í Þýskalandi er viðkvæmari en heima.