30 september 2008

Til að opna augun

Sjá meira um þetta hér

25 september 2008

Haustsúpa

Fyrir tveim vikum kom haustið. Það gefur tilefni til að sjóða haustsúpu.

Haustmyndir í súpu

Haustkraftsúpa Bjarnheiðar - fyrir tvo (eða kannski þrjá matgranna... tekur mig a.m.k. þrjá daga að klára hana!)

Hráefni:

Ólívuolía
Laukur
Kúmen
Cayenne-pipar
Blandað grænt krydd (t.d. oregano, basilika, ...)
Svartur pipar
Gulrót
Sellerírót
Blaðlaukur
Steinselja
Rapunzel-Grænmetissoðduft
1,5 til 2 lítrar af sjóðandi vatni úr hraðsuðukatli
Bygggrjón

Aðferð:
Saxa lauk og hita í olíu í súpupotti við vægan hita meðan maður hitar vatnið í katlinum og hreinsar og saxar gulrót, sellerírót og blaðlauk. Kúmeni, cayenne-pipar, svörtum pipar og grænu kryddi slett í pottinn og saxaða grænmetinu bara sisvona jafnóðum og það safnast upp á brettinu. Svo er vatninu hellt yfir herlegheitin ásamt slatta af grænmetisdufti (ein matskeið per 0,5 lítra stendur á krúsinni svo það fara svona þrjár-fjórar slíkar í pottinn). Loks er steinseljan söxuð og bætt út í ásamt skvettu af bygggrjónum og allt látið sjóða svolitla stund.

Annars rakst ég á ansimerkilega rannsókn sem Halldóra fyrrum kórfélagi minn gerði fyrir meistaraprófsritgerð í lýðheilsufræðum og fjallar um tengsl menntunar og krabbameina. Það má lesa innganginn hér.

13 september 2008

Hreint og beint

Í byrjun júní fékk vinkona mín svefnpokann minn lánaðan til að fara í helgarútilegu. Júní var ákaflega annasamur hjá mér og eftir mikla vinnutörn lagðist ég í bólið með flensu svo ég var ekkert að reka á eftir svefnpokanum. Í byrjun ágúst var ég síðan á göngu um Saxelfursandsteinsfjallgarðana Tékklandsmegin þegar gall í Friðþjófi farsíma.

H: Hæ Bea, hvað segir þú gott?

B: Nei sæl og blessuð, bara allt fínt! En þú? Langt síðan ég hef heyrt í þér!

H: Já bara mjög fínt líka. Ég var að klára prófin.

B: Nú, til hamingju með það!

H: Takk! Heyrðu ég var að spá hérna með svefnpokann þinn...

B: ...já?

H: Ég er ennþá með hann.

B: Einmitt.

H: Hérna, ertu heima núna?

B: Nei, veistu ég er barasta stödd í Tékklandi. Við erum í dagsgönguferð hérna nokkur í hóp.

H: Jaaaá.

B: Þú getur kannski bara komið við á morgun?

H: Tjah. Ég nefnilega fer til Ítalíu í kvöld í sumarfrí.

B: Nú, vá en fínt!

H: Já.

B: En heyrðu...

H: Já?

B: Þarftu ekki á svefnpokanum að halda á Ítalíu?

H: Jah... já, jú, þú segir nokkuð!

B: Viltu ekki bara taka hann með og skila honum seinna?

H: Já, ok. Þarft þú ekkert á honum að halda?

B: Nei, blessuð vertu. Ég er bara að skrifa ritgerð þessa dagana. Ekkert annað á dagskrá hjá mér næstu mánuði.

H: Það væri náttúrulega frábært! Takk kærlega!

B: Ekkert mál! Hafðu það bara gott í fríinu!

H: Þakka þér fyrir! Góða skemmtun á gönguferðinni! Og gangi þér vel að skrifa! Við sjáumst þá í haust!

B: Já, gerum það. Blessbless.

H: Bless.

Eitthvað segir mér að ef ég væri strákur þá hefði ég sagt henni að skilja svefnpokann bara eftir hjá nágrannanum. Alla vega hefði enginn strákanna sem var með á göngunni fattað að hún var í raun að hringja til að athuga hvort það væri í lagi að taka svefnpokann með til Ítalíu. Þeir bara göptu og spurðu af hverju hún hefði þá ekki sagt það í byrjun.

Ég fékk svo svefnpokann í gær.

En þetta er svona eins og með "Heyrðu, það þarf að fara út með ruslið" sem þýðir skv. orðabókinni "Kona - mannamál, Mannamál - kona" að daman vilji að herrann fari út með ruslið. Af hverju segir hún þá ekki bara "Geturðu farið út með ruslið?"?! Æji ég veit það ekki. Ég finn alla vega að það virkar miklu betur að segja hlutina hreint út. Svo er það kannski bara kúnstin að vita hvenær það er við hæfi og hvenær ekki? Sumt fólk er svo viðkvæmt... að ekki sé minnst á mun á menningarheimum og hefðum landa. Gaman að þessu.

06 september 2008

Alveg róleg!

Stórritgerðarskrif eru ekki alveg mínar ær og kýr - eða tebolli eins og Englendingar segja. Af hverju ætli þeir tali annars um tebolla meðan við tölum um búpeninginn? Höfðu þeir ekkert betra að gera en þamba te? Kannski er þetta komið frá aðlinum. Jæja en þetta var smá útúrdúr. Ég er sumsé alveg að verða geðveik við skriftir lokaritgerðarinnar. Mikið skil ég vel að pabbi hafi bara sleppt þessu og farið að vinna eftir B.Sc. próf. Mamma lauk doktorsritgerð og Líney Halla á örugglega eftir að gera það líka en það þyrfti þá að vera eitthvert allt annað fag en stærðfræði ef ég ætti að skrifa slíka fræðasmíð.

Nú í vikunni var ég búin að setja mér það markmið að klára fyrsta uppkast að kaflanum um vægisóbreytufræðin fyrir föstudaginn. Svo sat ég bara og fann hvernig áhyggjuhrukkurnar dýpkuðu á enninu og komst ekki spönn frá rassi. Las bloggsíður og fréttasíður af meiri elju en nokkru sinni. Þangað til ég rakst á predikanir með minningarorðum um Sigurbjörn Einarsson biskup. Hann var mikill merkismaður. Ræðurnar fjölluðu m.a. um að taka bæri fyrir hvern dag í einu, ekki láta áhyggjur lama sig heldur vinna jafnt og þétt og gera sitt besta. Þetta var ágætishugvekja og ég komst aðeins á skrið.

Á þriðjudagskvöldið ætluðum við Maria að elda saman graskerssúpu. Það dróst svo fram á miðvikudagskvöld og David bættist í kokkahópinn. Ég hafði ekki séð David í lengri tíma og þegar talið barst að diplómuskrifunum sagði ég eitthvað á þá leið að ég þyrfti að hætta að hafa áhyggjur og hella mér í vinnu. Hann glotti út í annað og sagði að það væri nú nákvæmlega það sama og ég hefði sagt fyrr í sumar! Svona er nú fljótt að fyrnast yfir lífsspekina í höfðinu á manni.

Þetta varð annars hið ágætasta kvöld. Það hófst á því að Maria hellti yfir okkur svolítilli súpu (bruninn er alveg að hverfa, þökk sé aloe vera og undrasmyrslinu að norðan) en þó var svo mikið eftir í pottinum þegar við þrjú vorum orðin södd að við kölluðum Florian til liðs við okkur undir lokin. Við ræddum alla heima og geima og drukkum te í lítravís. Mestur hluti þess var svart te en í lokin var skipt yfir í engifer/sítrónute. Eitthvað er ég nú lítill koffíngrís því eftir þetta sofnaði ég ekki fyrr en klukkan að verða sex morguninn eftir! Fimmtudagurinn varð því heldur ólánlegur og ég hugsa að ég klári bara kaflann í dag - náði ekki að klára í gærkvöldi.

Nú er ég samt heldur rólegri yfir þessu öllu en áður. Búin að útbúa grænan bakgrunn á fartölvuskjáinn með skærgrænum stöfum sem segja mér vinalega á ensku að vera róleg - don't panic! Svona eins og í ferðahandbók puttalingsins um alheiminn. Ég má samt ekki verða of róleg því skiladagur nálgast óðum og mig langar ekki hætis hót að framlengja hann enda búin að vinna að þessu verkefni í meira en hálft ár án mikils stuðnings (það kom í ljós að hér hefur fólk upp til hópa ekkert vit á verkefninu mínu - leiðbeinendur mínir jafnvel síst af öllum) og komin í þann gírinn að bara rumpa þessu af sama hver einkunnin verður (sem þó vissulega er frekar leiðinlegt og letjandi).

Fari svo að ég bloggi ekki oft núna á lokasprettinum þá skelli ég hérna inn grófri áætlun:

September:
Fara yfir IDL kóðana mína og ljúka tilraunum, safna saman gömlum sem nýjum niðurstöðum og túlka þær.

Október:
Klára forritunarstarfið og ljúka skrifum undir lok mánaðarins.

Nóvember:
Fá uppkast leiðrétt og skila því svo endanlega í prentun fyrir 13. nóvember, fara að því loknu til Noregs til að heimsækja Christinu í Þrándheimi og Vöku í Harstad.

Desember:
Halda fyrirlestur og verja ritgerðina með kjafti og klóm. Berjast við allra handa nauðsynlega pappíra, halda kveðjuteiti, mála, þrífa og skila herberginu mínu hér á stúdentagörðunum. Koma svo heim rétt fyrir jólin og slappa af í faðmi fjölskyldunnar.

Plönin fyrir nýja árið eru síðan eitthvað á þá leið að ferðast um og heimsækja vini beggja vegna Atlantsála fram á vor en ráðast því næst í sumarvinnu, leit að íverustað og sækja um nám í kennsluréttindum. Mig langar nefnilega að verða framhaldsskólakennari. Jammogjá þannig var nú það. Svo er bara að leggjast á árar til að ljúka ritgerðar... *hóst* já, ritgerðinni heil á geði!

Inn og út um gluggann...

Eitt er það sem mér virðist vanta gjörsamlega í þýska þjóðarsál og það er "þetta reddast"-hugsunarhátturinn. Það er aldrei bara byrjað á verki sviphendingu eftir að hugmynd fæðist heldur þarf að rökræða fyrst, finna og krifja til mergjar öll möguleg vandamál (og ómöguleg) sem upp gætu komið. Að þessu loknu eru allir orðnir verulega svartsýnir á að hægt sé að hrinda hugmyndinni í framkvæmd yfir höfuð.

Í byrjun apríl...

Þó er eitt jákvætt sem fylgir þessu og það er að komist framkvæmdin gegn um svartsýnismúrana þá er hún vel skipulögð. Eða svo taldi ég a.m.k. lengi vel. Nú hef ég hins vegar haft fyrir augum og eyrum mikla framkvæmd hérna í götunni minni síðan í byrjun apríl og ég hef sjaldan séð jafnfurðulegt skipulag. Þetta verður þó að taka með þeim fyrirvara að ég hef ekki hundsvit á gatnaframkvæmdum.

...var önnur hliðin tekin fyrir

Byrjað var á að fræsa upp helming götunnar langsum. Svo var grafið, skipt um einhver rör og brotnir upp sprotar út frá götunni til að komast að aðlögnum að húsinu. Gott og blessað. En þetta átti eftir að endurtaka sig. Næst var fyllt upp og hinn helmingurinn fræstur burt. Grafið meira og sprotarnir sem höfðu verið fylltir upp opnaðir á ný til að komast að einhverjum öðrum aðlögnum sem setið höfðu þægar og góðar við hlið hinna aðlagnanna allan tímann. Nú var fyllt upp að nýju en þá er ekki öll sagan sögð.

Um miðjan júní var ráðist til atlögu við aðlögn undir glugganum mínum

Nei, því síðan var öll gatan grafin upp aftur, sprotarnir sömuleiðis, þriðja lögnin tekin fyrir og fyllt upp í allt saman. Síðan var hafist handa við að grafa enn á ný, nú nokkru grynnra en áður og mér sýnist sem þeir séu að undirbúa endanlegan frágang núna með jarðvegsneti, malaríburði og steypustútum til að komast að lögnunum síðar meir.

Þessi aðlögn hefur í allt verið grafin upp og fyllt þrisvar sinnum

Nú spyr sú sem ekki veit: hefði ekki verið einfaldara að grafa allt upp og hafa það opið meðan rörin voru tekin fyrir hvert á fætur öðru? Tjalda jafnvel yfir herlegheitin á meðan? Ég er búin að vakna við högghamra, skrölt í beltagröfum og ræsingu rafstöðva hvern einasta morgun nema sunnudagsmorgna síðan í byrjun apríl. Þessu á síðan ekki að linna fyrr en í lok október samkvæmt tilkynningunni sem hangið hefur upp á vegg síðan um miðjan apríl.

Svona leit gatan út í lok júní...

Gatan er eins og ég ímynda mér að þær hafi verið á miðöldum í bæjum sem ekki höfðu efni á að leggja steina í götuna - eitt drullusvað - og stundum ekki hægt að komast upp að húsunum nema um krókaleiðir gegnum runna eða út frá kjallaranum. Á tímabili þurftum við að ganga alla götuna á enda og svo aftur til baka til að komast á bókasafnið sem er í beinni loftlínu út frá húsinu. Það var nefnilega bara byggð ein brú yfir skurðina og hún er við hliðina á stað þar sem vel er hægt að ganga yfir án brúar.

...og ástandið breyttist ekki mikið fram í ágúst

Drullan berst svo inn um glugga jafnt sem dyr og eins og það sé ekki nóg þá hefur líka tíðum gerst að eitt eftirtaldra detti út part úr degi og allt upp í yfir heila helgi: rafmagn, kalt vatn, heitt vatn, vatn yfirhöfuð, tenging við umheiminn.

Eitthvað grunar mig að á Íslandi væri fólk ekki alveg sátt við svona vinnubrögð!

Ekkert vatn í byrjun september

En nú í gær heyrði ég skýringu á þessu. Nokkrir partýdrengjanna hér á neðstu hæðinni stóðu saman í hnapp við að skeggræða daginn og veginn. Talið barst að framkvæmdum: Í Þýskalandi fengi einn maður starfið, ynni það afar óskilvirkt og fengi laun á við tuttugu Pólverja í Póllandi. Í Póllandi fengju tuttugu menn starfið, ynnu það sæmilega skilvirklega og fengju allir samanlagt laun á við einn Þjóðverja í Þýskalandi. Svo fór ég inn og las það í speglinum að hið sama gilti um bakaralærlinga og iðnaðarmenn yfir höfuð. Þar höfum við það.