08 nóvember 2005

Buore eahket

Í kvöld lærði ég sitthvað um samíska menningu og oggupons í tungumálinu (buore eahket þýðir góða kvöldið). Það minnti mig á ævintýralegt ferðalag fjölskyldunnar um Danmörku, Svíþjóð, Finnland og Noreg árið 1991. Það var í fyrsta sinn sem við Líney Halla fórum til útlanda. Afi, amma, mamma, pabbi og við Líney lögðum heila 5500 km að baki á tveimur vikum í húsbíl bræðra hennar mömmu. Auk þess að heimsækja Línu Langsokk, Nilla litla Holgersson, elgi, broddgelti og alla sænsku búálfana kíktum við á heimaslóðir Lappa, eða Sama eins og þeir vilja láta kalla sig núna.


Óli bróðir mömmu býr í Kiruna í Lapplandi í Norður-Svíþjóð og konan hans á ættingja í Karesuando, nyrsta bæ Lapplands. Við heimsóttum þá og þeir voru með Lappatjald í garðinum hjá sér með "rúmum" úr birkihríslum með hreindýrsskinnum. Afar þægilegt ef ekki hefði verið blómsturtími myggen (moskítóflugur) - ég endaði alla vega á að sofa inni í húsbíl til að verða ekki étin lifandi. Man að við krakkarnir fórum út í frisbí og ekki sást í okkur fyrir svörtum flugnaskýjum. Við lékum okkur lengi fram eftir og ég heyrði eitthvað illa þegar mamma vildi fá okkur í háttinn. Annað eyrað mitt reyndist vera þakið storknuðu blóði eftir allar stungurnar og því ekki nema von að ég heyrði lítið!

Skrýtið að læra nú í kvöld að að Samar í Noregi hafi verið píndir til að tala norsku og "gleyma" eigin menningu allt frá lokum 19. aldar og fram undir 1970 og það sem meira er að samíska hafi ekki verið viðurkennt sem opinbert tungumál Sama í Noregi fyrr en árið 1992 og lög um kennslu samísku í grunnskólum Sama samþykkt fyrst árið 1997 - allt þetta eftir mikla baráttu! Ástandið var víst svipað í Finnlandi en aðeins skárra í Svíþjóð samkvæmt samasíðu þeirra. Jah svei mér þá...

Engin ummæli: