24 nóvember 2008

22 nóvember 2008

Hvítt

Það er allt hvítt. Hvítt, hvítt, hvítt. Á leiðinni heim af alþjóðahátíð Freibergbæjar nú fyrr í kvöld varð ég samferða tveim rússneskum vinum mínum, þeim Sergej og Kötku. Við fórum í snjóstríð og hoppskoppuðum af gleði yfir snjónum. Svo fór gamanið aðeins að kárna undir lokin þegar snjóstormurinn var orðinn svo svakalegur að það var erfitt að anda, við sáum ekki handa okkar skil og öll ummerki um göngustíginn sem liggur að stúdentagörðunum voru horfin! Heim komumst við þó eftir smá sikksakk. Núna er vindinn aðeins að lægja.

Eldhúsborðið heima hjá Deliu

Hátíðin var litrík og skemmtileg. Dans, söngur, hljóðfæraleikur og góður matur frá öllum heimshornum. Vísur Vatnsenda-Rósu voru mitt framlag. Kannski hefði Þorraþrællinn passað betur? Nema það er auðvitað ekki nærri kominn Þorri.

Antje hnoðar deig og segir frá úrvinnslu jarðskjálftamæligagna

Þessa viku hef ég náð upp svefni og legið svolítið í leti. Eða svona. Eins langt og það nær. Hef alla vega verið rólegri en venjulega. Á sunnudaginn fyrir viku hitti ég jarðfræðistelpurnar Deliu, Anne, Jule og Antje til að baka jólasmákökur. Mestmegnið af þeim sendum við svo til Colorado til Daniels vinar míns og kærasta Deliu. Hann verður úti um jólin svo við vonum að tollurinn hleypi heimabökuðum smákökum í gegn. Létum þær í danskt sprautukökubox og límdum fyrir alveg eins og þetta væru verksmiðjuframleiddar kökur.

Þegar hér var komið sögu voru kanilstjörnur búnar að leggja undir sig ganginn

Eftir baksturinn hjólaði ég svo með Mariu heim til Davids. Hann á heima uppi á einni hæðinni og er með arin inni hjá sér. Algjör snilld! Við bökuðum hvítmygluost og notuðum brauð til að veiða upp bráðinn ostinn. Síðan fylltum við epli af kanil, sykri, rúsínum og möndlum og bökuðum þau á arninum. Ég næstum sofnaði framan við arininn - ekkert smá notalegt liggja á gólfinu framan við snarkandi eld.

Delia hnoðar deig í skákborðskökur

Á mánudaginn skrapp ég svo til Dresden til að hitta Guðnýju. Hún var að klára diplómu í eðlisfræði við Humboldt háskólann í Berlín og var með álíka ónýta leiðbeinendur og ég. Sama hver ástæðan fyrir því er nú... Við töluðum samfleytt í fjóra tíma! Ótrúlega gott að spjalla á íslensku um verkefnin okkar og hvað nú tekur við. Svo heimsótti ég Pit í lokin. Fer aftur til Dresden á morgun og þá ætlum við Pit að fá okkur ís í snjónum og æfa meiri íslensku. Annars er Yoann á leið til Íslands á mánudaginn og ætlar að taka fyrir mig nokkrar bækur heim svo það er meginástæðan fyrir Dresdenförinni. Við ætlum að borða saman hádegismat og vega og meta hvort hann eigi frekar að taka með sér línuskauta eða venjulega skauta til Reykjavíkur.

Við Jule í herbergi Deliu

Kannski var bara ágætt að ég gleymdi að afpanta BahnCard25 lestarkortið fyrir þetta ár. Það framlengist alltaf af sjálfu sér og ég sem hélt að ég þyrfti það ekkert fyrir þetta ár er nú með svo margar Dresdenferðir planaðar að það gæti alveg borgað sig. Svona þegar ferðin til Berlínar til að ná fluginu heim bætist við. Í næstu viku er DAAD styrkþegarfundur í Dresden og skyldumæting þangað. Svo ætlum við Florian - strákurinn sem fór yfir ritgerðina mína þegar leiðbeinendurnir brugðust - að skella okkur á fílharmóníutónleika í Semperóperunni á sunnudaginn eftir viku og fara í framhaldinu á sýningu í Deutsches Hygiene Museum sem hefur hamingjuna að umfjöllunarefni. Það verður spennandi að sjá! Ég hef aldrei farið á fílharmóníutónleika. Skömm frá því að segja eftir að hafa búið hér svona langan tíma!

Anne heldur betur húsmóðurleg við að mauka epli í pott

Þarf líka að gera skurk í því að skoða öll fínu söfnin í Dresden. Þar eru alveg ótrúlegustu gersemar geymdar. Flestir ítölsku meistaranna komu til að mynda til Dresdenborgar til að nema eða starfa við listaakademíuna þar og því er ófá frægra verka þar að sjá. Jammogjá. En fyrst er jú að undirbúa og halda fyrirlestur um diplómuverkefnið mitt. Loks búið að finna tíma sem hentar öllum þann 3. desember og það er því ekkert svo langt þangað til - jibbíjeij!

Kalle og Harriet úr Hellsongs í Bärenzwinger

Maria kláraði síðasta stóra diplómuprófið sitt núna á þriðjudaginn. Við fórum með David, Karsten og fleirum á tónleika með sænsku sveitinni hellsongs til að fagna þessum áfanga. Látið ekki nafnið hrella ykkur heldur prófið að hlusta. Mæli með þeim - þau hafa mjög mikla útgeislun á sviði, fá salinn til að vinna með sér og skapa virkilega góða stemmningu. Ég hef líka aldrei tekið almennilega eftir því hve textar sveita á borð við Iron Maiden eru góðir. Ekki fyrr en ég fór að hlusta á hellsongs. Magnað.

16 nóvember 2008

Stiklur

Þessi helgi er sú fyrsta án nokkurs háskólatengds síðan í júlí þegar ég fór heim til Íslands. Eiginlega renna dagarnir og mánuðirnir - sérstaklega september og október - bara saman í eina samtóna runu í huganum. Runu fulla af vísindagreinum, stöðugri baráttu og á stundum örvæntingu. Mér er sagt að það sé bara ekkert svo óalgengt að leiðbeinendur meistara- eða diplómuverkefnis bregðist jafngjörsamlega og í mínu verkefni. Það þykir mér alveg ömurlegt. Ímyndið ykkur bara hvað það gætu orðið til mörg góð verkefni ef leiðsögnin væri góð!


Í stuttu máli þá hef ég hitt prófessorinn minn þrisvar sinnum þessa átta mánuði til þess að ræða um verkefnið. Oftast hafði hún eiginlega engan tíma, aldrei var hún búin að kynna sér fræðin sem að baki liggja að neinu ráði og alltaf var hún samt með fullt af hugmyndum sem ég gæti útfært í verkefninu. Þegar ég svo lagðist yfir hugmyndirnar kom oftast í ljós að þær voru mjög óraunhæfar - til að mynda var ein hugmyndin þannig að þrír stórir hópar vísindamanna í Ástralíu, Rússlandi og Bandaríkjunum hafa glímt við sama verkefni í sjö ár án þess að fá almennilega niðurstöðu. Svo átti ég bara að galdra þetta fram í sex mánaða diplómuverkefni? Góðan daginn!


Hinn prófessorinn hitti ég aldrei vegna verkefnisins. Hann var nánast aldrei viðlátinn og þegar við hittumst var það oftast vegna ráðstefnunnar um stærðfræði í jarðvísindum sem haldin var í sumar og ég átti stóran þátt í að skipuleggja. Um doktorsnemann hef ég áður skrifað hér. Hann hefur ekki hundsvit á fræðunum að baki verkefninu en þykist samt vita allt og tókst að sannfæra mig um að svo væri í það langan tíma að ég lenti í mikilli tímaþröng í lokin við að leiðrétta alla vitleysuna og fara inn á aðrar brautir en hann leiddi mig.


Síðustu vikurnar voru algjört helvíti - afsakið orðbragðið. Ég svaf varla meir en 4-5 tíma á nóttu og það var þá hálfgert mók þar sem ekkert komst annað að en verkefnið. Svo vann ég frá sjö til miðnættis uppi í Steigerhaus við námuna Reiche Zeche eða hér heima allt eftir því hvort ég þurfti að nota greiningarforritin sem bara eru í boði í Steigerhaus eður ei. Hvorki hugur né líkami heldur svoleiðis maraþon út en Líney Halla og fleiri sáu um að koma mér á lappir aftur þegar ég lá bara og grét og gat ekki meir. Nágranni minn gaf mér líka teblöndu sem hjálpaði við að sofa 6-7 tíma á nóttu síðustu vikuna fyrir skil.


Ég er alveg óendanlega þakklát öllum þeim sem sendu mér kveðju eða póstkort eða hugsuðu til mín meðan á þessu stóð. Það er alveg ómetanlegt. Auðvitað var líka ekki alveg allt ómögulegt allan tímann. Haustið var fallegt í Freiberg, vinir mínir litu alltaf öðru hvoru við og tvisvar fór ég á tónleika - Borko og Seabear í Dresden og Emilíönu Torrini í Hamborg. Í byrjun var erfitt að hætta öllu félagastússi og svara ekki öllum tölvupóstum um hæl eins og ég er vön en það venst allt. Núna get ég líka hellt mér út í það að nýju, það virkar svona eins og gulrót (hvatning).


Strákur sem er að læra með mér landupplýsingafræði og Líney Halla hjálpuðu mér mikið með því að lesa yfir uppköst að ritgerðinni því að ekki bar neitt á slíku frá leiðbeinendunum sama hvað ég sendi þeim. Rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið fékk ég loksins sendar leiðréttingar frá prófessornum og ritgerðin þurfti að fara í prentun daginn eftir. Það var því löng nótt og ég setti síðasta punktinn klukkan 11 daginn eftir. Fjölritunarstofan lokar klukkan 12 á mánudögum svo ég rétt náði að borða eitthvað til að geta staðið í lappirnar og mætt þangað fyrir lokun.


Ég var svo þreytt og utan við mig að það er ekki annað hægt en hlæja að því. Fór til að mynda í bolinn ranghverfan með miðann fram, gekk á hurðir og hjólaði næstum því á tré. Svo svaf ég í 13 tíma. Þurfti að vakna snemma á þriðjudaginn því að þann dag og miðvikudag var loksins komið að því að klára námskeið í þrívíðum jarðlíkönum sem ég tók í fyrravetur. Alltaf átti að koma gestafyrirlesari frá Frakklandi til að binda endahnút á kúrsinn en hann forfallaðist í febrúar, apríl, júlí og september og kom loks í þessari viku. Nú þarf ég bara að klára skýrslu um gerð viðbóta og betrumbóta fyrir gOcad og halda fyrirlestur um efni ritgerðarinnar minnar og þá fæ ég loksins síðasta plaggið sem þarf til að klára diplómunámið.


Pollýannan ég reyndi að hugsa um að ég hefði það í raun ekki svo slæmt. Svona miðað við allt og allt. Núna er samt þungu fargi af mér létt og þreytan hellist yfir. Ég hlakka mikið til að koma heim til Íslands. Hef bara fylgst með hruni spilaborgarinnar úr fjarlægð og rætt málin við félaga mína hér - sem er reyndar ágætt, þá hefur maður aðra sýn á hlutina. Kannski verða það einmitt íslenskir námsmenn erlendis eða almennt Íslendingar sem eru eða verið hafa erlendis sem koma til með að hjálpa hvað mest við enduruppreist landsins? Þannig var það í það minnsta í sjálfstæðisbaráttunni og mér virðist spillingin vera það mikil (allir flæktir í netin) að verulega sé þörf á fólki sem sér málin í víðara samhengi og er ekki tengt neinum beint persónulega.

08 nóvember 2008

Allt að koma...

Jæja! Nú held ég hreinlega að það sem stendur hér til hliðar á síðunni sé að verða að veruleika. Alla vega þarf eitthvað mikið að vera að ritgerðinni minni til að leiðbeinendurnir stoppi mig af við að fara með hana í prentun núna á mánudaginn. Auðvitað er eitthvað snurfus eftir og ég þarf að undirbúa öll forrit á þar til gerðan gagnadisk og svoleiðis en það er allt létt verk og löðurmannlegt í samanburði við grettistak síðustu vikna! Bráðum get ég svo farið að birta hér pistla reglulega á ný - ég giska á eftir viku eða svo.