11 desember 2005
Ferðast á bylgjum og bílum
"Það er dýrt orðið... og ekki er það drottins!" sagði systir mín þegar hún heyrði auglýsingu um jólakveðjur í Ríkisútvarpinu. Mamma benti þá á að 147 kr fyrir orð sem bærust vítt og breitt væri nú ekki mikið í samanburði við frímerki, tíma og efni sem færu í jólakortaskrif. Það sem mér fannst samt skondnast var þetta með að blanda drottni í málið. Við systurnar erum nefnilega hvorki skírðar né fermdar en þessi setning hljómaði eins og mælt af vörum gamallar konu í kvenfélagi einhvers söfnuðarins. Kannski áhrif frá hinni mætu konu Unni á Stað?Mig langar til að líta í heimsókn til Akureyrar en það er orðið svo dýrt bæði að fljúga og taka rútuna. Rakst þá á þessa sniðugu samferðasíðu sem hefur þýsk Mitfahrzentrale að fyrirmynd. Nú er bara að bíða og sjá. Í augnablikinu óska mun fleiri eftir fari en bjóða far en hver veit nema það eigi eftir að breytast þegar líður á vikuna.Líney Halla fékk hvatningarverðlaun Eðlisfræðifélags Íslands á föstudaginn. Mér finnst hún vel að þeim komin og vænti þess að þetta sé bara skref á leiðinni að Nóbelnum!Á morgun er próf í inngangi að hagnýttri stærðfræði. Sjaldan hef ég haft jafnóljósa hugmynd um hverju búast megi við á prófi og samt verið frekar róleg. Búin að undirbúa mig ágætlega og með Schaum's Outline Series Mathematical Handbook of Formulas and Tables frá 1969 við höndina ættu hin allraljótustu tegur við Fourier ummyndanir og lausnir Sturm-Liouville jaðarskilyrðaverkefna ekki að vefjast of lengi fyrir mér. Vona síðan að rólegheitin haldist áfram í bland við hæfilegan taugatitring í fyrramálið...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli