08 nóvember 2009

Óskiljanlegt

Þjóðhagslega hagkvæmt að eyðileggja vatnsból Reykvíkinga? Kröfuganga gegn því að umhverfisráðherra setji spurningamerki við áformin? Jah, detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði!

31 október 2009

Jæja

Færsla um þjóðgarðamaraþon með Ásdísi og seinni hluta vorferðalagsins liggur enn hálfkláruð og rykfellur víst enn frekar fram að jólum með þessu áframhaldi. Ég ætlaði ekki að hætta að blogga en einhvern veginn snýst nú allt um kennslu, að undirbúa kennslu, fara yfir verkefni, skrifa verkefni, ígrunda (í kennaranáminu) og fleira í þá áttina þessa dagana. Stundum gerast samt hversdagsörsögur sem segja mætti frá á blogginu (svona þegar tóm gefst til skrifa) og hér að neðan kemur ein slík.


Júdó er sniðugt. Einhvern tíma lærði ég undirstöðuatriðin í júdó hjá Bjarna Friðrikssyni í Ármanni. Ef ég man rétt þá var Helgi Tómas að æfa þar og ég fékk að fljóta með. Það fyrsta sem maður lærir í júdó er að detta og þessi lærdómur virðist byggjast inn í mann líkt og sundtök eða hjólstig. Alla vega er ég tvisvar búin að lenda í slysi á hjólinu síðan í sumar og í bæði skiptin hefur það bjargað miklu að ósjálfrátt fór ég í júdórúllu í stað þess að bera fyrir mig hendurnar. Í fyrra skiptið var ég að leita að götunni hennar Rástu og hjólaði á ljósastaur (!) í þungum þönkum yfir hvort það væri nú þessi gata eða sú næsta. Seinna skiptið var núna um daginn. Þá kom skyndilega bíll á fleygiferð út úr innkeyrslu og ekki séns að stoppa eða beygja frá svo kabúmm ég flaug í boga og lenti fyrir einhverja heppni á grasigróinni umferðareyju, heil á húfi fyrir utan stórt mar og tognaða tá. Annað hvort er ég svona ljónheppin eða júdóið bjargaði því að meiðslin urðu ekki verri en þetta.

03 ágúst 2009

Dýrasta klósettferð lífs míns

Eftir notalegt sunnudagskvöld með Huga, Óla frænda frá Svíþjóð, Peter, Stefan, Heiðari, Líneyju og Sigga og pabba og mömmu hjóluðum við Stefan á Guðrúnargötuna og hófumst handa við samsetningu skrifborðs og fleira sem flutt hafði verið af Reynimelnum fyrr um daginn. Seinna um kvöldið var von á Anniku frá Freiberg sem tekið hafði skyndiákvörðun um að fljúga til Íslands og krækja þannig í skottið á ferð foreldra sinna um miðhálendið.

Georg mætti á svæðið til að taka á móti Anniku, við bjuggum um hana á sófanum og ég ætlaði rétt sem snöggvast að skreppa á klósettið þegar ógæfan reið yfir. Kannski svolítið dramatískt orðalag en lykillinn sumsé brotnaði í skránni þegar ég ætlaði að yfirgefa náðhúsið! Þá voru góð ráð dýr. Eftir nokkrar bollaleggingar fjarstýrði ég Stefan til að hringja í pabba í von um að hann gæti lánað okkur verkfæri. Enginn svaraði. Næsta ráð var að hringja í Sigga og Líneyju og til allrar hamingju voru þau ekki farin að sofa þótt klukkan væri að skríða í eitt.

"Hello, uhm, this is kind of an emergency..." byrjaði Stefan símtalið og svo tók ég við eftir fremsta megni. Það er undarlegt að tala í síma í gegnum skráargat, ég mæli ekki með því. Meðan Líney og Siggi tóku til verkfæri (hver fann upp sexstjörnuskrúfuna?! þarf að finna þann snilling í fjöru...) leitaði ég að mögulegum útbrotstólum í öllum skápum en varð ekki mikið ágengt: naglaklippur, skæri, ... ekkert dugði til að losa skrúfurnar mín megin. Siggi var með þetta fína skrúfjárn sem passaði næstum því og tókst bæði að losa skrúfur og ýta út lykilbútnum brotna.

Hvað gætum við gert næst? Ekki áttum við nógu langan stiga til að ná upp á aðra hæð og þess utan er glugginn frekar óþægilegur (lesist: nánast ómögulegur) útgöngu. Þá fékk ég hugmynd. Tannþráður! Ég sendi tannþráðsenda út um gluggann og niðri í garði batt Líney poka með skrúfjárni og lykli að herbergi Stefans (ef ske kynni að hann passaði) fastan svo ég gæti veitt herlegheitin aftur upp. Nú var hafist handa við að losa skrúfur og prófa lykla. Lykillinn atarna reyndist vera nákvæm spegilmynd baðherbergislykilsins og því borin von að hann gæti hjálpað. Ekkert þýddi heldur að skrúfa af hurðarhúninn og hjarirnar voru pikkfastar.

Hinu megin hurðarinnar upphófust nú tilraunir með herðatré enda sumir þeim megin komnir í spreng og langaði að nýta baðaðstöðuna. Herðatréð festist í skránni dágóða stund og þótt mér þætti þetta ennþá mjög fyndið, absúrd og súrrealískt þá var baðkarið kannski ekki alveg besti rúmkostur sem ég gat óskað mér það sem eftir lifði nætur. Því var hringt á lásasmið og herðatréð náðist út með braki og brestum rétt í tæka tíð til að smiðurinn knái gæti komist að með tólin sín og opnað dyrnar. Þetta varð dýrasta klósettferð lífs míns. Kettir í Norðurmýri settu upp á sér stýri og úti er ævintýri.

21 júlí 2009

Nýja Jórvík

Stórborgin speglast í einu háhýsanna

Yfirþyrmandi. Þannig fannst mér New York vera. Mannmergð, háhýsi, dýrtíð. En líka almenningssamgöngur sem virka, notalegir staðir á borð við Central Park, líf allan sólarhringinn. Svolítið mikið þannig samt að maður þarf að vita hvert skal halda. Vita hvar góðu staðirnir eru. Mér til happs var Ragnheiður í fríi en hún þekkir aragrúa af góðum stöðum og lóðsaði mig bókstaflega um allt, algjör bjargvættur.

Rólegheit í Central Park

Það var svo skemmtilegt að standa kannski úti á götu í hringiðu og vita ekkert hvert skyldi halda, þá þekkti Ragnheiður einhvern veitingastað, kaffihús eða kirkju í nágrenninu þar sem gaman var að líta inn. Þannig gengum við inn á óvænta kórtónleika í einni stærstu kirkju heims, smokruðum okkur út í horn til að fá borð á litlu tehúsi, fengum æðislegan malasískan mat á veitingahúsi sem leit út fyrir að vera dyrnar einar utan frá séð, fylgdumst með ítölskum mafíósum meðan við borðuðum bestu flatbökur borgarinnar (skv. vini Ragnheiðar, hann prófaði alla pizzustaði borgarinnar á einu ári eða svo) og fleira og fleira.

Ragna á malasíska veitingastaðnum

Á rölti nálægt CNYU

Auðvitað heimsóttum við líka víðfræga staði, sigldum til Staten Island, týndum okkur í söfnum og reyndum að halda aftur af okkur til að ganga ekki alveg af okkur lappirnar. Náttúrugripasafnið var samt svo ótrúlega skemmtilegt að við fórum eins og í leiðslu úr einum salnum í annan, vorum alveg gjörsamlega búnar á því í lokin og hefðum örugglega bara staðið úti á götu, svangar og pirraðar ef ekki hefði komið til sniðuga svarta bókin hennar Karenar sem leiddi okkur í teboð til drottningarinnar í Undralandi þar sem við hlóðum batteríin með skjaldbökuskonsum.
Við sáum Frelsisstyttuna og borgina frá sjó af Staten Island Ferry

Á degi heilags Patreks voru hátíðahöld í bænum og skrúðganga mikil gekk fram hjá Central Park og Metropolitan safninu sem var áfangastaður dagsins. Þegar við vorum að nálgast safnið heyrðum við lúðrahljóm og þyriltrommur í fjarska og ég hljóp ringluð af stað til að missa nú ekki af skrúðgöngunni. Missa af henni? Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir stærðinni. Við sáum hesta, sekkjapípur, skotapils, trommur, fimleikahópa, fólk í alls konar búningum og grænmálaða áhorfendur í írskum lopapeysum. Gáfumst svo upp á skosk/írsk/bandarískum þjóðlögum og skutumst í langan og góðan safnleiðangur meðan skrúðgangan hélt áfram og þegar við komum út var eins og við hefðum aldrei skroppið frá, við misstum ekki af neinu - skrúðgangan virtist endalaus!

Íslenskt skyr í matvörubúð á Broadway

Síðar sama kvöld endaði kráarrölt ofan í kjallara á tónleikum með Sprengjuhöllinni og Ingrid Olava. Þar var Íslendingasamkunda mikil og ég sem hafði ætlað mér að dansa svolítið gleymdi því bara og datt í samræður enda alltaf gaman að hitta gamla félaga sem ég hafði jafnvel ekki séð síðan í grunnskóla.

Mósaíkveggmynd í Harlem

Helgina í lok New York vikunnar kom Valla í heimsókn. Peta frænka Ragnheiðar hafði nefnilega boðist til að sýna okkur vinkonunum heimkynni Sameinuðu þjóðanna í New York og slíku boði er ekki hægt að hafna! Það var sko heimsókn í lagi, enda Peta alveg hafsjór af fróðleik um allt sem varðar utanríkismál og ekki síður um hvert skuli halda til að finna hitt og þetta í borginni.
Bindum enda á stríð í heiminum - skýr skilaboð frá þessari styttu

Fleiri myndir frá New York borg er að finna hér og vonandi gefst bráðum tími til að púsla saman og bæta við skrúðgöngumynd frá írska hátíðardeginum hans heilags Patreks.

04 júlí 2009

Sandkastali

Við Helga byggðum sandkastala í Nauthólsvík í dag

17 júní 2009

Einu sinni verður allt fyrst...


Tjah, ég held svei mér þá að ég hafi aldrei áður farið niður á Austurvöll til að hlusta á ræðuhöld, kóra syngja, lúðra glymja og fána blakta á 17. júní. Man einna helst eftir sölubásum og blöðrum í Lækjargötu, tónleikum á sendibíla-sviði við höfnina, og þá félaga Bjössa Bollu og Tóta trúð reyna að vera fyndnir í Hallargarðinum hjá Thor-Jensen-húsinu við Fríkirkjuveginn.


Samt er ég búin að stefna svo mörgum ferðamönnum niður í bæ á 17. júní til að hlusta á þessa hátíðardagskrá að ég ákvað að skella mér í morgun. Svona svipað og ég man að flestir í Freiberg höfðu aldrei séð Bergmannparade, skrúðgöngu námuverkamannanna, einfaldlega af því að það átti sér stað á hverju ári og því alltaf hægt að fara næsta ár þar á eftir... nú eða bara aldrei.


Þetta var ágætt. Gott veður aldrei þessu vant og mér fannst gott að forsætisráðherra var ekkert að fegra hlutina þegar hún reyndi að blása mönnum kjark í brjóst. Hins vegar brá mér svolítið við að sjá alla löggæsluna og hvernig nokkrir voru hreinlega umkringdir hægt og hljótt af lögreglumönnum svona eins og ef ske kynni að þeir myndu láta í sér heyra. Hrrrollur.

Princeton, Philadelphia og Íþaka

Í mars og byrjun apríl fór ég í heimsókn til nokkurra vina minna í Bandaríkjunum og frændfólks míns í Kanada. Ferðin var eiginlega alveg ólýsanleg og svo viðburðarík að ég hef hvað eftir annað gefist upp á að skrifa ferðapistil en núna ætla ég að byrja aftur og sleppa þá bara hinu og þessu úr af handahófi eða eftir því hvert myndirnar leiða mig.

Ferðin vestur um haf hófst á því að ég rétt náði flugrútunni á BSÍ með lítinn farangur (merkilegt hvað maður þarf í raun lítið af dóti á löngu ferðalagi), bunka af bókum og tuttugu (misstór) páskaegg. Flugið gekk vel, sætisskjárinn minn var að vísu eitthvað bilaður en ég hafði í nógu að snúast við lestur, handapat og frönskutilraunir til að aðstoða franska sessunauta mína við útfyllingu eyðublaða og svo hitti ég fyrsta X-arann, hann Össa, af tilviljun í vegabréfabiðröðinni á Kennedy-flugvelli.

Íslenskar sauðkindur

Út um allt í New York borg var hjálpfúst starfsfólk til að aðstoða við lestarmiðakaup og leiðbeina ferðalöngum. Valla tók líka á móti mér á Penn lestarstöðinni þannig að allt gekk eins og í sögu. Við hoppuðum beint upp í næstu lest til Princeton þar sem Geir og kisan Snælda biðu okkar í eins konar sumarhúsabyggð utan við bæinn. Þar eiga þau Valla heima ásamt brjáluðu latastrákssófasetti innan um ógrynni af bókum, sjónvarp sem vegur kringum tonn, alls konar sniðugt eldhúsdót og fleira sem sprengir skápa. Við kisa urðum fljótt ágætisvinir og hún malaði ofan á sænginni þegar ég fór að sofa. Í stuttu máli sagt virkilega notalegt!

Listaverk á almenningsbókasafninu í Princeton

Princeton er mjög vinalegur lítill bær með fallegu háskólasvæði og ég hreinlega verð að ferðast til Oxford og Cambridge einhvern daginn til að sjá fyrirmyndirnar að því. Eiginlega gat ferðin til Bandaríkjanna þar sem flest er svo stórt og yfirþyrmandi ekki byrjað betur og rólegar en einmitt þarna. Við tókum Princeton-háskólastrætó inn í bæinn, skoðuðum okkur um á háskólasvæðinu og í aðalgötunni og heimsóttum bæði bókasafnið og pósthúsið. Á pósthúsinu gaf póstmaðurinn okkur sleikipinna, stimplaði pakka með fyndnum upphrópunum og gaf góð ráð um hverju við mættum nú ekki missa af í nágrenninu. Ekkert smá almennilegur!

Sko fínu rafeindirnar kringum tréð!

Vorhléið var að byrja svo að nemendur í grunnnámi, sem jafnframt eru margir hverjir íbúar Harry Potter kastalanna á svæðinu, voru fæstir heima og því rólegt líf í bænum. Einhvern veginn get ég heldur ekki ímyndað mér neinn æsing þarna, hafði það á tilfinningunni að fólk væri almennt bara frekar hugsi og rólegt. Ekki samt svo að skilja að fólk hafi ekkert að gera þarna, mér virtist t.d. námsálagið vera alveg feikinóg hjá Jomma og Geir, og hreinlega jaðra við að vera of mikið.


Vegglistaverk við South Street

Valla er við nám í Philly og þangað skutumst við tvo daga í röð til að skoða okkur um. Það er sko litrík borg! Veðrið var heldur grátt en vegglistaverk og skúlptúrar út um alla borg bættu úr því svo um munaði. Fyrri daginn týndum við okkur í sölum gríðarstórs listasafns og þar þýðir sko ekkert að skoða allt. Við völdum okkur sali með musterum og list Austurlanda annars vegar og vestrænni myndlist frá 20. öld hins vegar, sáum sitthvað á leiðinni þangað og enduðum svo í listasafnsbúðinni. Það er góður skammtur. Fyrir utan safnið borðuðum við nesti í eins konar víkingaskála með útsýni yfir Delaware ána og héldum svo yfir á hinn bakkann gegnum hverfi með skýjakljúfum og inn í litagleðina í South Street. Mér var síðan að sjálfsögðu ekki hleypt burt úr borginni án þess að prófa Philly Cheese Steak, langloku með nautakjöti, lauk og osti.

Fínir gripir unnir úr drasli af ruslahaugunum

Daginn eftir borðuðum við pönnukökur í morgunmat á Reading Terminal Market, hittum Jaidev samstarfsfélaga hennar Völlu á rannsóknarsjúkrahúsinu og skoðuðum bæði stórundarlegt hús Frímúrara sem og háskólasvæðin við Drexel og Penn. Frímúrarahúsið er sá mesti grautur af byggingarstílum sem ég hef séð og synd að myndirnar sem ég tók þar inni komu allt of óskýrt út. Á heimleiðinni komum við við í risaverslanamiðstöð til að smakka ostakökur frá Cheese Cake Factory (slúrp!) og náðum svo í Ragnheiði Helgu á lestarstöðina. Stefnan var nefnilega tekin á helgarferðalag til Íþöku daginn eftir.

Ragna og Geir eru áhugasamir nemendur

Valla komin í prjónagírinn

Það urðu nú heldur betur fagnaðarfundir með Stebba og okkur í Íþöku. Við komumst að sjálfsögðu strax í góðan X-arafíling sem hélst út helgina og lengur en það. Eyvindur (stærðfræðifélagi minn og úr næstu kynslóð X-ara eftir okkur) bættist fljótlega í hópinn og þeir tveir lóðsuðu okkur niður í miðbæ á tælenskan matsölustað til að seðja sárasta hungrið áður en haldið var í afmælisteiti sem Leifur hélt til heiðurs Mána. Þar hittum við svo Matta, Baldur og Lindu og fólk frá alls konar löndum (Nýja-Sjálandi, Indlandi, ...) og skemmtum okkur hið besta við harmonikkuspil, jútjúb-karókí, hopp og hí.

Í hópi Íslendinga í Íþöku: Matti, Eyvindur Ari, Stebbi, Ragna, Valla, Máni, Leifur og ég

Dagurinn var síður en svo tekinn snemma daginn eftir en nýttist samt gríðarlega vel. Við byrjuðum á morgdegisverði (brunch) á diner, röltum síðan um ísi lögð gil og klifum brattar brekkur inn á háskólasvæðið, fórum í bíó og hlógum svo mikið að allir hinir í bíóinu hlógu líka (mögulega án þess að skilja brandarann samt...) og hlátrasköllin héldu áfram allt kvöldið og á kráarrölti fram á nótt svo að við fengum strengi í brosvöðvana.

Á rölti í gilinu sem sker háskólasvæðið


Dow Jones drekinn í Cornell háskóla

Máni og Leifur voru á leið til Puerto Rico þannig að við ákváðum að taka þá með til Princeton á sunnudeginum, skoðuðum sveitirnar á leiðinni og sýndum þeim svo háskólabæinn fína áður en þeir héldu áfram til New York borgar í flugið. Loks kvöddum við Ragnheiður Helga þau Völlu, Geir og Snældu og héldum á vit ævintýranna í stórborginni. Fleiri myndir frá þessari fyrstu viku er að finna hér.

Með Leifi og Mána á leið suður á bóginn

22 apríl 2009

London, Kingston, Brighton

Símklefadómínó í Kingston

Auður og Árni millilentu hjá Hlín og Billa á leið sinni heim frá Eþíópíu. Ég rétt náði í skottið á þeim þar síðasta daginn þeirra og við röltum saman um Kingston með Billa áður en þau flugu á braut. Rólegur og góður dagur. Daginn eftir fór ég síðan í gír ferðalangsins niður í miðbæ.

Big Ben

Mótmæli

Öfugt við Leipzig get ég ekki mælt með því að taka sér far með leiðsögustrætó í Lundúnum. Alla vega ekki á virkum dögum á veturna. Þá er nefnilega ekki leiðsögumaður um borð eins og lofað er í bæklingum og á heimasíðu heldur bara rödd á bandi. Miðinn er samt jafndýr og áður. Í siglingu á Thames (sem er innifalin) eru reyndar bátsstrákar sem segja skemmtilega frá en þeir fá bara borgað fyrir að vera bátsstrákar og eru því háðir þjórfé. Peningaplokk!

Borough Market

National Theatre

Það reyndist miklu betra að ganga um göturnar og nýta almenningssamgöngur. Við Billi fórum tvo, þrjá hringi á Borough Market, spáðum og spekúleruðum og keyptum hitt og þetta í matinn. Héldum þaðan með neðanjarðarlest á suðurbakka Thames, dýfðum okkur í mannhafið og hvíldum okkur svo í National Theatre en þar er góð rólyndisstemmning og þægilegt að setjast inn.

London séð úr Richmond Park

Við Hlín fórum í göngutúr um Richmond Park til að skoða dýrin þar og horfðum líka á ljósin frá borginni ofan af skógi vaxinni hæð. Ekkert smá stór garður þessi Richmond Park og örugglega auðvelt að týnast ef maður passar sig ekki.

Brighton Pier

Ösp var milli verkefnaskila svo ég skaust til Brighton einn eftirmiðdag til að heimsækja hana, skoða borgina og spjalla um daginn, veginn, skólann og lífið. Vorið var aðeins farið að láta á sér kræla og því margir úti að spássera bæði í miðbænum og við ströndina. Andrúmsloftið er eitthvað svo afslappað, göturnar litlar og krúttlegar og húsin litrík þarna. Við fengum okkur mjög góðan hádegismat og besta límonaði sem ég hef smakkað á Iydea og svo risastóra köku á kaffihúsi (man því miður ekki hvað það heitir) að við gátum ekki einu sinni torgað henni tvær saman!

Listening Post (mynd héðan)

Plast í 100 ár

Á laugardegi breyttumst Billi, Garðar og ég í lítil börn í vísindasafninu. Ekkert smá gaman að týna sér þar innan um geimskip, flugvélar og fleiri furðuverk. Flottast fannst mér Listening Post og sérsýning um plast í 100 ár. Billi eldaði síðan grjónagraut fyrir 100 manns um kvöldið - þarf ég nokkuð að minnast á hvað Billa-matur er góður? Lauksúpa, heimagerðir hamborgarar... namminamm!

Hlín og Billi

Búðargluggi í hliðargötu við Brick Lane

Hafi einhver gaman af hönnun, ringulreið, glingri, góssi og góðum mat þá ætti sá hinn sami að kíkja á Brick Lane og markaðina þar. Við Hlín og Billi þræddum þar sölubása, tjöld og búðir og áttum vægast sagt erfitt með að velja úr ilmandi mat frá öllum heimshornum til að gæða okkur á. Einnig týndum við okkur í asískum stórmörkuðum innan um svignandi kryddhillur og risastóra potta. Gaman, gaman!

Ljóð á húsgafli

Frá Lindau-Insel við Bodensee

Þegar ég var í Lindau gekk ég fram á grænt hús með ljóði á veggnum sem vísaði út á götuna:

Dieses Haus ist mein und doch nicht mein
Dem's vor mir war, war's auch nicht sein
Er ging hinaus, ich ging hinein
Nach meinem Tod wird's auch so sein

Hús þetta er mitt og þó ei mitt
Þess er 'það áður var, var 'það heldur ei "sitt"
Hann gekk út, ég gekk inn
Svo verður 'það einnig eftir dauða minn


(Í frjálsri þýðingu minni. Hér gildir að 'það er lesið eins og -ða sé bætt aftan við orðið á undan: erða, varða, verðurða)

Hvað finnst ykkur um þessa afstöðu? Að eiga og þó ekki. Er þetta spurning um að gera sér grein fyrir hverfulleika tilverunnar? Mér finnst ég taka eftir svo miklum mun á menningu þjóða hvað eign varðar. Hversu mikilvægt er að eiga hluti eða bara leigja þá, hvort mikið sé um sameign og fólk geti þá komið sér saman um umgengni og slíkt.

Hér heima finnst mér t.d. mörgum vera eitthvað svo mikilvægt að eiga allt. Þá helst það nýjasta - stærra, betra og dýrara en næsti maður. Dæmi um það eru mörg hús í röð með garðflöt sem kalla mætti frímerki og allir eiga sína eigin sláttuvél - sumir meira að segja rafmagnsknúin tryllitæki. Getið þið nefnt fleiri dæmi eða er ég bara að rugla?

07 mars 2009

Innsbruck

Það eru að verða sjö ár síðan ég lofaði Láru að ég mundi koma í heimsókn til hennar til Innsbruck í Austurríki. Þá var hún að leggja af stað til náms í lyfjafræði og nú er hún búin að ljúka því með glans og orðin annars árs doktorsnemi í sameindaæxlafræði (e. molecular oncology).


Eftir margar tilraunir til að finna tíma sem hentaði okkur báðum lét ég loksins verða af þessari heimsókn nú í febrúar, flaug til Friedrichshafen gegnum Lundúnir og fór með lest til Innsbruck. Á leiðinni aðstoðaði ég áttavilltan Norðmann og danska konu hans við að átta sig á lestakerfinu og talaði því allt í allt fimm tungumál á leiðinni út: íslensku, ensku, þýsku, sænsku og dönsku.

Lára og Simbi

Þvílíkur tungumálagrautur! Enda var ég orðin mjög þreytt þegar ég loksins komst á áfangastað. Þar fékk ég gríðargóðar móttökur hjá Láru og Simba og sá síðarnefndi var svo ringlaður/glaður yfir gestinum að hann vildi helst vekja mig klukkan þrjú um nóttina til að koma að leika!

Við Simbi

Daginn eftir lá þoka yfir bænum svo ég fór í leiðangur um gamla bæinn og kannaði hvort skyggnið væri betra uppi í fjöllum með því að taka fjallalest og kláf upp í 2250 m hæð. Það með Innsbruck-kortinu sem Lára fann fyrir mig. Mæli með þessu korti við þá sem leggja leið sína til Innsbruck. Það gildir í alla strætisvagna, sporvagna, öll söfn og safnrútur sem og einu sinni upp og niður í öllum helstu fjallalestum og kláfum kringum bæinn og er fljótt að borga sig.

Frekar lélegt skyggni

Uppi í fjalli var skyggnið ekki mikið og ég dáðist að þeim sem þó voru á skíðum eða brettum í þokunni. Efsta brekkan var lokuð en hún er ekkert barnagaman ef marka má varúðarskiltin:

Það var nefnilega það...

Eftir fjallaferðina tókst mér að rata gegnum bæinn að svæði háskólasjúkrahússins og ramba þar á rannsóknarstofu Láru. Þar fékk ég að líta inn í krók og kima og kynnast glensi og gríni félaganna í rannsóknarhópnum. Fengum við m.a. sallafína teikningu af okkur til minningar um þennan dag: tvo óla-prik-stelpuhausa með víkingahjálma og fléttur og milli þeirra gríðarstórar talblöðrur - fullar af bla, bla, bla.

Vinnuhópurinn hennar Láru

Lára sýndi mér sigurbogann, borgargarðinn, sallafínan grænmetismarkað og fleiri hápunkta í miðbænum á heimleiðinni og svo elduðum við kvöldmat í litla en tækjaríka eldhúsinu hennar Láru. Við erum að tala um belgískt vöfflujárn, laukhakkvél, candyflossvél, poppvél, súkkulaðigosbrunn, ... já svo mætti lengi telja!

Sigurboginn

Á laugardeginum var farið að létta til og við héldum með litlum strætisvagni upp brattar hlíðar til funda við fjallageitur, skógarbjörn, elgi og fleiri dýr í Alpadýragarðinum. Það er alveg frábær staður og dýrunum leið greinilega vel í rúmum og stórum gerðunum sínum. Sum voru í vetrarsvefni en við vorum ekki alveg á því að fara að sofa heldur mæltum okkur mót við Önnu vinkonu hennar Láru, borðuðum á okkur gat á running-sushi-stað, röltum meðfram ánni Inn og skáluðum fyrir góðu kvöldi á kokteilbarnum M&Mbar.

Anna, Lára og ég

Innsbruck sýndi síðan sína bestu hlið á sunnudeginum. Sannkallað sunnudagsveður með fjallasýn, frosti, stillu og sól. Við tókum okkur far með safnrútu til að gægjast inn í munn risans í Swarovski kristallasafninu í Wattens. Þar tóku á móti okkur brasilískir capoeira dansarar, vélmenni, speglasalir, völundarhús og ógrynni af kristalsgripum. Ég var samt eiginlega hrifnust af snjónum úti fyrir og fjallatoppunum allt um kring sem tindruðu í sólinni.

Capoeira í kristallsveröld

Niðri í bæ settumst við inn á kaffihús og gæddum okkur á austurrísku eplarúllunni Apfelstrudel. Namminamm! Síðan slógumst við í hóp sunnudagsgöngufólks við Inn og skoðuðum allt frá kumbaldablokkum yfir í krúttleg alpahús á heimleiðinni. Eftir notalegt kvöld með eldamennsku og heitu plómuvíni var síðan komið að því að pakka í töskur og á mánudeginum hittumst við í hádegismat áður en ég lagði upp í lestarferð aftur til Friedrichshafen.

Litrík hús við jökulána Inn og tindrandi fjöllin í baksýn

Lestarferðin var algjört ævintýri! Snarbrattar fjallshlíðar, djúpir dalir, jökulár, lítil þorp, skíðasvæði, stórar verksmiðjur, lestarteinar og götur fram á hengibrún, göng og yfirbyggðar leiðir... svo mætti lengi telja. Ég hafði líka rúman klukkutíma milli lesta í Lindau og gat því trillað þar um götur bæjarhlutans Lindau-Insel við Bodensee með ferðatöskuna í eftirdragi þar til húma tók að kvöldi. Þá var komið að næsta hluta ferðarinnar - heimsókn til Hlínar og Billa í London. Framhaldið kemur í næstu færslu. Fleiri myndir frá Innsbruck er að finna hér.

05 febrúar 2009

Yfirlit ársins 2008 fyrir vini og ættingja

Kæru vinir!

Ég vona að þið hafið haft það gott yfir hátíðarnar og þótt seint sé þá óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir allt og allt, gamalt og gott!

Í miðbæ Feiberg að kvöldi til

Margt gerðist á árinu svo sem endranær. Ekki var þó mikið um ferðalög en samt er frá nægu að segja. Fyrir þá sem hafa annaðhvort ekki orku í langan pistil eða ofnæmi fyrir einhverjum viðfangsefnum pistilsins hef ég gert kaflaskipti á nokkrum stöðum.

[Kafli um verkefni, próf og veikindi]

Þrjú stór verkefni einkenndu síðasta ár. Þau lutu að því að ljúka öllum tilskyldum prófum til að geta hafið lokaverkefnisvinnu (janúar-febrúar), undirbúa alþjóðlegu ráðstefnuna MATGEOS 2008 um stærðfræði í jarðvísindum (janúar-júní), vinna lokaverkefni (mars-nóvember), skrifa skýrslu, bókhald og tímaritsgrein um ráðstefnuna (ágúst-september) og verja lokaverkefnið (nóvember-desember).

Loftljósið mitt speglast í tebolla við próflestur í febrúar

Framkvæmdir í götunni minni, Winklerstraße, stóðu yfir frá apríl fram í nóvember

Prófin gengu vel og undirbúningur ráðstefnunnar var í upphafi samvinnuverkefni hóps stúdenta og doktorsnema í jarðvísindatengdum greinum. Þegar á reyndi heltust hins vegar margir úr lestinni. Lenti þá einhvern veginn stærstur hluti undirbúnings- og framkvæmdavinnunnar á mér (eða ég tók of mikið að mér) og var það eftir á að hyggja allt of stór biti. Ég hef í það minnsta ekki orðið jafnuppgefin svo árum skiptir og aldrei orðið jafnveik af ofálagi áður eins og eftir þessa törn. Með hjálp góðs fólks fór þó allt vel að lokum, ráðstefnan var glæsileg, við kynntumst stórum hópi vísindamanna frá öllum heimshornum og gestir okkar héldu mjög ánægðir heim á leið.

Hluti þátttakenda - MATGEOS 2008

Floh, Maria, Prashanth, ég, Micha og Sebastian að ráðstefnu lokinni

Auðlindir og vísindi á veggmynd við tölvuver jarðeðlisfræðinema - þar lærðum við gerð þrívíðra jarðfræðilíkana

Veikindin voru samt ekki búin og ég var raunar mun oftar veik á þessu ári en ég á að venjast. Sem betur fer var það nú samt ekkert alvarlegt og ég ætla að passa betur upp á nægan svefn og hvíld í framtíðinni enda borgar sig ekkert að fórna heilsunni fyrir skólaverkefni jafnvel þótt þau heiti lokaritgerð.

Félagar á námskeiði um úrvinnslu gervihnattagagna í vor

Anne, Farruh, Judyta, Martin og Theresa í samkomuherbergi erlendra nema

Borscht - rússnesk rauðrófusúpa og sinnepsbrauð - sem ég eldaði handa nágrönnum mínum

Viki nágranni minn kom færandi hendi með túlípana til upplyftingar í prófunum

Í skólaönnum og veikindum voru vinir mínir algjörir bjargvættir. Við hittumst til að elda saman, spjalla yfir tebolla, gáfum hvert öðru klapp á bakið, drifum hvert annað á tónleika eða aðra viðburði, fórum í göngutúr - hertum upp huga fyrir það sem framundan var.

[Kafli um tónleika, íþróttir og matargerð]

Tónlist kryddaði lífið meir en oft áður. Eins og gjarnan gerist þegar álagið í skólanum er mikið þá lék ég á blokkflauturnar mínar til að fá útrás og í byrjun hausts voru meira að segja gerðar tilraunir með kammertónlist í félagi við Florian, skólafélaga minn sem leikur á selló. Einnig hef ég sjálfsagt aldrei verið jafndugleg að sækja tónleika.

Loftið í leikhúsinu í Freiberg

Blokkflautukvartett á Íslandi í sumar

Anne tekur á móti gestum undir einkunnarorðum Freiberg og sveitanna í kring

Þannig var að Maria benti mér og nokkrum öðrum á tónleika íslenskra sveita í Dresden í byrjun ársins og svo fórum við að fylgjast með komum fleiri sveita upp úr því, drifum okkur yfirleitt eitt eða fleiri á staðinn og höfðum mikið gaman af. Þótt íslenskar sveitir (m.a. Jakobínarína, múm, Rökkurró, Ólafur Arnalds, Sigur Rós, Borkó, Seabear, Emilíana Torrini) hafi verið í brennidepli slæddust nokkrar erlendar með inn á milli (m.a. Clara Luzia, Giesbert von Knyphausen, Hellsongs, 44 Leningrad). Yoann flutti til Dresden í sumar og bæði David og Pit búa þar svo ég átti vísan gististað ef tónleikar í stórborginni drógust fram yfir síðustu lest. Þessu til viðbótar kynntist ég síðan ógrynni af nýrri tónlist gegnum hljóðskráaskipti við vini mína. Sérstaklega fékk ég mikið af raftónlist af ýmsum gerðum en þann geira hef ég ekki þekkt mikið hingað til.

Dresden falleg í haustsólinni

Pit og besti ísinn í hverfinu


Yo í snævi þöktum almenningsgarði í Dresden

Sigur Rós í Dresden í ágúst

Eftir góða daga á Íslandi um jól og áramót 2007 flaug ég út til Freiberg með lambalæri í farteskinu og eldaði það fyrir vini og kunningja. Leið síðan varla sú vika á árinu að ekki væri eitt kvöld hið minnsta þar sem eldað var með vinum frá ýmsum löndum og sérstaklega var mikið um franska og indverska matargerð. Stærðfræðifélagar mínir Christina, Katja og Viola stóðu líka fyrir matreiðslukeppni í sumar þar við skiptumst á að elda þríréttaða máltíð hver fyrir aðra.

Maria sker lambalæri og Pit fylgist með

Við Maria og Bilge, Judyta tók myndina

Delia og Fernando smyrja rúgbrauð fyrir Möpkenbrotmáltíð Daniels

Anne ræðst til atlögu við heimagert sushi hjá Deliu

Karsten, Floh og Anne gæða sér á pólsku grænmeti úr garði Judytu

Við Jule bökum þýskar jólasmákökur

Katja býr sig undir að gæða sér á framlagi Violu til keppninnar

Badmintoniðkun varð eitthvað endasleppt. Þar var fyrst veikindum en svo tímaskorti vegna lokaverkefnisins um að kenna. Í staðinn synti ég meira, enda auðveldara að mæta í sund þegar manni dettur í hug heldur en að mæta í badminton á fyrirfram uppgefnum tímum. Fátt er líka betra en sund til að hressa sig við eftir langar setur við útleiðslur, forritun og útreikninga.

[Kafli um ferðalög]

Þótt ekki hafi verið mikið um ferðir til annarra landa, þá hélt ég nú samt áfram að kynna mér Þýskaland: Nico dreif mig til Leipzig á bókasýningu í byrjun mars með Jens og Carinu og þau hittum við síðan aftur á heimaslóðum hans í Vogtlandssveit um vorið. Við Anne fórum til Chemnitz og hlógum okkur máttlausar á upplestri rithöfundarins Wladimirs Kaminer eina kvöldstund. Einnig tókum við lestina til Freital með Daniel og Grit til að fara á skauta. Um vor og sumar voru Frakkarnir Rémy og Antoine forkólfar gönguferða upp á Lilienstein, meðfram Saxelfi og um virkið í Frauenstein.

Fánar bókasýningarinnar í Leipzig


Brautarpallur S-lestar í Chemnitz að kvöldlagi

Við Daniel á skautum í Freital

Rémy við snjókarlsrústir hjá Talsperre Klingenberg

Fiðrildi í túnfætinum heima hjá Nico

Viola, Katja, Nico, Koen, Jens og Andrea

Jens og Carina við skilti sem bendir á þorpin þeirra

Símanúmer samstillt fyrir ferð til Dresden - með Rémy, Joël og Pélagie

Judyta, Viki, Maté, Pélagie, Conny, Joël, Antoine og Rémy


Hópurinn á toppi nálægt Lilienstein

AKAS, félag alþjóðanema, stóð fyrir páskaferð til Lichtenstein (bær milli Chemnitz og Zwickau). Þar hittum við páskahérann, skoðuðum tréskurðarlist frá öllum heimshornum og líkön af helstu byggingum heims. Í byrjun apríl sótti ég samþjappað námskeið í fjarkönnunarfræðum (gögn frá gervihnöttum og vinnsla þeirra) og hjólaði með námskeiðisfélögunum í Klosterpark Altzella í Nossen. Pabbi og mamma komu í heimsókn stuttu síðar og þá var Freibergbær skoðaður í þaula, meira að segja farið niður í námurnar við Reiche Zeche. Síðar fór ég síðan niður í námuna Alte Elisabeth með Rémy, Pélagie, Joël og Loïc.

Á 100 m dýpi í námunni Alte Elisabeth (gamla Elísabet)

Maria, Moritz, mamma, pabbi og Pit í Saxelfursandsteinsfjallgarðinum

Mamma við Donatsturm, einn varðturna Freibergborgar

Ingrid og Manuela af alþjóðaskrifstofunni

Í hópi skólabarna sem fengu kynningu um starf AKAS

Bilge við AKAS básinn á litríkum eftirmiðdegi

Lára Rún kom í heimsókn til Berlínar frá Uppsölum í byrjun júní svo ég skaust þangað eina helgi til að hitta hana og Ingu Lín og njóta sumarkomunnar. Jarðvistfræðinemar skipulögðu stórskemmtilega gönguferð um Böhmische Schweiz síðsumars sem jafnframt var síðasta stóra gönguferðin með Judytu áður en hún hélt heim til Póllands. Um svipað leiti flutti Pélagie til Harburg í nágrenni Hamborgar. Við vorum báðar að vinna lokaverkefnin okkar, settum upp einnar helgar vinnubúðir í herbergi Pélagie og lyftum okkur upp með því að fara á tónleika með Emilíönu Torrini.

Með Ingu og Láru í Berlín

Hmmm... hvar erum við?

Hópurinn á báti

Sólargeislar brjótast milli trjágreina

Míša og félagar við Ráðhús Reykjavíkur

Gunni og Þórir á leið upp að Glym

Gunni, Óli, Fróði og Ingunn uppi við Glym

Í byrjun júlí skaust ég heim til Íslands í rúma viku til að hlaða batteríin. Það var alveg frábær ferð, hlaðin viðburðum á borð við heimsókn tékkneskra vina, brúðkaup Sigrúnar og Sigga, ættarmót Gromsara á Laugum í Sælingsdal, ættarmót þess hluta Stuðlaættar sem kominn er af Gunnari Bóassyni að Laugum í Reykjadal, gönguferð upp að Glym með góðum vinum, salsadans og fleira.

[Kafli um lokaþriðjung ársins]

Þegar ég kom aftur til Freiberg dró ég mig út úr félagsstörfum og hætti m.a. sem fjölmiðlafulltrúi AKAS eftir tæplega tveggja ára starf. Það var frekar erfitt að hætta félagsstússinu og grafa sig svona ofan í sandinn en dugði hreinlega ekki annað til að klára lokaverkefnið á tilsettum tíma. Þið getið rétt ímyndað ykkur gleðina við að skila og síðar verja verkefnið - ljúka þessu loksins! Eftir vörnina var ég svo óendanlega þreytt að ég gerði "ekkert" í tvo daga, eða þangað til Judyta og Martyna komu í óvænta heimsókn frá Póllandi og slógu upp partýi fram á nótt.

Þoka á námuhæðinni og ritgerðaskrif á endaspretti

Gatnamót

Daginn eftir það hélt ég í skyndihugdettuferð til Prag í Tékklandi og hitti þar Míšu vinkonu mína og Míšu herbergisfélaga hennar (já, þær heita það sama!), sem og Jan og Barböru, en þau síðarnefndu hafa rannsakað vægisóbreytur (viðfangsefni ritgerðarinnar minnar) um langt skeið og gátu því rætt við mig um lokaverkefnið á allt annan (uppbyggilegri, jákvæðari, ...) hátt en leiðbeinendur mínir í Freiberg.

Dómkirkjan og minjasafnið í Freiberg

Síðustu dagarnir í Freiberg hreinlega flugu hjá, dagskráin var þétt og ekki mikið um myndatökur (eins og sést í þessum kafla!). Ég reyndi að gefa mér sem mestan tíma með vinum mínum til að geta kvatt þau almennilega en lenti líka í mögnuðu kapphlaupi um að fá útskriftarskírteinið mitt með tilheyrandi skriffinnsku. Sérstaklega var lokaspretturinn magnaður en þar hafði ég hálftíma til að finna tvo prófessora sem ekki var víst að væru við og fá frá þeim kringum tuttugu undirskriftir. Þar kom sér "þetta reddast" hugarfarið vel. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á konunni á skrifstofunni þegar ég kom á hlaupum fimm mínútum áður en lokaði - hún gleymdi alveg að vera önug og stimplaði blöðin í bak og fyrir, brosti og óskaði mér furðu lostin innilega til hamingju með áfangann!

[Kafli um heimferð, hátíðir og framtíðarpælingar]

Fjölmargir lögðu leið sína í herbergið mitt á stúdentagörðunum til að kveðja síðasta daginn minn í Freiberg. Um kvöldið kom svo David og sótti mig. Við ætluðum að borða með Mariu í rólegheitunum en þegar til kom voru fleiri mættir og matarborðið heldur óvenjulegt: heitur pottur! Já... það er óhætt að segja að ég hef aldrei orðið jafn hissa og glöð á ævinni eins og þegar við komum í bakgarðinn heima hjá David. Þangað var sumsé búið að draga farandpott, skella upp tjaldi og kolagrilli, kveikja á kyndlum og stilla hátölurunum út í glugga á efstu hæð með íslenska tónlist í botni. Til að toppa allt fór svo að snjóa þegar leið á kvöldið.

Heitur pottur í bakgarði Davids

Finnið Íslendinginn ;-)


Pottur farinn, búið, bless!

Ferðin heim gekk vel. Alls staðar var fólk tilbúið að aðstoða með farangurinn og ég náði að hitta Ingu Lín í Berlín áður en hún hélt til Bielefeld. Það er kannski táknrænt að ég gisti hjá Bene í Berlín síðustu nóttina fyrir heimför. Hann var nefnilega sá sem sagði mér frá Freiberg á sínum tíma fyrir fimm árum. Heima tók við jólahátíð með fjölskyldu og vinum. Eftir áramótin gat ég síðan heimsótt fólkið mitt norður á Akureyri í rólegheitum.

Jólasveinninn Nikolaus kveður við raust og lemur óþæga AKAS-liða með grenigrein í Freiberg

Brennan í Laugardalnum á Gamlárskvöld

Sem stendur er ég að skipuleggja ferðalög. Það er nánast öruggt að ég fer til Bandaríkjanna í mars til að heimsækja vini mína sem eru við nám þar og svo kemur bara í ljós hvort ferðinni verður heitið til fleiri staða. Í haust langar mig í kennslufræði í háskólanum og bæta jafnvel við mig þýskueiningum til að geta kennt bæði stærðfræði og þýsku. Annars er aldrei að vita hvað ég tek mér fyrir hendur. Kannski get ég meira að segja nýtt reynsluna við að vinna úr gögnum frá gervihnöttum til að hjálpa jöklafræðingum eða öðrum sem vinna með slík gögn. Hver veit!

[Samantekt]

Í heild var þetta erfitt ár og mikið álag. Ekki bara skólinn heldur líka það að fylgjast með fréttum að heiman úr fjarlægð. Samt voru fjölmargir ljósir punktar eins og m.a. sést á myndunum og því sem að ofan er ritað. Það þýðir nefnilega ekkert að gefast upp. Við þurfum tækifæri til að velja stjórnvöld sem við treystum, þolinmæði til að takast á við næstu ár, bjartsýni, eljusemi og að læra að standa saman. Þá fyrst reddast þetta allt.

Vetrarsól við Tjörnina í Reykjavík