Uppskeru- og prófahátíð er gengin í garð. Tvennir tónleikar framundan, þrjú próf af sjö eru að baki og ég kenndi síðasta dæmatímann í "Monster", öðru nafni Stærðfræðimynstur í tölvunarfræði, í gær (þetta snýst um strjála stærðfræði þ.e. þrautalausnir og fleira skemmtilegt). Rosalega var gaman að kenna! Á næstu önn verð ég með stuðningskennslu í stórum skilaverkefnum í Tölulegri greiningu en varð að afþakka annars spennandi boð um aðstoðarkennslu í Mengjum og firðrúmum því dagskráin er orðin svo þétt fyrir vormisserið.
Inn á milli prófanna fléttast svo tónleikarnir í framhalds- og blokkflautudeild. Þeir fyrrnefndu eru á föstudaginn 9. desember í Sigurjónssafni klukkan 20 og öllum velkomið að mæta. Kvartettinn minn mun gera sitt besta til að fá smá sveiflu, glens og grín í tónleikagesti eftir hvert metnaðarfullt meistarastykkið á fætur öðru frá hinum framhaldsdeildarkrökkunum. Við erum reyndar ekki alveg sammála um hvers konar sveifla þetta sé - verkið heitir Indian Summer og voru aðallega tvær hugmyndir í gangi: indíána eða indverskt þema. Eftir lestur um tilurð verksins kom svo í ljós að líklega er um að ræða sumarstemmningu í fylkinu Indiana í Bandaríkjunum!
Annars varð ég fyrir bölvun nokkurri á vefsíðu Völlu. Gegn beiðni þar um í skoðanaglugganum mun ég því segja viðkomandi ýmislegt furðulegt samkvæmt listanum á síðunni hennar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli