28 ágúst 2011

Hvítasunnukarneval

Fyrir sjö árum sagði Carsten Thomas mér frá Karneval der Kulturen, litríkri menningarhátíð í Berlín sem haldin er um hvítasunnuhelgina ár hvert, og allt síðan þá langaði mig að upplifa dansinn og gleðina, smakka mat frá ýmsum heimshornum og týna mér í mannhafinu. Nú í ár gafst loksins tækifæri til þess og hátíðin var jafnvel enn betri en ég hafði hugsað mér!

Dagurinn hófst á kaffihúsi í Kreuzberg. Því miður gleymdi ég myndavélinni heima en hún Ásta vinkona mín lánaði mér myndavélina sína meðan við fylgdumst með skrúðgöngunni á Hasenheide. Þaðan héldum við síðan á torg til að hlýða á útitónleika og fá okkur kvöldmat. Þótt tónleikahaldi lyki stundvíslega klukkan ellefu þá var nóttin enn ung innandyra og hélt hópurinn í fyrrum vöruskemmur járnbrautanna til að dansa fram á næsta morgun.

Hjóltúr í Königs-Wusterhausen

Í lok maí fór stærðfræðimenntunardeildin í Humboldt-háskóla í lautarferð á hjólum í nágrenni Königs-Wusterhausen. Veðrið lék við okkur og ég hnerraði þessi reiðinnar ósköp enda var grasið byrjað að mynda frjókorn.

Við byrjuðum á að skoða veiðihöll herkonungsins Friðriks Vilhelms fyrsta af Prússlandi og héldum síðan áfram för gegnum engi og skóga, fram hjá vötnum og lækjum þar sem við breiddum úr teppum og settumst að snæðingi við vatnið. Tveir kennaranna sem voru í námsleyfi sömdu spurningaleik til skemmtunar eftir hádegisverðinn og síðan héldum við áfram för fram eftir degi með smá stoppi á kaffihúsi.

Myndir má sjá hér.

16 ágúst 2011

Byrjun júní við vatnið

Jule vinkona mín býr og starfar í Hof í Bæjaralandi en ólst upp í Berlín.

Hér er Jule í garði foreldra sinna

Foreldrar hennar eiga heima rétt utan við Berlín og við hittumst þar í morgunkaffi úti í garði einn daginn í byrjun júní.

Búið að leggja á borð

Við Jule, þreyttar eftir vinnu og ferðalög en jafnframt kátar yfir endurfundum

Stundarlangan hjóltúr frá húsinu, gegnum þorp og skóg, er fallegt djúpt vatn að nafni Liepnitzsee.

Blátt og tært vatnið í skóginum

Það er umvafið skógi, með lind á botninum og eyju fyrir miðju. Þangað fórum við, syntum út í eyjuna og reyndum að bægja frá mýflugum þar til við urðum að játa okkur sigraðar og syntum til baka.

Tær og sokkar eftir sundið

Á heimleiðinni gerðum við hlé á ferðinni í Bernau til að borða ís og skoða miðaldahluta bæjarins. Þar reyndist þá vera miðaldahátíð, alveg óvænt.

Skrúðganga á miðaldahátíð í Bernau

Deginum lauk aftur í garðinum þar sem ég fékk að klippa nokkrar rósir til að taka með mér heim og setja í vasa um kvöldið.


Rósir í vasa ásamt nellikum og Maríustakki

Sólin hélt áfram að skína alla fyrstu júní-helgina og þar sem Hlynur var á ferðinni, þá mæltum við okkur öll mót á kaffihúsi; Hlynur, Inga og ég.

Inga er heldur betur leikin við að taka myndir með útréttan arminn

Síðan kom hellidemba mánudaginn eftir, gróðrinum til mikillar gleði.

Rigning í Seumestraße

01 ágúst 2011

Brúðkaup í Poznań


Aðaljárnbrautarstöðin í Poznań

Í lok maí var brúðkaupsgleði Martynu og Tomeks haldin í Poznań. Við Judyta og Viki lögðum upp eldsnemma á laugardagsmorgni frá Varsjá, Freiberg og Berlín með rútum og lestum vopnaðar regnhlífum. Spáð hafði verið roki og rigningu en síðan hlýtur eitthvað að hafa breyst því veðrið lék við okkur allan daginn með sól og sumaryl.


Brúðhjónin verðandi ganga inn kirkjugólfið

Pólskar brúðkaupshefðir eru alveg sérkapítuli og Judyta skýrði þær út fyrir okkur Viki jafnóðum. Til dæmis kastar brúðurin brúðarslörinu fyrir ólofaðar stúlkur í boðinu og brúðguminn kastar slifsi sínu fyrir ólofaða pilta í boðinu og var mikill handagangur í öskjunni, hlaup skrækir og læti. Úr verður síðan dans þeirra tveggja sem grípa og hinir dansa í hring um þau.


Einn af fjölmörgum pólskum brúðkaupssiðum: glösum kastað aftur fyrir bak

Yfir höfuð var mikið dansað og auðvitað etið og drukkið inn á milli. Stemmningin minnti mig stundum svolítið á ættarmót því ungir og aldnir skemmtu sér allir af lífi og sál í einni kös. Sumir gengu þó dulítið of hart fram í drykkjunni og þurfti að bera fyrsta gestinn upp í rúm um miðnættið en þeir sem lengst héldu út dönsuðu til fimm um nóttina og mættu svo gallharðir í morgunmatinn klukkan níu daginn eftir.


Markaðstorgið við ráðhúsið

Að loknum morgunverði héldu svo allir glaðir og sælir til síns heima og við Judyta spásseruðum um miðbæ Poznań fram eftir sunnudegi þar til hún þurfti að fara í lestina til Varsjár og ég að finna mér far til Berlínar.


Úkraínsk þjóðlagatónlist á markaðnum