02 nóvember 2005

Bassinn kominn og get ekki beðið

Eftir blástur í brotið klarinett og beyglaðan trompet með Lúðrasveit Laugarnesskóla ákvað ég að fara aftur á byrjunarreit og læra meira á blokkflautu. Mér var skjótt komið í skilning um að það héti sko að læra á blokkflautuR, í fleirtölu sumsé, enda um heila fjölskyldu að ræða. Það er mjög skondið þegar fólk spyr áhugasamt "Nú, ertu að læra á hljóðfæri?" og veit svo ekki alveg hvað segja skuli þegar ég svara að já, ég sé sko að læra á blokkflautur. "Jaaaá..." segir fólkið, svona svipað já og maður fær við það að segjast vera að læra stærðfræði í háskólanum en þó ekki eins - bak við augun sjást hugsanir fljúga: "Jiminn, greyið, hún hefur bara ekki náð þessu í forskólanum!". En seiseinei, skólaflauta er nú ekki það sama og blokkflautur, það getið þið bókað!

Tónskólinn minn (eða öllu heldur hans Sigursveins) ákvað í fyrra að gerast svo elskulegur og fjárfesta í endurreisnarblokkflautum ef við myndum sjá um pantanir sjálf og nú eftir mikla vinnu er bassinn kominn til landsins - bara eftir að fá hann út úr tollinum. Ég hlakka svooo til! Er jú búin að starfa í kvintett í fimm ár við að spila m.a. endurreisnartónlist en alltaf bara með barokkflautum. Auðvitað spilum við líka barokktónlist og nútímatónlist og hún hefur þá hljómað eins og hún á að hljóma - en núna fyrst verður hægt að leika endurreisnartónlistina með réttum hljómi. Munurinn er sá að endurreisnarflauturnar eru kónískar (keilulaga) en barokk sílíndrískar (sívalningslaga), holari og "opnari" tónn í þessum keilum. Sópran, alt og tenórar koma svo vonandi til landsins fyrir jól.

Núna er ég annars að æfa verk með gítar. Prófaði það í fyrsta skipti í fyrra og það kom svo vel út að það rataði í miðstigsprófið mitt. Hafði nú bara spilað í kvintett og svo með píanóundirleik allt fram að síðasta vetri en þá prófaði ég bæði að spila með heilli barokkhljómsveit og svo dúetta-samspil með sellói, fiðlu og áðurnefndum gítar. Fúlt að hafa ekki opnað augun fyrir svona samspili fyrr. Vonandi splæsir Tónskólinn síðan í sembal líka og þá getur sko fjörið byrjað í barokkinu!

Engin ummæli: