19 nóvember 2005

Dansiðandi

Þegar ég heyri Balkan-brasstónlist eða hressileg Klezmer-lög fara fæturnir á ið og mig grípur óstjórnleg löngun til að dansa. Það eru til þjóðdansar við flest laganna og ég hef séð suma þeirra en mig langar samt ekkert að læra þá til fullnustu, finnst allt í lagi að spinna út frá sporunum en dansmynstrin sjálf einhvern veginn svo heftandi.


Rússíbanar léku oft bræðing af klassískri, grískri og jiddískri tónlist en það voru samt kvikmyndir eftir Emir Kusturica með austur-evrópskri brasstónlist Goran Bregović sem kveiktu leitarneistann í mér. Þegar farið var að leita reyndist af yfrið nógu að taka - Koçani Orchestar, Karandila Orchestra, Fanfare Ciocarlia, Boban Markovic Orkestar, Frank London Klezmer's All Stars...


Síðan þá hefur líka bæst í hóp íslenskra/hálfíslenskra sveita - Schpilkas spinnur kringum jiddísk þjóðlög og Stórsveit Nix Noltes búlgörsk þjóðlög með áhrifum frá allri súpunni - grískri, jiddískri og austur-evrópskri hefð.


Þegar þessar sveitir spila dansa ég af mér lappirnar og héldi hugsanlega áfram fram í rauðan dauðann ef ekki væru takmörk fyrir hversu lengi hljóðfæraleikararnir halda út. Mæli eindregið með þessu!

Engin ummæli: