30 september 2007

Smá misskilningur


Hér á eftir fylgir frásögn af rökfræðiprófi. Myndirnar eru úr ferð til Leipzig. Þær eru í engu röklegu samhengi við frásögnina (held ég).

Rölt um götur í rigningunni

Á föstudaginn fór ég í próf í rökfræði. Kúrsinn nefndist reyndar rökforritun en var þegar til kom rökfræði fyrir stærðfræðinemendur, rökforritun fyrir tölvunarfræðinemendur og stærðfræðinemar máttu taka forritunarpartinn líka ef þeir vildu en fengu samt bara rökfræðina metna.

Fékk svakafínan leiðsögutúr með þessari gömlu rútu

Þetta væri nú svosem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir skilningsmysinginn. Ég mætti nefnilega í prófið með það í huga að ná (fá "staðið") en var þá tjáð að ég ætti að fá einkunn og ekki nóg með það heldur hefðu það verið mistök að senda mig í skriflegt staðið/fallið-próf í netafræði fyrr um sumarið - prófið atarna hefði með réttu átt að vera munnlegt og með einkunn!

Kíkti á þessa sýningu í sögusafninu

Nú er það svo að ég á óskaplega erfitt með að læra hluti utanbókar sem ég skil ekki og á það sér í lagi við um rökfræði upp á tungu þýðverskra. Því hafði ég í raun lært alltof mikið fyrir þetta próf miðað við að það væri bara staðið/fallið-próf. Eftir þessar tilkynningar um einkunnir og mistök var ég líka nógu ringluð til að stressið rauk á braut og í staðinn laust niður strategíu í kollinn minn.

Kakan Leipziger Lerche namminamminamm

Þessi prófessor spyr gjarnan flókinna spurninga með minnst þremur aukasetningum og eins og þeir sem lærðu þýsku muna kannski, þá kemur sögnin allrasíðast í romsunni. Í síðasta munnlega prófi sem ég fór í hjá honum gekk því allt annað en vel - þegar loksins kom að sögninni var ég iðulega búin að tapa þræðinum og vissi ekkert hvers væri ætlast til af mér!

Þessi rör liggja um allan bæ og munu gera svo þar til gerð neðanjarðarbrautar lýkur 2011. Í bakgrunni er hæsti ráðhústurn Þýskalands, 115 metra hár.



Leipzig-búar hafa eigin bruggverksmiðjur en finnst samt Freiberger betri... Svo sést þarna grilla í Tómasarkirkjuna þar sem J.S. Bach starfaði lengi sem organisti og samdi helstu stórvirkin sín.

Strategían fólst í því "að taka orðið". Rökfræði er nefnilega mjög strangt uppbyggð svo ég hreinlega hlustaði varla á fyrstu spurninguna (sem ég skildi hvort eð er ekki alveg) heldur byrjaði bara á minnstu einingunum "sjáðu nú til, til að byggja upp strúktúrinn þurfum við að skilgreina hérna blablabla" og hélt svo áfram að hlaða upp skilgreiningum, setningum og hjálparsetningum eins og ég væri með legókubba í höndunum!

Stasi-safnið var allsvakalegt. Hér sést aftan á bygginguna.

Svona blaðraði ég nánast stanslaust til að prófessorinn kæmist sem minnst að með sínar flóknu spurningar; gæti bara hallað sér aftur í stólnum og hlustað á mig þylja upp hvað ég hefði lært. Þessi strategía tókst svona líka vel! Alla vega komst hann sjaldan að og einhvern veginn tókst að bjarga því fyrir horn þegar honum tókst að setja mig út af laginu. Lokaniðurstaðan varð fyrsta einkunn með mínus.





"Blikkboxið" var víst mjög fallegt verslunarhús en það voru ekki til peningar til viðhalds og því pakkað inn í álplötur. Núna er það búið að vera svo lengi innpakkað að það má ekki breyta álklæðningunni (!) Mér finnst það nú alveg líka fínt svona...

Samt mjög spes að prófgerðin hafi ekki verið útskýrð fyrir mér áður því ég er búin að láta samþykkja námsáætlun tvisvar sinnum án þess að fá nokkrar athugsemdir um að ég hafi ruglast á tegund prófanna (það kemur fram á áætluninni hverrar tegundar, þ.e. með eða án einkunnar, prófin eru).




Það á að rífa þessar blokkir og byggja verslunarmiðstöð í staðinn. Myndirnar voru málaðar fyrir HM06 til að lífga upp á bæinn.

Jæja ég hélt upp á þetta með því að skjótast til Leipzig í gær og myndirnar sem prýða þessa færslu eru sem fyrr segir þaðan.


26 september 2007

22 september 2007

Á ég að fara eftir reglunum?

Í dag var öskrað á mig. Alveg svona herforingjaöskur og jafnvel verra en það. Viss um að hárið feyktist aftur svona eins og í teiknimynd. Verst að strákarnir sem sátu við opinn gluggann á númer sextán voru ekki með myndavél til að festa atburðinn á flögu.

Fólk hér í bæ er upp til hópa elskulegt. Svona að nýnasistunum frátöldum kannski. En í dag mætti ég sumsé hjónum sem voru illskuleg á svip. Eymingjans greyin. Það er örugglega erfitt að lifa lífinu svona í smámunaæsingi! Leit alla vega ekki út fyrir að þetta væri fyrsta skiptið sem þau byrstu sig við ungdóminn.

Það skein sól í heiði í morgun og ég lagði upp í vikuinnkaup í Plús á hjólinu vopnuð hjólatösku og sextíulítra bakpoka. Veitir ekki af svona stórum bakpoka til að geta troðið í vatnsflöskum (vatnið úr krananum er ódrekkandi) og hjólataskan getur líka ekki tekið svo mikil þyngsli. Með alla þessa sekki fulla verður hjólið þungt og lætur verr að stjórn.

Þar sem gatan mín er uppfull af bótum og betrumbótum valdi ég því frekar hjóla á tiltölulega sléttri gangstéttinni. Hjóla satt best að segja frekar oft á gangstéttunum hérna, enda göturnar flestar samsettar úr litlum steinum (eða malbiksbótum eins og gatan mín) og ekki alltaf jafngaman að hristingnum sem því fylgir. Nema hvað - aldrei þessu vant var fólk á gangstéttinni.

Í þessi (tiltölulega fáu) skipti sem það gerist víkur fólkið nú bara fyrir manni en þessi voru nú ekki á því! Gerðu sig breið svo ég hægði upp, staðnæmdist rétt við þau og hugðist þá bara leiða hjólið fram hjá.

HVURN DJÖFULINN ÞYKIST ÞÚ VERA AÐ GERA UNGA DAMA! ÞVÍLÍKUM OG ÖÐRUM EINS DÓNASKAP HEF ÉG ALDREI KYNNST! GÖTURNAR ERU FYRIR HJÓL - GANGSTÉTTARNAR FYRIR GANGANDI VEGFARENDUR!

Þar sem þetta (eða eitthvað á þessa leið) var ekki einungis öskrað heldur líka sagt mjög hratt var ég svolitla stund að átta mig og stundi loks upp sakleysislegu "wie bitte?" enda hef ég aldrei heyrt að gangstéttarnar hér séu bannsvæði fyrir hjól. Þessari spurningu tók maðurinn sem svo að ég væri heyrnardauf. Mjög rökrétt ályktun, ekki satt?

Hann endurtók því boðskapinn. Nú enn hærra, í styttri útgáfu en þó með fleiri blótsyrðum. Jahá herra minn. Konan setti upp auka-dúndur-illskusvip eins og til að undirstrika orð eiginmannsins. Þar sem ég er ekki jafnfljót og persónur Íslendingasagnanna í að spinna upp hnyttin tilsvör ákvað ég bara að láta sem ekkert væri og sveigja fram hjá þeim.

Held svona eftir á að hyggja að það hafi verið ágætis ákvörðun. Fremur ólíklegt að þau hefðu tekið einhverjum rökum svona með blóðþrýstinginn þaninn til hins ýtrasta. Leit svo upp og fékk stuðningskveðju frá strákunum í glugganum (sem ég tók ekkert eftir fyrr en þá), hjólaði á leiðarenda og lék rökræður um kurteisi, reglur, samskiptatækni, ... í huganum.

Tók svo til við að elda matinn en var líklega eitthvað úr jafnvægi því einhvern veginn tókst mér að henda glerskál með nýuppskálduðu túnfisksalati í gólfið svo slettist upp um þrjá veggi og glerbrot flugu yfir allt. Viola og Steffen voru alveg sátt við að fá rjómaost og papriku á brauðið í stað túnfisksalatsins og upplýstu mig um að það væru virkilega reglur hér um slóðir að hjólreiðafólk skyldi halda sig á götunni.

Jahananú. Æji, ég er samt ekki viss hvort ég kem til með að fylgja þessum reglum - alla vega ekki hundrað prósent.

21 september 2007

19 september 2007

Orðlaus

Úfff. Mig langar að benda fólki á þessa færslu hjá Guðbjörtu og Árna í Flórída. Myndböndin eru samt, eins og Guðbjört bendir á, ekki fyrir viðkvæma.

14 september 2007

Dagur í lífi stelpuskotts

Bí-bí-bí-bíbb, bí-bí-bí-bíbb. Nef klesst á rúðu - ennþá rigning - opna gluggann, jæja, aðeins hlýrra en í gær samt. Tek lýsi eins og afi mundi segja mér að gera og elda hafragraut með müsli og kefir. Morgunmatur er undirstaða góðs dags og þótt matarlystin sé ennþá eitthvað að villast á leiðinni frá Íslandi, þá get ég alltaf borðað grautinn.

Enn eina ferðina þarf að hjóla upp að gömlu námunni Reiche Zeche og þótt það sé hryssingslegt haustveður úti þá verður mér alltaf svo heitt á leiðinni upp brekkuna að ég helst ekki við í ullarpeysunni.

Við síðasta hjallann standa hús gatnamálastjóra Freiberg og lítil malbiksblöndunarstöð. Vörubílstjórarnir sem aka til og frá framkvæmdum og þessum stöðvum taka stóran sveig og aka næstum útaf í undrun við að mæta stelpuskotti hjólandi á hlýrabol þegar svona kalt er í veðri.

Það eru fáir mættir til vinnu svona snemma á morgnana en ritarinn í landmælingadeildinni er ein af þeim fyrstu svo ég get fengið lykil að GIS-tölvuverinu. Eftir hálfs dags vinnu vík ég úr tölvunni fyrir Heiko og Jens sem líka eiga eftir að klára stóra skilaverkefnið í fjarkönnun II. Við skiptum með okkur deginum fyrst það er bara ein tölva með leyfi á Definiens Pro.

Eins og það getur reynt á þolinmæðina að silast upp brekkuna í lágum (þó ekki lægsta) gír - þá kitlar í magann og er skemmtilegt að láta sig rúlla hratt, hraðar, hraðast niður á nýjan leik. Neðst þarf bara að gæta sín á að hjóla ekki niður gamla fólkið sem er á leið til og frá leiðum ástvina sinna með blóm.

Innan við borgarmúrana í gamla bænum hristist hjólið á götusteinunum í þröngum götum. Þar hefur tekist að koma fyrir verslunarmiðstöð innan í gömlum húsum með Plus, bakaríi, kjötkaupmanni, apóteki og öðru þess háttar. Plus er Bónus hér í Freiberg og Aldi Krónan. Kem við á stúdentagörðunum til að skila af mér vörunum og hjóla svo fram hjá tjörninni, gegnum garðana og upp litla brekku að gömlu herbúðunum.

Þetta stóra, hrörlega hús með löngum göngum, stigagöngum á ólíklegustu stöðum og reykingastybbu í holinu geymir m.a. kennslustofur, skrifstofur viðskiptafræðideildar, alþjóðaskrifstofuna, tungumálamiðstöðina og verkstæði deildarinnar fyrir sjálfvirkar vélar. Innan um skjalaskápa og gataspjöld frá fæðingarári Líneyjar Höllu og þar um bil kúrir tölva og mappa með bréfum frá tilvonandi erlendum nemum.

Forveri minn í starfi hætti í október í fyrra og frá því í janúar hefur hreinlega gleymst að sinna því sem safnaðist á borð hennar. Fyrstu tölvupóstarnir og bréfin hefjast því á afsökunum um sein svör en framhaldið verður nú vonandi gæfulegra. Hér virðast allir vera ofhlaðnir störfum og ekki vanþörf á að svolitlir peningar fengust til að ráða hjálparhellu - varla koma erlendu nemarnir alla leið hingað ef þeir fá engar upplýsingar um hvernig umsóknarferlið gangi fyrir sig, hvar þeir geti lært þýsku o.s.frv.

Í lok dagsins held ég aftur heim á stúdentagarðana til að elda kvöldmat, klára skýrsluna fyrir skilaverkefnið og læra fyrir próf. Það er notalegt að geta hlustað á tónlist á meðan og tekið pásur til að spjalla við vini víða um heiminn, lesa bloggsíður og fleira. Hugsa með mér að á morgun verði ég nú að gera bakæfingar og fara í göngutúr ef ég ætli að halda út þessa prófatörn og fer svo að sofa rétt um ellefuleytið.

09 september 2007

Mest lítið að frétta


Leyfisþjónninn fyrir forritið úr síðustu færslu hrundi eða dó um miðbik vikunnar. Það var því þreytt Bjarnheiður sem hjólaði fimm sinnum upp á námufjallið á tveimur dögum á kristilegum tímum jafnt sem ókristilegum til að berjast um þá einu tölvu sem þar er og hefur leyfi af sérþjóni. Verkefnið alveg komið úr öllum tímaböndum og hreinlega komið í mig "svona æji, látum þetta bara duga"-hljóð því þetta étur svo mikinn tíma frá próflestri.


Í gær komst ég að því að mögulega er ég rangt skráð eða hreinlega ekki skráð í prófið í gagnagrunnum. Ansihreint bagalegt það og ég vona að þetta reddist einhvern veginn á morgun svo vinnu annarinnar sé ekki kastað á ruslahaugana.


Annað sem valdið hefur mikilli örvinglan síðustu daga eru tryggingamál. DAAD sá um þetta fyrir mig í fyrra en núna keppast stofnanir við að gefa mér mismunandi svör um það hvar ég sé tryggð, hvernig ég sé tryggð eða hvort ég sé yfir höfuð tryggð. Meiri hringavitleysan! Ætli SÍNE geti nú ekki gefið mér einhver svör á næstu dögum, ég bíð spennt eftir svarpósti frá þeim.


Meðan á þessari vinnutörn stendur hef ég þó eins og áður sagði komist til að elda mat með vinum um helgar. Algjörlega nauðsynlegt að lyfta sér aðeins upp úr skjástörun og músarpikki. Nokkrar myndir af matargerðinni fylgja þessari færslu.

01 september 2007

Geomatica

Á mánudaginn kom ég aftur til Freiberg og hef nánast búið í tölvuverinu í Karl-Kegel-byggingunni síðan þá. Ástæðan eru tvö stór skilaverkefni í fjarkönnunarfræðum (vinnsla og túlkun gervihnattamynda) og hefði ég einmitt átt að skila þeim báðum í gær. Það tókst að skila öðru verkefninu en hitt fær að bíða næstu viku.

Tölvuverin eru ekki opin um helgar og Geomatica, forritið sem við þurfum að vinna með og fyrirfinnst eingöngu í tveim tölvuverum á háskólasvæðinu, hrundi svo oft að ekki var möguleiki að klára bæði verkefnin. Helst þyrftum við líka öflugri tölvur (hrunið stafaði af litlu vinnslu- og geymsluminni) en það tölvuveranna sem gæti reddað þessu er barasta lokað. Frekar fáránlegt að þurfa að vinna verkefnin við þessar aðstæður, vikan hefur aðallega farið í að krossa putta og stara vonaraugum á vinnslustikur!

Fimmtudagsmorgunninn fór þó í eitthvað annað en verkefni því þá mætti ég í fyrsta skipti á nýjan vinnustað hjá alþjóðaskrifstofu háskólans. Þar kem ég til með að svara fyrirspurnum frá nemum utan úr heimi, aðstoða við skipulagningu og framkvæmd á ýmsum viðburðum og sitthvað fleira. Þetta var eiginlega bara smá kynning og ég verð sett betur inn í starfið í næstu viku. Meðfram þessu starfa ég líka áfram sem sjálfboðaliði hjá AKAS, samtökum erlendra nema í Freiberg.

Áður en þetta allt fer í gang verður nóg að gera í prófatörn. Framundan eru próf í báðum fjarkönnunarkúrsunum, gagnagrunnum og rökforritun/rökfræði. Það verður því venju samkvæmt nóg að gera hjá mér! Eiginlega er ég því hálffegin að tölvuverin eru lokuð um helgar - þá get ég aðeins slappað af þessa helgi, eldað með vinum og áttað mig á því að vera komin aftur út.