18 október 2005

Deutschland, Deutschland...

Í síðustu viku skilaði ég Menntamálaráðuneytinu umsókn um styrk til framhaldsnáms í Þýskalandi veturinn 2006-2007. Einhvern veginn hélt ég að það væri margfalt einfaldara umsóknarferli heldur en Bandaríkjabrjálæðið en annað kom á daginn. Auk þess að fylla út fjögur eyðublöð þarf nefnilega alveg ógrynni af aukapappírum, meðmælabréfum, prófgráðum (m.a. um alþjóðleg þýskupróf), lífshlaup og ritgerð - allt í þríriti minnst og stimplað af þýska sendiráðinu til staðfestingar um kórréttar þýðingar! Skilyrðin sem meðmælendurnir þurftu að uppfylla voru líka svo ströng að ég þurfti bæði að senda neyðarkall til prófessors sem er í leyfi í Kanada og falast eftir meðmælum frá þeim kennara sem mér hefur gengið langsamlega verst hjá. Einhvern veginn reddaðist þetta á síðustu stundu og umsókninni var skilað 6 mínútum fyrir lokun. Nú er bara að bíða og sjá hvort ég þurfi að endurtaka leikinn í vor því ef styrkurinn fæst ekki þarf að sækja beint um í hvern skóla fyrir sig.

Pabbi og mamma eru byrjuð að skoða fasteignablöðin með vaxandi ákefð og áhuga. Þau tilkynntu okkur systrunum fyrir um ári síðan að þau hygðust flytja í minna húsnæði þegar við lykjum grunnnáminu í Háskólanum. Þetta þýðir pent orðað að við eigum að flytja að heiman - er það ekki snjallt hjá þeim? Ég er alla vega mjög sátt við það og væri raunar örugglega flutt nú þegar ef hinn íslenski okur-fasteignamarkaður yxi mér ekki svo í augum.

Þótt fyrirsögnin sé þýsk hef ég mest verið að vasast í dönsku, sænsku og frönsku eftir að umsókninni var skilað. Mér þykja tungumál alveg óendanlega skemmtileg. Dönskuna hélt ég að ég kynni sæmilega en undanfarna daga hef ég komist að því að hún hefur ryðgað ótrúlega mikið! Það er því gott að starfa í Nordklúbbnum í Norræna félaginu og þurfa rifja þetta upp við greinaskriftir fyrir "Gorm!", tímarit ungmennadeilda norrænufélaganna. Um næstu helgi verður einmitt allt á fullu hjá okkur við að hjálpa til á þingi UNR (Ungdomens Nordiska Råd) sem í ár er haldið hér í Reykjavík. Samhliða verða haldnir Norrænir dagar þar sem við verðum með kynningu m.a. í Smáralind. Ég þyrfti því eiginlega að geta klónað mig til að geta verið á báðum stöðum og lesið stærðfræði á sama tíma en reyni í staðinn að skipta helginni jafnt milli allra.

Gleymdi að útskýra þetta með frönskuna. Hún kemur til af því að "skiptineminn" á Vatnamælingum í sumar var franskur og hefur undanfarin kvöld látið mig fá orð dagsins til að læra. Stundum verða orðin fleiri en eitt og ég er orðin mjög áhugasamur frönskunemandi - nokkuð sem ég hefði aldrei trúað! Var alltaf eitthvað smeyk við rómönsku málin, ætlaði að byrja á portúgölsku einhvern tíma en kom því aldrei í verk. Mig langar líka mikið til að læra spænsku og rússnesku. Á degi evrópskra tungumála 26. september héldum við í Nordklúbbnum tungumálamaraþon þar sem kennd voru níu tungumál. Ég lærði grunninn í sjö þeirra og mikið var ég þreytt eftir þann daginn! Litháíska er klárlega erfiðasta mál sem ég hef kynnst...

Engin ummæli: