28 ágúst 2011

Hvítasunnukarneval

Fyrir sjö árum sagði Carsten Thomas mér frá Karneval der Kulturen, litríkri menningarhátíð í Berlín sem haldin er um hvítasunnuhelgina ár hvert, og allt síðan þá langaði mig að upplifa dansinn og gleðina, smakka mat frá ýmsum heimshornum og týna mér í mannhafinu. Nú í ár gafst loksins tækifæri til þess og hátíðin var jafnvel enn betri en ég hafði hugsað mér!

Dagurinn hófst á kaffihúsi í Kreuzberg. Því miður gleymdi ég myndavélinni heima en hún Ásta vinkona mín lánaði mér myndavélina sína meðan við fylgdumst með skrúðgöngunni á Hasenheide. Þaðan héldum við síðan á torg til að hlýða á útitónleika og fá okkur kvöldmat. Þótt tónleikahaldi lyki stundvíslega klukkan ellefu þá var nóttin enn ung innandyra og hélt hópurinn í fyrrum vöruskemmur járnbrautanna til að dansa fram á næsta morgun.

Hjóltúr í Königs-Wusterhausen

Í lok maí fór stærðfræðimenntunardeildin í Humboldt-háskóla í lautarferð á hjólum í nágrenni Königs-Wusterhausen. Veðrið lék við okkur og ég hnerraði þessi reiðinnar ósköp enda var grasið byrjað að mynda frjókorn.

Við byrjuðum á að skoða veiðihöll herkonungsins Friðriks Vilhelms fyrsta af Prússlandi og héldum síðan áfram för gegnum engi og skóga, fram hjá vötnum og lækjum þar sem við breiddum úr teppum og settumst að snæðingi við vatnið. Tveir kennaranna sem voru í námsleyfi sömdu spurningaleik til skemmtunar eftir hádegisverðinn og síðan héldum við áfram för fram eftir degi með smá stoppi á kaffihúsi.

Myndir má sjá hér.

16 ágúst 2011

Byrjun júní við vatnið

Jule vinkona mín býr og starfar í Hof í Bæjaralandi en ólst upp í Berlín.

Hér er Jule í garði foreldra sinna

Foreldrar hennar eiga heima rétt utan við Berlín og við hittumst þar í morgunkaffi úti í garði einn daginn í byrjun júní.

Búið að leggja á borð

Við Jule, þreyttar eftir vinnu og ferðalög en jafnframt kátar yfir endurfundum

Stundarlangan hjóltúr frá húsinu, gegnum þorp og skóg, er fallegt djúpt vatn að nafni Liepnitzsee.

Blátt og tært vatnið í skóginum

Það er umvafið skógi, með lind á botninum og eyju fyrir miðju. Þangað fórum við, syntum út í eyjuna og reyndum að bægja frá mýflugum þar til við urðum að játa okkur sigraðar og syntum til baka.

Tær og sokkar eftir sundið

Á heimleiðinni gerðum við hlé á ferðinni í Bernau til að borða ís og skoða miðaldahluta bæjarins. Þar reyndist þá vera miðaldahátíð, alveg óvænt.

Skrúðganga á miðaldahátíð í Bernau

Deginum lauk aftur í garðinum þar sem ég fékk að klippa nokkrar rósir til að taka með mér heim og setja í vasa um kvöldið.


Rósir í vasa ásamt nellikum og Maríustakki

Sólin hélt áfram að skína alla fyrstu júní-helgina og þar sem Hlynur var á ferðinni, þá mæltum við okkur öll mót á kaffihúsi; Hlynur, Inga og ég.

Inga er heldur betur leikin við að taka myndir með útréttan arminn

Síðan kom hellidemba mánudaginn eftir, gróðrinum til mikillar gleði.

Rigning í Seumestraße

01 ágúst 2011

Brúðkaup í Poznań


Aðaljárnbrautarstöðin í Poznań

Í lok maí var brúðkaupsgleði Martynu og Tomeks haldin í Poznań. Við Judyta og Viki lögðum upp eldsnemma á laugardagsmorgni frá Varsjá, Freiberg og Berlín með rútum og lestum vopnaðar regnhlífum. Spáð hafði verið roki og rigningu en síðan hlýtur eitthvað að hafa breyst því veðrið lék við okkur allan daginn með sól og sumaryl.


Brúðhjónin verðandi ganga inn kirkjugólfið

Pólskar brúðkaupshefðir eru alveg sérkapítuli og Judyta skýrði þær út fyrir okkur Viki jafnóðum. Til dæmis kastar brúðurin brúðarslörinu fyrir ólofaðar stúlkur í boðinu og brúðguminn kastar slifsi sínu fyrir ólofaða pilta í boðinu og var mikill handagangur í öskjunni, hlaup skrækir og læti. Úr verður síðan dans þeirra tveggja sem grípa og hinir dansa í hring um þau.


Einn af fjölmörgum pólskum brúðkaupssiðum: glösum kastað aftur fyrir bak

Yfir höfuð var mikið dansað og auðvitað etið og drukkið inn á milli. Stemmningin minnti mig stundum svolítið á ættarmót því ungir og aldnir skemmtu sér allir af lífi og sál í einni kös. Sumir gengu þó dulítið of hart fram í drykkjunni og þurfti að bera fyrsta gestinn upp í rúm um miðnættið en þeir sem lengst héldu út dönsuðu til fimm um nóttina og mættu svo gallharðir í morgunmatinn klukkan níu daginn eftir.


Markaðstorgið við ráðhúsið

Að loknum morgunverði héldu svo allir glaðir og sælir til síns heima og við Judyta spásseruðum um miðbæ Poznań fram eftir sunnudegi þar til hún þurfti að fara í lestina til Varsjár og ég að finna mér far til Berlínar.


Úkraínsk þjóðlagatónlist á markaðnum

31 júlí 2011

Maíráðstefna

Norræna stærðfræðimenntunarráðstefnan NORMA 2011 var haldin í Reykjavík í maí og var það kærkomið tækifæri til að fara heim til Íslands, kynnast norrænum kollegum og fræðast um hvað þau eru að spá og spekúlera. Það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim frá útlöndum er að fara niður að sjó, hlusta á öldurnar og horfa á fjöllin, jökulinn og fuglana.


Borgin


Örfirisey


Esjan


Sjórinn


Jökullinn og fuglarnir í kvöldsólinni

29 júlí 2011

Kraká um páska


Cindy búin að pakka í bílinn

Um páskana héldum við Cindy, fyrrum nágranni af stúdentagörðunum í Winklerstrasse, í ferðalag til Krakár til að heimsækja annan gamlan nágranna, hana Judytu. Ferðafélagar okkar frá Dresden til Krakár voru þýskur strákur og pólsk stelpa sem áttu það sameiginlegt að hafa ferðast til Venesúela og búið þar. Við fengum því að heyra skemmtilegar ferðasögur alla leiðina. Ekki amalegt það!


Judyta leiðsagði okkur um háskólasvæðið

Við byrjuðum á að sækja Judytu í vinnuna. Þetta var síðasti dagurinn hennar þar því Judyta hafði sagt upp fyrr um daginn og var á leið til Varsjár til að takast á við ný ævintýri í svissnesku rörafyrirtæki. Vinkona hennar úr vinnunni kom með okkur í ferð um háskólasvæðið og labbitúr um miðbæinn í kvöldsólinni.


Af páskamarkaðnum

Sú þurfti síðan að taka lest heim til sín og eftir að hafa skilað henni á lestarstöðina héldum við til Rudnik, þorpsins hennar Judytu, þar sem foreldrar hennar, Józef og Wanda, tóku á móti okkur. Pólsk gestrisni er alveg einstök og okkur leið heldur betur vel þarna í sveitinni.


Glaðar í bragði

Okkur langaði að taka þátt í páskahefðum Judytu og mættum því galvaskar morguninn eftir með páskakörfu fjölskyldunnar fyrir utan þorpskirkjuna. Þar var gríðarstór hópur saman kominn. Hvort ef ekki bara allt þorpið var mætt til að fá dulitla skvettu af heilögu vatni á páskamáltíðina! Sumir geymdu síðan körfuna sína í anddyri kirkjunnar fram á sunnudagsmorgun en þar sem plássið var lítið tóku flestir körfurnar með sér heim.


Páskakarfan böðuð helgu vatni

Nú tók við ferðamannadagurinn mikli í Kraká. Við fórum aftur á markaðstorgið sem við höfðum skoðað daginn áður og nú niður í kjallara þess á skemmtilegt sögusafn. Þar voru alls konar töfrum líkar tæknibrellur og sumar náðust á mynd en aðrar ekki, eins og gengur. Eftir það lá leiðin upp á Wawel og upp með ánni Wisła inn í gamla Gyðingahverfið. Þar er sagan á hverju götuhorni, misátakanleg eins og gengur.


Eitthvað ægilega fínt í safninu sem erfitt var að ná á mynd

Í miðbæ Krakár eru óskaplega margar kirkjur. Lá við að ef ekki væri kirkja á horni götu þá væri þar sínagóga. Þar sem það voru páskar voru messur stanslaust frá morgni til kvölds og allar kirkjur fullar af fólki, jafnvel raðir út á götu. Við heimsóttum þó ekki bara kirkjur heldur litum líka inn á mörg skemmtileg kaffihús og veitingastaði sem léku hver eftir sínu stefi: fullt af klukkum, gamalt pólskt stórheimili, hesthús, alls konar stólar, ævintýri o.s.frv. og prófuðum Krakár-kringlur og grilluð Krakár-langbrauð.


Það var bleikt þema þennan dag - við með grilluð Krakár-langbrauð

Á páskadag vöknuðum við fyrir allar aldir til að fara til messu en vorum samt með þeim síðustu að mæta og stóðum því einhvers staðar á ganginum í yfirfullri kirkjunni. Að messu lokinni tók hver sína körfu og hélt heim á leið til að borða páskamorgunmatinn. Páskaegg úr súkkulaði voru hvergi sjáanleg en hins vegar voru alls konar eggjaréttir á borðum: egg soðin með lauk (til að gera þau brún), egg úr smáhænum (lítil eftir því), stöppuð egg með piparrót og svo mætti lengi telja. Einnig var ýmiss konar matur í formi guðslambsins á boðstólum: pylsa, brauð, reykostur og kjúklingaskinka - allt formað eins og postulínslamb! Pólskur matur er mjög góður og við átum á okkur gat.


Hluti af páskamorgunverðarhlaðborðinu hjá systur Judytu

Þar sem heldur rigningarlegt var um að litast í dalnum héldum við suður á bóginn í átt að Tatrafjöllum. Þar sáum við sjövítt kvikmyndahús (?!) og skíðastökkpallinn í Zakopane, skrifuðum póstkort til Viki, ungverska nágranna okkar úr Winklerstrasse, og virtum fyrir okkur fjalladýrðina. Tindarnir voru þó ekki árennilegir þennan daginn og því létum við stutta göngu við fjallsræturnar duga.


Frá skíðabænum í Zarkopane

Á heimleiðinni skoðuðum við gamla timburkapellu, drukkum te og ornuðum okkur við arineld í litlum fjallakofa. Um kvöldið áttum við síðan notalega kvöldstund með bróður Judytu og fjölskyldu hans, skeggræddum störf í ýmsum löndum og fræddumst um gæði pólsks vodka. Það voru þreyttir ferðalangar sem lögðu af stað til Dresden morguninn eftir. Við vorum gerðar út með nesti sem dugði okkur og spænsku Erasmus-nemunum sem fengu far hjá okkur til Dresden og meira til!

Póstkort sent af stað til Vikiar

Fleiri myndir er að finna hér.

26 júlí 2011

Fjöllum ofar


Í lok febrúar fór ég á ráðstefnu um stærðfræðimenntun í Freiburg í Suður-Þýskalandi. Myndavélin gleymdist á ráðstefnunni sjálfri en þennan hálfa frídag sem við fengum fór ég í snjóþrúgugöngu upp á fjalli með nokkrum gestanna. Fleiri myndir má sjá hér.

Langt um liðið

Frá því í janúar hef ég drukknað í vinnu en tókst að draga sjálfa mig á hárinu upp úr öldurótinu eins og Barón Múnkhásen forðum daga og koma mér á þurrt land. Nei, nú er ég kannski aðeins að ýkja. En ég drukknaði samt næstum í vinnu fram í maí og það var lítið um djúpsjávardoktorspælingar en mikið um skriffinnskufroðugerð í vinnunni. Úff, hvað skriffinnska er leiðinleg. Og þýsk menntapólitík. Og fullorðið fólk í sandkassaslag. Og... hmmm... það er svo miklu skemmtilegra að kenna! Áttaði mig seint og síðar meir á að eitthvað yrði að gera í málunum og eftir mikið og gott spjall við vini, fjölskyldu og jafnvel bláókunnugt fólk sem varð á vegi mínum - sem og stórgott ferðalag á ráðstefnu heima á Íslandi - sagði ég upp starfi mínu við Humboldt-háskólann og réði mig til stærðfræðikennslu við MH í haust. Hlakka ekkert smá til. Þess er loks að vænta að líf færist í bloggið á nýjan leik.

13 mars 2011

Myndir úr fókus

Þessar myndir eru teknar í hverfinu mínu og kringum Friedrichstraße í Mitte um miðjan febrúar, flestar við léleg birtuskilyrði og án flass. Því er útkoman eins og hún er, svolítið úr fókus.

Kalt í Berlín, best að prjóna trefla fyrir trén...

Fólk á labbi með hægindastól

Húsin við Ostkreuz

Skondin farartæki

Svakalegt hlið en samt bara venjulegt íbúðarhús, held ég

Sofienhöfe

Við einn af grunnskólunum í grenndinni

Gluggaskreytingar

Meiri gluggaskreytingar og tagg

Skemmtistaður í húsi sem er að detta í sundur

Húsið á horninu

Hurð á húsinu á horninu

Af útskriftarsýningu - hjólastandar

Af útskriftarsýningu - fólk skrifar póstkort til hvers annars í neðanjarðarlestinni

Af útskriftarsýningu - kynning á listamönnunum úti á vegg

Berlinale Filmfestival - Jan Schomburg og Dieter Moor

Leikarar og annað starfsfólk við myndina "Und über uns das All"

Tacheles 21 árs

Flottir málmskúlptúrar

Jule og hesturinn

Doddi?

Maður við eld í munni hauskúpu