13 nóvember 2005

Þetta er augljóst!

Á morgun mun afleysingakennarinn sem ég dásamaði um daginn halda sinn síðasta fyrirlestur. Í tilefni af því eigum við að skila ellefu dæmaúrlausnum úr hans hluta af námsefninu. Mér sem fannst ég skilja allt svo vel í tímunum er nú hætt að lítast á blikuna. Hef komist að því eftir mikinn lestur og margar atlögur að dæmapúkunum að allt sem virtist svo augljóst er það alls ekki og einungis tæp fimm dæmi liggja í valnum eftir helgina.



Á íslenskan máta mun þetta þó örugglega reddast einhvern veginn kringum miðnætti annað kvöld. Vonandi. Eiginlega er ég ekkert ægilega hrædd við þetta - virtist alveg vera að komast á skrið í dag. Það er eins og með fjöllin sem virðast svo há: gangan hefst, auðvitað koma erfiðir kaflar en þá er víst bara að taka Pollýönnu og aðra ofurjákvæðni á þetta, spýta í lófana og spjalla við göngufélagana. Án þeirra kæmist maður víst ekki langt. Útsýnið á hverjum stað gerir þetta líka alveg þess virði, því megið þið trúa!

Engin ummæli: