26 desember 2005

Þetta stendur allt til bóta

Þrátt fyrir flug og fleira sniðugt í jólaglöggi Stiguls var haldið snemma heim. Velkæst skatan hjá afa á Þorláksmessu náði ekki einu sinni að kreista úr mér slappleikann en vonir standa til að ég verði orðin hress á morgun. Hvað sem sleninu líður voru þetta hin ágætustu jól og vona ég að hið sama hafi gilt á bæjum lesenda. Er ekki öllum sama þótt jólabréf ársins verði áramótabréf að þessu sinni? Gleðilega hátíð!Hér er ég í góðra vina hópi á Ósi - hver og hver og veit hvar ég er?

18 desember 2005

Jibbíjei

Síðasta prófið var í meira lagi asnalegt en ekki þýðir að pirra sig lengi á því enda gaman að vera búin í prófum svona snemma. Skrapp aðeins í Vatnamælingamatarboð á föstudaginn og át á mig gat. Pabbi er að fara að skipta um starf - flyst til um deild - og kom þá í ljós nokkuð sem okkur í fjölskyldunni hefur lengi grunað: Það þarf hvorki meira né minna en þrjá menn til að taka við öllu því sem hann hefur séð um síðustu árin og áratugina! Mér finnst nokkuð gott að rífa sig svona upp eftir 35 ár í starfi.Nú á eftir flýg ég til Akureyrar. Það vildi enginn gefa mér far. Nema fólk viti ekki af samferðasíðunni áðurnefndu? Ég held hreinlega að sveinkapokinn sem færa á ættingjum og vinum fyrir norðan sé stærri en farangurinn minn, alla vega hlýtur hann að vera þyngri. Konfektgerðin tókst sérdeilis prýðilega og pabbi fékk hreindýrahakk á síðustu stundu til að útbúa árlegt paté. Gaman að gefa svona heimahrærðar gjafir. Það er ekkert víst að ég komist í netsamband norðan heiða. Óska því öllum góðs gengis í prófunum sem eftir eru og hinum gleði og gamans á þessu litla sem eftir er af aðventunni. Góðar stundir.

14 desember 2005

Væmni

Eitt af því sem ég á erfiðast með að þola er væmni. Verst hversu erfitt er að skilgreina væmni. Hver og einn er með sinn ósýnilega væmniþröskuld sem aðrir eiga erfitt með að skynja. Af fenginni reynslu held ég að minn þröskuldur sé lægri en annarra. Kann einhver skýringu á því?
Nú í kvöld var mér boðið á tónleika sem að drjúgum hluta fóru yfir hættumörk mín hvað væmni varðar - ástar(sorgar)ballöður eru hreint ekki minn tebolli! Í eymd og volæði er að mínu mati miklu betra að hlusta á þunglyndisrokk, Rachmaninov eða krútthljómsveitatónlist og enda svo á góðri útrás með einhverri gleðisveit. Eða bara fara niður í fjöru og öskra svolítið.
Ekki svo að skilja að hér á bæ sé eymd og volæði þessa stundina - öðru nær! Überwiegend mun meira um gleði og gaman og tjah: skyldi það hafa áhrif á bjarnheiðska væmnistuðulinn? Næstu dagar verða til dæmis þéttsetnir af gleðigjöfum á borð við tónleika (ekki væmna), konfektgerð, þýskupróf og ferð til Akureyrar. Skrýtið að vera ekki í dauðaprófum dag eftir dag eins og venjulega en jafnframt ágætt að taka því létt þetta misserið. Það er að segja létt hvað jólaprófin varðar - ég hafði auðvitað að venju yfrið nóg að gera en af prófunum sjö voru bara þrjú taugatrekkjandi aldrei þessu vant.

11 desember 2005

Ferðast á bylgjum og bílum

"Það er dýrt orðið... og ekki er það drottins!" sagði systir mín þegar hún heyrði auglýsingu um jólakveðjur í Ríkisútvarpinu. Mamma benti þá á að 147 kr fyrir orð sem bærust vítt og breitt væri nú ekki mikið í samanburði við frímerki, tíma og efni sem færu í jólakortaskrif. Það sem mér fannst samt skondnast var þetta með að blanda drottni í málið. Við systurnar erum nefnilega hvorki skírðar né fermdar en þessi setning hljómaði eins og mælt af vörum gamallar konu í kvenfélagi einhvers söfnuðarins. Kannski áhrif frá hinni mætu konu Unni á Stað?Mig langar til að líta í heimsókn til Akureyrar en það er orðið svo dýrt bæði að fljúga og taka rútuna. Rakst þá á þessa sniðugu samferðasíðu sem hefur þýsk Mitfahrzentrale að fyrirmynd. Nú er bara að bíða og sjá. Í augnablikinu óska mun fleiri eftir fari en bjóða far en hver veit nema það eigi eftir að breytast þegar líður á vikuna.Líney Halla fékk hvatningarverðlaun Eðlisfræðifélags Íslands á föstudaginn. Mér finnst hún vel að þeim komin og vænti þess að þetta sé bara skref á leiðinni að Nóbelnum!Á morgun er próf í inngangi að hagnýttri stærðfræði. Sjaldan hef ég haft jafnóljósa hugmynd um hverju búast megi við á prófi og samt verið frekar róleg. Búin að undirbúa mig ágætlega og með Schaum's Outline Series Mathematical Handbook of Formulas and Tables frá 1969 við höndina ættu hin allraljótustu tegur við Fourier ummyndanir og lausnir Sturm-Liouville jaðarskilyrðaverkefna ekki að vefjast of lengi fyrir mér. Vona síðan að rólegheitin haldist áfram í bland við hæfilegan taugatitring í fyrramálið...

09 desember 2005

Til gamans - AstrikB - til umhugsunaR

Nú í prófatíð mæli ég með þessu. Gúglleitarvélin "veit" því miður ekki nóg um mig til að þessi annars stórsniðuga vél geti soðið saman eitthvað skondið en hvaða niðurstaða fæst fyrir nafnið þitt? Í næstu málsgrein fer ég hugsanlega aðeins yfir strikið frá A til B svo viðkvæmir skulu bara hætta hér.Mikið er ég guðslifandifegin og þakklát fyrir að Alex benti mér á tilvist bleikrauðra smartístaflna að nafni Voltarenrapíd í háskólabíóstíma á fyrsta ári. Annars væri ég nefnilega rúmliggjandi tvo daga í mánuði, emjandi af sársauka og mundi jafnvel kasta upp. Það væru þá 24 dagar á ári. Ullabjakk. Skil ekki hvernig langamma mín hélt þetta út á sínum tíma, hvað þá formæður hennar. Þá var litið á þetta sem mánaðarlega leti. Hnussfuss!

08 desember 2005

Hitt og þetta

Uppskeru- og prófahátíð er gengin í garð. Tvennir tónleikar framundan, þrjú próf af sjö eru að baki og ég kenndi síðasta dæmatímann í "Monster", öðru nafni Stærðfræðimynstur í tölvunarfræði, í gær (þetta snýst um strjála stærðfræði þ.e. þrautalausnir og fleira skemmtilegt). Rosalega var gaman að kenna! Á næstu önn verð ég með stuðningskennslu í stórum skilaverkefnum í Tölulegri greiningu en varð að afþakka annars spennandi boð um aðstoðarkennslu í Mengjum og firðrúmum því dagskráin er orðin svo þétt fyrir vormisserið.
Inn á milli prófanna fléttast svo tónleikarnir í framhalds- og blokkflautudeild. Þeir fyrrnefndu eru á föstudaginn 9. desember í Sigurjónssafni klukkan 20 og öllum velkomið að mæta. Kvartettinn minn mun gera sitt besta til að fá smá sveiflu, glens og grín í tónleikagesti eftir hvert metnaðarfullt meistarastykkið á fætur öðru frá hinum framhaldsdeildarkrökkunum. Við erum reyndar ekki alveg sammála um hvers konar sveifla þetta sé - verkið heitir Indian Summer og voru aðallega tvær hugmyndir í gangi: indíána eða indverskt þema. Eftir lestur um tilurð verksins kom svo í ljós að líklega er um að ræða sumarstemmningu í fylkinu Indiana í Bandaríkjunum!
Annars varð ég fyrir bölvun nokkurri á vefsíðu Völlu. Gegn beiðni þar um í skoðanaglugganum mun ég því segja viðkomandi ýmislegt furðulegt samkvæmt listanum á síðunni hennar.

02 desember 2005

Skrambakornið

Auk hins venjubundna háskólaþreks, jóga og sunds hef ég stundað Stigulsbolta einu sinni í viku í vetur. Þrusugaman. Þangað til fyrir rúmum mánuði að ég missteig mig illa. Misminni mig ekki þá hef aldrei áður misstigið mig að ráði en þetta var skrambi slæmt: trosnuð liðbönd. Bólgan mun víst ekki hverfa fyrr en að hálfu ári liðnu og ef ég ætla í bandý, fót-, hand- eða körfubolta þarf ég að nota "stuðningssokk"! Einnig er útséð með fleiri sandalafjallgöngur - þær verða allar farnar á gönguskóm hér eftir.

Það er þó bót í máli að háskólaþrekið, sund, badminton, blak og fleiri uppáhaldsíþróttir eru undanskildar sokkákvæðinu. Framundan er líka mikið kyrrsetutímabil við próflestur svo ökklinn ætti að hvílast ágætlega - alla vega fram að hoppi og híi hátíðanna.