19 október 2005

Skólp!

Í byrjun apríl plastaði ég kjallarann á húsinu okkar með 80 fermetrum af byggingarplasti. Von var á moldvörpum af ættkvísl pípara í heimsókn. Fyrirfram var svo sem ekki vitað hvort skepnur þessar væru sóðalegar eða ekki en við skulum segja að varúðarráðstafana minna hafi reynst vera FULL þörf. Moldvörpurnar mættu tveimur vikum eftir boðaðan komutíma, grófu sér skurð gegnum kjallarann og út í bílskýlið sem er samvaxið húsinu. Sentimetersþykkt steypuleðjulag lá á plastinu eftir þá aðgerð. Holan varð fljótt að óopinberum kamri nágranna á leið heim af djamminu og gerðist meira að segja svo fræg að fá (ljótan) veggjakrotsstimpil á húsvegginn við hlið sér. Til að gera langa sögu stutta höfum við síðan komist að því að mismunur á boðuðum komutíma moldvarpanna og rauntíma eykst með veldisvísisfalli. Það er að vísu búið að fylla í skurðinn og gera holuna úti í bílskýli örlítið snyrtilegri en næsti verkþáttur sem felur í sér nýjan skólpstokk og uppfyllingu holunnar hefur heldur betur fengið að bíða. Þessu átti að ljúka í vor en síðustu fregnir frá moldvörpunum herma að öllu verði kippt í liðinn fyrir jól. Þeir nefndu samt ekkert hvaða jól svo ég er ekkert of bjartsýn!

Það vill svo til að Gunna systir pabba á eiginmann sem er laghentur með meiru. Það er honum að þakka að við þurftum þó ekki að vera án klósetts lengur en í hálft ár. Hver veit hversu lengi moldvörpurnar hefðu látið það bíða! Sá galli er þó á gjöf Njarðar að holræsisstokkurinn er opinn undir gólfinu og lyktin því ekki beint góð... Mamma reynslubolti kenndi okkur trikk frá sumarvinnuárum hennar undir Snæfelli (þar var þá illalyktandi kamar), nefnilega að kveikja á kerti til að brenna upp gösin sem berast úr neðra. Það er því rómantísk stemmning á klósettinu í kjallaranum þessa dagana. Mikið vona ég að moldvörpurnar drullist til að ljúka verkinu fyrir þessi jól - komin með æluna upp í kok af þessari rómantík og eitt er víst - næst þegar samið verður við iðnaðarmenn hér á bæ ætla ég að koma ákvæði um dagsektir frá áætluðum verklokatíma inn í samninginn.

Engin ummæli: