22 nóvember 2005

Svei mér þá alla mína daga...

Ég held að mér skjöplist ekki þegar ég skrifa að ég hafi aldrei á minni lífsfæddri ævi lent í jafnfáránlegum aðstæðum í kennslustund og einmitt í dag. Það má segja að ég hafi verið í prófi því fyrirlesturinn sem ég hélt á að gilda ein 50% af lokaeinkunn í námskeiði í þýsku. Fjalla átti um fyrirtæki sem við gætum hugsað okkur að starfa hjá og ég sagði frá Vatnamælingum Orkustofnunar.
Þar sem ég vissi að áheyrendur væru flestir lítt stærðfræðilega þenkjandi reyndi ég að útskýra allt mjög vel og virtust flestir bara skilja nokkuð vel - jah - nema kennarinn. Hann átti eitthvað erfitt með að einbeita sér og smátt og smátt færðist glott yfir andlitið sem endaði í hæðnislegum "heldur hún að við skiljum þetta?!"-hlátri um miðbik fyrirlestursins. Ég spurði hvort eitthvað væri óljóst en hann sagði mér bara að halda áfram, sem ég og gerði. Að fyrirlestrinum hófst greining á öllum atriðum sem betur hefðu mátt fara og fyrstu athugasemdinni beindi kennarinn út í bekk: "Já, þetta var nú svolítið fræðilegur fyrirlestur, ha? Ég meina, skildi þetta einhver?"
Það urðu allir frekar hvumsa og sögðust bara hafa skilið þetta ágætlega. Þetta voru greinilega ekki þau viðbrögð sem hann hafði búist við en einhvern veginn tókst honum að skauta fram hjá því. Að lokinni greiningunni var síðan hafist handa við að ræða næsta efni námskeiðisins - "þvermenningarleg samskipti". Í þessum umræðum komst kennarinn á mikið flug í einleik um steríótýpur af hinum ýmsu þjóðernum og skrifaði á töfluna eftirfarandi fjögur atriði sem væru mikilvægust í mannlegum samskiptum:
  1. Umburðarlyndi/fordómaleysi
  2. Sveigjanleiki
  3. Vilji til að sýna (þvermenningarlegan) skilning
  4. Virðing (m.a. hlusta á, reyna að skilja og virða skoðanir annarra)
Þetta fernt er ég alveg tilbúin að skrifa undir.

Kennarinn gaf okkur síðan það ráð að rétta aldrei löngutöng framan í lögregluþjóna í Þýskalandi, það gæti kostað okkur 2500 Evrur og allnokkur vandræði. Eftir tímann ákvað ég að gefa honum ráð um hvernig þykir viðeigandi að haga sér á Íslandi og benti honum því góðlátlega á að á Íslandi þætti það ókurteisi að hlæja hæðnislega að fyrirlesara í miðjum fyrirlestri.

Eftir smá hik svaraði hann að það þætti raunar líka ókurteist í Þýskalandi - EN - það væri þó alltaf einn sem mætti hlæja hvenær sem væri, hvort ég vissi ekki hver það væri? Ég sagðist nú ekki halda að nokkrum leyfðist það þótt mig grunaði hvert svar hans yrði: Kennarinn! Jú, kennarinn má alltaf hlæja, sagði hann. Nújæja, sagði ég. Þannig er það ekki á Íslandi. Hér er að sjálfsögðu ætlast til þess að nemendur sýni kennurum sínum virðingu en það er þá líka ætlast til þess á móti af kennurunum, að þeir sýni nemendum sínum virðingu. Klykkti síðan út með því að mér virtist sem hann hefði ekki farið allskostar eftir því.

Gleymdi víst að taka fram að kennarinn í þessu námskeiði er þýskur (þetta er ekki mynd af honum), hefur dvalið lengi í Bandaríkjunum við kennslu og er hér sem gestakennari þetta misserið. Hann hefur sagt okkur að í Þýskalandi þyki ekki annað viðeigandi en að háskólakennurar klæðist jakkafötum, drögtum eða öðrum formlegum klæðnaði og vitaskuld þérist nemendur og kennarar - allt til að sýna virðingu. Ég hef komist að því að þessi "virðing" er því miður oft fátt annað en umbúðirnar, þýskir háskólakennarar líta margir frekar stórt á sig og bak við kurteisishjalið dylst allt að því fyrirlitning á nemendum. Nú skrifaði ég margir, ekki allir, enda hef ég líka haft mjög góða þýska kennara og raunar fleiri góða en slæma ef út í það er farið. Mikið er ég samt kát og glöð að meirihluti háskólakennara hér eru ekkert að spá í formlegan klæðnað og álíta sig almennt ekki standa skör hærra en við nemendurnir!

Engin ummæli: