17 október 2005

Allt fyrir fröken Linnet

Líney Halla systir mín hélt að ég væri einhvers staðar með leyniblogg í gangi og ákvað að klukka mig með áskorun um að vísa sér á hvar það væri að finna. Hún setti þó þann varnagla að skipa mér að stofna blogg ef ekkert leyniblogg væri fyrir hendi. Ég á ekkert leyniblogg. Reyndar hefur planið lengi verið að þegar ég færi út í buskann til frekara náms (fæ aldrei nóg...) myndi ég hefja vefskrif um það sem á daga mína drifi. Nú eru hins vegar svo margir sem ég þekki þegar farnir út um hvippinn og hvappinn þannig að kannski langar þá að fá fréttir að heiman, hver veit? Ég lofa samt engu um það hvort ég verð dugleg að skrifa eður ei og aðallega er þetta fyrir litlu systur gert því ég er svo óskaplega þæg stórasystir... Vessgú Líney!

Klukklisti með skrýtnum staðreyndum um sjálfa mig:

1. Þegar ég fæddist var ég gul, með kolsvart hár, dökkdökkbrún skásett augu og með pínulítil hnoðrahár um allan líkamann - með öðrum orðum eins og grænlenskt selabarn! En ég læknaðist af gulunni, hárið lýstist og augun urðu smám saman grænbrún þannig að pabbi og mamma fóru að trúa því að þetta væri raunverulega þeirra barn eftir allt saman...

2. Tónlist og hreyfing eru mér lífsnauðsyn. Fráhvarfseinkenni vegna skorts á þessu tvennu koma fram oft á dag þegar ég fer að hoppa, skoppa og söngla eða blístra og tromma eða hvaðeina annað sem ekki er við hæfi í lestrarsölum bókasafns VR-II og verð ég þá að taka lestrarpásu, þó ekki nema væri til að skokka út í féló... Það hjálpar mikið að vera í tónskóla, fara í sund og þrek og Stigulsbolta - og það finnst ekki bara mér heldur líka þeim sem búa með mér!

3. Á fótunum mínum vaxa hár eins og á öllu öðru kvenfólki í heiminum en ég tilheyri þeim (minni?)hluta sem nennir ekki að fjarlægja þau. Sé einfaldlega enga ástæðu til þess. Af þessum sökum fæ ég iðulega undarlegt augnatillit og pískur um lesbíur frá gelgjunum í sundi. Það finnst mér fyndið.

4. Matvönd get ég seint talist en ef nammivendni er til þá er ég nammivönd. Flest nammi finnst mér vont en ég borða samt alveg sumt nammi og fjölskyldunni minni finnst ég vera nammigrís (já, þetta finnst mörgum skrýtið!).

5. Ætli ég sé ofvirk? Að minnsta kosti fúnkera ég best ef ég er að vasast í grilljón helst ólíkum og alltof mörgum hlutum. Það er alveg magnað og mér gjörsamlega óskiljanlegt hvernig mér tekst undantekningalaust að hafa allt brjálað að gera. Guði sé lof að engum datt samt í hug að setja mig á Ritalin! Það er nefnilega mjög gaman að vera ég (finnst mér) og lyf myndu held ég bara eyðileggja allt saman.

Það er mjög erfitt að halda sig við fimm atriði. Ég er jú svo skrýtin... já, og svo sérstaklega þar sem ég forðast m.a. töluna fimm ef ég mögulega get! Læt því eitt eða tvö fljóta með til viðbótar:

6. Heima hjá mér var lengi vel ekki til neitt myndbandstæki og aldrei hefur verið mikið um sjónvarpsgláp hér á bæ. Í fyrsta skipti sem ég fór í bíó (American Tale) varð að fara með mig heim í hléi því ég var svo hrædd. Ég lifi mig alltaf alveg rosalega sterkt inn í það sem ég les en þessi innlifun hreinlega margfaldaðist í bíóinu! Jafnvel þegar ég var í Unglingavinnunni og fór að sjá Basketball Diaries með Jafningjafræðslunni varð ég að fara út þegar einhver byrjaði að skjóta á alla í skólastofu (ef ég man rétt) því mér varð svo óglatt. Síðan þá hefur reyndar mikið vatn runnið til sjávar, sérstaklega vann ég mikið upp þegar ég var með Magga, og núna kemst ég gegnum rosalegustu myndir. Best þykir mér að fara á kvikmyndahátíðir því utan þeirra virðist mér því miður oftast fátt um góða drætti í kvikmyndahúsunum.

7. Ég er hvorki skírð né fermd en fór samt í Sunnudagaskólann, KFUK og messur og starfaði lengi í kirkjukór. Pældi heilmikið í trúarbrögðum heimsins og ákvað loks að fermast borgaralega (þótt það sé engin ferming og allt það...) og sé sko aldeilis ekki eftir því. Á öllu kirkjubröltinu lærði ég samt líka alveg heilmikið - ég kann t.d. bæði kaþólska og lútherska messuformið út og inn og ógrynni af sálmum og bænum. Og ekki er ég trúlaus - alveg síðan ég var á Barnaheimilinu Ósi og fór í heimsókn á Slökkvistöðina hefur efahyggjumanneskjan ég nefnilega beðið bænir á næstum hverju kvöldi! Ástæðan er sú mig dreymdi martraðir eftir að hafa séð myndband á Slökkvistöðinni um Andrés Önd sem slökkviliðsmann og samdi því langar romsur til að biðja guð um að passa alla þá sem mér þótti vænt um. Listinn var orðinn svo langur að ég sofnaði oftast áður en hann kláraðist (og hann endaði á "öllum hinum", svona til að enginn yrði útundan). Þar sem ég er frekar vanaföst tók það nokkurn tíma að skera niður listann og breyta bænunum. Í dag eru þær allt öðru vísi og guð raunar líka, en það er önnur saga...

Ég klukka þá félaga Silly the guide, Grétar síðastalagfyrirfréttirfélaga, nafna hans Amazeen, Jóa (Stiguls)útherja, Hlyn þrekstrák og Huga í Ásabyggð en þar sem þeir eru ekki með blogg eiga þeir bara að segja mér skondnar staðreyndir um sjálfa sig næst þegar ég hitti þá.

Engin ummæli: