06 september 2008

Inn og út um gluggann...

Eitt er það sem mér virðist vanta gjörsamlega í þýska þjóðarsál og það er "þetta reddast"-hugsunarhátturinn. Það er aldrei bara byrjað á verki sviphendingu eftir að hugmynd fæðist heldur þarf að rökræða fyrst, finna og krifja til mergjar öll möguleg vandamál (og ómöguleg) sem upp gætu komið. Að þessu loknu eru allir orðnir verulega svartsýnir á að hægt sé að hrinda hugmyndinni í framkvæmd yfir höfuð.

Í byrjun apríl...

Þó er eitt jákvætt sem fylgir þessu og það er að komist framkvæmdin gegn um svartsýnismúrana þá er hún vel skipulögð. Eða svo taldi ég a.m.k. lengi vel. Nú hef ég hins vegar haft fyrir augum og eyrum mikla framkvæmd hérna í götunni minni síðan í byrjun apríl og ég hef sjaldan séð jafnfurðulegt skipulag. Þetta verður þó að taka með þeim fyrirvara að ég hef ekki hundsvit á gatnaframkvæmdum.

...var önnur hliðin tekin fyrir

Byrjað var á að fræsa upp helming götunnar langsum. Svo var grafið, skipt um einhver rör og brotnir upp sprotar út frá götunni til að komast að aðlögnum að húsinu. Gott og blessað. En þetta átti eftir að endurtaka sig. Næst var fyllt upp og hinn helmingurinn fræstur burt. Grafið meira og sprotarnir sem höfðu verið fylltir upp opnaðir á ný til að komast að einhverjum öðrum aðlögnum sem setið höfðu þægar og góðar við hlið hinna aðlagnanna allan tímann. Nú var fyllt upp að nýju en þá er ekki öll sagan sögð.

Um miðjan júní var ráðist til atlögu við aðlögn undir glugganum mínum

Nei, því síðan var öll gatan grafin upp aftur, sprotarnir sömuleiðis, þriðja lögnin tekin fyrir og fyllt upp í allt saman. Síðan var hafist handa við að grafa enn á ný, nú nokkru grynnra en áður og mér sýnist sem þeir séu að undirbúa endanlegan frágang núna með jarðvegsneti, malaríburði og steypustútum til að komast að lögnunum síðar meir.

Þessi aðlögn hefur í allt verið grafin upp og fyllt þrisvar sinnum

Nú spyr sú sem ekki veit: hefði ekki verið einfaldara að grafa allt upp og hafa það opið meðan rörin voru tekin fyrir hvert á fætur öðru? Tjalda jafnvel yfir herlegheitin á meðan? Ég er búin að vakna við högghamra, skrölt í beltagröfum og ræsingu rafstöðva hvern einasta morgun nema sunnudagsmorgna síðan í byrjun apríl. Þessu á síðan ekki að linna fyrr en í lok október samkvæmt tilkynningunni sem hangið hefur upp á vegg síðan um miðjan apríl.

Svona leit gatan út í lok júní...

Gatan er eins og ég ímynda mér að þær hafi verið á miðöldum í bæjum sem ekki höfðu efni á að leggja steina í götuna - eitt drullusvað - og stundum ekki hægt að komast upp að húsunum nema um krókaleiðir gegnum runna eða út frá kjallaranum. Á tímabili þurftum við að ganga alla götuna á enda og svo aftur til baka til að komast á bókasafnið sem er í beinni loftlínu út frá húsinu. Það var nefnilega bara byggð ein brú yfir skurðina og hún er við hliðina á stað þar sem vel er hægt að ganga yfir án brúar.

...og ástandið breyttist ekki mikið fram í ágúst

Drullan berst svo inn um glugga jafnt sem dyr og eins og það sé ekki nóg þá hefur líka tíðum gerst að eitt eftirtaldra detti út part úr degi og allt upp í yfir heila helgi: rafmagn, kalt vatn, heitt vatn, vatn yfirhöfuð, tenging við umheiminn.

Eitthvað grunar mig að á Íslandi væri fólk ekki alveg sátt við svona vinnubrögð!

Ekkert vatn í byrjun september

En nú í gær heyrði ég skýringu á þessu. Nokkrir partýdrengjanna hér á neðstu hæðinni stóðu saman í hnapp við að skeggræða daginn og veginn. Talið barst að framkvæmdum: Í Þýskalandi fengi einn maður starfið, ynni það afar óskilvirkt og fengi laun á við tuttugu Pólverja í Póllandi. Í Póllandi fengju tuttugu menn starfið, ynnu það sæmilega skilvirklega og fengju allir samanlagt laun á við einn Þjóðverja í Þýskalandi. Svo fór ég inn og las það í speglinum að hið sama gilti um bakaralærlinga og iðnaðarmenn yfir höfuð. Þar höfum við það.

Engin ummæli: