13 september 2008

Hreint og beint

Í byrjun júní fékk vinkona mín svefnpokann minn lánaðan til að fara í helgarútilegu. Júní var ákaflega annasamur hjá mér og eftir mikla vinnutörn lagðist ég í bólið með flensu svo ég var ekkert að reka á eftir svefnpokanum. Í byrjun ágúst var ég síðan á göngu um Saxelfursandsteinsfjallgarðana Tékklandsmegin þegar gall í Friðþjófi farsíma.

H: Hæ Bea, hvað segir þú gott?

B: Nei sæl og blessuð, bara allt fínt! En þú? Langt síðan ég hef heyrt í þér!

H: Já bara mjög fínt líka. Ég var að klára prófin.

B: Nú, til hamingju með það!

H: Takk! Heyrðu ég var að spá hérna með svefnpokann þinn...

B: ...já?

H: Ég er ennþá með hann.

B: Einmitt.

H: Hérna, ertu heima núna?

B: Nei, veistu ég er barasta stödd í Tékklandi. Við erum í dagsgönguferð hérna nokkur í hóp.

H: Jaaaá.

B: Þú getur kannski bara komið við á morgun?

H: Tjah. Ég nefnilega fer til Ítalíu í kvöld í sumarfrí.

B: Nú, vá en fínt!

H: Já.

B: En heyrðu...

H: Já?

B: Þarftu ekki á svefnpokanum að halda á Ítalíu?

H: Jah... já, jú, þú segir nokkuð!

B: Viltu ekki bara taka hann með og skila honum seinna?

H: Já, ok. Þarft þú ekkert á honum að halda?

B: Nei, blessuð vertu. Ég er bara að skrifa ritgerð þessa dagana. Ekkert annað á dagskrá hjá mér næstu mánuði.

H: Það væri náttúrulega frábært! Takk kærlega!

B: Ekkert mál! Hafðu það bara gott í fríinu!

H: Þakka þér fyrir! Góða skemmtun á gönguferðinni! Og gangi þér vel að skrifa! Við sjáumst þá í haust!

B: Já, gerum það. Blessbless.

H: Bless.

Eitthvað segir mér að ef ég væri strákur þá hefði ég sagt henni að skilja svefnpokann bara eftir hjá nágrannanum. Alla vega hefði enginn strákanna sem var með á göngunni fattað að hún var í raun að hringja til að athuga hvort það væri í lagi að taka svefnpokann með til Ítalíu. Þeir bara göptu og spurðu af hverju hún hefði þá ekki sagt það í byrjun.

Ég fékk svo svefnpokann í gær.

En þetta er svona eins og með "Heyrðu, það þarf að fara út með ruslið" sem þýðir skv. orðabókinni "Kona - mannamál, Mannamál - kona" að daman vilji að herrann fari út með ruslið. Af hverju segir hún þá ekki bara "Geturðu farið út með ruslið?"?! Æji ég veit það ekki. Ég finn alla vega að það virkar miklu betur að segja hlutina hreint út. Svo er það kannski bara kúnstin að vita hvenær það er við hæfi og hvenær ekki? Sumt fólk er svo viðkvæmt... að ekki sé minnst á mun á menningarheimum og hefðum landa. Gaman að þessu.

Engin ummæli: