16 nóvember 2008

Stiklur

Þessi helgi er sú fyrsta án nokkurs háskólatengds síðan í júlí þegar ég fór heim til Íslands. Eiginlega renna dagarnir og mánuðirnir - sérstaklega september og október - bara saman í eina samtóna runu í huganum. Runu fulla af vísindagreinum, stöðugri baráttu og á stundum örvæntingu. Mér er sagt að það sé bara ekkert svo óalgengt að leiðbeinendur meistara- eða diplómuverkefnis bregðist jafngjörsamlega og í mínu verkefni. Það þykir mér alveg ömurlegt. Ímyndið ykkur bara hvað það gætu orðið til mörg góð verkefni ef leiðsögnin væri góð!


Í stuttu máli þá hef ég hitt prófessorinn minn þrisvar sinnum þessa átta mánuði til þess að ræða um verkefnið. Oftast hafði hún eiginlega engan tíma, aldrei var hún búin að kynna sér fræðin sem að baki liggja að neinu ráði og alltaf var hún samt með fullt af hugmyndum sem ég gæti útfært í verkefninu. Þegar ég svo lagðist yfir hugmyndirnar kom oftast í ljós að þær voru mjög óraunhæfar - til að mynda var ein hugmyndin þannig að þrír stórir hópar vísindamanna í Ástralíu, Rússlandi og Bandaríkjunum hafa glímt við sama verkefni í sjö ár án þess að fá almennilega niðurstöðu. Svo átti ég bara að galdra þetta fram í sex mánaða diplómuverkefni? Góðan daginn!


Hinn prófessorinn hitti ég aldrei vegna verkefnisins. Hann var nánast aldrei viðlátinn og þegar við hittumst var það oftast vegna ráðstefnunnar um stærðfræði í jarðvísindum sem haldin var í sumar og ég átti stóran þátt í að skipuleggja. Um doktorsnemann hef ég áður skrifað hér. Hann hefur ekki hundsvit á fræðunum að baki verkefninu en þykist samt vita allt og tókst að sannfæra mig um að svo væri í það langan tíma að ég lenti í mikilli tímaþröng í lokin við að leiðrétta alla vitleysuna og fara inn á aðrar brautir en hann leiddi mig.


Síðustu vikurnar voru algjört helvíti - afsakið orðbragðið. Ég svaf varla meir en 4-5 tíma á nóttu og það var þá hálfgert mók þar sem ekkert komst annað að en verkefnið. Svo vann ég frá sjö til miðnættis uppi í Steigerhaus við námuna Reiche Zeche eða hér heima allt eftir því hvort ég þurfti að nota greiningarforritin sem bara eru í boði í Steigerhaus eður ei. Hvorki hugur né líkami heldur svoleiðis maraþon út en Líney Halla og fleiri sáu um að koma mér á lappir aftur þegar ég lá bara og grét og gat ekki meir. Nágranni minn gaf mér líka teblöndu sem hjálpaði við að sofa 6-7 tíma á nóttu síðustu vikuna fyrir skil.


Ég er alveg óendanlega þakklát öllum þeim sem sendu mér kveðju eða póstkort eða hugsuðu til mín meðan á þessu stóð. Það er alveg ómetanlegt. Auðvitað var líka ekki alveg allt ómögulegt allan tímann. Haustið var fallegt í Freiberg, vinir mínir litu alltaf öðru hvoru við og tvisvar fór ég á tónleika - Borko og Seabear í Dresden og Emilíönu Torrini í Hamborg. Í byrjun var erfitt að hætta öllu félagastússi og svara ekki öllum tölvupóstum um hæl eins og ég er vön en það venst allt. Núna get ég líka hellt mér út í það að nýju, það virkar svona eins og gulrót (hvatning).


Strákur sem er að læra með mér landupplýsingafræði og Líney Halla hjálpuðu mér mikið með því að lesa yfir uppköst að ritgerðinni því að ekki bar neitt á slíku frá leiðbeinendunum sama hvað ég sendi þeim. Rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið fékk ég loksins sendar leiðréttingar frá prófessornum og ritgerðin þurfti að fara í prentun daginn eftir. Það var því löng nótt og ég setti síðasta punktinn klukkan 11 daginn eftir. Fjölritunarstofan lokar klukkan 12 á mánudögum svo ég rétt náði að borða eitthvað til að geta staðið í lappirnar og mætt þangað fyrir lokun.


Ég var svo þreytt og utan við mig að það er ekki annað hægt en hlæja að því. Fór til að mynda í bolinn ranghverfan með miðann fram, gekk á hurðir og hjólaði næstum því á tré. Svo svaf ég í 13 tíma. Þurfti að vakna snemma á þriðjudaginn því að þann dag og miðvikudag var loksins komið að því að klára námskeið í þrívíðum jarðlíkönum sem ég tók í fyrravetur. Alltaf átti að koma gestafyrirlesari frá Frakklandi til að binda endahnút á kúrsinn en hann forfallaðist í febrúar, apríl, júlí og september og kom loks í þessari viku. Nú þarf ég bara að klára skýrslu um gerð viðbóta og betrumbóta fyrir gOcad og halda fyrirlestur um efni ritgerðarinnar minnar og þá fæ ég loksins síðasta plaggið sem þarf til að klára diplómunámið.


Pollýannan ég reyndi að hugsa um að ég hefði það í raun ekki svo slæmt. Svona miðað við allt og allt. Núna er samt þungu fargi af mér létt og þreytan hellist yfir. Ég hlakka mikið til að koma heim til Íslands. Hef bara fylgst með hruni spilaborgarinnar úr fjarlægð og rætt málin við félaga mína hér - sem er reyndar ágætt, þá hefur maður aðra sýn á hlutina. Kannski verða það einmitt íslenskir námsmenn erlendis eða almennt Íslendingar sem eru eða verið hafa erlendis sem koma til með að hjálpa hvað mest við enduruppreist landsins? Þannig var það í það minnsta í sjálfstæðisbaráttunni og mér virðist spillingin vera það mikil (allir flæktir í netin) að verulega sé þörf á fólki sem sér málin í víðara samhengi og er ekki tengt neinum beint persónulega.

Engin ummæli: