06 september 2008

Alveg róleg!

Stórritgerðarskrif eru ekki alveg mínar ær og kýr - eða tebolli eins og Englendingar segja. Af hverju ætli þeir tali annars um tebolla meðan við tölum um búpeninginn? Höfðu þeir ekkert betra að gera en þamba te? Kannski er þetta komið frá aðlinum. Jæja en þetta var smá útúrdúr. Ég er sumsé alveg að verða geðveik við skriftir lokaritgerðarinnar. Mikið skil ég vel að pabbi hafi bara sleppt þessu og farið að vinna eftir B.Sc. próf. Mamma lauk doktorsritgerð og Líney Halla á örugglega eftir að gera það líka en það þyrfti þá að vera eitthvert allt annað fag en stærðfræði ef ég ætti að skrifa slíka fræðasmíð.

Nú í vikunni var ég búin að setja mér það markmið að klára fyrsta uppkast að kaflanum um vægisóbreytufræðin fyrir föstudaginn. Svo sat ég bara og fann hvernig áhyggjuhrukkurnar dýpkuðu á enninu og komst ekki spönn frá rassi. Las bloggsíður og fréttasíður af meiri elju en nokkru sinni. Þangað til ég rakst á predikanir með minningarorðum um Sigurbjörn Einarsson biskup. Hann var mikill merkismaður. Ræðurnar fjölluðu m.a. um að taka bæri fyrir hvern dag í einu, ekki láta áhyggjur lama sig heldur vinna jafnt og þétt og gera sitt besta. Þetta var ágætishugvekja og ég komst aðeins á skrið.

Á þriðjudagskvöldið ætluðum við Maria að elda saman graskerssúpu. Það dróst svo fram á miðvikudagskvöld og David bættist í kokkahópinn. Ég hafði ekki séð David í lengri tíma og þegar talið barst að diplómuskrifunum sagði ég eitthvað á þá leið að ég þyrfti að hætta að hafa áhyggjur og hella mér í vinnu. Hann glotti út í annað og sagði að það væri nú nákvæmlega það sama og ég hefði sagt fyrr í sumar! Svona er nú fljótt að fyrnast yfir lífsspekina í höfðinu á manni.

Þetta varð annars hið ágætasta kvöld. Það hófst á því að Maria hellti yfir okkur svolítilli súpu (bruninn er alveg að hverfa, þökk sé aloe vera og undrasmyrslinu að norðan) en þó var svo mikið eftir í pottinum þegar við þrjú vorum orðin södd að við kölluðum Florian til liðs við okkur undir lokin. Við ræddum alla heima og geima og drukkum te í lítravís. Mestur hluti þess var svart te en í lokin var skipt yfir í engifer/sítrónute. Eitthvað er ég nú lítill koffíngrís því eftir þetta sofnaði ég ekki fyrr en klukkan að verða sex morguninn eftir! Fimmtudagurinn varð því heldur ólánlegur og ég hugsa að ég klári bara kaflann í dag - náði ekki að klára í gærkvöldi.

Nú er ég samt heldur rólegri yfir þessu öllu en áður. Búin að útbúa grænan bakgrunn á fartölvuskjáinn með skærgrænum stöfum sem segja mér vinalega á ensku að vera róleg - don't panic! Svona eins og í ferðahandbók puttalingsins um alheiminn. Ég má samt ekki verða of róleg því skiladagur nálgast óðum og mig langar ekki hætis hót að framlengja hann enda búin að vinna að þessu verkefni í meira en hálft ár án mikils stuðnings (það kom í ljós að hér hefur fólk upp til hópa ekkert vit á verkefninu mínu - leiðbeinendur mínir jafnvel síst af öllum) og komin í þann gírinn að bara rumpa þessu af sama hver einkunnin verður (sem þó vissulega er frekar leiðinlegt og letjandi).

Fari svo að ég bloggi ekki oft núna á lokasprettinum þá skelli ég hérna inn grófri áætlun:

September:
Fara yfir IDL kóðana mína og ljúka tilraunum, safna saman gömlum sem nýjum niðurstöðum og túlka þær.

Október:
Klára forritunarstarfið og ljúka skrifum undir lok mánaðarins.

Nóvember:
Fá uppkast leiðrétt og skila því svo endanlega í prentun fyrir 13. nóvember, fara að því loknu til Noregs til að heimsækja Christinu í Þrándheimi og Vöku í Harstad.

Desember:
Halda fyrirlestur og verja ritgerðina með kjafti og klóm. Berjast við allra handa nauðsynlega pappíra, halda kveðjuteiti, mála, þrífa og skila herberginu mínu hér á stúdentagörðunum. Koma svo heim rétt fyrir jólin og slappa af í faðmi fjölskyldunnar.

Plönin fyrir nýja árið eru síðan eitthvað á þá leið að ferðast um og heimsækja vini beggja vegna Atlantsála fram á vor en ráðast því næst í sumarvinnu, leit að íverustað og sækja um nám í kennsluréttindum. Mig langar nefnilega að verða framhaldsskólakennari. Jammogjá þannig var nú það. Svo er bara að leggjast á árar til að ljúka ritgerðar... *hóst* já, ritgerðinni heil á geði!

Engin ummæli: