22 nóvember 2008

Hvítt

Það er allt hvítt. Hvítt, hvítt, hvítt. Á leiðinni heim af alþjóðahátíð Freibergbæjar nú fyrr í kvöld varð ég samferða tveim rússneskum vinum mínum, þeim Sergej og Kötku. Við fórum í snjóstríð og hoppskoppuðum af gleði yfir snjónum. Svo fór gamanið aðeins að kárna undir lokin þegar snjóstormurinn var orðinn svo svakalegur að það var erfitt að anda, við sáum ekki handa okkar skil og öll ummerki um göngustíginn sem liggur að stúdentagörðunum voru horfin! Heim komumst við þó eftir smá sikksakk. Núna er vindinn aðeins að lægja.

Eldhúsborðið heima hjá Deliu

Hátíðin var litrík og skemmtileg. Dans, söngur, hljóðfæraleikur og góður matur frá öllum heimshornum. Vísur Vatnsenda-Rósu voru mitt framlag. Kannski hefði Þorraþrællinn passað betur? Nema það er auðvitað ekki nærri kominn Þorri.

Antje hnoðar deig og segir frá úrvinnslu jarðskjálftamæligagna

Þessa viku hef ég náð upp svefni og legið svolítið í leti. Eða svona. Eins langt og það nær. Hef alla vega verið rólegri en venjulega. Á sunnudaginn fyrir viku hitti ég jarðfræðistelpurnar Deliu, Anne, Jule og Antje til að baka jólasmákökur. Mestmegnið af þeim sendum við svo til Colorado til Daniels vinar míns og kærasta Deliu. Hann verður úti um jólin svo við vonum að tollurinn hleypi heimabökuðum smákökum í gegn. Létum þær í danskt sprautukökubox og límdum fyrir alveg eins og þetta væru verksmiðjuframleiddar kökur.

Þegar hér var komið sögu voru kanilstjörnur búnar að leggja undir sig ganginn

Eftir baksturinn hjólaði ég svo með Mariu heim til Davids. Hann á heima uppi á einni hæðinni og er með arin inni hjá sér. Algjör snilld! Við bökuðum hvítmygluost og notuðum brauð til að veiða upp bráðinn ostinn. Síðan fylltum við epli af kanil, sykri, rúsínum og möndlum og bökuðum þau á arninum. Ég næstum sofnaði framan við arininn - ekkert smá notalegt liggja á gólfinu framan við snarkandi eld.

Delia hnoðar deig í skákborðskökur

Á mánudaginn skrapp ég svo til Dresden til að hitta Guðnýju. Hún var að klára diplómu í eðlisfræði við Humboldt háskólann í Berlín og var með álíka ónýta leiðbeinendur og ég. Sama hver ástæðan fyrir því er nú... Við töluðum samfleytt í fjóra tíma! Ótrúlega gott að spjalla á íslensku um verkefnin okkar og hvað nú tekur við. Svo heimsótti ég Pit í lokin. Fer aftur til Dresden á morgun og þá ætlum við Pit að fá okkur ís í snjónum og æfa meiri íslensku. Annars er Yoann á leið til Íslands á mánudaginn og ætlar að taka fyrir mig nokkrar bækur heim svo það er meginástæðan fyrir Dresdenförinni. Við ætlum að borða saman hádegismat og vega og meta hvort hann eigi frekar að taka með sér línuskauta eða venjulega skauta til Reykjavíkur.

Við Jule í herbergi Deliu

Kannski var bara ágætt að ég gleymdi að afpanta BahnCard25 lestarkortið fyrir þetta ár. Það framlengist alltaf af sjálfu sér og ég sem hélt að ég þyrfti það ekkert fyrir þetta ár er nú með svo margar Dresdenferðir planaðar að það gæti alveg borgað sig. Svona þegar ferðin til Berlínar til að ná fluginu heim bætist við. Í næstu viku er DAAD styrkþegarfundur í Dresden og skyldumæting þangað. Svo ætlum við Florian - strákurinn sem fór yfir ritgerðina mína þegar leiðbeinendurnir brugðust - að skella okkur á fílharmóníutónleika í Semperóperunni á sunnudaginn eftir viku og fara í framhaldinu á sýningu í Deutsches Hygiene Museum sem hefur hamingjuna að umfjöllunarefni. Það verður spennandi að sjá! Ég hef aldrei farið á fílharmóníutónleika. Skömm frá því að segja eftir að hafa búið hér svona langan tíma!

Anne heldur betur húsmóðurleg við að mauka epli í pott

Þarf líka að gera skurk í því að skoða öll fínu söfnin í Dresden. Þar eru alveg ótrúlegustu gersemar geymdar. Flestir ítölsku meistaranna komu til að mynda til Dresdenborgar til að nema eða starfa við listaakademíuna þar og því er ófá frægra verka þar að sjá. Jammogjá. En fyrst er jú að undirbúa og halda fyrirlestur um diplómuverkefnið mitt. Loks búið að finna tíma sem hentar öllum þann 3. desember og það er því ekkert svo langt þangað til - jibbíjeij!

Kalle og Harriet úr Hellsongs í Bärenzwinger

Maria kláraði síðasta stóra diplómuprófið sitt núna á þriðjudaginn. Við fórum með David, Karsten og fleirum á tónleika með sænsku sveitinni hellsongs til að fagna þessum áfanga. Látið ekki nafnið hrella ykkur heldur prófið að hlusta. Mæli með þeim - þau hafa mjög mikla útgeislun á sviði, fá salinn til að vinna með sér og skapa virkilega góða stemmningu. Ég hef líka aldrei tekið almennilega eftir því hve textar sveita á borð við Iron Maiden eru góðir. Ekki fyrr en ég fór að hlusta á hellsongs. Magnað.

Engin ummæli: