01 ágúst 2011

Brúðkaup í Poznań


Aðaljárnbrautarstöðin í Poznań

Í lok maí var brúðkaupsgleði Martynu og Tomeks haldin í Poznań. Við Judyta og Viki lögðum upp eldsnemma á laugardagsmorgni frá Varsjá, Freiberg og Berlín með rútum og lestum vopnaðar regnhlífum. Spáð hafði verið roki og rigningu en síðan hlýtur eitthvað að hafa breyst því veðrið lék við okkur allan daginn með sól og sumaryl.


Brúðhjónin verðandi ganga inn kirkjugólfið

Pólskar brúðkaupshefðir eru alveg sérkapítuli og Judyta skýrði þær út fyrir okkur Viki jafnóðum. Til dæmis kastar brúðurin brúðarslörinu fyrir ólofaðar stúlkur í boðinu og brúðguminn kastar slifsi sínu fyrir ólofaða pilta í boðinu og var mikill handagangur í öskjunni, hlaup skrækir og læti. Úr verður síðan dans þeirra tveggja sem grípa og hinir dansa í hring um þau.


Einn af fjölmörgum pólskum brúðkaupssiðum: glösum kastað aftur fyrir bak

Yfir höfuð var mikið dansað og auðvitað etið og drukkið inn á milli. Stemmningin minnti mig stundum svolítið á ættarmót því ungir og aldnir skemmtu sér allir af lífi og sál í einni kös. Sumir gengu þó dulítið of hart fram í drykkjunni og þurfti að bera fyrsta gestinn upp í rúm um miðnættið en þeir sem lengst héldu út dönsuðu til fimm um nóttina og mættu svo gallharðir í morgunmatinn klukkan níu daginn eftir.


Markaðstorgið við ráðhúsið

Að loknum morgunverði héldu svo allir glaðir og sælir til síns heima og við Judyta spásseruðum um miðbæ Poznań fram eftir sunnudegi þar til hún þurfti að fara í lestina til Varsjár og ég að finna mér far til Berlínar.


Úkraínsk þjóðlagatónlist á markaðnum

Engin ummæli: