Cindy búin að pakka í bílinn
Um páskana héldum við Cindy, fyrrum nágranni af stúdentagörðunum í Winklerstrasse, í ferðalag til Krakár til að heimsækja annan gamlan nágranna, hana Judytu. Ferðafélagar okkar frá Dresden til Krakár voru þýskur strákur og pólsk stelpa sem áttu það sameiginlegt að hafa ferðast til Venesúela og búið þar. Við fengum því að heyra skemmtilegar ferðasögur alla leiðina. Ekki amalegt það!Judyta leiðsagði okkur um háskólasvæðið
Við byrjuðum á að sækja Judytu í vinnuna. Þetta var síðasti dagurinn hennar þar því Judyta hafði sagt upp fyrr um daginn og var á leið til Varsjár til að takast á við ný ævintýri í svissnesku rörafyrirtæki. Vinkona hennar úr vinnunni kom með okkur í ferð um háskólasvæðið og labbitúr um miðbæinn í kvöldsólinni.Af páskamarkaðnum
Sú þurfti síðan að taka lest heim til sín og eftir að hafa skilað henni á lestarstöðina héldum við til Rudnik, þorpsins hennar Judytu, þar sem foreldrar hennar, Józef og Wanda, tóku á móti okkur. Pólsk gestrisni er alveg einstök og okkur leið heldur betur vel þarna í sveitinni.Glaðar í bragði
Okkur langaði að taka þátt í páskahefðum Judytu og mættum því galvaskar morguninn eftir með páskakörfu fjölskyldunnar fyrir utan þorpskirkjuna. Þar var gríðarstór hópur saman kominn. Hvort ef ekki bara allt þorpið var mætt til að fá dulitla skvettu af heilögu vatni á páskamáltíðina! Sumir geymdu síðan körfuna sína í anddyri kirkjunnar fram á sunnudagsmorgun en þar sem plássið var lítið tóku flestir körfurnar með sér heim.Páskakarfan böðuð helgu vatni
Nú tók við ferðamannadagurinn mikli í Kraká. Við fórum aftur á markaðstorgið sem við höfðum skoðað daginn áður og nú niður í kjallara þess á skemmtilegt sögusafn. Þar voru alls konar töfrum líkar tæknibrellur og sumar náðust á mynd en aðrar ekki, eins og gengur. Eftir það lá leiðin upp á Wawel og upp með ánni Wisła inn í gamla Gyðingahverfið. Þar er sagan á hverju götuhorni, misátakanleg eins og gengur.Eitthvað ægilega fínt í safninu sem erfitt var að ná á mynd
Í miðbæ Krakár eru óskaplega margar kirkjur. Lá við að ef ekki væri kirkja á horni götu þá væri þar sínagóga. Þar sem það voru páskar voru messur stanslaust frá morgni til kvölds og allar kirkjur fullar af fólki, jafnvel raðir út á götu. Við heimsóttum þó ekki bara kirkjur heldur litum líka inn á mörg skemmtileg kaffihús og veitingastaði sem léku hver eftir sínu stefi: fullt af klukkum, gamalt pólskt stórheimili, hesthús, alls konar stólar, ævintýri o.s.frv. og prófuðum Krakár-kringlur og grilluð Krakár-langbrauð.Það var bleikt þema þennan dag - við með grilluð Krakár-langbrauð
Á páskadag vöknuðum við fyrir allar aldir til að fara til messu en vorum samt með þeim síðustu að mæta og stóðum því einhvers staðar á ganginum í yfirfullri kirkjunni. Að messu lokinni tók hver sína körfu og hélt heim á leið til að borða páskamorgunmatinn. Páskaegg úr súkkulaði voru hvergi sjáanleg en hins vegar voru alls konar eggjaréttir á borðum: egg soðin með lauk (til að gera þau brún), egg úr smáhænum (lítil eftir því), stöppuð egg með piparrót og svo mætti lengi telja. Einnig var ýmiss konar matur í formi guðslambsins á boðstólum: pylsa, brauð, reykostur og kjúklingaskinka - allt formað eins og postulínslamb! Pólskur matur er mjög góður og við átum á okkur gat.Hluti af páskamorgunverðarhlaðborðinu hjá systur Judytu
Þar sem heldur rigningarlegt var um að litast í dalnum héldum við suður á bóginn í átt að Tatrafjöllum. Þar sáum við sjövítt kvikmyndahús (?!) og skíðastökkpallinn í Zakopane, skrifuðum póstkort til Viki, ungverska nágranna okkar úr Winklerstrasse, og virtum fyrir okkur fjalladýrðina. Tindarnir voru þó ekki árennilegir þennan daginn og því létum við stutta göngu við fjallsræturnar duga.Frá skíðabænum í Zarkopane
Á heimleiðinni skoðuðum við gamla timburkapellu, drukkum te og ornuðum okkur við arineld í litlum fjallakofa. Um kvöldið áttum við síðan notalega kvöldstund með bróður Judytu og fjölskyldu hans, skeggræddum störf í ýmsum löndum og fræddumst um gæði pólsks vodka. Það voru þreyttir ferðalangar sem lögðu af stað til Dresden morguninn eftir. Við vorum gerðar út með nesti sem dugði okkur og spænsku Erasmus-nemunum sem fengu far hjá okkur til Dresden og meira til!Póstkort sent af stað til Vikiar
Fleiri myndir er að finna hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli