17 júní 2009

Princeton, Philadelphia og Íþaka

Í mars og byrjun apríl fór ég í heimsókn til nokkurra vina minna í Bandaríkjunum og frændfólks míns í Kanada. Ferðin var eiginlega alveg ólýsanleg og svo viðburðarík að ég hef hvað eftir annað gefist upp á að skrifa ferðapistil en núna ætla ég að byrja aftur og sleppa þá bara hinu og þessu úr af handahófi eða eftir því hvert myndirnar leiða mig.

Ferðin vestur um haf hófst á því að ég rétt náði flugrútunni á BSÍ með lítinn farangur (merkilegt hvað maður þarf í raun lítið af dóti á löngu ferðalagi), bunka af bókum og tuttugu (misstór) páskaegg. Flugið gekk vel, sætisskjárinn minn var að vísu eitthvað bilaður en ég hafði í nógu að snúast við lestur, handapat og frönskutilraunir til að aðstoða franska sessunauta mína við útfyllingu eyðublaða og svo hitti ég fyrsta X-arann, hann Össa, af tilviljun í vegabréfabiðröðinni á Kennedy-flugvelli.

Íslenskar sauðkindur

Út um allt í New York borg var hjálpfúst starfsfólk til að aðstoða við lestarmiðakaup og leiðbeina ferðalöngum. Valla tók líka á móti mér á Penn lestarstöðinni þannig að allt gekk eins og í sögu. Við hoppuðum beint upp í næstu lest til Princeton þar sem Geir og kisan Snælda biðu okkar í eins konar sumarhúsabyggð utan við bæinn. Þar eiga þau Valla heima ásamt brjáluðu latastrákssófasetti innan um ógrynni af bókum, sjónvarp sem vegur kringum tonn, alls konar sniðugt eldhúsdót og fleira sem sprengir skápa. Við kisa urðum fljótt ágætisvinir og hún malaði ofan á sænginni þegar ég fór að sofa. Í stuttu máli sagt virkilega notalegt!

Listaverk á almenningsbókasafninu í Princeton

Princeton er mjög vinalegur lítill bær með fallegu háskólasvæði og ég hreinlega verð að ferðast til Oxford og Cambridge einhvern daginn til að sjá fyrirmyndirnar að því. Eiginlega gat ferðin til Bandaríkjanna þar sem flest er svo stórt og yfirþyrmandi ekki byrjað betur og rólegar en einmitt þarna. Við tókum Princeton-háskólastrætó inn í bæinn, skoðuðum okkur um á háskólasvæðinu og í aðalgötunni og heimsóttum bæði bókasafnið og pósthúsið. Á pósthúsinu gaf póstmaðurinn okkur sleikipinna, stimplaði pakka með fyndnum upphrópunum og gaf góð ráð um hverju við mættum nú ekki missa af í nágrenninu. Ekkert smá almennilegur!

Sko fínu rafeindirnar kringum tréð!

Vorhléið var að byrja svo að nemendur í grunnnámi, sem jafnframt eru margir hverjir íbúar Harry Potter kastalanna á svæðinu, voru fæstir heima og því rólegt líf í bænum. Einhvern veginn get ég heldur ekki ímyndað mér neinn æsing þarna, hafði það á tilfinningunni að fólk væri almennt bara frekar hugsi og rólegt. Ekki samt svo að skilja að fólk hafi ekkert að gera þarna, mér virtist t.d. námsálagið vera alveg feikinóg hjá Jomma og Geir, og hreinlega jaðra við að vera of mikið.


Vegglistaverk við South Street

Valla er við nám í Philly og þangað skutumst við tvo daga í röð til að skoða okkur um. Það er sko litrík borg! Veðrið var heldur grátt en vegglistaverk og skúlptúrar út um alla borg bættu úr því svo um munaði. Fyrri daginn týndum við okkur í sölum gríðarstórs listasafns og þar þýðir sko ekkert að skoða allt. Við völdum okkur sali með musterum og list Austurlanda annars vegar og vestrænni myndlist frá 20. öld hins vegar, sáum sitthvað á leiðinni þangað og enduðum svo í listasafnsbúðinni. Það er góður skammtur. Fyrir utan safnið borðuðum við nesti í eins konar víkingaskála með útsýni yfir Delaware ána og héldum svo yfir á hinn bakkann gegnum hverfi með skýjakljúfum og inn í litagleðina í South Street. Mér var síðan að sjálfsögðu ekki hleypt burt úr borginni án þess að prófa Philly Cheese Steak, langloku með nautakjöti, lauk og osti.

Fínir gripir unnir úr drasli af ruslahaugunum

Daginn eftir borðuðum við pönnukökur í morgunmat á Reading Terminal Market, hittum Jaidev samstarfsfélaga hennar Völlu á rannsóknarsjúkrahúsinu og skoðuðum bæði stórundarlegt hús Frímúrara sem og háskólasvæðin við Drexel og Penn. Frímúrarahúsið er sá mesti grautur af byggingarstílum sem ég hef séð og synd að myndirnar sem ég tók þar inni komu allt of óskýrt út. Á heimleiðinni komum við við í risaverslanamiðstöð til að smakka ostakökur frá Cheese Cake Factory (slúrp!) og náðum svo í Ragnheiði Helgu á lestarstöðina. Stefnan var nefnilega tekin á helgarferðalag til Íþöku daginn eftir.

Ragna og Geir eru áhugasamir nemendur

Valla komin í prjónagírinn

Það urðu nú heldur betur fagnaðarfundir með Stebba og okkur í Íþöku. Við komumst að sjálfsögðu strax í góðan X-arafíling sem hélst út helgina og lengur en það. Eyvindur (stærðfræðifélagi minn og úr næstu kynslóð X-ara eftir okkur) bættist fljótlega í hópinn og þeir tveir lóðsuðu okkur niður í miðbæ á tælenskan matsölustað til að seðja sárasta hungrið áður en haldið var í afmælisteiti sem Leifur hélt til heiðurs Mána. Þar hittum við svo Matta, Baldur og Lindu og fólk frá alls konar löndum (Nýja-Sjálandi, Indlandi, ...) og skemmtum okkur hið besta við harmonikkuspil, jútjúb-karókí, hopp og hí.

Í hópi Íslendinga í Íþöku: Matti, Eyvindur Ari, Stebbi, Ragna, Valla, Máni, Leifur og ég

Dagurinn var síður en svo tekinn snemma daginn eftir en nýttist samt gríðarlega vel. Við byrjuðum á morgdegisverði (brunch) á diner, röltum síðan um ísi lögð gil og klifum brattar brekkur inn á háskólasvæðið, fórum í bíó og hlógum svo mikið að allir hinir í bíóinu hlógu líka (mögulega án þess að skilja brandarann samt...) og hlátrasköllin héldu áfram allt kvöldið og á kráarrölti fram á nótt svo að við fengum strengi í brosvöðvana.

Á rölti í gilinu sem sker háskólasvæðið


Dow Jones drekinn í Cornell háskóla

Máni og Leifur voru á leið til Puerto Rico þannig að við ákváðum að taka þá með til Princeton á sunnudeginum, skoðuðum sveitirnar á leiðinni og sýndum þeim svo háskólabæinn fína áður en þeir héldu áfram til New York borgar í flugið. Loks kvöddum við Ragnheiður Helga þau Völlu, Geir og Snældu og héldum á vit ævintýranna í stórborginni. Fleiri myndir frá þessari fyrstu viku er að finna hér.

Með Leifi og Mána á leið suður á bóginn

Engin ummæli: