07 mars 2009

Innsbruck

Það eru að verða sjö ár síðan ég lofaði Láru að ég mundi koma í heimsókn til hennar til Innsbruck í Austurríki. Þá var hún að leggja af stað til náms í lyfjafræði og nú er hún búin að ljúka því með glans og orðin annars árs doktorsnemi í sameindaæxlafræði (e. molecular oncology).


Eftir margar tilraunir til að finna tíma sem hentaði okkur báðum lét ég loksins verða af þessari heimsókn nú í febrúar, flaug til Friedrichshafen gegnum Lundúnir og fór með lest til Innsbruck. Á leiðinni aðstoðaði ég áttavilltan Norðmann og danska konu hans við að átta sig á lestakerfinu og talaði því allt í allt fimm tungumál á leiðinni út: íslensku, ensku, þýsku, sænsku og dönsku.

Lára og Simbi

Þvílíkur tungumálagrautur! Enda var ég orðin mjög þreytt þegar ég loksins komst á áfangastað. Þar fékk ég gríðargóðar móttökur hjá Láru og Simba og sá síðarnefndi var svo ringlaður/glaður yfir gestinum að hann vildi helst vekja mig klukkan þrjú um nóttina til að koma að leika!

Við Simbi

Daginn eftir lá þoka yfir bænum svo ég fór í leiðangur um gamla bæinn og kannaði hvort skyggnið væri betra uppi í fjöllum með því að taka fjallalest og kláf upp í 2250 m hæð. Það með Innsbruck-kortinu sem Lára fann fyrir mig. Mæli með þessu korti við þá sem leggja leið sína til Innsbruck. Það gildir í alla strætisvagna, sporvagna, öll söfn og safnrútur sem og einu sinni upp og niður í öllum helstu fjallalestum og kláfum kringum bæinn og er fljótt að borga sig.

Frekar lélegt skyggni

Uppi í fjalli var skyggnið ekki mikið og ég dáðist að þeim sem þó voru á skíðum eða brettum í þokunni. Efsta brekkan var lokuð en hún er ekkert barnagaman ef marka má varúðarskiltin:

Það var nefnilega það...

Eftir fjallaferðina tókst mér að rata gegnum bæinn að svæði háskólasjúkrahússins og ramba þar á rannsóknarstofu Láru. Þar fékk ég að líta inn í krók og kima og kynnast glensi og gríni félaganna í rannsóknarhópnum. Fengum við m.a. sallafína teikningu af okkur til minningar um þennan dag: tvo óla-prik-stelpuhausa með víkingahjálma og fléttur og milli þeirra gríðarstórar talblöðrur - fullar af bla, bla, bla.

Vinnuhópurinn hennar Láru

Lára sýndi mér sigurbogann, borgargarðinn, sallafínan grænmetismarkað og fleiri hápunkta í miðbænum á heimleiðinni og svo elduðum við kvöldmat í litla en tækjaríka eldhúsinu hennar Láru. Við erum að tala um belgískt vöfflujárn, laukhakkvél, candyflossvél, poppvél, súkkulaðigosbrunn, ... já svo mætti lengi telja!

Sigurboginn

Á laugardeginum var farið að létta til og við héldum með litlum strætisvagni upp brattar hlíðar til funda við fjallageitur, skógarbjörn, elgi og fleiri dýr í Alpadýragarðinum. Það er alveg frábær staður og dýrunum leið greinilega vel í rúmum og stórum gerðunum sínum. Sum voru í vetrarsvefni en við vorum ekki alveg á því að fara að sofa heldur mæltum okkur mót við Önnu vinkonu hennar Láru, borðuðum á okkur gat á running-sushi-stað, röltum meðfram ánni Inn og skáluðum fyrir góðu kvöldi á kokteilbarnum M&Mbar.

Anna, Lára og ég

Innsbruck sýndi síðan sína bestu hlið á sunnudeginum. Sannkallað sunnudagsveður með fjallasýn, frosti, stillu og sól. Við tókum okkur far með safnrútu til að gægjast inn í munn risans í Swarovski kristallasafninu í Wattens. Þar tóku á móti okkur brasilískir capoeira dansarar, vélmenni, speglasalir, völundarhús og ógrynni af kristalsgripum. Ég var samt eiginlega hrifnust af snjónum úti fyrir og fjallatoppunum allt um kring sem tindruðu í sólinni.

Capoeira í kristallsveröld

Niðri í bæ settumst við inn á kaffihús og gæddum okkur á austurrísku eplarúllunni Apfelstrudel. Namminamm! Síðan slógumst við í hóp sunnudagsgöngufólks við Inn og skoðuðum allt frá kumbaldablokkum yfir í krúttleg alpahús á heimleiðinni. Eftir notalegt kvöld með eldamennsku og heitu plómuvíni var síðan komið að því að pakka í töskur og á mánudeginum hittumst við í hádegismat áður en ég lagði upp í lestarferð aftur til Friedrichshafen.

Litrík hús við jökulána Inn og tindrandi fjöllin í baksýn

Lestarferðin var algjört ævintýri! Snarbrattar fjallshlíðar, djúpir dalir, jökulár, lítil þorp, skíðasvæði, stórar verksmiðjur, lestarteinar og götur fram á hengibrún, göng og yfirbyggðar leiðir... svo mætti lengi telja. Ég hafði líka rúman klukkutíma milli lesta í Lindau og gat því trillað þar um götur bæjarhlutans Lindau-Insel við Bodensee með ferðatöskuna í eftirdragi þar til húma tók að kvöldi. Þá var komið að næsta hluta ferðarinnar - heimsókn til Hlínar og Billa í London. Framhaldið kemur í næstu færslu. Fleiri myndir frá Innsbruck er að finna hér.

Engin ummæli: