05 febrúar 2009

Yfirlit ársins 2008 fyrir vini og ættingja

Kæru vinir!

Ég vona að þið hafið haft það gott yfir hátíðarnar og þótt seint sé þá óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir allt og allt, gamalt og gott!

Í miðbæ Feiberg að kvöldi til

Margt gerðist á árinu svo sem endranær. Ekki var þó mikið um ferðalög en samt er frá nægu að segja. Fyrir þá sem hafa annaðhvort ekki orku í langan pistil eða ofnæmi fyrir einhverjum viðfangsefnum pistilsins hef ég gert kaflaskipti á nokkrum stöðum.

[Kafli um verkefni, próf og veikindi]

Þrjú stór verkefni einkenndu síðasta ár. Þau lutu að því að ljúka öllum tilskyldum prófum til að geta hafið lokaverkefnisvinnu (janúar-febrúar), undirbúa alþjóðlegu ráðstefnuna MATGEOS 2008 um stærðfræði í jarðvísindum (janúar-júní), vinna lokaverkefni (mars-nóvember), skrifa skýrslu, bókhald og tímaritsgrein um ráðstefnuna (ágúst-september) og verja lokaverkefnið (nóvember-desember).

Loftljósið mitt speglast í tebolla við próflestur í febrúar

Framkvæmdir í götunni minni, Winklerstraße, stóðu yfir frá apríl fram í nóvember

Prófin gengu vel og undirbúningur ráðstefnunnar var í upphafi samvinnuverkefni hóps stúdenta og doktorsnema í jarðvísindatengdum greinum. Þegar á reyndi heltust hins vegar margir úr lestinni. Lenti þá einhvern veginn stærstur hluti undirbúnings- og framkvæmdavinnunnar á mér (eða ég tók of mikið að mér) og var það eftir á að hyggja allt of stór biti. Ég hef í það minnsta ekki orðið jafnuppgefin svo árum skiptir og aldrei orðið jafnveik af ofálagi áður eins og eftir þessa törn. Með hjálp góðs fólks fór þó allt vel að lokum, ráðstefnan var glæsileg, við kynntumst stórum hópi vísindamanna frá öllum heimshornum og gestir okkar héldu mjög ánægðir heim á leið.

Hluti þátttakenda - MATGEOS 2008

Floh, Maria, Prashanth, ég, Micha og Sebastian að ráðstefnu lokinni

Auðlindir og vísindi á veggmynd við tölvuver jarðeðlisfræðinema - þar lærðum við gerð þrívíðra jarðfræðilíkana

Veikindin voru samt ekki búin og ég var raunar mun oftar veik á þessu ári en ég á að venjast. Sem betur fer var það nú samt ekkert alvarlegt og ég ætla að passa betur upp á nægan svefn og hvíld í framtíðinni enda borgar sig ekkert að fórna heilsunni fyrir skólaverkefni jafnvel þótt þau heiti lokaritgerð.

Félagar á námskeiði um úrvinnslu gervihnattagagna í vor

Anne, Farruh, Judyta, Martin og Theresa í samkomuherbergi erlendra nema

Borscht - rússnesk rauðrófusúpa og sinnepsbrauð - sem ég eldaði handa nágrönnum mínum

Viki nágranni minn kom færandi hendi með túlípana til upplyftingar í prófunum

Í skólaönnum og veikindum voru vinir mínir algjörir bjargvættir. Við hittumst til að elda saman, spjalla yfir tebolla, gáfum hvert öðru klapp á bakið, drifum hvert annað á tónleika eða aðra viðburði, fórum í göngutúr - hertum upp huga fyrir það sem framundan var.

[Kafli um tónleika, íþróttir og matargerð]

Tónlist kryddaði lífið meir en oft áður. Eins og gjarnan gerist þegar álagið í skólanum er mikið þá lék ég á blokkflauturnar mínar til að fá útrás og í byrjun hausts voru meira að segja gerðar tilraunir með kammertónlist í félagi við Florian, skólafélaga minn sem leikur á selló. Einnig hef ég sjálfsagt aldrei verið jafndugleg að sækja tónleika.

Loftið í leikhúsinu í Freiberg

Blokkflautukvartett á Íslandi í sumar

Anne tekur á móti gestum undir einkunnarorðum Freiberg og sveitanna í kring

Þannig var að Maria benti mér og nokkrum öðrum á tónleika íslenskra sveita í Dresden í byrjun ársins og svo fórum við að fylgjast með komum fleiri sveita upp úr því, drifum okkur yfirleitt eitt eða fleiri á staðinn og höfðum mikið gaman af. Þótt íslenskar sveitir (m.a. Jakobínarína, múm, Rökkurró, Ólafur Arnalds, Sigur Rós, Borkó, Seabear, Emilíana Torrini) hafi verið í brennidepli slæddust nokkrar erlendar með inn á milli (m.a. Clara Luzia, Giesbert von Knyphausen, Hellsongs, 44 Leningrad). Yoann flutti til Dresden í sumar og bæði David og Pit búa þar svo ég átti vísan gististað ef tónleikar í stórborginni drógust fram yfir síðustu lest. Þessu til viðbótar kynntist ég síðan ógrynni af nýrri tónlist gegnum hljóðskráaskipti við vini mína. Sérstaklega fékk ég mikið af raftónlist af ýmsum gerðum en þann geira hef ég ekki þekkt mikið hingað til.

Dresden falleg í haustsólinni

Pit og besti ísinn í hverfinu


Yo í snævi þöktum almenningsgarði í Dresden

Sigur Rós í Dresden í ágúst

Eftir góða daga á Íslandi um jól og áramót 2007 flaug ég út til Freiberg með lambalæri í farteskinu og eldaði það fyrir vini og kunningja. Leið síðan varla sú vika á árinu að ekki væri eitt kvöld hið minnsta þar sem eldað var með vinum frá ýmsum löndum og sérstaklega var mikið um franska og indverska matargerð. Stærðfræðifélagar mínir Christina, Katja og Viola stóðu líka fyrir matreiðslukeppni í sumar þar við skiptumst á að elda þríréttaða máltíð hver fyrir aðra.

Maria sker lambalæri og Pit fylgist með

Við Maria og Bilge, Judyta tók myndina

Delia og Fernando smyrja rúgbrauð fyrir Möpkenbrotmáltíð Daniels

Anne ræðst til atlögu við heimagert sushi hjá Deliu

Karsten, Floh og Anne gæða sér á pólsku grænmeti úr garði Judytu

Við Jule bökum þýskar jólasmákökur

Katja býr sig undir að gæða sér á framlagi Violu til keppninnar

Badmintoniðkun varð eitthvað endasleppt. Þar var fyrst veikindum en svo tímaskorti vegna lokaverkefnisins um að kenna. Í staðinn synti ég meira, enda auðveldara að mæta í sund þegar manni dettur í hug heldur en að mæta í badminton á fyrirfram uppgefnum tímum. Fátt er líka betra en sund til að hressa sig við eftir langar setur við útleiðslur, forritun og útreikninga.

[Kafli um ferðalög]

Þótt ekki hafi verið mikið um ferðir til annarra landa, þá hélt ég nú samt áfram að kynna mér Þýskaland: Nico dreif mig til Leipzig á bókasýningu í byrjun mars með Jens og Carinu og þau hittum við síðan aftur á heimaslóðum hans í Vogtlandssveit um vorið. Við Anne fórum til Chemnitz og hlógum okkur máttlausar á upplestri rithöfundarins Wladimirs Kaminer eina kvöldstund. Einnig tókum við lestina til Freital með Daniel og Grit til að fara á skauta. Um vor og sumar voru Frakkarnir Rémy og Antoine forkólfar gönguferða upp á Lilienstein, meðfram Saxelfi og um virkið í Frauenstein.

Fánar bókasýningarinnar í Leipzig


Brautarpallur S-lestar í Chemnitz að kvöldlagi

Við Daniel á skautum í Freital

Rémy við snjókarlsrústir hjá Talsperre Klingenberg

Fiðrildi í túnfætinum heima hjá Nico

Viola, Katja, Nico, Koen, Jens og Andrea

Jens og Carina við skilti sem bendir á þorpin þeirra

Símanúmer samstillt fyrir ferð til Dresden - með Rémy, Joël og Pélagie

Judyta, Viki, Maté, Pélagie, Conny, Joël, Antoine og Rémy


Hópurinn á toppi nálægt Lilienstein

AKAS, félag alþjóðanema, stóð fyrir páskaferð til Lichtenstein (bær milli Chemnitz og Zwickau). Þar hittum við páskahérann, skoðuðum tréskurðarlist frá öllum heimshornum og líkön af helstu byggingum heims. Í byrjun apríl sótti ég samþjappað námskeið í fjarkönnunarfræðum (gögn frá gervihnöttum og vinnsla þeirra) og hjólaði með námskeiðisfélögunum í Klosterpark Altzella í Nossen. Pabbi og mamma komu í heimsókn stuttu síðar og þá var Freibergbær skoðaður í þaula, meira að segja farið niður í námurnar við Reiche Zeche. Síðar fór ég síðan niður í námuna Alte Elisabeth með Rémy, Pélagie, Joël og Loïc.

Á 100 m dýpi í námunni Alte Elisabeth (gamla Elísabet)

Maria, Moritz, mamma, pabbi og Pit í Saxelfursandsteinsfjallgarðinum

Mamma við Donatsturm, einn varðturna Freibergborgar

Ingrid og Manuela af alþjóðaskrifstofunni

Í hópi skólabarna sem fengu kynningu um starf AKAS

Bilge við AKAS básinn á litríkum eftirmiðdegi

Lára Rún kom í heimsókn til Berlínar frá Uppsölum í byrjun júní svo ég skaust þangað eina helgi til að hitta hana og Ingu Lín og njóta sumarkomunnar. Jarðvistfræðinemar skipulögðu stórskemmtilega gönguferð um Böhmische Schweiz síðsumars sem jafnframt var síðasta stóra gönguferðin með Judytu áður en hún hélt heim til Póllands. Um svipað leiti flutti Pélagie til Harburg í nágrenni Hamborgar. Við vorum báðar að vinna lokaverkefnin okkar, settum upp einnar helgar vinnubúðir í herbergi Pélagie og lyftum okkur upp með því að fara á tónleika með Emilíönu Torrini.

Með Ingu og Láru í Berlín

Hmmm... hvar erum við?

Hópurinn á báti

Sólargeislar brjótast milli trjágreina

Míša og félagar við Ráðhús Reykjavíkur

Gunni og Þórir á leið upp að Glym

Gunni, Óli, Fróði og Ingunn uppi við Glym

Í byrjun júlí skaust ég heim til Íslands í rúma viku til að hlaða batteríin. Það var alveg frábær ferð, hlaðin viðburðum á borð við heimsókn tékkneskra vina, brúðkaup Sigrúnar og Sigga, ættarmót Gromsara á Laugum í Sælingsdal, ættarmót þess hluta Stuðlaættar sem kominn er af Gunnari Bóassyni að Laugum í Reykjadal, gönguferð upp að Glym með góðum vinum, salsadans og fleira.

[Kafli um lokaþriðjung ársins]

Þegar ég kom aftur til Freiberg dró ég mig út úr félagsstörfum og hætti m.a. sem fjölmiðlafulltrúi AKAS eftir tæplega tveggja ára starf. Það var frekar erfitt að hætta félagsstússinu og grafa sig svona ofan í sandinn en dugði hreinlega ekki annað til að klára lokaverkefnið á tilsettum tíma. Þið getið rétt ímyndað ykkur gleðina við að skila og síðar verja verkefnið - ljúka þessu loksins! Eftir vörnina var ég svo óendanlega þreytt að ég gerði "ekkert" í tvo daga, eða þangað til Judyta og Martyna komu í óvænta heimsókn frá Póllandi og slógu upp partýi fram á nótt.

Þoka á námuhæðinni og ritgerðaskrif á endaspretti

Gatnamót

Daginn eftir það hélt ég í skyndihugdettuferð til Prag í Tékklandi og hitti þar Míšu vinkonu mína og Míšu herbergisfélaga hennar (já, þær heita það sama!), sem og Jan og Barböru, en þau síðarnefndu hafa rannsakað vægisóbreytur (viðfangsefni ritgerðarinnar minnar) um langt skeið og gátu því rætt við mig um lokaverkefnið á allt annan (uppbyggilegri, jákvæðari, ...) hátt en leiðbeinendur mínir í Freiberg.

Dómkirkjan og minjasafnið í Freiberg

Síðustu dagarnir í Freiberg hreinlega flugu hjá, dagskráin var þétt og ekki mikið um myndatökur (eins og sést í þessum kafla!). Ég reyndi að gefa mér sem mestan tíma með vinum mínum til að geta kvatt þau almennilega en lenti líka í mögnuðu kapphlaupi um að fá útskriftarskírteinið mitt með tilheyrandi skriffinnsku. Sérstaklega var lokaspretturinn magnaður en þar hafði ég hálftíma til að finna tvo prófessora sem ekki var víst að væru við og fá frá þeim kringum tuttugu undirskriftir. Þar kom sér "þetta reddast" hugarfarið vel. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á konunni á skrifstofunni þegar ég kom á hlaupum fimm mínútum áður en lokaði - hún gleymdi alveg að vera önug og stimplaði blöðin í bak og fyrir, brosti og óskaði mér furðu lostin innilega til hamingju með áfangann!

[Kafli um heimferð, hátíðir og framtíðarpælingar]

Fjölmargir lögðu leið sína í herbergið mitt á stúdentagörðunum til að kveðja síðasta daginn minn í Freiberg. Um kvöldið kom svo David og sótti mig. Við ætluðum að borða með Mariu í rólegheitunum en þegar til kom voru fleiri mættir og matarborðið heldur óvenjulegt: heitur pottur! Já... það er óhætt að segja að ég hef aldrei orðið jafn hissa og glöð á ævinni eins og þegar við komum í bakgarðinn heima hjá David. Þangað var sumsé búið að draga farandpott, skella upp tjaldi og kolagrilli, kveikja á kyndlum og stilla hátölurunum út í glugga á efstu hæð með íslenska tónlist í botni. Til að toppa allt fór svo að snjóa þegar leið á kvöldið.

Heitur pottur í bakgarði Davids

Finnið Íslendinginn ;-)


Pottur farinn, búið, bless!

Ferðin heim gekk vel. Alls staðar var fólk tilbúið að aðstoða með farangurinn og ég náði að hitta Ingu Lín í Berlín áður en hún hélt til Bielefeld. Það er kannski táknrænt að ég gisti hjá Bene í Berlín síðustu nóttina fyrir heimför. Hann var nefnilega sá sem sagði mér frá Freiberg á sínum tíma fyrir fimm árum. Heima tók við jólahátíð með fjölskyldu og vinum. Eftir áramótin gat ég síðan heimsótt fólkið mitt norður á Akureyri í rólegheitum.

Jólasveinninn Nikolaus kveður við raust og lemur óþæga AKAS-liða með grenigrein í Freiberg

Brennan í Laugardalnum á Gamlárskvöld

Sem stendur er ég að skipuleggja ferðalög. Það er nánast öruggt að ég fer til Bandaríkjanna í mars til að heimsækja vini mína sem eru við nám þar og svo kemur bara í ljós hvort ferðinni verður heitið til fleiri staða. Í haust langar mig í kennslufræði í háskólanum og bæta jafnvel við mig þýskueiningum til að geta kennt bæði stærðfræði og þýsku. Annars er aldrei að vita hvað ég tek mér fyrir hendur. Kannski get ég meira að segja nýtt reynsluna við að vinna úr gögnum frá gervihnöttum til að hjálpa jöklafræðingum eða öðrum sem vinna með slík gögn. Hver veit!

[Samantekt]

Í heild var þetta erfitt ár og mikið álag. Ekki bara skólinn heldur líka það að fylgjast með fréttum að heiman úr fjarlægð. Samt voru fjölmargir ljósir punktar eins og m.a. sést á myndunum og því sem að ofan er ritað. Það þýðir nefnilega ekkert að gefast upp. Við þurfum tækifæri til að velja stjórnvöld sem við treystum, þolinmæði til að takast á við næstu ár, bjartsýni, eljusemi og að læra að standa saman. Þá fyrst reddast þetta allt.

Vetrarsól við Tjörnina í Reykjavík

1 ummæli:

Arnþór L. Arnarson sagði...

Maður þarf ekki að hafa áhyggjur af þér. :)

Og um það hvað menn og konur ættu að gera svona við lífið sitt almennt, þá skiptir held ég mestu að það sé eitthvað skemmtilegt. Og aftur þarf víst ekki að hafa áhyggjur af því að þú finnir út úr þvi. ;)