17 júní 2009

Einu sinni verður allt fyrst...


Tjah, ég held svei mér þá að ég hafi aldrei áður farið niður á Austurvöll til að hlusta á ræðuhöld, kóra syngja, lúðra glymja og fána blakta á 17. júní. Man einna helst eftir sölubásum og blöðrum í Lækjargötu, tónleikum á sendibíla-sviði við höfnina, og þá félaga Bjössa Bollu og Tóta trúð reyna að vera fyndnir í Hallargarðinum hjá Thor-Jensen-húsinu við Fríkirkjuveginn.


Samt er ég búin að stefna svo mörgum ferðamönnum niður í bæ á 17. júní til að hlusta á þessa hátíðardagskrá að ég ákvað að skella mér í morgun. Svona svipað og ég man að flestir í Freiberg höfðu aldrei séð Bergmannparade, skrúðgöngu námuverkamannanna, einfaldlega af því að það átti sér stað á hverju ári og því alltaf hægt að fara næsta ár þar á eftir... nú eða bara aldrei.


Þetta var ágætt. Gott veður aldrei þessu vant og mér fannst gott að forsætisráðherra var ekkert að fegra hlutina þegar hún reyndi að blása mönnum kjark í brjóst. Hins vegar brá mér svolítið við að sjá alla löggæsluna og hvernig nokkrir voru hreinlega umkringdir hægt og hljótt af lögreglumönnum svona eins og ef ske kynni að þeir myndu láta í sér heyra. Hrrrollur.

Engin ummæli: