31 október 2009

Jæja

Færsla um þjóðgarðamaraþon með Ásdísi og seinni hluta vorferðalagsins liggur enn hálfkláruð og rykfellur víst enn frekar fram að jólum með þessu áframhaldi. Ég ætlaði ekki að hætta að blogga en einhvern veginn snýst nú allt um kennslu, að undirbúa kennslu, fara yfir verkefni, skrifa verkefni, ígrunda (í kennaranáminu) og fleira í þá áttina þessa dagana. Stundum gerast samt hversdagsörsögur sem segja mætti frá á blogginu (svona þegar tóm gefst til skrifa) og hér að neðan kemur ein slík.


Júdó er sniðugt. Einhvern tíma lærði ég undirstöðuatriðin í júdó hjá Bjarna Friðrikssyni í Ármanni. Ef ég man rétt þá var Helgi Tómas að æfa þar og ég fékk að fljóta með. Það fyrsta sem maður lærir í júdó er að detta og þessi lærdómur virðist byggjast inn í mann líkt og sundtök eða hjólstig. Alla vega er ég tvisvar búin að lenda í slysi á hjólinu síðan í sumar og í bæði skiptin hefur það bjargað miklu að ósjálfrátt fór ég í júdórúllu í stað þess að bera fyrir mig hendurnar. Í fyrra skiptið var ég að leita að götunni hennar Rástu og hjólaði á ljósastaur (!) í þungum þönkum yfir hvort það væri nú þessi gata eða sú næsta. Seinna skiptið var núna um daginn. Þá kom skyndilega bíll á fleygiferð út úr innkeyrslu og ekki séns að stoppa eða beygja frá svo kabúmm ég flaug í boga og lenti fyrir einhverja heppni á grasigróinni umferðareyju, heil á húfi fyrir utan stórt mar og tognaða tá. Annað hvort er ég svona ljónheppin eða júdóið bjargaði því að meiðslin urðu ekki verri en þetta.

Engin ummæli: