22 apríl 2009

London, Kingston, Brighton

Símklefadómínó í Kingston

Auður og Árni millilentu hjá Hlín og Billa á leið sinni heim frá Eþíópíu. Ég rétt náði í skottið á þeim þar síðasta daginn þeirra og við röltum saman um Kingston með Billa áður en þau flugu á braut. Rólegur og góður dagur. Daginn eftir fór ég síðan í gír ferðalangsins niður í miðbæ.

Big Ben

Mótmæli

Öfugt við Leipzig get ég ekki mælt með því að taka sér far með leiðsögustrætó í Lundúnum. Alla vega ekki á virkum dögum á veturna. Þá er nefnilega ekki leiðsögumaður um borð eins og lofað er í bæklingum og á heimasíðu heldur bara rödd á bandi. Miðinn er samt jafndýr og áður. Í siglingu á Thames (sem er innifalin) eru reyndar bátsstrákar sem segja skemmtilega frá en þeir fá bara borgað fyrir að vera bátsstrákar og eru því háðir þjórfé. Peningaplokk!

Borough Market

National Theatre

Það reyndist miklu betra að ganga um göturnar og nýta almenningssamgöngur. Við Billi fórum tvo, þrjá hringi á Borough Market, spáðum og spekúleruðum og keyptum hitt og þetta í matinn. Héldum þaðan með neðanjarðarlest á suðurbakka Thames, dýfðum okkur í mannhafið og hvíldum okkur svo í National Theatre en þar er góð rólyndisstemmning og þægilegt að setjast inn.

London séð úr Richmond Park

Við Hlín fórum í göngutúr um Richmond Park til að skoða dýrin þar og horfðum líka á ljósin frá borginni ofan af skógi vaxinni hæð. Ekkert smá stór garður þessi Richmond Park og örugglega auðvelt að týnast ef maður passar sig ekki.

Brighton Pier

Ösp var milli verkefnaskila svo ég skaust til Brighton einn eftirmiðdag til að heimsækja hana, skoða borgina og spjalla um daginn, veginn, skólann og lífið. Vorið var aðeins farið að láta á sér kræla og því margir úti að spássera bæði í miðbænum og við ströndina. Andrúmsloftið er eitthvað svo afslappað, göturnar litlar og krúttlegar og húsin litrík þarna. Við fengum okkur mjög góðan hádegismat og besta límonaði sem ég hef smakkað á Iydea og svo risastóra köku á kaffihúsi (man því miður ekki hvað það heitir) að við gátum ekki einu sinni torgað henni tvær saman!

Listening Post (mynd héðan)

Plast í 100 ár

Á laugardegi breyttumst Billi, Garðar og ég í lítil börn í vísindasafninu. Ekkert smá gaman að týna sér þar innan um geimskip, flugvélar og fleiri furðuverk. Flottast fannst mér Listening Post og sérsýning um plast í 100 ár. Billi eldaði síðan grjónagraut fyrir 100 manns um kvöldið - þarf ég nokkuð að minnast á hvað Billa-matur er góður? Lauksúpa, heimagerðir hamborgarar... namminamm!

Hlín og Billi

Búðargluggi í hliðargötu við Brick Lane

Hafi einhver gaman af hönnun, ringulreið, glingri, góssi og góðum mat þá ætti sá hinn sami að kíkja á Brick Lane og markaðina þar. Við Hlín og Billi þræddum þar sölubása, tjöld og búðir og áttum vægast sagt erfitt með að velja úr ilmandi mat frá öllum heimshornum til að gæða okkur á. Einnig týndum við okkur í asískum stórmörkuðum innan um svignandi kryddhillur og risastóra potta. Gaman, gaman!

Engin ummæli: