21 júlí 2009

Nýja Jórvík

Stórborgin speglast í einu háhýsanna

Yfirþyrmandi. Þannig fannst mér New York vera. Mannmergð, háhýsi, dýrtíð. En líka almenningssamgöngur sem virka, notalegir staðir á borð við Central Park, líf allan sólarhringinn. Svolítið mikið þannig samt að maður þarf að vita hvert skal halda. Vita hvar góðu staðirnir eru. Mér til happs var Ragnheiður í fríi en hún þekkir aragrúa af góðum stöðum og lóðsaði mig bókstaflega um allt, algjör bjargvættur.

Rólegheit í Central Park

Það var svo skemmtilegt að standa kannski úti á götu í hringiðu og vita ekkert hvert skyldi halda, þá þekkti Ragnheiður einhvern veitingastað, kaffihús eða kirkju í nágrenninu þar sem gaman var að líta inn. Þannig gengum við inn á óvænta kórtónleika í einni stærstu kirkju heims, smokruðum okkur út í horn til að fá borð á litlu tehúsi, fengum æðislegan malasískan mat á veitingahúsi sem leit út fyrir að vera dyrnar einar utan frá séð, fylgdumst með ítölskum mafíósum meðan við borðuðum bestu flatbökur borgarinnar (skv. vini Ragnheiðar, hann prófaði alla pizzustaði borgarinnar á einu ári eða svo) og fleira og fleira.

Ragna á malasíska veitingastaðnum

Á rölti nálægt CNYU

Auðvitað heimsóttum við líka víðfræga staði, sigldum til Staten Island, týndum okkur í söfnum og reyndum að halda aftur af okkur til að ganga ekki alveg af okkur lappirnar. Náttúrugripasafnið var samt svo ótrúlega skemmtilegt að við fórum eins og í leiðslu úr einum salnum í annan, vorum alveg gjörsamlega búnar á því í lokin og hefðum örugglega bara staðið úti á götu, svangar og pirraðar ef ekki hefði komið til sniðuga svarta bókin hennar Karenar sem leiddi okkur í teboð til drottningarinnar í Undralandi þar sem við hlóðum batteríin með skjaldbökuskonsum.
Við sáum Frelsisstyttuna og borgina frá sjó af Staten Island Ferry

Á degi heilags Patreks voru hátíðahöld í bænum og skrúðganga mikil gekk fram hjá Central Park og Metropolitan safninu sem var áfangastaður dagsins. Þegar við vorum að nálgast safnið heyrðum við lúðrahljóm og þyriltrommur í fjarska og ég hljóp ringluð af stað til að missa nú ekki af skrúðgöngunni. Missa af henni? Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir stærðinni. Við sáum hesta, sekkjapípur, skotapils, trommur, fimleikahópa, fólk í alls konar búningum og grænmálaða áhorfendur í írskum lopapeysum. Gáfumst svo upp á skosk/írsk/bandarískum þjóðlögum og skutumst í langan og góðan safnleiðangur meðan skrúðgangan hélt áfram og þegar við komum út var eins og við hefðum aldrei skroppið frá, við misstum ekki af neinu - skrúðgangan virtist endalaus!

Íslenskt skyr í matvörubúð á Broadway

Síðar sama kvöld endaði kráarrölt ofan í kjallara á tónleikum með Sprengjuhöllinni og Ingrid Olava. Þar var Íslendingasamkunda mikil og ég sem hafði ætlað mér að dansa svolítið gleymdi því bara og datt í samræður enda alltaf gaman að hitta gamla félaga sem ég hafði jafnvel ekki séð síðan í grunnskóla.

Mósaíkveggmynd í Harlem

Helgina í lok New York vikunnar kom Valla í heimsókn. Peta frænka Ragnheiðar hafði nefnilega boðist til að sýna okkur vinkonunum heimkynni Sameinuðu þjóðanna í New York og slíku boði er ekki hægt að hafna! Það var sko heimsókn í lagi, enda Peta alveg hafsjór af fróðleik um allt sem varðar utanríkismál og ekki síður um hvert skuli halda til að finna hitt og þetta í borginni.
Bindum enda á stríð í heiminum - skýr skilaboð frá þessari styttu

Fleiri myndir frá New York borg er að finna hér og vonandi gefst bráðum tími til að púsla saman og bæta við skrúðgöngumynd frá írska hátíðardeginum hans heilags Patreks.

Engin ummæli: