30 september 2007

Smá misskilningur


Hér á eftir fylgir frásögn af rökfræðiprófi. Myndirnar eru úr ferð til Leipzig. Þær eru í engu röklegu samhengi við frásögnina (held ég).

Rölt um götur í rigningunni

Á föstudaginn fór ég í próf í rökfræði. Kúrsinn nefndist reyndar rökforritun en var þegar til kom rökfræði fyrir stærðfræðinemendur, rökforritun fyrir tölvunarfræðinemendur og stærðfræðinemar máttu taka forritunarpartinn líka ef þeir vildu en fengu samt bara rökfræðina metna.

Fékk svakafínan leiðsögutúr með þessari gömlu rútu

Þetta væri nú svosem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir skilningsmysinginn. Ég mætti nefnilega í prófið með það í huga að ná (fá "staðið") en var þá tjáð að ég ætti að fá einkunn og ekki nóg með það heldur hefðu það verið mistök að senda mig í skriflegt staðið/fallið-próf í netafræði fyrr um sumarið - prófið atarna hefði með réttu átt að vera munnlegt og með einkunn!

Kíkti á þessa sýningu í sögusafninu

Nú er það svo að ég á óskaplega erfitt með að læra hluti utanbókar sem ég skil ekki og á það sér í lagi við um rökfræði upp á tungu þýðverskra. Því hafði ég í raun lært alltof mikið fyrir þetta próf miðað við að það væri bara staðið/fallið-próf. Eftir þessar tilkynningar um einkunnir og mistök var ég líka nógu ringluð til að stressið rauk á braut og í staðinn laust niður strategíu í kollinn minn.

Kakan Leipziger Lerche namminamminamm

Þessi prófessor spyr gjarnan flókinna spurninga með minnst þremur aukasetningum og eins og þeir sem lærðu þýsku muna kannski, þá kemur sögnin allrasíðast í romsunni. Í síðasta munnlega prófi sem ég fór í hjá honum gekk því allt annað en vel - þegar loksins kom að sögninni var ég iðulega búin að tapa þræðinum og vissi ekkert hvers væri ætlast til af mér!

Þessi rör liggja um allan bæ og munu gera svo þar til gerð neðanjarðarbrautar lýkur 2011. Í bakgrunni er hæsti ráðhústurn Þýskalands, 115 metra hár.



Leipzig-búar hafa eigin bruggverksmiðjur en finnst samt Freiberger betri... Svo sést þarna grilla í Tómasarkirkjuna þar sem J.S. Bach starfaði lengi sem organisti og samdi helstu stórvirkin sín.

Strategían fólst í því "að taka orðið". Rökfræði er nefnilega mjög strangt uppbyggð svo ég hreinlega hlustaði varla á fyrstu spurninguna (sem ég skildi hvort eð er ekki alveg) heldur byrjaði bara á minnstu einingunum "sjáðu nú til, til að byggja upp strúktúrinn þurfum við að skilgreina hérna blablabla" og hélt svo áfram að hlaða upp skilgreiningum, setningum og hjálparsetningum eins og ég væri með legókubba í höndunum!

Stasi-safnið var allsvakalegt. Hér sést aftan á bygginguna.

Svona blaðraði ég nánast stanslaust til að prófessorinn kæmist sem minnst að með sínar flóknu spurningar; gæti bara hallað sér aftur í stólnum og hlustað á mig þylja upp hvað ég hefði lært. Þessi strategía tókst svona líka vel! Alla vega komst hann sjaldan að og einhvern veginn tókst að bjarga því fyrir horn þegar honum tókst að setja mig út af laginu. Lokaniðurstaðan varð fyrsta einkunn með mínus.





"Blikkboxið" var víst mjög fallegt verslunarhús en það voru ekki til peningar til viðhalds og því pakkað inn í álplötur. Núna er það búið að vera svo lengi innpakkað að það má ekki breyta álklæðningunni (!) Mér finnst það nú alveg líka fínt svona...

Samt mjög spes að prófgerðin hafi ekki verið útskýrð fyrir mér áður því ég er búin að láta samþykkja námsáætlun tvisvar sinnum án þess að fá nokkrar athugsemdir um að ég hafi ruglast á tegund prófanna (það kemur fram á áætluninni hverrar tegundar, þ.e. með eða án einkunnar, prófin eru).




Það á að rífa þessar blokkir og byggja verslunarmiðstöð í staðinn. Myndirnar voru málaðar fyrir HM06 til að lífga upp á bæinn.

Jæja ég hélt upp á þetta með því að skjótast til Leipzig í gær og myndirnar sem prýða þessa færslu eru sem fyrr segir þaðan.


Engin ummæli: