22 september 2007

Á ég að fara eftir reglunum?

Í dag var öskrað á mig. Alveg svona herforingjaöskur og jafnvel verra en það. Viss um að hárið feyktist aftur svona eins og í teiknimynd. Verst að strákarnir sem sátu við opinn gluggann á númer sextán voru ekki með myndavél til að festa atburðinn á flögu.

Fólk hér í bæ er upp til hópa elskulegt. Svona að nýnasistunum frátöldum kannski. En í dag mætti ég sumsé hjónum sem voru illskuleg á svip. Eymingjans greyin. Það er örugglega erfitt að lifa lífinu svona í smámunaæsingi! Leit alla vega ekki út fyrir að þetta væri fyrsta skiptið sem þau byrstu sig við ungdóminn.

Það skein sól í heiði í morgun og ég lagði upp í vikuinnkaup í Plús á hjólinu vopnuð hjólatösku og sextíulítra bakpoka. Veitir ekki af svona stórum bakpoka til að geta troðið í vatnsflöskum (vatnið úr krananum er ódrekkandi) og hjólataskan getur líka ekki tekið svo mikil þyngsli. Með alla þessa sekki fulla verður hjólið þungt og lætur verr að stjórn.

Þar sem gatan mín er uppfull af bótum og betrumbótum valdi ég því frekar hjóla á tiltölulega sléttri gangstéttinni. Hjóla satt best að segja frekar oft á gangstéttunum hérna, enda göturnar flestar samsettar úr litlum steinum (eða malbiksbótum eins og gatan mín) og ekki alltaf jafngaman að hristingnum sem því fylgir. Nema hvað - aldrei þessu vant var fólk á gangstéttinni.

Í þessi (tiltölulega fáu) skipti sem það gerist víkur fólkið nú bara fyrir manni en þessi voru nú ekki á því! Gerðu sig breið svo ég hægði upp, staðnæmdist rétt við þau og hugðist þá bara leiða hjólið fram hjá.

HVURN DJÖFULINN ÞYKIST ÞÚ VERA AÐ GERA UNGA DAMA! ÞVÍLÍKUM OG ÖÐRUM EINS DÓNASKAP HEF ÉG ALDREI KYNNST! GÖTURNAR ERU FYRIR HJÓL - GANGSTÉTTARNAR FYRIR GANGANDI VEGFARENDUR!

Þar sem þetta (eða eitthvað á þessa leið) var ekki einungis öskrað heldur líka sagt mjög hratt var ég svolitla stund að átta mig og stundi loks upp sakleysislegu "wie bitte?" enda hef ég aldrei heyrt að gangstéttarnar hér séu bannsvæði fyrir hjól. Þessari spurningu tók maðurinn sem svo að ég væri heyrnardauf. Mjög rökrétt ályktun, ekki satt?

Hann endurtók því boðskapinn. Nú enn hærra, í styttri útgáfu en þó með fleiri blótsyrðum. Jahá herra minn. Konan setti upp auka-dúndur-illskusvip eins og til að undirstrika orð eiginmannsins. Þar sem ég er ekki jafnfljót og persónur Íslendingasagnanna í að spinna upp hnyttin tilsvör ákvað ég bara að láta sem ekkert væri og sveigja fram hjá þeim.

Held svona eftir á að hyggja að það hafi verið ágætis ákvörðun. Fremur ólíklegt að þau hefðu tekið einhverjum rökum svona með blóðþrýstinginn þaninn til hins ýtrasta. Leit svo upp og fékk stuðningskveðju frá strákunum í glugganum (sem ég tók ekkert eftir fyrr en þá), hjólaði á leiðarenda og lék rökræður um kurteisi, reglur, samskiptatækni, ... í huganum.

Tók svo til við að elda matinn en var líklega eitthvað úr jafnvægi því einhvern veginn tókst mér að henda glerskál með nýuppskálduðu túnfisksalati í gólfið svo slettist upp um þrjá veggi og glerbrot flugu yfir allt. Viola og Steffen voru alveg sátt við að fá rjómaost og papriku á brauðið í stað túnfisksalatsins og upplýstu mig um að það væru virkilega reglur hér um slóðir að hjólreiðafólk skyldi halda sig á götunni.

Jahananú. Æji, ég er samt ekki viss hvort ég kem til með að fylgja þessum reglum - alla vega ekki hundrað prósent.

Engin ummæli: