09 september 2007

Mest lítið að frétta


Leyfisþjónninn fyrir forritið úr síðustu færslu hrundi eða dó um miðbik vikunnar. Það var því þreytt Bjarnheiður sem hjólaði fimm sinnum upp á námufjallið á tveimur dögum á kristilegum tímum jafnt sem ókristilegum til að berjast um þá einu tölvu sem þar er og hefur leyfi af sérþjóni. Verkefnið alveg komið úr öllum tímaböndum og hreinlega komið í mig "svona æji, látum þetta bara duga"-hljóð því þetta étur svo mikinn tíma frá próflestri.


Í gær komst ég að því að mögulega er ég rangt skráð eða hreinlega ekki skráð í prófið í gagnagrunnum. Ansihreint bagalegt það og ég vona að þetta reddist einhvern veginn á morgun svo vinnu annarinnar sé ekki kastað á ruslahaugana.


Annað sem valdið hefur mikilli örvinglan síðustu daga eru tryggingamál. DAAD sá um þetta fyrir mig í fyrra en núna keppast stofnanir við að gefa mér mismunandi svör um það hvar ég sé tryggð, hvernig ég sé tryggð eða hvort ég sé yfir höfuð tryggð. Meiri hringavitleysan! Ætli SÍNE geti nú ekki gefið mér einhver svör á næstu dögum, ég bíð spennt eftir svarpósti frá þeim.


Meðan á þessari vinnutörn stendur hef ég þó eins og áður sagði komist til að elda mat með vinum um helgar. Algjörlega nauðsynlegt að lyfta sér aðeins upp úr skjástörun og músarpikki. Nokkrar myndir af matargerðinni fylgja þessari færslu.

Engin ummæli: