01 september 2007

Geomatica

Á mánudaginn kom ég aftur til Freiberg og hef nánast búið í tölvuverinu í Karl-Kegel-byggingunni síðan þá. Ástæðan eru tvö stór skilaverkefni í fjarkönnunarfræðum (vinnsla og túlkun gervihnattamynda) og hefði ég einmitt átt að skila þeim báðum í gær. Það tókst að skila öðru verkefninu en hitt fær að bíða næstu viku.

Tölvuverin eru ekki opin um helgar og Geomatica, forritið sem við þurfum að vinna með og fyrirfinnst eingöngu í tveim tölvuverum á háskólasvæðinu, hrundi svo oft að ekki var möguleiki að klára bæði verkefnin. Helst þyrftum við líka öflugri tölvur (hrunið stafaði af litlu vinnslu- og geymsluminni) en það tölvuveranna sem gæti reddað þessu er barasta lokað. Frekar fáránlegt að þurfa að vinna verkefnin við þessar aðstæður, vikan hefur aðallega farið í að krossa putta og stara vonaraugum á vinnslustikur!

Fimmtudagsmorgunninn fór þó í eitthvað annað en verkefni því þá mætti ég í fyrsta skipti á nýjan vinnustað hjá alþjóðaskrifstofu háskólans. Þar kem ég til með að svara fyrirspurnum frá nemum utan úr heimi, aðstoða við skipulagningu og framkvæmd á ýmsum viðburðum og sitthvað fleira. Þetta var eiginlega bara smá kynning og ég verð sett betur inn í starfið í næstu viku. Meðfram þessu starfa ég líka áfram sem sjálfboðaliði hjá AKAS, samtökum erlendra nema í Freiberg.

Áður en þetta allt fer í gang verður nóg að gera í prófatörn. Framundan eru próf í báðum fjarkönnunarkúrsunum, gagnagrunnum og rökforritun/rökfræði. Það verður því venju samkvæmt nóg að gera hjá mér! Eiginlega er ég því hálffegin að tölvuverin eru lokuð um helgar - þá get ég aðeins slappað af þessa helgi, eldað með vinum og áttað mig á því að vera komin aftur út.

Engin ummæli: