14 september 2007

Dagur í lífi stelpuskotts

Bí-bí-bí-bíbb, bí-bí-bí-bíbb. Nef klesst á rúðu - ennþá rigning - opna gluggann, jæja, aðeins hlýrra en í gær samt. Tek lýsi eins og afi mundi segja mér að gera og elda hafragraut með müsli og kefir. Morgunmatur er undirstaða góðs dags og þótt matarlystin sé ennþá eitthvað að villast á leiðinni frá Íslandi, þá get ég alltaf borðað grautinn.

Enn eina ferðina þarf að hjóla upp að gömlu námunni Reiche Zeche og þótt það sé hryssingslegt haustveður úti þá verður mér alltaf svo heitt á leiðinni upp brekkuna að ég helst ekki við í ullarpeysunni.

Við síðasta hjallann standa hús gatnamálastjóra Freiberg og lítil malbiksblöndunarstöð. Vörubílstjórarnir sem aka til og frá framkvæmdum og þessum stöðvum taka stóran sveig og aka næstum útaf í undrun við að mæta stelpuskotti hjólandi á hlýrabol þegar svona kalt er í veðri.

Það eru fáir mættir til vinnu svona snemma á morgnana en ritarinn í landmælingadeildinni er ein af þeim fyrstu svo ég get fengið lykil að GIS-tölvuverinu. Eftir hálfs dags vinnu vík ég úr tölvunni fyrir Heiko og Jens sem líka eiga eftir að klára stóra skilaverkefnið í fjarkönnun II. Við skiptum með okkur deginum fyrst það er bara ein tölva með leyfi á Definiens Pro.

Eins og það getur reynt á þolinmæðina að silast upp brekkuna í lágum (þó ekki lægsta) gír - þá kitlar í magann og er skemmtilegt að láta sig rúlla hratt, hraðar, hraðast niður á nýjan leik. Neðst þarf bara að gæta sín á að hjóla ekki niður gamla fólkið sem er á leið til og frá leiðum ástvina sinna með blóm.

Innan við borgarmúrana í gamla bænum hristist hjólið á götusteinunum í þröngum götum. Þar hefur tekist að koma fyrir verslunarmiðstöð innan í gömlum húsum með Plus, bakaríi, kjötkaupmanni, apóteki og öðru þess háttar. Plus er Bónus hér í Freiberg og Aldi Krónan. Kem við á stúdentagörðunum til að skila af mér vörunum og hjóla svo fram hjá tjörninni, gegnum garðana og upp litla brekku að gömlu herbúðunum.

Þetta stóra, hrörlega hús með löngum göngum, stigagöngum á ólíklegustu stöðum og reykingastybbu í holinu geymir m.a. kennslustofur, skrifstofur viðskiptafræðideildar, alþjóðaskrifstofuna, tungumálamiðstöðina og verkstæði deildarinnar fyrir sjálfvirkar vélar. Innan um skjalaskápa og gataspjöld frá fæðingarári Líneyjar Höllu og þar um bil kúrir tölva og mappa með bréfum frá tilvonandi erlendum nemum.

Forveri minn í starfi hætti í október í fyrra og frá því í janúar hefur hreinlega gleymst að sinna því sem safnaðist á borð hennar. Fyrstu tölvupóstarnir og bréfin hefjast því á afsökunum um sein svör en framhaldið verður nú vonandi gæfulegra. Hér virðast allir vera ofhlaðnir störfum og ekki vanþörf á að svolitlir peningar fengust til að ráða hjálparhellu - varla koma erlendu nemarnir alla leið hingað ef þeir fá engar upplýsingar um hvernig umsóknarferlið gangi fyrir sig, hvar þeir geti lært þýsku o.s.frv.

Í lok dagsins held ég aftur heim á stúdentagarðana til að elda kvöldmat, klára skýrsluna fyrir skilaverkefnið og læra fyrir próf. Það er notalegt að geta hlustað á tónlist á meðan og tekið pásur til að spjalla við vini víða um heiminn, lesa bloggsíður og fleira. Hugsa með mér að á morgun verði ég nú að gera bakæfingar og fara í göngutúr ef ég ætli að halda út þessa prófatörn og fer svo að sofa rétt um ellefuleytið.

Engin ummæli: