27 apríl 2007

Vrrrúmmm...

Hjálpi mér hvað tíminn líður hratt! Aprílmánuður hefur sannarlega flogið hjá. Að venju er frá mörgu að segja en ég skal samt reyna að stilla mig...

Ruslageymsla og blómstrandi tré

Að íslenskum sið byrja ég á veðrinu. Það er alveg ótrúlegt! Fyrirbrigðið "Aprilwetter" sem öllu jöfnu táknar veðrabrigði mikil með slyddu, rigningu, vindi og stöku góðum degi hefur öðlast nýja merkingu og ég er að kafna úr hita. Þetta vor er eins og besta sumar á Íslandi og síðustu 30 daga (skv. skráningu afa vinar míns) hefur ekki fallið dropi úr lofti!

Blómin í nærmynd

Mig langar í sundlaug! Einhver benti mér á að flytja einfaldlega ofan í háskólanámuna "Reiche Zeche" yfir sumarmánuðina, þar væru 10°C árið um kring. Þá yrði ég sannkölluð moldvarpa... og svei mér ef atferli mitt undanfarna viku hefur ekki bent í átt að moldvörpulifnaði. Á mjög erfitt með að dragnast á lappir á morgnana (vandamál sem hingað til hefur verið óþekkt á þessum bæ) og skríð aftur undir sæng hvenær sem tækifæri gefst.

Þessi broddgöltur kom seint um kvöld (þess vegna er glampinn svona í augunum) til að smjatta á grillmatarleifum við blokkina mína

Er þetta partur af því að verða kvart-hundrað ára? Nei, líklega bara eftirköst eftir atgang síðustu viku. Þá afrekaði ég nefnilega að fara í munnlegt próf í miðri skólaviku og þeytast milli manna til að skipta um aukafag. Prófið reyndi mikið á. Ástæðan var misskilningur. Úff. Prófessorinn er hinn vænsti maður alla jafna en sérhæfir sig í algebrulegri rökfræði og í prófinu kom varla upp úr honum einföld setning.

Gæsir við Moritzburg

Ég sumsé skildi ekki spurningarnar og þurfti ítrekað að biðja hann um að útskýra betur hvað ætlast væri til af mér. Að prófinu loknu spurði hann hvort þýskan hefði eitthvað verið að vefjast fyrir mér og þegar ég reyndi að útskýra að tungumálið per sig væri ekki vandamál (enda skildi ég öll orðin þannig séð) heldur frekar hvernig orðunum var raðað saman í setningar. Það skildi hann sem svo að ég hefði lært allt efnið utan að og bara viljað fá beinar spurningar á borð við "skilgreindu dulmálslykil" eða eitthvað álíka.

Matti í skóginum við Moritzburg

Hvernig honum tókst að setja beina tengingu frá illskiljanlegri setningamyndun yfir í utanbókarlærdóm get ég með engu móti skilið!!! Jú vissulega lærði ég heilmikið af nýjum orðum og orðasamböndum utan að fyrir prófið en ég lærði líka efnið og skildi það bara nokkuð vel þótt ég segi sjálf frá. Oh, ég var sumsé mjög pirruð yfir þessum málalokum.

Skuggar af okkur Matta og mömmu hans

Daginn eftir var síðan mikill gleðidagur. Eftir hlaup milli bygginga fann ég nefnilega ábyrgðarmanninn fyrir námsleið að nafni landupplýsingakerfi (Geoinformatik) og reyndist sá vera jarðfræðingur sem hefur áhuga á stærðfræði. Tilfinningunni er best lýst með því að þetta var eins og að koma heim! Þeim lesendum til upplýsingar sem ekki þekkja foreldra mína þá var þetta svona blanda af mömmu, pabba og öllum vinnufélögum þeirra (allt fólk á sviði hinna ýmsu náttúruvísinda og þó mest tengt jarðvísindum).


Tekatlar í postulínsverksmiðjunni í Meißen (opið hús tvisvar á ári)

Hann leit yfir áætlunina sem ég hafði gert fyrir aukagrein og samþykkti hana samstundis. Ekkert vesen, punktur basta. Þannig að núna er ég á fullu í kúrsum á borð við landupplýsingakerfi, fjarkönnunarbúnað og "jarðvöktun" (Geomonitoring) meðfram stærðfræðinni. Allt annað líf! Því þótt kúrsarnir í tölvunarfræði hafi hljómað vel á pappír þá var raunin oftast allt önnur.

Blómavasi með birkigreinum í postulínsverksmiðjunni

Í þessari viku hélt ég upp á afmælið mitt með því að halda fyrirlestra um Ísland fyrir litla grunnskólakrakka. Það var alveg svakalega skemmtilegt! Yngstu krílin voru dauðhrædd við tröll og eldgos undir hafsbotni og eldri hópurinn söng fyrir mig afmælissönginn á ensku og gapti þegar ég sagði 40. kafla Egils sögu Skalla-Grímssonar í stuttu máli en þar segir m.a. frá því þegar Egill þá sjö vetra gamall drap tíu eða ellefu vetra andstæðing sinn í knattleik því hann var svo tapsár.

Viola og Steffen í Mensunni

Kennararnir spurðu eftir á hvort ekki væri nú einhver boðskapur með þessu öllu saman (40. kafli Eglu) og urðu hálfhvumsa þegar ég sagðist ekki vita til þess. Krakkarnir voru alveg frábærir og vissu heilmargt. Ég hafði ákveðið að spyrja alltaf hvort þau þekktu eldfjöll, jökla og þess háttar og fá þá einhvern úr hópnum til að útskýra fyrir hinum. Bjóst svo sem ekki við miklu en þau komu sannarlega á óvart og einn guttinn gat meira að segja útskýrt nákvæmlega hvernig norðurljós virka!

Katja, Matti og fánum skreytta gulrótarkakan

Það sem eftir var dagsins deildi ég út gulrótarköku (komst í bakarofn um helgina) með fánum héðan og þaðan úr heiminum og fór í badminton um kvöldið. Fékk heilmargar kveðjur frá vinum og vandamönnum (sjáið til dæmis hér) - kærar þakkir öll sömul!

Engin ummæli: