03 apríl 2007

Gleðifréttir og vorverkin

Jibbí! Elsku besta systir mín ætlar að koma til Potsdam í sumar og vinna þar fyrir ÍSOR eins og í fyrra. Þetta er kjörið tækifæri til að hittast og bralla eitthvað skemmtilegt í Berlín, Potsdam og þar um kring og ekki spillir fyrir að þema ársins í Potsdam er VATN.


Þeir sem þekkja okkur systurnar vita að þetta er mikið gleðiefni því að við vitum fátt betra en að prófa kanó, kajak eða hvers konar bát, svamla í sundlaug eða stöðuvatni og í rauninni á (nánast) allan hátt leggja höfuð okkar í bleyti. Verði sumarið jafnheitt og í fyrra þá verður vatnið klárlega númer eitt, svo sest líklega ísát, berjatínsla og ferskir ávextir í annað sætið og vindur/loftkæling í það þriðja!

Tveir páskahéranna á göngu um óreiðuna á skrifborðinu mínu

Síðustu ár hef ég fengið ýmis góð ráð um flutninga á nýja staði. Þeirra á meðal er að taka með sér eitthvað sem gefur tilfinninguna "heima" og að fjárfesta sem fyrst í pottaplöntu og kertaljósum. Hefur þetta allt reynst mjög vel. Plönturnar sem ég keypti hér í Freiberg voru í frekar litlum pottum og liðu greinilega svolítið fyrir það. Því ákvað ég núna þegar vorið bankar á dyrnar að það væri orðið tímabært að umpotta. Það þýddi leiðangur í byggingavöruverslun til að finna potta, undirskálar, mold og vikur. Eftir þennan leiðangur verð ég að segja að verðlag á blómapottum heima er alveg rooosalegt miðað við hér. Kannski stafar það af þyngd pottanna og líkum á broti við flutninga?

Kátar plöntur (vona ég) og moldugt baðherbergi

Nú er gisting um páskana komin á hreint. Fer einfaldlega af stúdentagörðunum í Freiberg inn á stúdentagarðana í Prag. Hluti þeirra er nefnilega nýttur sem eins konar farfuglaheimili frá apríl og fram í september. Einnig er nánast öruggt að ég nái að kjósa til Alþingis hjá herra Þóri Gunnarssyni ræðismanni Íslendinga í Prag um páskana. Heldur betur almennilegt.

Engin ummæli: